Einvíð kona: ritfregn

Í bók sinni One-Dimensional Woman ræðst Nina Power gegn „neyslufemínisma“ og fleiri útgáfum af femínisma og hvernig hann er notaður í þágu ólíkra málstaða.

Samkvæmt poppmenningu nútímans er hápunktur og markmið kvenna það að eiga dýr veski, titrara, vinnu, íbúð og karl. Algeng skoðun er að frelsisbarátta kvenna snúist um persónulegt frelsi einstakra kvenna til að njóta dásemda markaðarins og að selja sig sem markaðsvöru á hvern þann hátt sem henni sýnist. En þá er, samkvæmt Ninu, litið framhjá formgerð samfélagsins sem einkennist af undirskipun kvenna og því að fólk er þvingað til að gera sjálft sig að söluvöru, því hvernig val eins einstaklings hefur áhrif á samfélagið allt, og ólíkum tækifærum eftir stétt, litarafti, líkama og svo framvegis.

Nina lýsir því hvernig hægrisinnaðir stjórnmálamenn nota frelsisbaráttu kvenna til að ná fram öðrum myrkari markmiðum sínum, eins og að búa til stuðning við kúgun á múslimum, bæði heima fyrir og með hernaði í öðrum löndum, til dæmis með loftárásum. Power beinir athyglinni í því sambandi á orðræðuna og baráttuna um fatnað kvenna. Á vesturlöndum er iðulega mikið mál gert úr því hvernig múslimskar konur hylja líkama sinn og það er talið vera til merkis um kúgun þeirra. Það er áhugaverð þversögn í hugsun þeirra sem segja að konur geti valið að stunda vændi (því sumar þeirra segjast kjósa það sjálfar) en að þær séu í raun þvingaðar til að bera blæju (þó að þær segist kjósa það sjálfar). Höfundur tengir umræðu um klæðaburð kvenna við vestræna markaðshugsun, því krafa menningarinnar um að konur sýni líkama sína (á viðeigandi kynferðislegan hátt) er eðlileg ef þær eru markaðsvara – þær verða að sýna hvað þær hafa að bjóða. Að hylja líkama sinn er brot gegn markaðnum.

Í framhaldi af þessu ræðir höfundur stöðu kvenna á vinnumarkaði og þá þróun sem hefur orðið í vestrænum samfélögum að samtakamætti launafólks hefur nánast verið útrýmt. Í vaxandi mæli þarf ungt fólk að starfa undir tímabundnum samningum, sem verktakar eða í hlutastörfum. Ungt fólk þarf að hugsa um sjálft sig eins og vöru eða fyrirtæki. Það þarf stöðugt að hlúa að ferilskránni, tengslamyndun, ímynd og útliti. Það keppir sín á milli um það að vera sem girnilegast fyrir atvinnurekendur. Nútíma „frjálslyndur femínismi“ á erfitt með að gagnrýna slíka samkeppni „konu gegn konu.“

Greining bókarinnar byggir bæði á efnahagslegum raunveruleika (launamun kynja fyrir sömu störf, störf kvenna eru frekar láglaunastörf, konur vinna mun meira launalaus störf, svo sem innan heimilis) og framsetningu kvenna í menningunni, í sjónvarpi, bíómyndum, tímaritum og bókum.

Síðasti hluti bókarinnar er um klám og klámvæðingu og kynlíf. Hún lítur þá einkum á klám sem risastóran iðnað sem hefur jafnframt mikil efnahagsleg og félagsleg áhrif. Nina reynir að fjarlægja sig bæði frá þeim sem tala fyrir klámi sem skaðlausri skemmtun og spurningu um val einstaklinga og frá þeim sem líta á klám sem ofbeldi í sjálfu sér. Hún telur að það þurfi að greina klám í samhengi við félagslegar og efnahagslegar aðstæður hverju sinni. En þó að það sé augljóst að klám dagsins í dag (og síðustu áratuga) byggist á hrottalegri misnotkun á konum telur höfundur að saga klámmynda sýni að annarskonar klám sé mögulegt.

Bókin er stutt (um 60 síður), hressileg, og full af áhugaverðum sögulegum og menningarlegum vísunum, ásamt örlitlum skammti af marxisma og sálgreiningu. Tilvalin fyrir karla sem vilja lesa eitthvað eistnakitlandi, ef til vill í baði með kaldan bjór á kantinum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.