Roskilde: kjörlendi kynferðisbrotamanna?

Höfundur: Ul Christensen

Úr grein í danska dagblaðinu Politiken, 29. júní sl.

Úr grein í danska dagblaðinu Politiken, 29. júní sl.

Ungur piltur stærir sig af því í víðlesnasta blaði Danmerkur að hann ætli að beita kvenkyns gesti Roskilde-hátíðarinnar kynferðislegri áreitni með kerfisbundnum hætti. Fjöldi kvenna verður fyrir áreitni. Stjórnvöld í sveitarfélaginu gera ekkert. Þetta hljómar eins og það hafi gerst í smábæ í bíómynd eftir Lars von Trier en er í raun aðeins lýsing á hversdagslegri uppákomu á Roskilde-hátíðinni.

Ég varð fyrir óþægilegri reynslu á Roskilde. Á tónleikum sem ég hafði hlakkað ótrúlega mikið til að upplifa stóð einhver gaur stöðugt alveg upp við mig og var alltaf að káfa á mér. Fyrst sagði ég bara kurteislega: „Please stop touching me“ en fyrr en varði var ég byrjaður að æpa: „Dude, stop fucking touching me!“ og loks neyddist ég til að færa mig af svæðinu vegna þess að gaurinn lét sér ekki segjast. Frábærir tónleikar fóru fyrir ofan garð og neðan hjá mér því það var svo ótrúlega ónotalegt að finna að neiið mitt var einfaldlega hunsað.

Bara til að það sé á hreinu: Hann gerði þetta við alls konar fólk, ég held ekki að þetta hafi verið vegna þess að hann var hommi heldur af því að hann var skakkur og fullur og glataður.

Ég er karlmaður. Þetta er í eina skiptið sem ég hef orðið fyrir þessu. Ég þekki ekki eina einustu konu sem hefur verið á Roskilde án þess að upplifa eitthvað þessu líkt, á hverju einasta ári. Fyrir mörgum þeirra er þetta hluti af veruleikanum á hverjum degi, allt árið. Ég þekki enga konu sem kann ekki sögu um það hvernig gaur sem gat ekki haft hemil á krumlunum á sér eyðilagði flotta tónleika. Enga konu sem getur ekki lýst því hvernig það er að láta bláókunnuga karlmenn káfa á sér alveg óumbeðið.

Fyrir konurnar sem koma á Roskilde-hátíðina er kynferðisleg áreitni og kynferðisofbeldi hversdagslegt og kunnuglegt. Það kemur fram í endalausum athugasemdum og glósum um útlit þeirra og það birtist í yfirlýsingu starfsmanns hátíðarinnar um hvað hann hlakki til að komast á „rassaveiðar“ með félögunum – keppast við að áreita eins margar konur og hann mögulega kemst yfir á hverjum tónleikum – og það bitnar á ótal konum sem geta ekki fengið bláókunnuga karla til að hætta að káfa á þeim, sama hvað þær öskra hátt. Vandamálið er yfirgripsmikið því á hverri hátíð verða um það bil 60.000 konur fyrir áreitni eða ofbeldi – margar þeirra ítrekað.

Auðvitað er þessu stundum öfugt farið og það er nákvæmlega jafn lítið í lagi. En slíkt á sér ekki stað með nándar nærri jafn kerfisbundnum hætti og sem karlmaður nýtur maður forskots sem konur hafa ekki á þessu tiltekna sviði – þeirrar fullvissu að ef maður segir nógu skýrt og alvarlega nei mun áreitninni linna. Hvað sjálfan mig, og marga aðra karla, varðar er það einfaldlega vegna þess að ég er um það bil 30 kílóum þyngri, ef til þess kæmi að ég þyrfti að verja mig.

Nokkrar stúlkur lýstu sinni reynslu í danska dagblaðinu BT 21. júlí s.l.

Nokkrar stúlkurlýstu sinni reynslu í danska dagblaðinu BT 21. júlí s.l.

Á Roskilde er kynferðisáreitni samþykkt sem hluti af menningu hátíðarinnar og það eyðileggur upplifun þúsunda kvenna af viðburðinum. Að áreita virðist álitið skemmtun, það er „bara glens og grín“. Það er eitthvað sem menn mana hvern annan upp í, leikur sem snýst um að eyðileggja daginn fyrir einhverjum öðrum.

Og allt gerist þetta með þegjandi samþykki þeirra sem skipuleggja hátíðina og stjórna henni. Stjórn hátíðarinnar gerir nefnilega ekkert til að stöðva þetta. Þegar einn starfsmanna hátíðarinnar stærði sig af því að hann hygðist áreita fjöldann allan af konum tókst stjórninni ekki að stynja öðru upp en mjóróma fréttatillkynningu um að „við styðjum ekki kynferðislega áreitni“  og slíkt ristir harla grunnt. Orðunum var ekki fylgt eftir með aðgerðum, þeim fylgdi ekkert boð um aðstoð og engu slíku var komið á framfæri til hátíðargesta. Reyndar hefur stjórn hátíðarinnar komið sér upp svokölluðu „tolerance team“, starfshópi sem hún flaggar þegar hún þarf að verjast þeim sem hrópa á athafnir fremur en orð. Ég sá þetta teymi einu sinni alla dagana sem hátíðin stóð yfir. Það var á umræðufundi með einhverri femínínískri yfirskrift þar sem teymið lýsti því hátíðlega yfir að það yrði til staðar til að koma þeim sem yrðu fyrir áreitni til hjálpar. Fyrir utan þetta eina skipti sá ég hvorki haus né sporð af því fólki og ég fór vítt og breitt um svæðið alla hátíðardagana. Í starfsreglum Roskilde-hátíðarinnar er ekki minnst orði á að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin. Og starfsfólk hátíðarinnar fær að jafnaði enga þjálfun í að bregðast við slíku. Það er hægðarleikur að berja sér á brjóst og stofna „tolerance team“ en hvað sem því leið var aðkoma þess teymis að hátíðinni svo takmörkuð að hún var nánast ósýnileg.

