Kurteisa byltingin

Höfundur: Guðný Elísa Guðgeirsdóttir

**VV**

Ég þoli ekki nauðgunarmenningu. Ég þoli ekki að þegar talað er um nauðgunarmenningu er umræðan oft afvegaleidd og henni breytt í rökræðu um hvort til sé eitthvað sem heitir nauðgunarmenning. Breytt í hátimbraðar umræður um að „menning“ snúist um eitthvað allt annað, eitthvað siðmenntaðra. Menning er ekki bara eitthvað gott og fallegt. Menning er ekki bara list. Við lifum í samfélagi þar sem í laginu sem er efst á vinsældarlista útvarpsstöðva er sungið „I’ll give you something big enough to tear your ass in two“ og „I know you want it“.

Við lifum í samfélagi þar sem maður gaf út bækur uppfullar af kvenhatri og mannfyrirlitningu og síðan fóru foreldrar með börnin sín í Kringluna að fá eiginhandaráritun hjá honum. Við lifum í samfélagi þar sem ritstjóri þessa manns skrifaði mastersritgerð um listina að koma svona boðskap í gegnum jólabókaflóðið án þess að láta femínískt nöldur halda aftur af sér. Við lifum í samfélagi þar sem það að ég skuli minnast á þetta er talið merki um langrækni og að ég sé að viðhalda vandamálinu með því að halda áfram að tala um þessa menn. Af því þeir hafa þroskast? Af því ef ég myndi þegja þá myndu allir hætta að hugsa um þá? Af því ef við, sómakæra fólkið, virðum þá ekki viðlits þá muni enginn hlusta á þá?

Snjallt, I see what you did there; það er mér að kenna að Húkkaraballið var svona vinsælt og að þar með fékk maðurinn sem aldrei hefur einlæglega beðið afsökunar á hatursboðskap eða virkilega gert uppgjör við „skálduðu“ persónuna Gillzenegger enn meiri athygli en ella og hélt uppi enn meira fjöri.

Og það blasir við að auðvitað er ég bara á móti Vestmannaeyjum og er, af einskærri öfund, að reyna að skemma fyrir stemmningunni á þessari fjölskylduhátíð. Fjölskylduhátíð þar sem trónir risastór Tuborg-auglýsing á sviðinu og fyrirmyndin DJ Muscleboy leyfir okkur að njóta góðs af sínu næma tóneyra og við getum öll dáðst að ótvíræðum hæfileikum hans á sviði remixunar. Þar var svo sannarlega hæfasti maðurinn fenginn til verksins. Ekki að þetta skipti máli því allir og amma þeirra fóru í skærbleikan bol og sönnuðu þannig að þeir væru ekki hlynntir nauðgunum. Er það ekki nóg fyrir okkur femínistabeljurnar?

Já og við lifum í samfélagi þar sem fjölmiðill birtir fyrirsögnina „Logið til um nauðgun?“ og hefur opið fyrir athugasemdir. Já, ég er víst orðin hluti af vandamálinu ef ég minnist á viðhorfin sem birtast með þessu. Af því að við höfum náð svo langt í baráttunni að pólitíkusar fá prik fyrir að segjast vera á móti nauðgunum. Vá, þvílíkir öðlingar! Hættum bara að tala við þessa sem segja ógeðslegu hlutina. Látum eins og þeir séu ekki til. Það virkar svo vel. Svona eins og hérna áður fyrr, þegar við létum eins og nauðgarar væru ekki til. Af því að það var svo skilvirkt. Eða bíddu… ha?

Við lifum í nauðgunarmenningu. Fjölda fólks er nauðgað á hverju ári. Í hverjum einasta mánuði. Markmið okkar á ekki að vera að fækka nauðgunartilkynningum. Markmið okkar á að vera að fækka nauðgunum. Öllum nauðgunum, ekki bara þeim sem eru kærðar. Ekki bara þeim sem fá þann gæðastimpil frá dómskerfinu að þær teljist sannaðar samkvæmt lagatæknilegum kröfum. Til þess að þetta geti orðið er ekki nóg að bæta menntun grunn- og framhaldsskólanema. Það er ekki nóg að við sýnum gott fordæmi með því að vera alltaf kurteis. Sannleikurinn er sá að þegar við stöndum upp og gerum athugasemdir við hatursorðræðu finnst mörgum það óþægilegt. Það er óþægilegt þegar við segjum einhverjum að brandarinn hans sé ekkert fyndinn heldur ýti undir normalíseringu kynferðisofbeldis. Það er óþægilegt að benda á að einhver hafi gert eitthvað sem framkallaði endurlit hjá þolanda kynferðisofbeldis. Stundum er bara þægilegast að forðast vandræði og segja ekki neitt.

