„Það á bara að fá já. Alltaf.“

(Ræða Brynhildar Björnsdóttursem flutt var á Austurvelli eftir einstaklega vel heppnaða Druslugöngu, birtist hér i ögn lengri útgáfu.) Drusluganga 2013 mynd Sigtryggur Ari Jóhannsson

Fáklæddar, nafnlausar konur eru allt í kringum okkur, í fjölmiðlum, í bíó, á auglýsingaskiltum og myndmálið í kringum þær gefur sterklega til kynna að þær vilji kynlíf og það strax . Líkamsvöxtur og útlit kvenna er keppnisgrein. Sífellt eru uppi háværar raddir um að aðgangur að líkama kvenna sé sjálfsögð verslunarvara. Áhorf á klám þar sem nafnlaust fólk hefur óraunverulegar samfarir í engu samhengi er viðurkennd aðferð fyrir ungt fólk, sérlega unga pilta, til að upplifa sig sem kynverur. Nauðganir eru afbrot sem, samkvæmt dómstólum, eiga sér næstum aldrei stað. Allt dregur þetta úr þeirri upplifun að líkami konu sé hluti af persónu með tilfinningar. Konur, sérstaklega ungar og fáklæddar konur, eru markaðssettar sem neysluvara, eins og pitsa og tölvuleikur, og á sama hátt og að það er hægt að fá sér pitsusneið eða leika sér í tölvuleik er kona eitthvað sem er nú gott að fá sér stöku sinnum. Og hefur einhver einhverntíma heyrt um pitsu sem vildi ekki láta borða sig, eða tölvuleik sem vill ekki vera spilaður? Nei, auðvitað ekki …

Kannski er ekkert skrýtið að strákur, sem langar í kynlíf, alveg eins og hann langar stundum í pitsu eða tölvuleik, geti á einhverju stigi réttlætt fyrir sjálfum sér að umgangast vinkonur sínar, samstarfskonur eða bekkjarsystur eins og dót. En það breytir ekki þeirri staðreynd að konur eiga líkama sinn sjálfar, sama hversu fullar, fáklæddar eða feimnar þær eru og að samræði án samþykkis er nauðgun.

Meðalnauðgarinn er hvorki geðsjúklingur né þekktur að hrottaskap. Hann er venjulegur strákur á mótunaraldrinum 18-30 ára, sem á einhverju stigi ákveður að fara yfir mörk sem hann veit að eru þarna, en eru lituð af þjóðsögum um grá svæði, nei sem þýða já og „hún fílar þetta örugglega“. Þessir venjulegu strákar, sem fæstir eru siðblindir eldast svo og verða – venjulegir menn. Hvernig er það að vera fullorðinn maður, jafnvel faðir unglings sem gæti orðið fyrir því að einhver brjóti á henni eða honum á sama hátt? Hvernig er að vera venjulegur fullorðinn maður og vita að maður hefur einhverntíma gert einhverjum annað eins – í hálfkæringi – vitandi innst inni að það var ekki í lagi en einhvernveginn hélt að myndi sleppa án þess að nokkur hlyti skaða af? Það hlýtur að vera hræðileg tilfinning.

Mér finnst karlmenn upp til hópa góðir, sumir meira að segja frábærir. Og ég hef mikla trú á ungum karlmönnum. Þeir þurfa hinsvegar að fá skýrari skilaboð til mótvægis við skilaboðin sem dynja á þeim úr umhverfinu. Skilaboð sem segja, þannig að ekki fari neitt milli mála, að samræði án samþykkis sé nauðgun, að stelpur og strákar eigi líkama sína sjálf og enginn megi gera neitt við þau nema að fá samþykki fyrst, jafnvel þótt viðkomandi séu berrössuð og blindfull úti á götu eða rænulaus inni í rúmi.

En hver á að flytja þessi skilaboð? Ég er hrædd um að það sé ekki ég. Ég er tölfræðilega sennilega versta manneskjan til að reyna að fá stráka og unga karlmenn til að hlusta. Ég tilheyri þeim hópi í þeirra lífi sem segir hluti eins og: taktu til í herberginu þínu – það er mjög mikilvægt að læra dönsku – ertu viss um að þetta sé tónlist? …

Þessvegna þurfa aðrir að tala. Og ég skora á þá! Ég skora á alla sem gætu mögulega talist fyrirmyndir fyrir unga karlmenn að hefja upp raust sína og fordæma nauðganir. Íþróttamenn og kennarar, þingmenn og ráðherrar, rithöfundar, blaðamenn, sjómenn og þáttastjórnendur, skattakóngar, popparar, leikarar og iðnaðarmenn – pabbar, frændur, bræður, vinir. Margir ykkar hafa verið óþreytandi í því að berjast gegn nauðgunum og eiga eftir að halda því áfram. En nu er kominn tími til að ALLIR taki skýra opinbera afstöðu – gegn ofbeldi og gegn nauðgunum!

Ég lýsi eftir talsmönnum nýrrar karlmennsku. Karlmennsku í merkingunni að taka alla eiginleika þess sem er líkamlega sterkari og nota þá með sæmd. Karlmennsku sem segir að nauðgunargrín sé ekki fyndið, að það eigi að hætta ef einhver vill ekki halda áfram, að það sé kúl að kúra, jafnvel þótt maður vilji eitthvað meira, sem hringir á leigubíl fyrir dauðu stelpuna í partíinu og hjálpar henni heim til pabba síns og mömmu. Þessa tegund karlmennsku þarf að setja á stall og gera eftirsóknarverða.

Pabbar, bræður, frændur, vinir! Takið afstöðu gegn þeirri karlmennskuímynd sem gengur út á að vera granítharður, taka það sem maður vill og gefa skít í allt. Af því að ungir karlmenn eru upp til hópa góðar manneskjur og það eru engar óljósar línur, engin grá svæði, ekkert kannski. Það á bara að fá já. Alltaf.

Ein athugasemd við “„Það á bara að fá já. Alltaf.“

  1. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.