Auðveldara að dæma konur

Höfundur: Víðir Guðmundsson

Í öllum helstu fréttamiðlum ómaði frétt um daginn sem greindi frá því að dómarar efstu deildar kvenna í fótbolta fengju 156% minna greitt en þeir sem dæmdu í efstu deild karla. Mér varð spurn hverju þetta sætti. Framkvæmdastjóri KSÍ svaraði og sagði meiri kröfur gerðar til dómara í karladeild, hraðinn væri meiri og atvik sem orkuðu tvímælis mun fleiri. Einn stjórnarmanna KSÍ skrifaði á fotbolti.net að „launin tækju mið af hraða og ákefð leiksins“ og að dómarar ásamt KSÍ hefðu komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að erfiðleikastig karladeildar væri meira og þar með eðlilegt að borga hærri laun fyrir þá leiki. Í framhaldi tók hann fram að þetta væri því ekki jafnréttismál og óháð kynferði.

Í fyrsta lagi langar mig að segja að þetta er svo sannarlega jafnréttismál því þetta endurspeglar viðhorf karla til kvenna. Eigum við bara ekki að segja það upphátt. KVENNABOLTI ÞYKIR BARA EKKI EINS MERKILEGUR OG KARLABOLTI! Sérstaklega í augum karla. Við búum í heimi þar sem karlar ráða flestu, eru í valdastöðum, hafa hærri laun, eru meira í kastljósi fjölmiðla og svo mætti lengi telja.

Samkvæmt upplýsingum frá fyrrgreindum stjórnarmanni KSÍ eru karlkynsdómarar 94% allra dómara sem dæma fótboltaleiki.  Á heimasíðu KSÍ má sjá að að einungis tvær konur sitja í stjórn KSÍ af 16 stjórnarmönnum eða 12%.  Í 28 nefndum og stjórnum KSÍ eru um 215 sæti. Þar af skipa konur 40 sæti, eða tæp 19%. Með öðrum orðum; þeir sem segja að fótbolti í efstu deild karla sé á hærra erfiðleikastigi en fótbolti í efstu deild kvenna eru nánast eingöngu karlar. Ákvörðun um 156% lægri greiðslu er tekin af körlum. Tilviljun? Hvað heldur þú?  Ég held ÞEIM ÞYKI KVENNABOLTI BARA EKKI EINS MERKILEGUR OG KARLABOLTI!

Með rökum KSÍ manna gæti ég allt eins haldið því fram að borga ætti kennurum sem kenna fleiri drengjum en stúlkum hærri laun. Strákar eru sagðir með fleiri hegðunarvandamál og meiri lærdómsörðugleika að meðaltali en stúlkur og kennarinn þarf því að hafa meira fyrir þeim, ekki satt? Eins gæti ég haldið því fram að rútubílstjóri sem keyri rútu fulla af unglingum ætti að fá meira borgað en rútubílstjóri sem keyri rútu fulla af eldri borgurum. Það er jú að öllum líkindum meiri hraði og fleiri atvik hjá unglingunum, eða hvað?  Við þurfum bara að finna prósentumuninn. Ætli hann sé 156%?

Dómari einn tjáði sig um málið á fotbolti.net og sagði umræðuna fáránlega sökum þess að í karladeild gæti einn leikur skipt tugum miljóna, ólíkt því sem gerist í kvennadeildinni. Þetta snýst sem sagt um peninga? Peninga sem eiga væntanlega að vera mælikvarði á hversu vel við stöndum okkur og hversu mikils virði við erum í samfélaginu. Lítum þá á niðurstöðuna samkvæmt peningavirði þeirra sem spila fótbolta:

Ef kona spilar fótbolta í 90 mínútur eru ekki miklir peningar í spilinu.

Ef karl spilar fótbolta í 90 mínútur eru miklir peningar í spilinu.