En hverju skilar það? Hvaða fordæmi gefur það þeim sem þurfa að safna hugrekki til að setja öðrum mörk í kynlífi? Eða þeim sem þurfa að virða þessi mörk?

Mér var nauðgað. Ég þekki fullt af fólki sem hefur verið nauðgað. Þetta voru alvöru nauðganir, við vorum ekki að reyna að hefna okkar eða græða pening eða neyða einhvern í hjónaband. Þau okkar sem fengu áfallastreituröskun eru ekki að leika eitthvert hlutverk til að sýnast trúverðugri. Við ákváðum ekki að fórna lífsgæðum okkar til þess að setja á svið einhvern brandara. Þetta er fokking ömurlegur veruleiki og það að segja frá honum er ekki fórnarlambsvæðing.

Auðvitað er óþægilegt fyrir ykkur að heyra um það, auðvitað er það ekki „hresst“, en vitið þið hvað? Við þurftum að lifa þetta og lifa með afleiðingunum. Svo sorrí, krakkar, ef byltingin okkar er ruddaleg og ókurteisleg. Sorrí að einhverjir hafi misst þolinmæðina og ákveðið að berjast við eld með eldi. Sorrí að þeir sem mótmæla nauðgunarmenningu noti ekki allir sömu aðferðina og sorrí, stundum er bara svo mikið ógeð þarna úti að einhverjir fá nóg og ranta um ofbeldið sem viðgengst og nota ekki spariorðin. Sorrí að þessi texti er ekki blómaskreyttur og að ég skuli ekki vitna í Gandhi. Sorrí að martraðir mínar um ofbeldið sem ég var beitt gera mig stygga og þess vegna nenni ég ekki alltaf að vera yfir það hafin að vera reið og skammast.

Að lokum: Fokkaðu þér, Moggi, fyrir að birta þessa ógeðslega smekklausu „skopmynd“ í blaðinu ykkar einmitt á þeim tíma árs þegar fjöldi þolenda sem hefur verið nauðgað í tjaldi á um sárt að binda. Flott drusluskömmun.

nauðgunarbrandari

 

 

 

32 athugasemdir við “Kurteisa byltingin

 1. Gudny – takk. Thetta er otrulega tharfur pistill, og vel skrifadur Mer finnst eg naer daglega standa i thvi ad reyna ad sanna fyrir folki ad vid lifum og hraerumst i naudgunarmenningu (sem aetti ad vera ollum augljost) – eg mun vitna i thessa grein i framtidinni til ad audvelda barattuna.Takk aftur.

 2. Þessi pistill er svolítið slagorðakenndur og hefur þann tilgang að vera töff og þó sannur rínandi. Svo stendur: – „Við lifum í samfélagi þar sem maður gaf út bækur uppfullar af kvenhatri og mannfyrirlitningu“…- Þetta samfélag þekki ég ekki. Mér finnst þú ritari búa það til svo þú getir skotið á það.

  • Þú ert í forréttindahóp kæri Jónas. Njóttu þess. Við sjáum hlutina eins og við erum sjálf, ekki eins og þeir eru í raun. Þannig að orð þín´lýsa vel einstaklingi sem hefur ekki upplifað það sem Guðný „slagorðaritarinn“ lýsir.
   Þetta er veruleiki sem engum langar að þekkja og þeir sem þekkja hann reyna að gera allt til þess að aðrir kynnist honum ekki af eigin raun.
   Takk fyrir að deila þinni reynslu um slagorðakennt líf þar sem þú málar mynd af þínum veruleika og skýtur á þá sem hafa annann.

  • Það er orðið lenska hjá róttækum femínistum í umræðunni um jafnréttismál að ef fólk samþykkir ekki orðræðu, aðferðafræði og/eða nálgun þeirra á viðfangsefni, þá er maður strax settur í „hitt hornið“. Allt er svart/hvítt. Fólk er „með“ alla leið, 100%, annars er það „á móti“. Þessi lenska kristallaðist í skrifum Maríu Lilju Þrastardóttur gegn Davíð Þór fyrir nokkru síðan. Hún kallaði hann nauðgaravin, lögbrjót og talsmann vændis, bara vegna þess að hann efaðist um aðferðafræði Stóru systur. Ég vona að þetta útspil núna um „nauðgunarmenningu“ verði ekki á þessum nótum. En ég sé að það er þegar farið af stað í þessa átt, Jónasi er „hent út“ með sína athugasemd vegna þess að hann skilur ekki neitt, býr við forréttindi etc. Mansplaining greinin hans Gísla hringir hér sterkt. Karlmaður sem ekki er sammála feíminsta á að vera úti! Þegja. Og bara taka við hinum heilaga sannleik frá róttækum femínistum án þess að mögla.

