Ég hata fegurðarsamkeppnir

Höfundur: Guðrún Margrét Guðmundsdóttir

 

Keppendur í Miss Universe árið 2010

 Ég hata fegurðarsamkeppnir. Það pirrar mig hræðilega að þær skuli vera til yfir höfuð og ég engist um við tilhugsunina um að þær séu enn í dag haldnar. Ég, þessi dagsfarsprúði femínísti, get misst mig í skoðanaskiptum um þær, jafnvel byrst mig, ranghvolft augunum og umsvifalaust misst álit á fólki sem telur tilvist slíkra keppna réttlætanlega. Fegurðarsamkeppnir eru holdgervingur stöðu kvenna í samfélaginu, a.m.k. eins og feðraveldið kysi að hafa hana, þ.e. brosmildar, þvengmjóar, fagrar og prúðar ungar konur í háum hælum íklæddar bíkiníum. Berskjaldaðir og valdalausir sýningargripir sem á engan hátt véfengja veldi feðranna. Feðraveldið verandi hið allt um lykjandi, ævaforna og endingargóða kerfi sem stýrir hugsun, hegðun og hugarfari oftast án þess að við gerum okkur nokkra grein fyrir.

Feðraveldið innrætir konum frá unga aldri mikilvægi þess að vera sætar, aðlaðandi og augnayndi og að helstu dyggðirnar séu hlýðni og undirgefni. Með þátttöku í fegurðarsamkeppni, tala nú ekki með sigri í slíkri keppni, öðlast kona æðstu tign þessa forna kerfis. Kerfis sem beinlínis heldur konum niðri og gerir þær vansælar.

Hate the sin, not the sinner

Það er ekki hægt að sakast við ungu konurnar sem taka þátt í þessari keppni. Hver vill ekki hljóta samfélagslega viðurkenningu og búa yfir einhverju eftirsóknarverðu? Hver vill ekki vera talin sæt? Femínistar gagnrýna keppnina, birtingarmynd innrætingarinnar, en ekki keppendurna sjálfa.

Þegar ég var lítil stelpa dáðist ég að þessum útvöldu konum, fallegustu konum landsins, sem fengu að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Ég horfði upprifin og opinmynnt á keppnina; alla dýrðina, glamúrinn, kjólana og vissi í hjartanu að vinningshafinn væri lánsamasta kona heims, upphefðin gæti ekki mögulega verið meiri. Ef ég hefði sjálf fengið tækifæri til að taka þátt í slíkri keppni hefði ég pottþétt stokkið á það, himinlifandi og gert móður mína og ömmu stoltar. Mér gafst aldrei slíkt tækifæri, Guði sé lof, og þarf því ekki að burðast með sektarkennd yfir slíktri ofur-hollustu við feðraveldið, nóg gerði ég nú samt til að þóknast því.

Ég er fædd árið 1969 og því töluverður tími runnin til sjávar síðan ég var lítil stelpa og talsvert þokast í kvenréttindabaráttunni á tímabilinu. Útlitskröfur eru enn afar strangar en við hafa bæst margs kyns annars konar kröfur s.s. menntunar-, töffara- og sjálfstæðiskröfur. Forsvarsmenn og eigendur fegurðarsamkeppna hafa því verið í nokkrum vandræðum sl. ár. Þátttaka í fegurðarsamkeppni hefur ekki þótt jafn eftirsóknarverð og áður, nema e.t.v. innan vissra kreðsa og því ýmislegt verið reynt til að nútímavæða keppnina.

Herra Ísland

Herra Ísland, einhvern tíma

Árið 2001 horfði ég á keppnina Herra Ísland í fyrsta sinn og var þá á kafi að lesa kynjafræði í háskólanum. Keppnin var afskaplega áhugaverð í ljósi kynjafræði enda augljóst að skipuleggjendur reyndu að troða karlmennskuáhrifum í keppnina af miklum móði. Strákarnir voru mikið sýndir drukknir í rútu og í líkamsræktarsal að lyfta lóðum og þegar þeir loks voru látnir ganga inn á sviðið voru þeir í ólíkum karlmannlegum hlutverkum. Einn gekk inn með hjálm og verkfærabox í hendi, annar var íklæddur frakka og með hatt og hund í bandi, þriðji var í smóking með vindil í einni hendi og viskíglas í hinni o.s.frv. Þrátt fyrir tilraunir keppnishaldara mistókst að gera keppnina karlmannlega. Þetta var eftir allt venjuleg fegurðarsamkeppni og gripasýning sem almennt telst ekki karlmannleg. Ég fylltist andstyggilegri gleði yfir hversu aumkunarverð þessi keppni var og um leið var femínískri hefndarfýsn minni svalað við að sjá stráka í augnayndishlutverkinu.

Femínískt pönk og andóf

Þið hljótið því að geta ímyndað ykkur hvað ég var hamingjusöm yfir aðgerðunum fyrir helgi, þar sem ég, ásamt hundruðum femínísta, lýstu frati á fyrirhugaða ungfrú Íslands keppnina, sem á að halda síðar á árinu, með því að skrá okkur  í keppnina. Látið ungu konurnar okkar í friði! voru skilaboð femínista til aðstandanda keppninnar, þessi keppni er lúðaleg tímaskekkja sem á ekki erindi í nútímanum og hefði aldrei átt að verða hluti af veruleika okkar til að byrja með. Ég óska þess einlæglega að eftir yfirferð hinna hundruð umsókna í keppnina reynist engar ungar konur sannarlega hafa gefið kost á sér í alvöru. Megi koma í ljós að fegurðarsamkeppnir séu liðin tíð og að þær líti aldrei dagsins ljós aftur.

Áfram femínismi!

9 athugasemdir við “Ég hata fegurðarsamkeppnir

  • Ég las að vísu bara einusinni yfir þessa grein, en, hvar var stungið upp á að banna keppnina?

   Fólk á að gera það sem það vill, akkúrat. Þessvegna kjósa sumir að gagnrýna þessa keppni og rýna í áhrif hennar á samfélagið.

   • Þetta er ekki hægt að túlka öðruvísi en greinarhöfundi þyki rangt að verja tilvist keppna sem þessar og um leið þá rétt fólks til að gera þetta sem það vill „Ég, þessi dagsfarsprúði femínísti, get misst mig í skoðanaskiptum um þær, jafnvel byrst mig, ranghvolft augunum og umsvifalaust misst álit á fólki sem telur tilvist slíkra keppna „

   • Já. Mér þykir trúarbragða- og fasistatrúboð „rangt“ og ég missi yfirleitt virðingu fyrir fólki sem stundar slíkt, en mér dytti ekki í hug að banna það.

 1. ,, Fólk á að gera það sem því langar til“. Með þessari setningu væri hægt m.a. að réttlæta nauðganir, morð, barnaníð, þjóðernishreinsanir. Sumir hlutir eru einfaldlega rangir. Fegurðarsamkeppnir ala á útlitsdýrkun sem veldur mörgum kynslóðum af ungu fólki vanlíðan. Gallarnir á slíkum kroppasýningum vega mun þyngra en kostirnir…. sem ég sé bara ekki í fljótu bragði.

  • Hann á nú væntanlega við það sem er innan ramma laganna, heldurðu það ekki Lóa? Eða heldurðu í alvöru að hann hafi verið að meina nauðganir, morð, barnaníð og þjóðernishreinsanir?

  • Vá, slökum nú aðeins á. Ég var nú bara að vitna í Jefferson kallinn :

   ‘Life, liberty and the pursuit of happiness’.

 2. Bakvísun: Ég hata fegurðarsamkeppnir | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.