Niðurstaða: Dómari sem dæmir leik með konum skal fá minna borgað – af því að KVENNABOLTI ÞYKIR BARA EKKI EINS MERKILEGUR OG KARLABOLTI

Að þessu sögðu get ég bara dregið eina ályktun. Hún snýr að öllu samfélaginu og endurspeglast í þeim viðhorfunum sem hér hefur verið lýst. Í 156% launamun, í ummælum og í þeirri fáfræði sem hér hefur verið dregin fram í dagsljósið. Mín ályktun er sú að KONUR ÞYKJA BARA EKKI EINS MERKILEGAR OG KARLAR!

20 athugasemdir við “Auðveldara að dæma konur

 1. Víðir, áður en þú ritaðir pistilinn, athugaðirðu nokkuð hvort gögn hrekktu fullyrðingu framkvæmdastjórans um hraðari leik karla og erfiðari að dæma?
  Nú fá dómarar í neðri flokkum karla lítið eða ekkert greitt fyrir dómgæslu. Er þá verið að segja að unglingastarfið sé minna metið en meistaradeildin?
  Karlar eru víst langstærsti hluti dómara í karla og kvennaleikjum. Dómarar kvennaleikja tapa skv. ofangreindu launalega. Konurnar, og neðri karlaflokkar tapa því dómarar þeirra fá minna greitt og eru kannski minna hæfir en meistaraleikjadómarar.
  Eða heldurðu, þar sem þú telur fjölda stjórnarmanna upp, að fleiri konur sæki í dómarastörfin, ef þau væru launuð eða hærra launuð?
  Spurningar frá aðila með lítinn sem engan fótboltaáhuga…. 🙂

  • Nei Ingimundur, ég kannaði ekki gögnin að baki fullyrðingar framkvæmdastjórans. En hann hefði að sjálfsögðu átt að vitna í vísindalegar rannsóknir og gögn máli sínu til stuðnings ef málið er svona borðleggjandi eins og gefið er í skyn. Því miður tel ég að það séu engin gögn sem styðji þennan málflutning og alls ekki 156% launamun.

   Hvað varðar flokkaskiptingu er hér verið að bera saman sömu flokka í karla og kvennadeild en ekki yngri flokka o.s.frv. það sem ég bendi á er að konur í Meistaraflokki eru metnar lægra en karlar í Meistaraflokki. í báðum tilfellum er um þá bestu að ræða hjá hvoru kyni fyrir sig.

   Ég held ekki að konur myndu neitt frekar sækja í dómarastöður þó launin væru hærri. Greinin fjallar í raun ekkert um það hver sé að dæma. Þ.e. kona eða karl. Heldur um það hvers virði það þykir að dæma konur í fótbolta vs. karla. Karlarnir þykja bara merkilegri.

   Fjöldi sitjandi karla í stjórn KSÍ endurspeglar bara karlamenningu fótboltaheimsins eins og svo marga aðra menningarkima samfélagsins.

   Til þess að þeir hlutir breytist þarf einfaldlega að benda á þá. 🙂

 2. Vil þakka Víði fyrir einstaklega vel útfærðan útúrsnúning og hártogun. Dómarar í Mestaradeild Evrópu fá hátt í milljón greidda fyrir hvern leik, er ekki bara málið að bjoða þeim sömu laun og dómarar fá hérlendis? Myndi það ekki virka ljómandi fínt?

  • Hæ Spiki
   Það væri áægtt ef þú gætir rökstutt það að um úturstnúning sé að ræða í stað þess að skella fram fullyrðingu án þess að standa fyrir máli þínu. Það að benda á laun Dómara í meistaradeild Evrópu er ekki rökstuðningur í þessu samhengi. það er svona leið til að sneiða hjá henni.

  • Nákvæmlega. Veist þú til þess að einhver kona dæmi í meistaradeild karla? eru kvendómararnir ekki líka bara að dæma í (verr launuðu stöðunum) kvennadeildinni?

  • Nákvæmlega eins og ég bendi á í greininni:

   Ef kona spilar fótbolta í 90 mínútur eru ekki miklir peningar í spilinu.

   Ef karl spilar fótbolta í 90 mínútur eru miklir peningar í spilinu.