   Þetta er roooosalega þreitt leið til skoðanakúgunar og mun aldrei nokkurn tíma virka.

  • Mér finnst ég greina kaldhæðni í þessu commenti þínu. Ef það er rétt hjá mér að þetta sé kaldhæðni, geturðu þá útskýrt í hverju skorturinn á umburðarlyndinu felst í þessari grein?

   • Þetta var kaldhæðni, já. Mér finnst ekki vera „nauðgunarmenning“ hér á Íslandi og mér finnst í lagi að ég fái að trúa mínum eigin skoðunum hvernig samfélagi við lifum í. En ég vernda hinsvegar rétt allra annara til að hafa sínar eigin skoðanir sem er nákvæmlega ekki hér þar sem aðeins ein skoðun er rétt og allir aðrir hafa rangt fyrir sér og eins gott að láta þá vita! Kannski þú ættir að mansplaina þetta fyrir mér þar sem ég er hvítur karlmaður og skil þá ekkert.

   • Það að þér finnist ekki vera nauðgunarmenning hér á landi þýðir ekki að hún sé ekki til staðar. Ég held að þú ættir að vera í aðeins minni vörn og velta fyrir þér hvernig það væri að vera kona og lifa í þeim raunveruleika sem þessi grein er að lýsa.

   • Kæri Gunni,

    Ef *þér* finnst ekki vera nauðgunarmenning hér á Íslandi þá er það þín upplifun og þar sem ég hef hvorki rafræna dáleiðsluhæfileika né galdramátt þá getur þú verið óhræddur um að ég hafi vald til að breyta þínum skoðunum frekar en þú vilt sjálfur. Það breytist ekkert þó ég tjái mig um mína upplifun og mína skoðun án þess að pakka þeim inn í gjafaumbúðir.

    Knúzið fer ekkert leynt með að það er femínískt vefrit svo það þarf ekki að koma þér á óvart að ef þú álpast hingað inn að þá munir þú rekast á femínískar skoðanir. Það er frekar reglan en undantekningin á femínískum vefsvæðum. Sem betur fer fyrir þig þá er enginn skortur af svæðum á internetinu þar sem öðruvísi skoðanir fá að blómstra.

    Hins vegar finnst *mér* og mörgum öðrum að nauðgunarmenning sé áberandi á Íslandi sem og á öðrum stöðum. Líklegt er að ólíkur bakgrunnur okkar og reynsla hafi áhrif á okkar upplifun á menningunni í kringum okkur. Það kemur mér ekki á óvart að þú upplifir ekki áhrif nauðgunarmenningu á eigin skinni dagsdaglega.

    Takk samt fyrir að taka þér tíma til að lesa pistilinn minn. Þér er velkomið að vera ósammála líkt og mér er velkomið að tjá mínar skoðanir hér á vefsvæði þar sem ég fæ að njóta umburðarlyndis sem ég get ekki notið á mörgum öðrum stöðum á netinu.

    Bestu kveðjur,

    Guðný Elísa

   • Frábært svar Guðný! 🙂 Ég hef samt alltaf gaman að pistlunum hérna því það er alltaf hollt að skoða önnur sjónarmið og ég hef lært ansi margt um sjálfan mig og hvernig ég hef hagað mér í kringum kvenfólk. Þannig vona að þetta hafi ekki komið of harkalega út hjá mér. Bestu kveðjur, Gunni

