Ha, 100 vændismál?

Höfundur: Ingimar Karl Helgason

„Ég var vændiskona og réttindalaus. Konan sem keypti mig sótti mig á flugvöllinn og fór með mig í kjallaraherbergi í úthverfi Reykjavíkur þar sem ég hitti minn fyrsta kúnna sama dag.“

Þetta kom fram í viðtali við erlenda konu í DV í byrjun síðasta árs. Hún var kynlífsþræll í kjallara í Reykjavík. Hún var svipt frelsi sínu, keypt og flutt hingað til að stunda vændi. Þessar fáu línur lýsa skelfingu og hryllingi.

Svona frásögn leiðir hugann að vændismálum sem koma til kasta réttarvörslukerfisins og mansali í tengslum við vændi. Ljóst er að það viðgengst hér á landi.

„Leiddu ekki í ljós að mansal færi fram …“

Ég mundi eftir þessari umfjöllun DV þegar fjölmiðlar birtu nýlega fréttir úr skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi. Í skýrslunni segir nefnilega að engin merki hafi fundist um mansal í tengslum við vændi hér á landi í fyrra. Það er áhugavert út af fyrir sig, þótt ekki væri nema í ljósi frásagna eins og þeirrar sem birtist í DV. Í skýrslunni segir:

Rannsóknir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu haustið og veturinn 2012 leiddu ekki í ljós að mansal færi fram í umdæminu. Hið sama er að segja um þær rannsóknir sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagst í vegna vændis. Í um 100 málum sem til skoðunar hafa verið hafa ekki komið fram vísbendingar um að vændiskonur sem hér starfa séu fórnarlömb mansals. Hins vegar er ljóst að grunur leikur á að mansal kunni að fara fram hér á landi. Á það einkum við um höfuðborgarsvæðið og Suðurnes.

Hér er greint frá eitthundrað vændismálum sem verið hafa til skoðunar. Það er ekki ólöglegt að stunda vændi hér á landi. Vændiskaup eru hins vegar ólögleg, eins að hafa viðurværi af vændi annarra. Málin hljóta því að hafa verið af slíku tagi.

Það lætur nærri að þriðja hvern dag hafi vændismál komið til kasta lögreglunnar. Þess vegna varð ég dálítið hissa, því þegar ég las þetta mundi ég varla eftir nokkurri frétt eða umfjöllun um ákæru eða dóma í vændismálum í fyrra.

Fjallað var um nokkur vændiskaupamál fyrir fáum misserum. Það var í fyrsta sinn sem ákært var fyrir vændiskaup. Þetta voru fá mál. Refsingar þeirra sem sakfelldir voru námu nokkrum tugum þúsunda. Nöfn þeirra voru ekki birt. Bent hefur verið á að það dregur verulega úr fælingarmætti laganna. Sumir voru sýknaðir því konurnar sem þeir keyptu vændið af voru farnar úr landi.

Fá mál

En í ljósi þess að lögreglan segist hafa rannsakað hundrað vændismál, ákvað ég að fara yfir fréttir síðasta árs. Ég sló inn leitarstrenginn „vænd*“ í leitarvél Fjölmiðlavaktarinnar. Þannig fékk ég upp allar fréttir þar sem þessi orðhluti kemur fyrir, í öllum beygingarmyndum og samsetningum. Ég afmarkaði tímabilið við allt síðasta ár.

Margir tugir frétta um vændi og mansal komu upp við leitina. Það var hins vegar aðeins í fáum tilvikum sem umfjöllunin tengdist virkum rannsóknum lögreglu, ákærumeðferðum eða dómum.

Athygli vakti skilorðsbundinn dómur yfir manni á Akranesi sem hafði keypt vændi af fjórtán ára pilti sem var í vímuefnaneyslu. Greint var frá því að tveir menn aðrir væru grunaðir um að hafa keypt vændi af sama pilti. Fréttablaðið greindi í byrjun febrúar frá grunsemdum um að fullorðinn maður reyndi að kaupa sextán ára stúlku til lags við sig. Einnig var greint frá dómi í Hæstarétti þar sem maður var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að nauðga konu sem hann vildi kaupa af vændi. Svona fimm mál í allt.

Nú er ekki útilokað að mér hafi sést yfir eitthvað, en í stuttu máli sagt fann Fjölmiðlavaktin ekki fleiri mál sem tengjast vændi eða vændiskaupum sem höfðu komið til kasta réttarvörslukerfisins á síðasta ári.

