Kynþokkafullur fótbolti

Á íslenskri vefsíðu sem fjallar um fótbolta (fotbolti.net) má finna myndaseríur þar sem valdir eru tíu kynþokkafyllstu fótboltakarlar og tíu kynþokkafyllstu fótboltakonur á Íslandi. Sjö karlar völdu tíu fótboltakonur og sex konur völdu tíu fótboltakarla. Í hópi kvenálitsgjafa voru þrjár fótboltakonur, tvær blaðakonur og einn kynningarstjóri. Í hópi karlálitsgjafa voru fjórir blaðamenn (þar af einn sem skrifar á umræddri síðu), tveir fótboltakarlar og einn viðtalssérfræðingur. Það má velta fyrir sér af hverju þarf fleiri karlálitsgjafa í þessum hressa leik.

Svo virðist sem umfjöllun um fótboltakarlana hafi birst fyrst. Við hana voru, laugardaginn 6. júlí engar athugasemdir. Við umfjöllun um fótboltakonurnar voru á sama tíma 17 athugasemdir. Einn hrósar framtaki síðunnar fyrir það að ná að sameina áhugamál sín, fótbolta og konur. Skemmst er þó frá því að segja að lítið er minnst á fótbolta þegar kynþokka kvennanna er lýst.

Í einni athugasemd veltir höfundur fyrir sér hvort knúzið muni ekki fjalla svakalega um umfjöllun síðunnar um fótboltakonurnar. Ég óttast að viðkomandi þyki þessi umfjöllun tæplega svakaleg.

dove

Úr sjampóauglýsingu fyrir Dove. Þessi notaði óvart sjampó „fyrir konur,“ með þessum hroðalegu afleiðingum. Hann myndi slá í gegn í 1. deildinni hér heima.

Það sem vakti fyrst athygli mína var hversu orðmargir karlálitsgjafarnir voru. Það er skemmtileg mótsögn við þá skoðun að konur tali mikið og karlar segi bara það sem máli skiptir. Sú er ekki raunin í umfjöllun um kynþokkafullt fótboltafólk. Ω

Annað sem ég hjó eftir var byltingarkennd umfjöllun um kynþokka karla. Lengi hefur kvenhaddur verið tákn um kvenleika. Konur eiga að hafa sítt hár vilji þær vera almennilegar konur. Nú ber hins vegar til tíðinda að það eru einmitt fótboltakarlar sem skarta þykku, fallegu og síðu hári sem þykja kynþokkafullir. Og ekki nóg með það. Þeir sem greiða það í snúð (kannski kennslukonusnúð eða ballerínusnúð?) þykja standa öðrum fremri þótt vissulega kalli flaksandi frjáls makki fótboltakarls á svalandi drykk.

Hár fótboltakvennanna virðist ekki skipta jafnmiklu máli fyrir kynþokka þeirra. Ein er sögð fulltrúi dökkhærðra og ein ljóshærðra. Hár kvennanna er sem sagt ekki til umfjöllunar þegar fjallað er um kynþokka þeirra. Þetta er frumlegt og í raun ótrúlegt að ekki nokkur maður sjái ástæðu til að kommenta við þetta og enn óskiljanlegra að sítt hár sé þá ekki algengara meðal karlmanna.

Nú gæti kona talið að geta í fótbolta væri einn þáttur í kynþokka fótboltafólks. Það virðist þó ekki vera. Aðeins er minnst á fótboltagetu tveggja þeirra kynþokkafullu fótboltakvenna á listanum. Önnur er „grjóthörð innan vallar‟ sem vísar líklega til hörku hennar í leiknum og „ekki má gleyma að [hin] er góð í fótbolta.‟ Tveimur fótboltakörlum er líka talið til kynþokkatekna að vera „villidýr inni á vellinum, grjótharður í návígum og kunna að tækla og vera baráttuhundur‟ eins og sagt er um einn karlanna. Hinn er hins vegar „góður í fótbolta‟.

Eins og búast mátti við eru tengingar við kynlíf nokkrar í svona kynþokkakeppni. Það er eitt og annað sem hefur kynferðisleg áhrif á álitsgjafana eða annað fólk að þeirra mati. „Dularfullur gaur virðist kveikja í kvenfólkinu‟ og „flestar stúlkur kikna í hnjánum þegar Hemmi splæsir í bros og lætur glitta í frekjuskarðið‟. Fyrri afrek fótboltakarls í kvennamálum eru talin honum til kynþokkatekna, húðflúr á upphandlegg öðrum og einn er talinn góður að kyssa blauta kossa. Karlarnir eru víkingar og bad boys og það er kynþokkafullt.

Vöðvastæltur bjargvættur með sítt hár og umkomulaus leggjalöng prinsessa.

Fótboltakonurnar hafa hins vegar „kyssulegar varir og flotta leggi‟ eru „betri leikmenn utan vallar en innan‟ og kostur einnar að hún er „ung og saklaus‟ og enn önnur á yngri systur sem ekki er síðri en umrædd fótboltahetja. Konurnar hafa sig til, eru náttúrlega fallegar, fegurðardrottingar og prinsessur.

Þetta eru hefðbundnar og lítið frumlegar hugmyndir um kynþokka kynjanna. Þær eru staðlaðar og þreyttar. Villtir víkingakarlar og ungar og saklausar prinsessur. Er þetta gert til þess að við hin óttumst ekki að síðhærðir fótboltakarlar séu ekki „alvöru karlar‟ og að grjótharðar fótboltakonur séu ekki „alvöru konur‟? Guð forði okkur frá því að rugga þeim báti.

Undanfarin ár hefur markaðsmantran „sex selur‟ verið notuð óspart til að réttlæta kynlífstengingu við allan fjandann. Það er sjálfsagt sú kennisetning sem ritstjórar fótboltasíðunnar hafa haft að leiðarljósi á ritstjórnarfundinum þar sem ákvörðun var tekin um að fara í þessa kynþokkaumfjöllun. Það er sorglegt því í henni má greina svo ótrúlega mannfyrirlitningu. Talað er um karl sem 88 kg kjötstykki sem gaman er að horfa á og annan sem er „kynlíf á fótum‟ og konu sem myndi trekkja aðdáendur á völlinn væri hún í þrengri fötum sem sýndu líkamann betur. Það á sem sagt ekki að horfa á fótboltann, leikinn sjálfan, heldur kjötstykkin og líkamana. Er það þetta sem þjálfarar leggja áherslu á hjá yngri fótboltaiðkendum? Vertu bara nógu helvíti mikið kjötstykki og sexý og þá er þetta í lagi! Er þetta sú nálgun sem okkur finnst gott að krakkar í fótbolta tileinki sér? Væri þá ekki bara sneddí að fólk spilaði fótbolta berrassað? Þá myndu áhorfendur sjá allt sem þá langar til að sjá, svo væri kannski bara hægt að sleppa boltanum og láta keppendur spígspora um sparkvöllinn, svolítið eins og fegurðarsamkeppnum.

Sjálfsagt var ekki farið í kynþokkakeppnina af illum hug. Það er hins vegar þannig að mörg okkar eru orðin þreytt á því að allt sé tengt kynlífi/kynþokka. Og við erum ekki bara fúlir miðaldra femínistar. Margt ungt fólk er líka orðið þreytt á því að það sé alltaf gert ráð fyrir því að það sé með kynlíf á heilanum, stöðugt. Ungt fólk hefur nefnilega, ótrúlegt en satt, áhuga á ýmsu öðru og finnst kjánalegt að troða kynlífi og kynþokka upp á allt.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.