   • Sem betur fer eru flestir karlmenn góðar manneskjur sem bera virðingu fyrir konum og öðrum sem eru berskjaldaðir fyrir nauðgun af mismunandi ástæðum. Gott dæmi er skipuleggjandi Eistnaflugs. Sem og margir karlkyns femínistar sem láta heyra í sér á opinberum vettvangi. En það eru ekki allir og hinir kóa með þeim og samþykkja slíka hegðun með þögninni og að upphefja þá, eins og Húkkaraballið. Lögreglustjórinn í Eyjum gefur frá sér yfirlýsingu og segir hátíðina hafa gengið „stórslysalaust“ fyrir sig. Við lifum í nauðgunarmenningu vegna þess að í heildina kóar samfélagið okkar of mikið með gerendum og þeim sem eru með hatursáróður í garð kvenna. Fjölmiðlar skilja ekki hlutdrægni sína í orðanotkun og ekki einu sinni dómstólar og dómskerfið er meðvitað um hlutdrægni sína og fordóma. Við búum í nauðgunarmenningu því að við setjum lög ofar siðferðislegum gildum. Auðvitað eru allir sammála um fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð, að saklausir séu ekki dæmdir. En við verðum að finna lausn að því hvernig við getum verndað samborgara okkar gegn nauðgunum og kúgun í formi hatursáróðurs og ofbeldis. Ef ég ætti barn myndi ég aldrei leyfa því að fara á útihátíð í Vestmanneyjum. Og um leið og barnið væri komið með aldur til þess að ráða sér sjálft þá myndi ég gráta mig í svefn af hræðslu alla helgina ef barnið ákveddi að fara til Eyja. Því ég treysti ekki skipuleggjendum hátíðarinnar til þess að setja velferð barnsins míns og annarra hátíðargesta í forgang. Hagsmunirnir eru of miklir fyrir bæjarfélagið og hátíðina sjálfa.

  • Það er greinilega búið að taka hana út, ég finn hana hvergi. Mig minnir 99% að hún hafi verið á DV.is, allavega var opið kommentakerfi og viðbjóðsleg komment þar. Ég tók því miður ekki skjáskot, var svo miður mín eftir lestur kommentanna að ég treysti mér ekki til að opna þessa grein aftur.

   • Hæ Salka og Bjarni, við erum búin að laga skv. ábendingum ykkar. Gott að hafa vakandi fólk, takk. Knúzkveðja

   • Þar sem athugasemdir er ekki lengur að finna hefði hugsanlega mátt skýra nánar hvernig athugasemdir hefði mátt finna þar sem ekki sögðu meira um þann er þær skrifaði en þolendur nauðgana.

    Er alvarleiki þess að ljúga til um nauðgun með einhverjum hætti aðskilinn alvarleika nauðgana ?

    Ég sé ekki hvernig þolendur nauðgunar geta umborið að það finnist einhver sem hefur í sér að bera ljúgvitni um nauðgun. Einhver sem ekki skilur alvarleikan. Hvort sem um er að ræða á líf þess sem fyrir slíku verður, óvirðinguna við raunverulega þolendur nauðgunar og svo hvað það veikir kröfu okkar feminista um að fólk þolendur njóti vafans á þeim forsendum að það á að vera óhugsandi að einhver ljúgi upp á annan nauðgun.

    Misvitru einstaklingarnir í kommentakerfinu eru áhyggjuefni nauðgunarmenningarinnar, en að það skuli finnast einstaklingur sem ber annan ljúgvitni um svo hræðilegan glæp er það ekki. Er ekki vandamál nauðgunarmenningarinnar að skilja ekki alvarleika glæpsins?

    Getur einhver útskýrt það fyrir mér án fara að bendla mig við þá sem hafa sagt eitthvað ógeðfellt í þessu kommentakerfi Dv.is ?

 3. Oh, ég elska þennan pistil. Það er oft virkilega óþolandi að þurfa alltaf að kyngja öllum skítnum og reyna að sýna fram á sitt sjónarhorn móti gjörsamlegu skilnings- og/eða tillitsleysi þegar það virðist ekki skila neinum árangri. Taka má bresku súffragetturnar Emmeline og Christabel Pankhurst sem dæmi um það.

  Þú ert yndi, haltu áfram að vera reið (það eru okkar innri viðvörunarbjöllur um að eitthvað sé í ólagi). 😉

 4. Örvæntið ekki, réttlætið finnur sér alltaf að lokum farveg eins og í eftirfarandi dæmisögu H.C.Andersen:
  Storkarnir

  Uppi á ysta húsinu í þorpi nokkru höfðu storkar gert sér hreiður, og sat storkamóðirin í því með fjóra unga sína, og teygðu þeir fram kollana með svört nefin, því enn voru þau ekki orðin rauð eins og á foreldrunum. Skammt þaðan stóð storkapabbi á húsmæninum bísperrtur. Og til þess að það sæist, að hann væri ekki iðjulaus, þá hafði hann kreppt upp undir sig annan fótinn og stóð á hinum eins og í varðstöðu. Hann stóð þarna hreyfingarlaus, eins og hann væri útskorinn úr tré. „Það er heldur en ekki höfðingjamót á þessu,“ hugsaði hann, „að kona mín hefur höfuðvörð hjá hreiðri sínu. Ekki vita þeir, að ég er maðurinn hennar, og munu þeir víst halda, að ég sé skipaður hér til að standa vörð; það er eitthvað svo hressilegt til að líta,“ og hann hélt svo áfram að standa þarna á öðrum fæti.

