Þú verður aldrei sæt

Höfundur: Magnús Teitsson

Marion Bartoli tennis

Um helgina vakti íþróttalýsandi á BBC athygli fyrir ummæli sem sumum þóttu óheppileg, en þar sem samskipti föður og dóttur komu við sögu langar mig að fjalla um þetta mál frá sjónarhóli pabbans. Við byrjum við eldhúsborðið.

Í morgun átti ég gott spjall við dætur mínar, sjö og fjögurra ára, yfir hafragrautnum (jæja þá, upphituðum afgöngum af pakkapitsum). Í þetta skiptið töluðum við mest um hvað væri mikilvægt, hvort það væri peningar og hlutir eða fjölskylda og vinir. Við veltum fyrir okkur mismunandi aðstæðum og komumst að því að fólk væri mikilvægara en hlutir. Síðan skaut sú yngri því inn í að plánetur væru mikilvægar, því að við byggjum á plánetu. Vissulega. Og tré, því að þau gæfu okkur súrefni. Svona eru samræðurnar oft merkilegar hjá okkur feðginunum. Stundum tölum við líka um prump og hor.

Ég hef sagt dætrum mínum ýmislegt um heiminn og þær sjálfar á þessum fáu árum sem við höfum átt samleið hingað til. Ég bendi þeim stundum á að þær þurfi að vanda sig og vera duglegar. Stundum þurfi að læra eða taka til, þótt maður vilji frekar horfa á sjónvarpið eða lesa Andrés. Ég reyni að innræta þeim jákvætt viðhorf til sjálfra sín og annarra, svo að þær verði hnarreistar og heilbrigðar sálir sem líður vel í eigin skinni og eru farsælar í samskiptum við annað fólk. Ég hrósa þeim fyrir að vera skemmtilegar, duglegar, klárar og fyndnar. Stundum fá þær líka að heyra að þær séu fallegar.

Eitt sem ég hef aldrei sagt þeim er: „Þið verðið aldrei sætar.“ Ég hef heldur aldrei gert grín að þeim fyrir að líkjast ekki hávöxnum íþróttastjörnum og fyrirsætum. Kemur það á óvart?

Þá víkjum við sögunni að Marion Bartoli, 28 ára tenniskonu frá Frakklandi sem vann Wimbledon-mótið um helgina þrátt fyrir að vera aðeins í fimmtánda sæti á styrkleikalista keppenda fyrir mótið. Í þann mund sem hún hljóp til pabba síns til að fagna sigrinum datt íþróttalýsandanum John Inverdale á BBC helst í hug að segja: „Sagði pabbi hennar kannski við hana þegar hún var lítil: Þú verður aldrei sæt, þú verður aldrei Sharapova, þannig að þú verður að berjast og vera ágeng?“

Þegar viðbrögðin við þessum orðum reyndust í neikvæðari kantinum bauð Inverdale þá útskýringu að hann hefði verið að „gera grín að henni, á vingjarnlegan hátt, fyrir útlitið“. Hann hefði verið að reyna að koma orðum að því að í heimi þar sem öflugustu tenniskonurnar væru allar vel yfir 1,80 m á hæð hefði Bartoli staðið sig sérstaklega vel, en hún er rétt um 1,70 m há.

Því má bæta við að fjölmargir notendur Twitter og annarra samskiptamiðla komu sér beint að efninu og sögðu að Bartoli ætti ekki skilið að vinna Wimbledon af því að hún væri ógeðsleg, lítil, ljót, feit, lesbíuleg, karlmannleg, klístruð, loðin, apaleg, svínsleg og svo framvegis.

Marion Bartoli svaraði því sjálf að hana hefði dreymt um þetta andartak frá því að hún var sex ára og að árangurinn skipti hana meira máli en hvað hún gerði utan tennisvallarins. Inverdale væri hins vegar velkomið að koma á lokahóf mótsins og sjá hana tilhafða í kvöldkjól – það gæti kannski breytt viðhorfi hans. Mér fannst ekki síður áhugavert hvað Walter Bartoli, pabbinn, hafði að segja: „Sambandið milli mín og Marion hefur alltaf verið frábært þannig að ég veit ekki hvað hann er að tala um. Þegar hún var fimm ára lék hún sér eins og hver annar krakki og skemmti sér á tennisvellinum. Hún er fallega dóttir mín.“

Walter Bartoli hefur sem sagt aldrei sagt dóttur sinni að hún yrði aldrei sæt, ekki frekar en ég segi dætrum mínum það. Ég ímynda mér að það sé vegna þess að okkur þykir vænt um dætur okkar, við virðum þær og viljum ekki að þær séu dæmdar af útlitinu þegar þær reyna að lifa lífinu og láta drauma sína rætast. Þetta á ekki að vera flókið.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.