Konan í rauða kjólnum

Höfundur: Halla Sverrisdóttir

Í Tyrklandi eru fóstureyðingar heimilar fram að 10. viku eftir getnað, en þann frest má framlengja fram að 20. viku, ef sýnt þykir að þungunin stofni andlegri og/eða líkamlegri heilsu móður í hættu eða ef þungunin er afleiðing af nauðgun. Samþykkis konunnar er krafist. Ef konan er gift er samþykkis eiginmanns hennar einnig krafist. Einhleypar konur, eldri en 18 ára, geta farið fram á fóstureyðingu án samþykkis annarra aðila.

(Upplýsingar sóttar á Wikipediu.  Þýðing og leturbreyting eru greinarhöfundar)

 

Undanfarna daga hefur heimsbyggðin fylgst með því hvernig Taksim-torg í Istanbúl hefur breyst í vettvang hatrammra árása lögreglu á friðsama mótmælendur. Og  „konan í rauða kjólnum“ hefur orðið ein af táknmyndum mótmælanna – þessi kona í létta, rauða sumarkjólnum, svo augljóslega ekki búin til átaka, sem víkur sér undan gusu af táragasi frá vígbúnum óeirðalögreglumanni.

Minna hefur verið fjallað um það hverju tyrkneskir borgarar eru í raun að mótmæla en víst er að óánægjuefnin eru mörg og margvísleg. Fækkun grænna svæða í borginni er eitt af því sem nefnt hefur verið, fangelsun tyrkneskra blaðamanna er annað (það munu vera fleiri blaðamenn í fangelsi í Tyrklandi en í bæði Íran og Kína) – og fleira má tína til; það virðist að minnsta kosti ljóst að stjórnvöld í Tyrklandi hafa undanfarin misseri verið að fikra sig æ lengra yfir í alræðislega, fasíska stjórnarhætti, ekki hvað síst undir formerkjum aukinnar trúarlegrar áherslu.

Ein birtingarmynd þeirra stjórnarhátta snýr að viðhorfi Erdoğans forseta og félaga hans til frelsis kvenna til barneigna, en einhvern veginn virðist það viðfangsefni iðulega lenda ofarlega á blaði þegar stjórnvöld auðsýna fasískar tilhneigingar. „Kinder, Küche, Kirche“ var slagorðið í kvennastefnu Hitlers og Tayyip Erdoğan og stjórn hans virðist hafa áþekk áhugamál.

Það fæðast til dæmis of fá börn í Tyrklandi, að mati Erdoğans, og því vill hann breyta. Þjóðin eldist og það þarf að tryggja að einhverjir geti annast þá sem eldri eru. Og svo vantar vinnuafl. Og að setja hömlur á rétt kvenna til fóstureyðinga er gamalreynd og að mörgu leyti skilvirk aðferð til að fjölga fæðingum.

Fóstureyðingar urðu löglegar í Tyrklandi árið 1956 og árið 1983 var frestur til að sækja um fóstureyðingu lengdur upp í 10. viku meðgöngu, ekki hvað síst til að draga úr óhugnanlega hárri dánartíðni meðal kvenna í kjölfar ólöglegra og afar áhættusamra „heimafóstureyðinga“. Þetta svigrúm hefur verið óbreytt síðan þá.

Afstaða Erdoğans Tyrklandsforseta til þessara heimilda hefur hins vegar smám saman harðnað og fyrir rösku ári síðan bárust fréttir af því að til stæði að herða löggjöfina verulega. „Að drepa barn í móðurkviði er ekkert frábrugðið því að drepa það eftir að það er fætt,“ sagði Erdoğan um þetta leyti á ráðstefnu um mannfjöldaþróun, og skirrðist ekki við að líkja fóstureyðingum við fjöldamorð: „Sérhver fóstureyðing er á borð við eitt Uludere,“ sagði forsetinn, og skírskotaði þannig til árásar tyrknesku herlögreglunnar á bæinn Uludere nærri írösku landamærunum, þar sem 34 almennir borgarar féllu „fyrir misskilning“ – herlögreglan taldi þá vera vopnaða uppreisnarmenn úr röðum PKK (Verkamannaflokks Kúrda).

Heilbrigðisráðherra Tyrklands, Recep Akdag, lýsti því yfir um svipað leyti að í smíðum væri ný löggjöf sem herti mjög heimildir til fóstureyðinga, m.a. ætti að stytta frestinn sem konur hefðu til að láta eyða fóstri úr 10 vikum niður í sex. Fyrir flestar konur felur þetta í raun í sér bann við fóstureyðingum, þar sem margar konur vita ekki einu sinni að þær eru þungaðar fyrr en eftir sex vikur.  „Ég tel rétt að lögin miði að því að fækka fóstureyðingum sem allra mest, nema þær séu læknisfræðilega óhjákvæmilegar. Taka ber tillit til bæði siðferðislegra og vísindalegra sjónarmiða þegar ákveða skal hvort heimila eigi fóstureyðingu,“ sagði ráðherrann.