  Á götunni fyrir neðan var heill hópur af börnum, sem voru að leika sér, og jafnskjótt sem þau sáu storkana, þá tók einhver áræðnasti drengurinn í hópnum að syngja gömlu vísuna um storkana, og sungu börnin hana eins og þau mundu hana best hvert um sig:

  Storkur, storkur mæti!
  Statt’ ekki á einum fæti;
  heima hreiðrið bíður,
  hygg að, hvað því líður;

  fljúg þú víf að finna,
  fljúg til unga þinna;
  einn skal hengja,
  annan stengja,
  þriðja þenja og spenna
  og þann hinn fjórða í eldi brenna.

  „Heyrið hvað drengirnir syngja!“ sögðu storkaungarnir, „þeir segja, að það eigi að hengja og brenna okkur.“

  „Kærið ykkur ekkert um það,“ sagði móðirin, „hlustið bara ekki á það, þá sakar það ekkert.“

  En drengirnir héldu áfram og bentu á storkana, allir nema einn. Hann hét Pétur og sagði, að það væri illa gert að hafa dýrin að spotti, og vildi þar hvergi nærri koma. Storkamóðirin huggaði líka unga sína og sagði: „Gefið ekkert um þetta, sjáið þið ekki, hvað hann faðir ykkar stendur rólegur, og það aðeins á einum fæti?“

  „En við erum svo dauðans hræddir,“ sögðu ungarnir og lúpuðu sig niður í hreiðrið.

  Daginn eftir komu börnin aftur til að leika sér, og jafnskjótt sem þau sáu storkana, tóku þau að syngja:

  „Einn skal hengja,
  annan skal brenna.“

  „Á að hengja og brenna okkur?“ spurðu ungarnir.

  „Víst ekki,“ svaraði móðirin, „þið eigið að læra að fljúga. Ég ætla að kenna ykkur það og æfa ykkur. Svo förum við út á engið og heimsækjum froskana. Þeir munu hneigja sig fyrir okkur niður í vatnið, þeir syngja: „hvakk! hvakk!“ og svo étum við þá. Það verður einstaklega gaman.“

  „Og hvað kemur svo?“ spurðu ungarnir.

  „Þá safnast saman allir storkar, sem í landinu eru,“ svaraði móðirin, „og halda haustæfingar sínar. Þá ríður lífið á að geta flogið vel, því ef einhver er sá, sem ekki flýgur almennilega, þá rekur foringinn hann í gegn með nefi sínu. Þess vegna verðið þið að taka ykkur til og vera búnir að læra eitthvað, þegar haustæfingarnar byrja.“

  „Þá verðum við þó stengdir og hengdir eftir allt saman, eins og drengirnir sögðu, og heyrið! – núna syngja þeir það aftur.“

  „Hlustið á mig, en ekki á þá,“ sagði móðirin. „Eftir stóru æfinguna fljúgum við til heitu landanna, en þangað er óravegur héðan yfir fjöll og skóga. Við fljúgum til Egyptalands. Þar má sjá þrístrend steinhús, uppmjó og oddhvött, sem mæna upp yfir skýin. Þau nefnast pýramíðar og eru eldri en nokkur storkur getur ímyndað sér. Fljót er í því landi, sem flæðir yfir, svo allt verður ein aurleðja. Maður veður þar í aurnum og étur froska.“

  „Ó, ó!“ sögðu allir ungarnir.

  „Já, þar er fjarska fallegt. Þar er ekkert gert nema að éta allan daginn, og meðan við erum þar og líður svona vel, þá er ekki nokkurt grænt laufblað á trjánum í þessu landi, og þá er hér svo kalt, að skýin frjósa og falla til jarðar í örsmáum, hvítum hnoðrum.“ Það var snjórinn, sem hún átti við, en hún gat ekki komið greinilegar orðum að því en svona.

  „Frjósa þá slæmu drengirnir líka og detta í stykki?“ spurðu ungu storkarnir.

