Höfundur: Líf Magneudóttir
Nýlega féll dómur í Hæstarétti í máli nr. 215/2013. Málið hefur verið mikið í umfjöllun í fjölmiðlum og hefur það vakið athygli að í fimm manna dómi Hæstaréttar vildi ein kona sakfella en fjórir karla sýkna. Vekur sú staðreynd eðli málsins samkvæmt upp áleitnar spurningar.
Annað sem vekur athygli er að áður hafði fjölskipaður héraðsdómur talið hina ákærðu seka. Fyrir héraðsdómi fara ávallt fram skýrslutökur þannig að dómurunum gefst tækifæri til þess að hlusta á hina ákærðu, brotaþola og vitni eftir atvikum. Er héraðsdómur að þessu leyti í mun betri aðstöðu en Hæstiréttur til þess að leggja mat á sekt eða sýknu í sakamálum. Hæstarétti er þó heimilt að láta fara fram skýrslutökur fyrir réttinum telji hann ástæðu til þess. Er Hæstarétti reyndar óheimilt að endurmeta niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi skv. 2. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Svo var ekki gert í umræddu máli.
Reglur um milliliðalausa sönnunarfærslu og framburð vitna fyrir dómi eiga að tryggja að niðurstaða verði sem réttust. Hefur Mannréttindadómstóll Evrópu gert athugasemdir við það hversu langt Hæstiréttur hefur talið sér fært að ganga í endurmati á framburði vitna sem rétturinn hefur aldrei heyrt í. Þrátt fyrir þetta segir meirihluti Hæstaréttar svo í niðurstöðu sinni:
Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar gefi vitni eða ákærði ekki skýrslu hér fyrir dómi. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar getur rétturinn hins vegar, telji hann líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð máls í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný.
Tilvitnað lagaákvæði er svohljóðandi (þ.e. 2. og 3. gr. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála):
Hæstiréttur getur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu þar fyrir dómi.
Nú telur Hæstiréttur líkur á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls og vitni eða ákærði sem eiga í hlut hafa ekki gefið munnlega skýrslu fyrir Hæstarétti. Getur þá rétturinn fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný. Sé héraðsdómur ómerktur samkvæmt þessu skulu þrír dómarar skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði og mega þeir ekki vera hinir sömu og áður fóru með það.
Meirihluti Hæstaréttar telur, af vafasömum ástæðum, að ekki hafi verið ástæða til þess að nýta framangreindar heimildir til þess að vísa málinu aftur til héraðsdóms heldur sé eðlilegast að sýkna ákærðu þrátt fyrir að hafa aldrei hlýtt á framburð eins einasta vitnis. Þá má jafnframt hafa í huga að fimmti hæstaréttardómarinn taldi niðurstöðu héraðsdóms rétta að efni til á grundvelli þeirrar rannsóknar sem þegar hafði farið fram. Taldi hann jafnframt að niðurstaða sérfræðinga um áfallastreituröskun hefði þýðingu fyrir niðurstöðu málsins en meirihlutinn virðist ekki einu sinni telja það atriði skipta máli. Um það sagði svo í sératkvæði:
Þá er ljóst af vottorðum sálfræðings, sem brotaþoli hefur verið í meðferð hjá frá desember 2011 og fram á þennan dag, að auk þunglyndis uppfyllir stúlkan öll greiningarmerki alvarlegrar áfallastreituröskunar og hafi ætluð brot ákærðu haft alvarleg, víðtæk og langvarandi áhrif á stúlkuna. Kemur þar einnig fram að brotaþoli hafi komið í 41 viðtöl og verið einlæg og hreinskilin.
Hinn mikli og augljósi munur sem er á niðurstöðu og rökstuðningi annars vegar karlanna í meirihlutanum og hins vegar konunnar í minnihlutanum vekur upp afar áleitnar spurningar. Í máli því sem um ræðir liggja fyrir skýr gögn um áfallastreituröskun brotaþolans og ljóst er að einn hæstaréttardómari að viðbættum fjölskipuðum héraðsdómi sem hlustað hefur á vitnaleiðslur komst að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til þess að efast um sekt ákærðu.
Hér er rétt að minna á grein sem birtist á Knúzinu um dóm Hæstaréttar frá því í febrúar í máli nr. 521/2012 þar sem meirihluti réttarins (fjórir karlar) sýknaði fyrir þann hluta ákæru sem laut að kynferðisbrotum en minnihlutinn (ein kona) vildi sakfella fyrir þann hluta.
Það skyldi þó aldrei vera að kyn hæstaréttardómara ráði úrslitum um afstöðu þeirra?
Er ég að skilja þetta rétt ?
Málið er tekið fyrir í hæstarétti og vitni/ákærði neitar að bera vitni eða endurtaka eitthvað sem var mikilvægt í upphaflegri ástæðu þess að maðurinn var dæmdur ?