Það stóð ekki á viðbrögðum frá jafnt kvenréttindahreyfingum og læknasamtökum í Tyrklandi. Samtök tyrkneskra lækna vöruðu við því að hömlur á fóstureyðingar myndu fjölga mjög ólöglegum aðgerðum, þvinga konur til að beita „frumstæðum aðferðum“ og hækka dánartíðni þungaðra kvenna. Og Habibe Yilmaz, lögfræðingur og stjórnandi Miðstöðvar fyrir lagalega aðstoð fyrir konur, lýsti því yfir að það væru „grundvallarmannréttindi kvenna að fá að taka sjálfar ákvarðanir er vörðuðu líkama þeirra“.

Í kjölfarið fylgdu víðtækar aðgerðir þar sem þúsundir kvenna mótmæltu um allt land og einhverjar þeirra voru handteknar.

Frá mótmælum í Istanbúl þann 17. júní 2012

Þegar leið á júnímánuð 2012 ákvað ríkisstjórnin að hætta við ætlaðar breytingar á löggjöfinni og frumvarpið var dregið til baka.

Snemma árs 2013 varð hins vegar ljóst að þetta voru skammvinn grið.

„Við lítum á allar árásir gegn fjölskyldunni sem árás á mennskuna,“ sagði Erdoğan forseti í ræðu í byrjun þessa árs. „Við munum ekki líða neinar slíkar árásir. Við viljum sterkar fjölskyldur sem eiga minnst þrjú börn. Það er leiðin til að styrkja fjölskyldurnar í landinu. Þetta ætlum við að gera. Við viljum skapa sterka þjóð.“

Þegar líða tók á árið spurðist svo út að til stæði að leggja aftur fram frumvarp um verulegar hömlur á frelsi til fóstureyðinga. Verði nýja löggjöfin samþykkt mun hún m.a. leiða til þess að aðeins verður heimilt að framkvæma fóstureyðingar á sjúkrahúsum og að það verði að vera fæðingarlæknir sem framkvæmir aðgerðina, en samkvæmt gildandi lögum er hægt að fá slíka aðgerð framkvæmda af starfsfólki með til þess bæra heimild á heilsugæslustöðvum, til dæmis í sveitahéröðum þar sem langt er á næsta sjúkrahús. Nýju lögin innihalda einnig eins konar „samviskufrelsisákvæði“ sem heimilar læknum að neita að framkvæma aðgerðina ef hún brýtur í bága við lífsskoðanir þeirra, auk þess sem bætt hefur verið við ákvæði um lögboðinn „umhugsunartíma“ fyrir allar konur sem óska eftir fóstureyðingu, sem þrengir auðvitað enn frekar þann frest sem þær hafa til að æskja hennar.

„Þetta mun takmarka aðgengi að fóstureyðingum gríðarlega mikið, einkum fyrir konur í sveitahéruðum og efnaminni konur,“ sagði Selin Dagistanli úr hreyfingunni Fóstureyðing er mannréttindi í viðtali við breska dagblaðið The Guardian í febrúar s.l.  „Það er ekki verið að banna fóstureyðingar með lögum en ákvæði nýju laganna gera þetta úrræði de facto óaðgengilegt. Í mörgum héruðum er aðeins einn spítali og kannski bara einn fæðingarlæknir. Ef sá læknir neitar að gera aðgerðina hafa fæstar kvennanna efni á að ferðast til annarrar borgar eða borga fyrir sig á einkasjúkrahúsi.“

Fólkið sem undanfarna daga og vikur hefur komið saman á götum Istanbúl og hætt á ofbeldi og hrottalega meðferð af hálfu lögreglunnar er meðal annars að mótmæla þessari aðför að kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti kvenna.

Við sem á horfum gegnum fjölmiðlana vitum ekki hver „Konan í rauða kjólnum“ í rauninni er eða hverju hún var að mótmæla. Kannski átti hún bara leið hjá Taksim-torgi þegar hún fékk yfir sig táragasgusuna og varð um leið óvart að táknmynd fyrir heila þjóð sem á í stríði við stjórnvöld sín. Kannski ætlaði hún að taka þátt í mótmælunum. Kannski hugnast henni illa að líkami hennar verði skilgreindur út frá færni hans til að fjölga landsmönnum og tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og henni gert að skila af sér tilteknum kvóta barna, óháð löngun hennar til barneigna eða andlegri eða líkamlegri færni hennar til þess arna.

Lái henni hver sem vill.

Heimildir:

http://www.guardian.co.uk/world/blog/2013/jun/04/turkey-protests-whats-happening-open-thread

http://www.newyorker.com/online/blogs/comment/2012/03/turkeys-jailed-journalists.html

http://www.bbc.co.uk/news/world-europe-18297760

http://www.aljazeera.com/news/europe/2012/06/2012622811474159.html

http://www.huffingtonpost.com/2012/06/03/turkey-abortion-law-women-protest_n_1566007.html

http://www.guardian.co.uk/world/2013/feb/01/turkish-law-abortion-impossible

http://en.wikipedia.org/wiki/Abortion_in_Turkey

Ein athugasemd við “Konan í rauða kjólnum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.