  „Ekki frjósa þeir nú reyndar, svo þeir detti í stykki, en því sem næst. Þeim verður dauðkalt, og þeir verða að dúsa inni í dimmu herbergi, þegar þið getið flogið út um allt í öðru landi, þar sem sól er og sumar og fullt af blómum.“

  Nú leið og beið, og voru ungarnir orðnir svo stórir, að þeir gátu staðið uppréttir í hreiðrinu og horft víðs vegar, og á degi hverjum kom storkapabbi með væna froska, smáa snáka og allt það storkagóðgæti, sem hann gat komist yfir. Og þá voru þau ekki mjög óskemmtileg, listabrögðin, sem hann lék fyrir þeim; hann vatt höfðinu aftur fyrir sig ofan á stélið, skrapaði með nefinu, svo það var að heyra eins og smábrestir í hrossaskellu, og sagði þeim jafnframt sögur, sem allar voru um fen og mýrar.

  „Heyrið þið!“ sagði móðirin einhvern dag, „nú verðið þið að læra að fljúga,“ – og urðu þá ungarnir allir fjórir að fara út á mæninn. En hvað þeir riðuðu á fótunum fyrst í stað og hvað þeim veitti erfitt að halda sér í jafnvægi með því að baða út vængjunum, svo að þeir steyptust ekki niður á stéttina!

  „Horfið á mig,“ sagði móðirin, „svona eigið þið að bera höfuðið, svona eigið þið að setja niður fæturna; einn, tveir, þrír! Það er þetta, sem á að hjálpa ykkur áfram í heiminum.“ Síðan flaug hún spölkorn frá þeim, og ungarnir fóru að bögglast við að hoppa á eftir henni, en duttu um sjálfa sig, því þeir voru enn svo þungir á sér.

  „Ekki vil ég fljúga,“ sagði einn af ungu storkunum og skreið aftur niður í hreiðrið. „Ég kæri mig ekkert um að komast til heitu landanna.“

  „Viltu þá frjósa hérna í hel, þegar vetrar að. Eiga drengirnir að koma og hengja og brenna og steikja þig? Jæja, nú kalla ég á þá.“

  „Æ, nei!“ sagði unginn og hoppaði aftur út á þakið eins og hinir. Á þriðja degi gátu þeir flogið dálítið og héldu þá, að þeir gætu setið í loftinu og hvílt sig, og það ætluðu þeir að gera, en dump! dump! þeir duttu kylliflatir og urðu svo aftur að taka til vængjanna. Og nú komu drengirnir á götuna fyrir neðan og sungu vísuna:

  „Storkur, storkur mæti!“

  „Eigum við að fljúga ofan og kroppa úr þeim augun?“ sögðu ungarnir.

  „Nei, látið það ógert,“ sagði móðirin, „heyrið heldur, hvað ég segi, á því ríður ykkur miklu meira. Einn, tveir, þrír! nú fljúgum við til hægri handar, og nú til vinstri kringum reykháfinn, svona! þetta var mjög gott. Seinasti vængjaslátturinn var svo einstaklega fallegur og réttur, og því skal ég nú lofa ykkur að fara með mér út í mýrina á morgun. Þar kemur fleira af heldra storkafólki með börn sín. Látið nú á sannast, að ég eigi nettust börnin, og munið að kerra hnakkann; það skartar vel og aflar álits.“

  „En eigum við þá ekki að klekkja á strákunum?“ spurðu ungarnir.

  „Lofið þeim að garga, eins og þeir vilja. Þið fljúgið, hvort sem er, upp til skýjanna, og þið komið til pýramíðalandsins, þegar þeir híma í kuldanum og hafa ekki svo mikið sem eitt grænt laufblað eða eitt sætt epli.“

  „Já, hefnast viljum við,“ sögðu þeir í hljóði hver við annan, og var svo aftur tekið til æfinga.

  Enginn allra drengjanna á götunni, sem sungu háðvísuna um storkana, var verri en sá, sem fyrstur hafði byrjað á því, og var hann þó ekki nema dálítill hnokki, ekki eldri en sex ára eða þar um bil. Ungu storkarnir héldu reyndar, að hann væri hundrað ára, því hann var svo miklu stærri en móðir þeirra og faðir. En hvað mundu líka storkar geta ætlast á um aldur barna eða fullorðinna? Öll hefnd þeirra átti að koma niður á þessum eina dreng, því hann hafði byrjað fyrstur og hélt alltaf áfram. Ungarnir voru ákaflega æstir og ýfðust æ meira að því skapi sem þeir urðu stærri og eldri. Móðirin varð loksins að lofa þeim, að þeir skyldu fá hefnd harma sinna, en gat þess, að ekki mundi hún koma hefndinni í verk fyrr en síðasta daginn, sem þau væru í landinu.

