Hvernig „samþykkja“ konur kynmök?

Facebook-nóta Þórunnar Blöndal sem fer hér á eftir birtist 1. júlí fyrir tveimur árum en á jafn vel við í dag. Henni er gott að halda til haga fyrir þessa helgi – eins og allar aðrar helgar og reyndar alla ævi – að samþykki fyrir kynmökum er fengið með ótvíræðu látbragði og jái. Ef menn skilja ekki slíkt þá er betra heima setið en af stað farið. Við þökkum Þórunni fyrir að leyfa okkur góðfúslega að birta hana.

Nú er hafin enn ein herferðin gegn nauðgunum og allt gott um það að segja. Einu sinni var slagorðið Nei þýðir NEI … eða eitthvað í þá áttina. Í nýju slagorði segir eitthvað á þá leið að það þurfi samþykki fyrir kynmökum – ef það fæst ekki og kynmök fari fram þá sé um nauðgun að ræða. Ég ætla ekki að fetta fingur út í boðskapinn í þessum auglýsingum – síður en svo. Hins vegar langar mig að fetta fingur út í notkun hugtaksins „samþykki“ og með tilvísun til eldra slagorðs ætla ég að ræða orðið „nei“.neithydirnei

Ég er málfræðingur með málnotkun sem sérgrein, hversdagsleg samtöl milli fólks í daglegu amstri eru og hafa verið mitt rannsóknarefni undanfarin mörg ár. Mig langar að vitna hérna aðeins í fræðin og tengja þau við þessi slagorð.

Í flestum málum (kannski öllum) höfum við það sem kalla má „sjálfgefin“ form (e. preference structure/form). Það hefur sem sé sýnt sig í rannsóknum á samtölum að fólk á auðveldara með að játa bón um aðstoð, þiggja matarboð og vera sammála síðasta ræðumanni heldur en að neita/hafna/vera ósammála.Þegar samtalið gengur fyrir sig með þessum eðlilegasta hætti, maður verður við bón vinar síns, þiggur boð dóttur sinnar og er sammála vinnufélaga sínum, þá gengur allt smurt. Við eigum ekki í neinum vandræðum með að segja „Já, alveg sjálfsagt“ við bóninni; „Takk fyrir boðið“ við matarboðinu og „einmitt“ þegar maður er hjartanlega sammála vinnufélaganum. Þetta er svo auðvelt og fljótlegt af því að þetta eru „sjálfgefnar samtalslotur“. Ef hins vegar við þurfum að bregðast við á annan hátt þá vandast málið. Við myndum tæplega segja „nei“ við bóninni, „nei“ við boðinu og „rugl“ við vinnufélagann. Með því brytum við óskráðar kurteisisreglur sem gilda í mannlegum samskiptum – í venjulegum samtölum reyna menn í lengstu lög að sjá til þess að viðmælandinn „haldi andlitinu“ (e. face saving acts). Til að hafna bón og boði myndum við þurfa langa formála:

Svar við bón um aðstoð: Já, ertu að flytja, heyrðu, ég vil svo gjarnan hjálpa, ég er nýbúin að standa í flutningum og ég veit að maður þarf alla þá aðstoð sem býðst en málið er bara að ég verð ekki í bænum. (Hér er ekkert „nei“).

Matarboð: Oh, hvað það væri gaman, ég vil svo gjarnan koma, en ég er því miður að vinna þetta kvöld og kemst ekki. Leiðinlegt! (Hér er ekkert „nei“).

Í samtali við vinnufélagann sem við erum ekki sammála þyrftum við að sýna það með ýmsum hætti öðrum en þeim að segja bara „rugl“. Við myndum líklega byrja á því að þykjast vera svolítið sammála honum en láta svo skoðun okkar í ljós: Já, það getur verið að það sé eitthvað til í því en það hefur nú komið í ljós í könnunum að …. og ég er algjörlega á þeirri skoðun að þetta sé með öðru móti en þú segir.- Við mundum jafnvel hækka röddina aðeins og láta í ljós með ótvíræðu látbragði að við værum ósammála.

Sem sé – aftur að slagorðum gegn nauðgun. Strákar verða að vita að stelpa segir ekki beint NEI við strák sem hún hefur kannski verið að dansa við og kyssa en hefur ekki hugsað sér að ganga lengra með. Hún segir kannski að hún sé þreytt, syfjuð, á túr … eða annað sem hún heldur að dugi. Hún segir sennilega aldrei NEI! Hún vill ekki að strákurinn „missi andlitið“, hún vill ekki niðurlægja hann með því að segja NEI enda gengur það þvert á allar samskiptareglur sem gilda í samfélaginu. Samþykki sitt veitir hún með því að segja JÁ og með ótvíræðu látbragði.faduja

Strákar og stelpur þyrftu að vera læs á þessi atriði – við segjum sjaldan NEI og höfnum beiðnum og bónum í löngu máli – við segjum auðveldlega JÁ og þiggjum boð glaðar í bragði. Bæði strákar og stelpur ættu líka að vera læs á látbragð og líkamstjáningu … Kennslu um hvernig málið er notað í samskiptum vantar algjörlega í skólakerfið á Íslandi – ég held að það gæti hjálpað agnarögn að tala aðeins um þessa hluti.

Ein athugasemd við “Hvernig „samþykkja“ konur kynmök?

  1. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.