   Niðurstaða: Dómari sem dæmir leik með konum skal fá minna borgað – af því að KVENNABOLTI ÞYKIR BARA EKKI EINS MERKILEGUR OG KARLABOLTI

 3. Hahaha, þvílíkt væl er þetta, það er markaðurinn sem ræður, hefur ekkert með kyn að gera. Þetta er augljóst öllum þeim sem vilja. Bara ansi margir sem eiga erfitt með að viðurkenna það.

  • Ef það er markaðurinn sem ræður því að karlabolti skapi peninga og trekki að fleiri áhorfendur, sannar það þá ekki nákvæmlega það sem greinin snýst um? Að karlabolti þyki merkilegri en kvennabolti? Og réttlætir það launamuninn hjá félagi sem er rekið að langmestu leyti fyrir almannafé í forvarnarskyni fyrir börn og unglinga, og á að setja stúlkum og drengjum samskonar fordæmi? Eða er þetta kannski afleiðing af sama hugsunarhætti og réði því að leikmenn kvennalandsins í fótbolta fengu lægri dagpeningagreiðslur en leikmenn karlalandsliðsins – allt til ársins 2008 þegar það komst upp? Það gæti þó aldrei verið, eða hvað?

   • Karlabolti þykir merkilegri? Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara. Sumum finnst a) skemmtilegra en b) og öðrum b) skemmtilegra en a). Það á við um allt. Hvað ætlarðu að gera í því? Fólk velur það sem því þykir skemmtilegra. Frelsið er mikilvægara en allt.

 4. Bara benda á það að dómarar í EPL fá betur borgað en þeir sem dæma í efstu deild hér heima. Er það misrétti eða er það vegna þess að hraðinn er meiri í EPL. Já held það. Þetta snýst ótrúlegt en satt ekk um kynjamisrétti í þessu tilfelli, hef mikið hugsað um þetta síðan umræðan hófst.

 5. Ég tók nú til varna fyrir þetta því ég hélt að hér væri aðeins um að ræða það að meiri peningar væru í Pepsi deild karla.

  En hér er eitthvað annað í gangi og styð ég þetta ekki.

  Meira erfiðleikastig já…. ok.

 6. Aftur er þetta meinta kynjamisrétti í dómgæslu í gangi. Ekki það að körlum séu greidd hærri laun, heldur það að vinna verk sem tengist konum telst auðveldara og því þurfa þær að borga minna fyrir að fá leiki sína dæmda. Þetta er svolítið eins og ef karlar teldu að þeim væri sýnd lítilsvirðing ef að herraklippingin kostar minna en dömuklippingin. Alveg óháð því að herraklippingin taki bara að mörgum ástæðum að meðaltali minni tíma og efni. (A.m.k. hjá mér).

  En af hverju er það réttlætismál að þeir sem halda kvennaleik þurfi að borga jafnmikið fyrir þjónustuna og þeir sem kaupa dómgæslu á karlaleiki? Getur verið að það séu færri brot, sérstaklega alvarleg á kvennaleikjum? Getur verið að það séu færri áhorfendur á kvennaleikjum? Getur verið að þeir áhorfendur sem mæti á kvennaleiki séu að jafnaði kurteisari og ausi síður dómara fúkyrðum og morðhótunum? Getur e.t.v. bara verið að kvennaleikir fari almennt betur fram bæði innanvallar og utan?

  Ég hef ekki mætt nægilega oft á kvennaleiki til að geta lagt tölfræðilega marktæk gögn fram, en er pistlahöfundur, sem hefur greinilega kynnt sér mun á kvenna- og karlaleikjum ósammála því að þetta sé sennilega raunin?

  Og er í framhaldinu kvennfólki virkilega sýnd óvirðing þegar fólk gerir sér grein fyrir þessu og telji því minna eftir sér að mæta á slíka leiki til að dæma þá?

  Og getur verið að sumir feministar hafi tilhneigingu til að snúa öllu á haus?