  „Við verðum fyrst að sjá, hvernig ykkur reiðir af við stóra flugprófið. Skyldi ykkur illa takast, svo að foringinn rekur ykkur í gegn með nefinu, þá hafa drengirnir rétt að mæla, að minnsta kosti að nokkru leyti. Sjáum hvernig fer!“

  „Já, sjá skaltu það,“ sögðu ungarnir, og nú höfðu þeir sig alla við og æfðu sig á hverjum degi, svo að loksins var yndi á að horfa, hvað fallega og létt þeir flugu.

  Nú kom haustið, og tóku þá storkarnir allir að safnast saman til að fljúga burt til heitari landanna, til þess að dvelja þar vetrarlangt. Og nú hófst flugprófið. Þeir flugu yfir skóga og borgir til að reyna, hversu vel þeir gætu flogið, því það var löng ferð, sem þeir áttu fyrir höndum. Ungarnir stóðust prófið svo prýðilega, að þeir fengu ágætlega með frosk og slöngu. Það var langbesta einkunnin, því froskinn og slönguna gátu þeir étið, og það gerðu þeir líka.

  „Nú skulum við hefna okkar,“ sögðu þeir.

  „Já, að vísu,“ svaraði móðirin. „Ég hef hugsað mér, hvernig best og réttast sé, að við hefnum okkar. Ég veit, hvar tjörnin er, þar sem öll litlu börnin mannanna felast, þangað til storkurinn kemur og sækir þau handa foreldrunum.[*] Blessuð smábörnin sofa og dreymir svo indæla drauma, að þau dreymir aldrei jafn yndislega síðar meir.

  [* Það er algengt í öðrum löndum, þegar barn fæðist á heimili og börn spyrja, hvernig á því standi, að barnið sé komið, að svara því þá, að „storkurinn hafi komið með það.“]

  Allir foreldrar vilja hjartans fegnir eignast dálítið barn, og öll börn vilja eignast systur eða bróður. Nú skulum við fljúga til tjarnarinnar og sækja ofurlítinn barnunga handa sérhverju þeirra barnanna, sem ekki sungu ótætis háðvísuna um storkana, því hinum skal engra barna auðið verða.“

  „En hann þá, sem byrjaði sönginn, ljóti og slæmi drengurinn,“ görguðu ungu storkarnir, „hvað eigum við að gera við hann?“

  „Það liggur dálítið andvana barn í tjörninni,“ sagði storkamóðirin, „það hefur dreymt sig í hel, og það skulum við taka handa honum; hann verður þá að tárast yfir því, að við höfum fært honum dálítinn dáinn bróður. En ekki munuð þið hafa gleymt góða drengnum, sem sagði, að það væri synd að hafa dýrin að spotti; honum munum við færa bæði bróður og systur. Hann heitir Pétur, og því nafni skuluð þið líka heita allir saman héðan af.“

  Og svo varð sem móðirin hafði fyrir mælt, og hefur Pétursnafnið loðað við storkana allt fram á þennan dag.

 5. Mér finnst svolítið eins og okkur hér sem lesum en skortir innsýn vanti eitthvert samhengi. Af einskærri forvitni: Er það óvarlegt að ætla að pistillinn Kurteisa byltingin, sé innlegg til stuðnings við eða úr sömu átt og myndbandið sem Knúz sá sér ekki fært að birta? Er þetta beiðni um aðrar og síður kurteislegar aðferðir en almennt eru stundaðar? Áskorun um hnikun aðferða? Er rangt að ætla að eitthvað liggi milli línanna?

  Falleg storkasaga!

 6. Þetta er spurning um sjáendur, augu og fókusa. Við búum líka í samfélagi þar sem kynferðisofbeldi er álitið nokkrum sentímetrum til hliðar við mannsmorð í alvarleika og engir glæpamenn eru fyrirlitnir meira en kynferðisbrotamenn. Við búum í samfélagi þar sem reglulega gýs upp reiðibylgja yfir sýknudómum í nauðgunarmálum og talsvert stór hluti þess virðist alltaf sannfærður um sekt ákærða. Við búum líka í samfélagi þar sem sífellt er hamrað á því að kynferðisofbeldi sé það allra versta sem komið geti fyrir manneskju og er á sama tíma alltaf að víkka út skilgreininguna á kynferðisofbeldi. Við búum í samfélagi þar sem þónokkur fjöldi fólks fer í langsóttar túlkanir og lúsarleit að meintum undirtónum kynferðisofbeldis í sem flestum menningarafurðum, ekki bara okkar tíma heldur einnig í gömlum dægurlögum og ljósmyndum.

