Hvatningarverðlaunin Bleiku steinarnir afhent 19. júní 2013

Höfundur: Femínistafélag Íslands

Bleiku steinarnir eru hvatningarverðlaun Femínistafélags Íslands. Þau eru veitt 19. júní ár hvert þeim  sem eru í lykilstöðu til að hafa áhrif til góðs á jafnrétti kynjanna. Kvikmyndagerð á Íslandi hlýtur verðlaunin að þessu sinni.

Þeim fylgir hvatning í þremur liðum:

 1. Að gerðar verði fleiri bíómyndir með konum í aðalhlutverki. Konurnar mega að auki gjarnan vera á öllum aldri og allskonar að útliti, vexti og uppruna.
 2. Að handritshöfundar og leikstjórar skoði með hvaða hætti konur eru sýndar í kvikmyndum sínum og gæti þess að þær hafi eigin langanir, þrár og markmið, en þjóni ekki eingöngu þróun karlkyns söguhetja.
 3. Að kvikmyndaiðnaðurinn í heild skoði eigin menningu með það að markmiði að kvenkyns leikstjórar, framleiðendur, leikarar, klipparar og annað kvikmyndagerðarfólk finni að það tilheyri kvikmyndaiðnaðinum og geti starfað af gleði innan hans.
Bleiku steinarnir afhentir

Bleiku steinarnir afhentir

Femínistafélag Íslands fagnar þeirri grósku sem verið hefur í íslenskri kvikmyndagerð undanfarin ár. Kvikmyndin er frábært listform og eitt það aðgengilegasta, hvort sem við viljum flýja veruleikann um stundarsakir eða skoða hann í nýju, gagnrýnu eða óvæntu ljósi. Í kvikmyndaiðnaðinum starfar fjöldi fólks af hugsjón, hæfileikum og hugmyndaauðgi. Skapandi greinar velta milljörðum ár hvert og er kvikmyndaiðnaðurinn þar á meðal. Það er því ljóst að iðnaðurinn er einn mikilvægasti vettvangur íslensks atvinnu- og listalífs og mikill áhrifavaldur á menningu þjóðar, skoðanir og viðhorf almennings.

Óvísindaleg könnun á leiknum íslenskum kvikmyndum undanfarin fimm ár leiðir í ljós að í þrjátíu og sjö myndum frumsýndum á tímabilinu eru karlar í aðalhlutverkum í nítján, en konur einungis í tveimur (skv. heimasíðu Kvikmyndamiðstöðvar Íslands). Aðrar myndir hafa aðalhlutverk af fleiri kynjum. Heimildamyndir og sjónvarpsþáttaraðir eru ekki taldar með hér, en höfundar og framleiðendur þeirra eru sannarlega með í þeim hópi sem hlýtur hvatningu Femínistafélagsins.

Íslensk kvikmyndagerð miðlar ákaflega einsleitri sýn á stöðu kynjanna. Skemmst er að minnast gagnrýni WIFT á Íslandi á síðustu Edduverðlaunahátíð það sem samtökin gagnrýndu sláandi lítinn hlut íslenskra kvenna í hérlendri kvikmyndagerð. Í yfirlýsingu samtakanna við það tilefni sagði meðal annars: „Kvikmyndir skipta máli, kyn skiptir máli. Horfum opnum og gagnrýnum augum á stöðuna og krefjumst breytinga. Í lausninni felst áframhaldandi sókn kvikmyndagerðar á Íslandi og skiptir okkur öll máli.“ Femínistafélag Íslands tekur undir það.

Handhafar Bleiku steinanna árið 2013 eru Kvikmyndaskóli Íslands, Félag íslenskra kvikmyndagerðarmanna, Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Kvikmyndamiðstöð Íslands og Samtök kvikmyndaleikstjóra.

Að auki er það Femínistafélaginu einstök ánægja að veita samtökunum WIFT, Women in film and television á Íslandi, bleikan stein til að hvetja þau áfram í sínu góða starfi við að vekja athygli á stöðu kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi og vinna að framgangi þeirra.

Til athugunar eða gildrur kynjapólitíkurinnar eða margt býr í þokunni:

Ágætur pólitíkus sagði einu sinni þegar stór fundur var í bígerð: hafa konu, hafa blóm. Það er prýðileg áminning, þótt Femínistafélaginu sé ekki sérstaklega umhugað um blóm í bíómyndum. Hér á eftir koma nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar staða kvenna í kvikmyndum er til skoðunar.

Steinarnir sex

Steinarnir sex

Gildrurnar eru margar. Fyrrnefndur pólitíkus hefur til að mynda líklega aldrei heyrt talað um Strympuheilkennið. Það vísar augljóslega til hinnar kynþokkafullu Strympu sem er eini kvenkyns karakterinn í stórum karlstrumpahópi þar sem hver hefur sitt sérkenni eða áhugamál. Þar eru Hrekkjastrumpur, Gáfnastrumpur, Syfjustrumpur, Fýlustrumpur og svo mætti áfram telja. En Strympa hefur engin sérkenni, önnur en að vera kona. Strympuheilkennið er jafnframt oft nefnt fjarvistarsönnun í kynjabransanum. Semsagt, ein kona sem afsakar með tilveru sinni fjarveru annarra (þetta á líka við um marga aðra minnihlutahópa).

