Fluga á vegg

flyonwallÁhrif á jafnrétti kynjanna… Ókei ókei, ég ætla aðeins að hugsa þetta. Hvernig hefur þetta frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar og málefni aldraðra áhrif á jafnrétti kynjanna? Hmmm… hugs… hugs… nei sko fluga – er opinn gluggi? Já einmitt, þarna, ætti ég kannski að loka honum, það gætu komið inn geitungar, ég hata geitunga, en bót í máli er að þeir koma illa undan vetri, ég las það um daginn. En það er aldrei að vita, ég þarf að kaupa geitungagildrur í garðinn, já og einmitt, ég verð að fara að slá garðinn, get ekki frestað því lengur. Fyrst þarf ég að fara með sláttuvélina í viðgerð, geri það á eftir þegar ég er búin að fara í Bónus. Átti ég að kaupa tannkrem? Best að hringja heim og tékka. Hvar er nú síminn… átti ég ekki að vera að gera eitthvað? Einmitt, jafnrétti kynjanna. Hmmmmmmmmm… Nei mér bara dettur ekkert í hug. Ókei tjekka við það á listanum, best að klára í hvelli þessi drög og senda þau áður en ég hringi heim… hvernig fluga ætli þetta sé…

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar og málefni aldraðra, kemur fram að „Ekki verður séð að frumvarpið hafi bein áhrif á jafnrétti kynjanna.“ Í umsögn fjármálaráðuneytisins með sama frumvarpi kemur þó berlega í ljós að:

a) ávinningurinn af lagabreytingunni er meiri fyrir þau sem eiga meiri peninga og

b) að meðaltali fá karlar meiri hækkun í krónum talið en konur.

Eins og fram kemur í umsögnum Femínistafélagsins, Jafnréttisstofu, BSRB, Öryrkjabandalaginu, Kvenréttindafélags Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands hefur frumvarpið veruleg kynjaáhrif. Konur hafa í gegnum tíðina frekar unnið ólaunuð heimilisstörf og sinnt umönnun barna, veikra og aldraðra fjölskyldumeðlima. Þær hafa því styttri viðkomu á vinnumarkaði og eru fjölmennari í hópi þeirra sem vinna eða hafa unnið hlutastörf. Svo ekki sé minnst á kynbundinn launamun fyrr og nú.

Ljóst er að með því að taka ábyrgð á ólaunuðum störfum á heimilum og innan fjölskyldna hafa konur skapað svigrúm fyrir karla til að vinna meiri launavinnu í gegnum tíðina. Um leið hafa konur sparað ríkinu stórfé með því að vinna kauplaust störf sem hafa mikla þýðingu fyrir samfélagið. Áhugavert væri að gera sér í hugarlund hve háar upphæðir íslenska ríkið hefur komist hjá að borga konum síðustu áratugina fyrir þeirra ólaunuðu vinnu.

Eins og gefur að skilja hefur þetta áhrif á möguleika kvenna til að safna sér lífeyri, bæði með greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóði, og með viðbótarlífeyrissparnaði. Í dag er staðan sú að konur fá að meðaltali innan við helming þeirrar upphæðar sem karlar fá í greiðslur frá lífeyrissjóðum. Konur þurfa því að reiða sig meira á ellilífeyri og réttindi almannatrygginga. Þannig framlengist kynbundinn launamunur á vinnumarkaði inn í ellina og mun halda áfram að gera það á meðan hann er til staðar.

Af þessu má sjá að frumvarpið fer í þveröfuga átt við það sem æskilegt væri til að stuðla að jafnrétti kynjanna, nefnilega að bæta stöðu fátæks eldra fólks, en þar eru konur í meirihluta. Frumvarpið gagnast því körlum almennt betur en konum. Þetta kemur hvað skýrast fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um frumvarpið, en þar segir: „Koma því breytingar þær sem þetta frumvarp boðar til með að styrkja frekar stöðu efnameiri karla en hafa lítil sem engin áhrif á tekjur kvenna. Er ljóst að hér er um óbeina mismunun að ræða sbr. 2. tl. 2. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sem bönnuð er skv. 1. mgr. 24. gr. sömu laga“.

Umsögn Jafnréttisstofu um fullyrðingar þær að frumvarpið hafi ekki bein áhrif á jafnrétti kynjanna, er neyðarleg fyrir þau sem sömdu frumvarpið. Í umsögninni segir orðrétt „Jafnréttisstofa gerir sérstaklega athugasemdir við það að ekki hafi farið fram raunverulegt mat á áhrifum fyrirhugaðra lagabreytinga á kynin og hvernig þær samræmist jafnréttislögum“. Hér er með öðrum orðum verið að segja að mat á áhrifum frumvarpsins á jafnrétti kynjanna, sé fúsk.

Hugsanaflögrið í byrjun þessarar greinar er það sem ég ímynda mér að gæti hafa gengið á í höfði þeirra sem áttu að meta jafnréttisáhrif frumvarpsins. Að minnsta kosti hefði verið áhugavert að vera þar fluga á vegg.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.