  Við lifum í samfélagi þar sem heill fjölmiðill er lagður undir kynningu á druslugöngunni í um viku tímabil áður en hún fer fram. Við lifum í samfélagi þar sem stuttmyndin „Fáðu Já“ er sýnd í öllum grunn- og framhaldsskólum. Ég þykist fylgjast nokkuð vel með umræðu og undanfarinn áratug get ég talið á fingrum í mesta lagi beggja handa hversu oft ég hef heyrt því viðhorfi fleygt að konur geti sjálfum sér kennt um nauðgun fyrir að vera í stuttu pilsi eða of fullar. Hins vegar er það teljandi á hundruðum handleggja hversu oft ég hef heyrt í einkasamtölum, blaðagreinum, druslugöngum, sjón- og útvarpi að þetta sé brenglað viðhorf (sem það er) og líka að það sé gríðarlega útbreytt í samfélaginu (sem ég er ekki alveg jafn viss um). Það er hægt að velta fyrir sér hvort að botnfallið í athugasemdakerfum sé endilega besta úrtakið fyrir samfélagið.

  Fólk er barið reglulega allt árið um kring. Oft hef ég heyrt sagt við stráka sem hafa verið barðir: „Af hverju hljópstu ekki bara í burtu? Af hverju varstu að svara fyrir þig og rífast á móti?“ Aldrei kemur neinn sem þá öskrar „ERTU AÐ VARPA SÖK Á ÞOLENDA?? OFBELDI ER ALLTAF Á ÁBYRGÐ GERENDANS!!!“ Oft eru sagðir brandarar sem innihalda barsmíðar og líkamsárásir en engum dettur í hug að segja að með því sé verið að „normalísera líkamsmeiðingar,“ „gera lítið úr fórnarlömbum barsmíða,“ og hvað þá að „viðhalda líkamsárásamenningu.“

  En þetta er bara mitt auga og upplifun, þetta Gillz mál er mjög krípí frá a til ö, en mér finnst hugtakið nauðgunarmenning nokkuð vel í lagt. Ætli við búum ekki bara í mótsagnamenningu. Er svo alveg sammála um fáránleika þeirrar kröfu að byltingar þurfi að vera kurteisar og penar, það er ekkert að því að öskra dónalegum orðum í átt að óréttlæti.

  • Það er margt í þessum pistli þínum, Sigurður.

   Fyrst talarðu um skrímslavæðingu geranda, og það vill svo skemmtilega til að höfundur þessa pistils skrifaði einmitt pistil um þessa skrímslavæðingu. Mig grunar að sá pistill gæti komi þér á óvart:
   http://knuz.is/2012/11/12/viltu-lata-drepa-skrimslid-eda-eigum-vid-ad-bjoda-honum-kaffi/

   Svo ferðu að tala um lúsleit að kynferðislegu ofbeldi í menningarafurðum. Ég veit ekki alveg hvaða dæmi þú hefur í huga, en mér finnst persónulega hlutgerving kvenna vera eitthvað sem er minnkandi fyrir bæði konur og karla og full ástæða til að vekja athygli á henni, frekar en að leyfa auglýsendum að ganga lengra og lengra í því að höfða til einföldustu hvata gagnrýnilaust.

   Það eina sem ég hef að segja um viðhorfið til þess að konur geti sjálfum sér um kennt er að ég hef heyrt nokkrar sögur frá þolendum um slíkt viðhorf frá lögreglu (mér skilst þetta sé á undanhaldi en ég lít svo á að það sé einmitt stanslausum femínískum áróðri að þakka) og svo sé ég þetta viðhorf trekk í trekk í kommentum á feisbúkk hjá þeim ættingjum og kunningjum mínum sem eru í menntaskóla. Þannig að mér finnst þessi barátta svo sannarlega eiga rétt á sér og það má alltént ekki sofna á verðinum

   Ég veit svo ekki alveg með þetta með fórnarlömb barsmíða. Ég hef tvisvar sinnum orðið fyrir grófu ofbeldi niðri í bæ og fann aldrei fyrir neinu sambærilegu við slutshaming. Bara ekki neitt. Hins vegar ef þetta er orðið algengt viðhorf þá er að sjálfsögðu full ástæða til þess einmitt að bregðast við því á þann hátt sem þú segir að engin geri. Ég trúi því og treysti að femínistar séu almennt í þeim hópi fólks sem myndi gera það. Þetta er ekkert us-vs-them. Það hallar ekkert á karlmenn þó femínistar einbeiti sér að því að uppræta slutshaming.

 7. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

 8. Bakvísun: Kvennabylting – Gegn #þöggun | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.