Utan miðju verundarinnar

 

svava

Svava Jakobsdóttir

Af hverju þarf alltaf að byrja baráttuna frá grunni? Það sem hverfur aldrei, en er sem undirstraumur alla tíð í þjóðfélaginu, er þessi gamla kvenfyrirlitning í þjóðfélaginu. Það virðist vera ákaflega erfitt að uppræta hana, þótt við fáum umbætur á lagalegu sviði og þar fram eftir götunum.

Það er auðveldara að fyrirlíta tegund en einstaklinga. Og þess vegna er ég alltaf svolítið skelfd þegar kvenréttindabaráttan virðist komin undir líffræðilegri örlagahyggju …Þess vegna held ég að konur verði að rækta sína einstaklingsvitund og að þær geti aðeins á þann hátt orðið gerendur í lífi sínu. Þær verða læra að hugsa um sig sem miðju sinnar verundar. Ekki taka annarra mannaskilgreiningar um hverjar þær séu eða hvernig.

– Svava Jakobsdóttir, 1985

 

Svo mælti Svava Jakobsdóttir, rithöfundur og fyrrum þingkona, í sjónvarpsviðtali við Steinunni Sigurðardóttur árið 1985.  Í þætti sem var á dagskrá RÚV síðastliðið sunnudagskvöld (30. júní) voru sýnd brot úr þessu viðtali og fleiri viðtölum og þessi orð skáldkonunnar, femínistans og stjórnmálakonunnar Svövu eru athyglisverð og áhrifamikil, bæði með hliðsjón af höfundarverki hennar og sem mikilvægt innlegg í orðræðu femínismans. Og sem slík hafa þau engu minna vægi í okkar samtíma en þau höfðu árið 1985, þegar þau voru sögð, eða tveimur áratugum fyrr, þegar Svava var að hefja skáldkonuferil sinn með útgáfu smásagnasafnsins Tólf konur (1965). Grunnupplýsingar um störf og skáldverk er að finna hér.

07-Louise-Bourgeois-Femme-Couteau-2002

Louise Bourgeois: Femme couteau, 2002

Konur sem eru viðfang, sem eru dauðir hlutir og sem eru ekki „gerendur í lífi sínu“ eru augljóslega miðlægar í öllum verkum Svövu. Margar smásagna hennar eru gróteskar og súrrealískar og konan í verkum hennar kemur oft fyrir sjónir sem hreint viðfang – hún er hlutuð sundur, krufin og skoðuð að innan sem utan eða mæld, sniðin og loks úrskurðuð ótæk, hún rennur saman við bæði dauða steinsteypuna í kringum sig og múrana sem hafa verið reistir í kringum sálarlíf hennar. Þessi kona er ekki viljalaus, en hún er sannarlega æði verundarlaus.

„Ég skrifa ekki raunsæisverk,“ sagði Svava sjálf í áðurnefndu sjónvarpsviðtali við Steinunni Sigurðardóttur. „Ég held að afstaða mín komi fram í stílnum, í efnisvali.“

Stíll Svövu er vissulega ekki raunsæislegur – í Leigjandanum  (1969) vaxa karlarnir tveir að lokum saman og verða sem einn maður með tvö höfuð, fjóra handleggi og tvo fótleggi og konurnar sem hún skrifar um höggva af sér útlimi (Gefið hvort öðru, 1982) leyfa börnunum sínum að hluta sig í sundur og nota líkama sinn sem rannsóknarefni og afþreyingu (Saga handa börnum,  1967), eða eru á einhvern annan hátt táknmyndir fyrir verund  sem segja má að hafi alls enga miðju.

Þessi líkamlega gróteska er áhrifamikil og snjöll leið til að lýsa því ástandi að vera utan við eigin verund. Konurnar geta aflimað sig sjálfar eða látið aðra höggva sig sundur, þær finna ekki til líkamlegs sársauka og raunar ekki tilfinningalegs heldur.

 

Louise Bourgeois: Hönd, 2001

… og með snöggu átaki hjó hún af sér höndina. Ekki var laust við að hún fyndi til nokkurs stolts þegar hún virti fyrir sér handbragð sitt. Þetta var snyrtilega gert, furðusnyrtilega er þess var gætt að hún hafði aldrei gert þetta áður.  (Gefið hvort öðru, 1982)

 

Það er hægt að mæla fyrir þeim eins og mublu, þær renna saman við dauða hluti og konan í Gefið hvort öðru tekur giftingarheitið svo bókstaflega að hún réttir brúðguma sínum hiklaust afhöggna hönd sína. Konan í Eldhús eftir máli reynir, en tekst ekki, að standast samanburð við fullkomnu eldhúsinnréttinguna sem verkfræðingurinn eiginmaður hennar er að hanna. Að lokum verður eiginmanninum ljóst hvert vandamálið er: Eldhúsið er fullkomið en konan er gölluð og hann þarf því að finna nýja konu – konu sem hæfir eldhúsinu.