  • Neðangreind klausa úr greininni svarar þessum spurningum þínum. Hins vegar vilja ansi margir líta framhjá þessu. Sennilega vegna þess að þeir telja karlabolta mun merkilegri pappír en kvennabolta og finnst að sér vegið með því að bent er á blákaldar staðreyndir en ekki huglægt mat þeirra sem taka ákvarðanir í þessum málum. Sem nota bene eru flestir karlar.

   „“Með rökum KSÍ manna gæti ég allt eins haldið því fram að borga ætti kennurum sem kenna fleiri drengjum en stúlkum hærri laun. Strákar eru sagðir með fleiri hegðunarvandamál og meiri lærdómsörðugleika að meðaltali en stúlkur og kennarinn þarf því að hafa meira fyrir þeim, ekki satt? Eins gæti ég haldið því fram að rútubílstjóri sem keyri rútu fulla af unglingum ætti að fá meira borgað en rútubílstjóri sem keyri rútu fulla af eldri borgurum. Það er jú að öllum líkindum meiri hraði og fleiri atvik hjá unglingunum, eða hvað? Við þurfum bara að finna prósentumuninn. Ætli hann sé 156%?“

   • Ég nenni ekki að vera málefnalegur um þetta, það hafa verið aðrir þræðir og það meira að segja inn á þessari heimasíðu. Það eru mjög basic og einfaldar ástæður fyrir þessu sem hafa verið nefndar VERTU EKKI SVONA VITLAUS OG HÆTTU ÞESSU CAPS RUGLI.

   • Ég er hjartanlega sammála þér, Víðir, í því að kennarar sem kenna erfiðum bekkjum ætti að fá meira borgað en aðrir kennarar og að rútubílstjórar sem keyra fullan ólátaskríl (óháð aldri skrílsins) ættu að fá álag fyrir slíkt. Einnig að maður sem framleiðir 100 einingar á sinni vakt eigi að fá meira en sá sem framleiðir 50. Og að þeir sem dæma erfiða leiki eiga heimtingu hærri launum en þeir sem dæma þá auðveldari. Nákvæmlega hvert álagið á að vera skal ég ekki segja, best að fagmennirnir í viðkomandi grein, launþegar og launagreiðendur nái samkomulagi um slíkt án míns (og þíns) atbeina.
    Og þetta hefur ekkert með kynjamisrétti að gera!

   • Nei.en þetta hefur með viðhorf til kynjana að gera. Það að karl sparki bolta þykir einhverra hluta merkilegra en ef kona gerir það. Það má vel vera að einhver munur sé fyrir dómara að dæma leiki í mismunandi deildum og svo framvegis en 156% getur ekki endurspeglað þann mun og engin gögn sem styðja það. þetta er einfaldlega huglægt mat karla sem þykja karlabolti merkilgegri en kvennabolti.

    Varðandi stigsmun og einhvern sem framleiðir 100 eingingar eða 50 þá hlýtur meira að segja að vera stigsmunur innan deilda. Ókei höldum áfram með þessa pælingu þína og verum virkilega réttlátir. Væri ekki bara best að mæla hvern leik fyrir sig? Eigum við ekki bara að setja iphone og hlaupa App á hvern dómara og sjá hvað hann hleypur hratt og hve mikið í hverjum leik? Þá er lítið mál að taka saman aukaspyrnur, innköst, rangstöður ofl. sem hann dæmir og setja mælistiku á það. Það væri í það minnsta sanngjarn samanburður. En það sem viðgengst í dag er bara hugarburður og huglægt mat. s.s. Þér finnnst þetta ekki vera kynjamisrétti því þú metur karlabolta sem merkilegra fyrirbæri og þar með hljóti það að vera 156% erfiðara.

 7. eldgömul grein,en ég var bara að sjá hana núna.

  Ef eitthver er með 156% lægri laun enn eitthver annar, væri sá hin sami væntanlega að borga 56% með sér. 100% lægri upphæð er 0. Þannig að væntanlega átti þetta að vera, dómarar í kvennadeild eru með u.þ.b. 60% lægri laun. Ef menn ætla að nota svona tölur til að styðja mál sitt, er æskilegt að nota þær rétt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.