En þó konurnar séu tvær er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Anita Sarkeesian poppkúltúrrýnir hefur í vefþáttum sínum Feminist Frequency gagnrýnt birtingarmyndir kvenna og bent á ýmsar þekktar klisjur sem kvikmyndagerðarfólk verður að hafa í huga við vinnu sína. Til viðbótar við fyrrnefnt Strympuheilkenni hefur hún til dæmis dregið fram í sviðsljósið Bechdel-prófið sem er áhugavert greiningartæki þegar hlutverk kvenna í kvikmyndum er skoðað. Það er ákaflega einfalt og hljómar nokkurnveginn svona:

 • Eru fleiri en ein kona í myndinni?
 • Heita þær eitthvað?
 • Tala þær saman, um eitthvað annað en karla?

Það er í raun sláandi hversu margar góðar og vinsælar kvikmyndir standast ekki prófið. En það er þó ekki svo einfalt að þó kvikmynd standast prófið sé hún sjálfkrafa femínísk eða laus við kynjaðar klisjur. Þær leynast svo sannarlega víða og misvel. Femínistafélag Íslands hvetur kvikmyndagerðarfólk til að kynna sér nánar gagnrýni Sarkeesian og annarra femínískra fræðimanna og baráttufólks á sviði kvikmynda og dægurmenningar.

Stella í Orlofi er ein fárra íslenskra kvikmynda sem skartar konu í aðalhlutverki

Stella í Orlofi er ein fárra íslenskra kvikmynda sem skartar konu í aðalhlutverki

Femínistafélag Íslands getur þó augljóslega ekki, staðalmyndar sinnar vegna, sent frá sér greinargerð um stöðu kvenna í kvikmyndum öðruvísi en að minnast á nekt. Við erum öll nakin innanundir fötunum og þannig komum við í heiminn. Nekt er ljómandi fín við ákveðin tilefni, svosem í baði eða við aðrar aðstæður þar sem manneskjunni sem fer úr fötunum finnst það þægilegt. En nekt í kvikmyndum eða á sviði er gildishlaðin og þess vegna vandmeðfarin. Nekt þarf að þjóna tilgangi sögunnar og hættan við að sýna hana í sögu er sú að hún rjúfi sáttmálann við áhorfendur, að allsbera söguhetjan verði að allsberum leikara. Femínistafélaginu dettur ekki í hug að fordæma nekt en varar við því að hún sé fest á filmu í þeim tilgangi einum að svala gægjuþörf.

Í þessu samhengi er vert að minnast á staðalmynd tálkvendisins. Það getur hvort sem er verið af holdi og blóði eða af öðrum heimum, en markmið þess þekkja allir: Að táldraga karlkynssöguhetju, nota eigin kynþokka til að ná valdi yfir honum, annað hvort til að myrða hann, ræna eða afvegaleiða á einhvern hátt. Þessi klisja ýtir undir þá hættulegu staðalmynd að helsta vald kvenna felist í kynferði þeirra og að kynhvöt kvenna sé fyrst og fremst valdatæki. Þannig eru konur sýndar sem ofurkynferðislegar án þess að þær sjálfar njóti kynlífsins eða kanni eigin kynlanganir.

Mannréttindabarátta er mikilvæg

Mannréttindabarátta er mikilvæg

Að lokum: Staðalmyndin um öfgafemínistann. Nú eru femínistar vissulega bráðfyndnir. Og stundum verður okkur fótaskortur í baráttunni og það er fyndið þegar einhver dettur. En ekki gera grín að okkur með því að gera lítið úr þeim baráttumálum sem sannarlega skipta máli. Gerið grín að brjóstahaldarabrennum, fótlaga skónum, náminu í hugvísindum, ofuráherslu á hausatalningum og frámuna smámunasemi í samfélagsrýni. En ekki gera grín að ofbeldi, kúgun eða mismunun sem er raunverulegt og grafalvarlegt vandamál, því þannig er grafið undan baráttu fyrir mikilvægum jafnréttismarkmiðum sem gætu, ef þeim væri náð, gert samfélagið okkar að betra stað en það er í dag.

 

 

3 athugasemdir við “Hvatningarverðlaunin Bleiku steinarnir afhent 19. júní 2013

 1. http://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_%C3%ADslenskar_kvikmyndir

  Á þessum lista yfir íslenskar kvikmyndir frá upphafi fram til 2012 sýnist mér í mjög fljótu bragði að af sirka 100 leiknum kvikmyndum myndum séu um það bil 10 sem vísa til konu í titli, fjalla aðallega um konu eða hverfast um sögu konu og hafa konu í helsta burðarhlutverk (barnamyndir og heimildamyndir ekki taldar með).

  Mér finnst Bleiku steinarnir eiga fullt erindi til íslenskar kvikmyndagerðarmanna.

  TIl hamingju með daginn og hvatninguna!

 2. Hugmyndin að rannsókninni kviknaði að sögn Guðnýjar í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. „Hrunið markaði söguleg tímamót á Íslandi í margföldum skilningi. Minn áhugi lýtur að stöðu kvenna í góðærinu sem endurspeglaðist í fjarveru þeirra í aðdraganda hrunsins. Þrátt fyrir augljósan ávinning íslensku kvennahreyfingarinnar, formlegt jafnrétti og ríka félagslega þátttöku kvenna í samfélaginu síðastliðna áratugi voru konur lítt sýnilegar sem leikmenn á markaði góðærisins,“ segir Guðný enn fremur.

 3. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.