Börnin sem skera líffærin úr móður sinni – að síðustu heilann – í Saga handa börnum gera það einmitt í eldhúsinu – heimavelli konunnar – og þegar eiginmaðurinn kemur heim og sér hvað gengur á segir hann argur: „Krakkar, hvernig dettur ykkur í hug að vera að þessu á matmálstíma?“ Hann vill geta gengið að kvöldverðinum vísum og börnin hafa truflað móður sína við skyldustörf sín. Hvort hún sinnir þeim störfum í upprunalegu ástandi eða sundruð í nokkra parta skiptir minna máli.

 

Hún átti engan veginn erfiðara með að vinna húsverkin eða skilja dönsku blöðin; margt reyndist jafnvel auðveldara en fyrr og atvik sem áður ollu henni heilabrotum virtust nú ekki verð umhugsunar. (Saga handa börnum, 1967)

 

Konan í Leigjandanum (1969) gengur um húsið sitt að kvöldi dags og þreifar á öllum veggjum þess til að sannfæra sig um að þeir séu enn heilir og traustir – og að hún sé þar af leiðandi enn til. Leigjandinn fjallar kannski í aðra röndina um herstöð á Íslandi en sjálf fullyrðir Svava í viðtalinu við Steinunni Sigurðardóttur, sem vísað er til hér að ofan, að sagan sé alls ekki allegóría. „Það sem ég vildi gera var að draga hliðstæðu milli konu sem er í aðstöðu húsmóður og er háð manni sínum um peninga og visst lífsöryggi, þ.e. konu sem er í rauninni undir forræði, hversu velviljað sem það er, og smáþjóðar sem tengist böndum stórveldi sem hefur öll tögl og hagldir, ef það bara vill. Ég segi stundum að Leigjandinn fjalli um sálarástand.“

Þannig er hið erlenda stórveldi, hinn velviljaði harðstjóri, hliðstæða eiginmannsins og húsmóðirin, konan, hliðstæða smáþjóðarinnar sem veit ekki sjálf að hún er í hlekkjum. Og gróteskan og afmennskunin birtist í staðsetningu sjálfsvitundar konunnar í dauðu efninu.

Louise Bourgeois: Femme + Maison, 1994

„Ég held að það hafi vakað fyrir mér að sýna hvernig færi fyrir manneskju sem sækti styrk sinn í dauða hluti, í þá veggi sem hún hefur sumpart smíðað sér sjálf, og samruni steins og manns skilar af sér afurð sem ekki er alveg mennsk,“ segir Svava í viðtalinu.

Í öðru áhugaverðu dæmi um það hvernig Svava nálgast hugmyndina um miðju verundarinnar er konan flutt úr ástandi sem hún hefur sjálf kosið sér og skipað í annað hlutverk, leiðbeint inn á „rétta“ leið, af karlmanni í smásögunni Sund  (Gefið hvort öðru, 1982): ung stúlka á sundnámskeiði áttar sig á því að hún getur flotið, hún þarf ekki að bægslast eða strita heldur þarf aðeins að geta haldið niðri í sér andanum nógu lengi og hreyfa sig sem minnst.

 

Louise Bourgeois: Femme Volage, 1951

Hún fylltist ósegjanlegri gleði … Og síðan lá hún grafkyrr og lét sig fljóta eins og viðardrumb þar til loftið í lungunum þraut. Þá endurtók hún sama leikinn … Hún skynjaði að fengi hún bara að halda svona áfram, bara fljóta í samruna við vatnið, þá gæti hún drukknað án þess að berjast, ef það ætti fyrir henni að liggja … í sátt við vatnið. Þá fékk hún óvænt högg í bakið. Hún leit í ofboði upp og missti allt vald á sundinu.

(Sund, 1982)

 

En sundkennarinn – karlkyns vera með loðna fótleggi og prik sem er stjakað óþyrmilega í stúlkuna – truflar þetta nýfundna jafnvægi stúlkunnar til að gera henni ljóst að tilgangurinn með námskeiðinu er ekki að hún fái að finna sína eigin leið í vatninu heldur að hún læri að synda sem hraðast og komast sem fyrst í mark. Þarna er fjallað um konu sem hefur fundið miðju sinnar verundar – en er síðan þvinguð til að færa sig af þeim stað.

Loks má nefna konuna í sögunni Í draumi manns (Gefið hvort öðru, 1982), sem á brúðkaupsnóttina kastar eigin sjálfi; brúðguminn afklæðir hana persónuleika hennar og klæðir hana í nýjan búning hans eigin goðsögulegu hugmynda um ástmeyna  – konan gengur inn í fantasíuheim eiginmanns síns og virðist ekki geta átt þaðan afturkvæmt því hans fjötrar eru um leið hennar.

Þá vissi hún að þetta var tilgangslaust. Hún komst ekki út til að fá hann lausan úr fangelsinu. Hún var læst inni í draumheimi hans og hann einn gat hleypt henni út.

(Í draumi manns, 1982)

 

Hér hafa aðeins verið dregnir fram örfáir þræðir í margbrotnum og heillandi skáldskaparvef Svövu Jakobsdóttur. Þeim sem ekki sáu áðurnefndan sjónvarpsþátt um líf, störf og skáldskap Svövu er bent á að þátturinn verður aðgengilegur á vef RÚV til septemberloka 2013.

——

Heimild:

http://www.ruv.is/sarpurinn/islendingar-svava-jakobsdottir/30062013-0

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.