Í sólarglennu um daginn fóru knúzarar á röltið í góða veðrinu en gátu ekki bælt niður eðlislæga forvitni og langaði að vita hve margir aðrir femínistar væru á ferli í miðborginni. Það er útilokað að spyrja alla og þess í stað var framkvæmd afskaplega óvísindaleg könnun sem fólst í því að spyrja af handahófi einhverja sem á vegi okkar urðu. Við þurftum auðvitað að kynna okkur, svo það lá beint við að spyrja viðmælendur fyrst hvort þeir könnuðust við knúz.is en síðan hvort þeir væru femínistar.
Íris Kristjánsdóttir
Íris sagðist ekki vita hvað knúz.is væri en þótti femínistavefrit áhugavert og tók því ljúfmannlega að svara spurningunum. Hún sagðist vera femínisti en tók það fram að eiginlega væri fráleitt að þurfa skilgreina sig sem femínista árið 2013. Hún þekkir vel til í Serbíu og segir að þar myndi enginn kalla sig femínista, hugtakið sé mjög neikvætt þar og jafnvel hættulegt. Írisi þykir sorglegt að sjá umræðuna í kommentakerfum á netinu þegar herskár hópur stekkur til og eys óhróðri yfir femínista en henni þykir ekki síður leiðinlegt að sjá suma yfirlýsta femínista setja út á útlit annarra kvenna sem þeim finnst stangast á við „skilgreint útlit femínista“. Hún lagði áherslu á að við þurfum ekki að hafa sömu skoðanir á öllu og vera eins, þó við stefnum öll að jafnrétti.
Björgúlfur Egilsson
Björgúlfur hafði ekki heyrt um knúz.is og þegar hann var spurður hvort hann væri femínisti sagðist hann frekar telja sig jafnréttissinna. Hann var þó ekki alveg viss í hverju munurinn fælist, en hélt að femínistar væru prógressívari. Hann sagðist vera „sympatisör“ gagnvart femínisma og stuðningsmaður jafnréttis.
Hrund Snorradóttir
Hrund vissi upp á hár hvað knúz.is væri, þótti vefritið þarft og þakkaði fyrir það. Hún sagðist vera virkur femínisti, enda væri langt í land að jafnrétti sé náð, ekki síst þegar staða kvenna er skoðuð á heimsvísu, en Hrund hefur kynnt sér aðstæður kvenna í nokkrum löndum og starf UN Women sem henni finnst mjög þarft.
Alexandra Ósk
Alexandra Ósk sagðist vera jafnréttissinni fremur en femínisti, því henni finnst síðara orðið halla óþarflega mikið á karlmenn. Hún sagði að jafnrétti ætti að ná til allra óháð kyni, en orðin femínisti og femínismi stuðluðu ekki að því.
Gunnar Hersveinn
Gunnar Hersveinn hló þegar hann var spurður hvort hann vissi hvað knúz.is væri og hélt nú það! Hann sagðist svo sannarlega vera femínisti og þegar hann var spurður hvers vegna svaraði hann að það væri vegna þess að femínismi væri „gagnrýnin, lýsandi og greinandi afstaða til samfélagsins“.
Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur hafði aldrei heyrt um knúz.is og spurði á móti þegar hann var spurður hvort hann væri femínisti: „Nei, geta ekki bara konur verið femínistar?“ Þegar sú hugmynd var hrakin kom í ljós að hann mismunaði ekki konum, síður en svo, þegar hann rak fyrirtæki, hvorki eftir kyni eða aldri. Vilhjálmur telur það alvörumál hve erfitt það er fyrir konur sem hafa unnið heima um árabil að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Hann sagðist ekki vera hlynntur jafnrétti karla og kvenna umfram annað jafnrétti og vill ekki að neinum sé mismunað, hvorki vegna kyns, aldurs, kynþáttar né nokkurs annars.
Emil Þór Sigurðsson
Emil Þór sólaði sig á Austurvelli í vinnupásu og þótt hann þekkti ekki knúz.is þekkti hann vel til femínisma. Hann sagðist vera stoltur af því að vera femínisti og þótti það bæði eðlilegt og sjálfsagt.
Emil Þór var sá síðasti sem knúzarar spurðu á göngunni, en fleiri höfðu orðið á vegi okkar sem ekki kærðu sig um að láta nafns síns getið eða taka af sér mynd til að birta á netinu. Þrjár konur, á besta aldri, neðst á Laugavegi sögðust til dæmis allar vera femínistar, enda væri annað varla hægt, og voru sammála um að talsvert væri enn í land til að jafnræði væri náð. Skoðanir voru skiptari hjá ungu pari á Lækjartorgi: Pilturinn þekkti femínisma og studdi hann en sagðist ekki vera virkur sjálfur og ekki taka þátt í umræðunni en stúlkan hafði ekkert sett sig inn í þessi mál og hafði lítinn áhuga á þeim.
Niðurstaðan virðist því í fljótu bragði vera almenn jákvæðni vegfarenda í garð jafnréttismála, en líkast til veitir ekki af almennilegri kynningarherferð á vegum knúz.is!