Stjórn Roskilde-hátíðarinnar fullyrðir að félagslegrar ábyrgðar sé gætt. En hvernig getur það staðist þegar hátíðin skapar þeim sem kjósa að áreita aðra kynferðislega öruggt umhverfi og umber hegðun þeirra? Stað, þar sem áreitnin er venja en ekki undantekning? Stað þar sem vaktmenn og gæslufólk skerst ekki í leikinn, ekki einu sinni þegar um það er beðið? Ég verð að játa að mér sýnist ansi grunnt á félagslegu ábyrgðarkenndinni.

Frá Roskilde 2012

Roskilde-hátíðin er viðburður þar sem fólk losar um hömlurnar, hristir af sér hversdagsslenið og skemmtir sér ótrúlega vel. Og ég elska að koma þangað, upplifa lífið á röngunni á níu daga hátíð með fullt af frábærri tónlist. En þótt við losum um hömlurnar þurfum við ekki að fara yfir mörk annarra! Þetta ætti að teljast sjálfsagt mál en á Roskilde virðist það teljast eðlilegt að áreita aðra.

Roskilde, það er kominn tími til að þið gerið eitthvað í málinu! Það gæti verið ágætis byrjun að minnast eitthvað á það í reglunum ykkar að það megi ekki áreita, að það vinni gegn þessu „orange feeling“ að skemma upplifun annarra með kynferðisáreitni. Að þjálfa starfsfólkið ykkar í að grípa inn í þegar þess þarf og veita aðstoð þegar um hana er beðið – að starfsfólkið ykkar sé fulltrúar hátíðarinnar, líka þegar það er ekki á vakt, og að það eigi því síst allra að áreita aðra.

Standið undir ímyndinni sem félagslega ábyrg hátíð með því að segja fólki að það sé flott að skemmta sér en glatað að áreita aðra. Er það til of mikils mælst að krefjast efnda á eftir orðunum?

Hvað getum við sjálf svo gert í málinu? Við getum auðvitað gert viðvart, hrópað hátt í hvert skipti. Það er mikilvægt en það hefur bara ekki sérlega mikil áhrif ef fíflið situr þarna og glottir eins og bjáni og fær svo fimmu frá félögunum þegar konan gefst upp og fer. Við karlmenn, við sem ekki erum fávitar, getum gert viðvart þegar við sjáum þetta gerast en það hefur bara ekki sérlega mikil áhrif þegar fíflin sitja öll þarna í einum hnapp og spyrja hver hafi skipt skaufanum á okkur út fyrir skraufþurra tussu og fá því næst fimmu fyrir orðsnilldina hjá hinum strákunum. Einstaklingsframtak gegn kerfisbundnu vandamáli er eins og vatnsgusa á gæs.

Það sem við GETUM gert er að heimta að Roskilde-hátíðin ráðist að rót vandans. Stjórnendur hátíðarinnar geta nefnilega gert með kerfisbundnum hætti það sem við sem einstaklingar ekki getum. Sendu tölvupóst á info@roskildefestival.dk eða settu inn færslu á Facebook-síðuna. Lýstu fyrir þeim ömurlegri reynslu af kynferðisofbeldi eða -áreitni og heimtaðu breytingar. Vísaðu á einhverjar þeirra frábæru greina og færslna (t.d. þessa) þar sem vakin hefur verið athygli á vandanum undanfarnar vikur og mánuði.

Og ágæta stjórn Roskilde-hátíðarinnar, ef þið vitið ekkert hvernig það á að orða þetta mætti alveg leita aðstoðar hjá öðrum. Mér finnst ekkert ólíklegt að Dansk Kvindesamfund, Selskab for Ligestilling eða önnur félagasamtök af svipuðum toga myndu fúslega aðstoða við að setja saman stefnu til varnar kynferðislegri áreitni!

—–

Halla Sverrisdóttir þýddi, með góðfúslegu leyfi. Greinin birtist á frummálinu hér þann 11. júlí sl.

Hér eru nokkrar greinar og færslur, m.a. greinin sem vísað er til í upphafi greinarinnar:

http://politiken.dk/ibyen/nyheder/fokus/roskildefestival/ECE2007817/erfarne-festivalgaengere-her-er-min-personlige-festival/

http://www.bt.dk/musikfestivaler/pigerne-paa-roskilde-vi-er-alle-ofre-for-roevtogt

http://www.bt.dk/danmark/facebook-brugere-raser-vagt-paa-roskilde-vil-paa-roevtogt-under-koncert?utm_source=dailyfix.dk

http://www.bt.dk/danmark/roskilde-festival-om-roevtogt-det-stemmer-ikke-overens-med-vores-vaerdier

Umræðuþráður um málið á Facebook-síðu danska aktívistans og rithöfundarins Mads Ananda Lohdal

Umræðuþráður um málið á Facebook-síðu danska femínistans Nikolaj „Mandfjols

http://feministerihimlen.blogspot.com/2013/07/roskilde-festival.html

http://f-frekvensen.dk/roskilde-festivalens-utopi/

Ein athugasemd við “Roskilde: kjörlendi kynferðisbrotamanna?

  1. á hátíð sem er með í kringum 75.000 mans þá er 60.000 konur mjög hátt hlutfall til þess að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.