Mikil umfjöllun engu að síður

Enda þótt lítið hafi verið sagt frá rannsóknum lögreglu, ákærum eða dómum í vændismálum í fyrra, þá var töluvert mikið fjallað um vændis- og mansalsmál í fjölmiðlum, bæði af innlendum og erlendum vettvangi. Ég stikla á stóru en mörg málanna eiga það sameiginlegt að þeir sem hafa leyft sér að fjalla um eða minnast á vændi, hafa sætt hótunum um lögsóknir.

Stóru systurnar.

Stóru systurnar.

Samtökin Stóra systir vöktu athygli á vændiskaupum og færðu lögreglu upplýsingar um menn sem föluðust eftir vændi. Þær uppskáru í kjölfarið nafnlausar hótanir um lögsókn.

Sama var uppi á teningnum hjá sjónvarpsmanninum Sölva Tryggvasyni sem fjallaði um vændi á Skjá einum. Honum var líka hótað málsókn vegna þátta sinna.

Kona greindi frá því um mitt árið að nokkrir menn hefðu ætlað að selja sig í vændishús í Brasilíu. Hún flúði frá mönnunum frá Hollandi og hingað til lands. Einn mannanna lýsti því strax yfir að hann ætlaði að kæra konuna fyrir meiðyrði og hugsanlega fjölmiðla einnig fyrir að miðla sögu hennar.

Einnig var fjallað um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli tveggja blaðakvenna sem höfðu verið dæmdar hér á landi fyrir meiðyrði með umfjöllun sinni um vændi og mansal á íslenskum nektarstöðum. Þær voru sýknaðar af öllum ávirðingum.

Fleiri dæmi

Í Kastljósi Sjónvarpsins og öðrum fjölmiðlum einnig var fjallað um nígerískar konur sem að líkindum voru fluttar hingað mansali til að stunda vændi. Þær fengu inni í Kristínarhúsi.

Einnig hóf fréttastofa Stöðvar 2 mikla umfjöllun þar sem sænska leiðin svonefnda var mikið gagnrýnd. Hún er í stuttu máli fólgin í því að ábyrgð af vændinu er færð á herðar kaupandanum. Það er ekki refsivert að selja vændi, það er refsivert að kaupa það.

Í umfjölluninni kom meðal annars fram að forsvarsmenn lögreglu telji sænsku leiðina ekki virka. Koma þyrfti á trausti milli vændisfólks og lögreglu. Ekki var skýrt hvernig slíku trausti yrði komið á, ef litið væri á vændisfólk sem lögbrjóta, eins og tilfellið var fyrir tíma sænsku leiðarinnar. Enda var á það bent að ástæðulaust væri að breyta lögunum. Þeim þyrfti hins vegar að framfylgja.

Melludólgur í viðtali

Sú áskorun til lögreglunnar leiðir okkur að áhugaverðri umfjöllun Pressunnar. Vefmiðillinn komst í samband við melludólg sem flutti konur hingað til lands, við annan mann, og gerði út í vændi. Í kjölfarið birtust nokkrar fréttir sem byggðu á viðtölum við manninn og viðbrögðum við orðum hans. Þar kom meðal annars þetta fram:

Hann þvertekur fyrir að um mansal sé að ræða en viðurkennir jafnframt að hann geti þó ekkert fullyrt um það. Hann og félagi hans hafi verið í samskiptum við erlenda aðila sem séu milliliðir um komu þessara kvenna til landsins.

Sagði í umfjöllun Pressunar. Einnig kom fram í annarri frétt Pressunnar að stúlkur sem maðurinn seldi hérlendis hefðu verið seldar áfram. Jafnvel hefði verið um að ræða börn. Sextán ára stúlka hafi verið flutt hingað og gengið kaupum og sölum.

„Sú yngsta var 16 ára og kaupandinn er vel þekktur athafnamaður. Þú veist alveg hver það er og það vita það allir. Þessir kallar eru engir englar ef þú heldur það.“

Hvað er þetta annað en barnaníð, mansal og vændiskaup? Allt siðlaust og löglaust.

„Við erum ekki þeir stærstu á markaðnum. Það eru aðrir mun stærri en við.“

bætir þessi maður við í samtali við Pressuna, en hann kom ekki fram undir nafni.

Fjölmiðillinn hefur haldið trúnað við heimildarmann sinn. En svona frásagnir virðast ekki gefa lögreglunni tilefni til að aðhafast. Um mitt árið greindi Smugan frá því að enginn hefði verið handtekinn fyrir vændiskaup í tvö ár.

Hvernig má að vera að lögregla komi hvergi auga á mansalið, sem hún þó viðurkennir að líklega sé fyrir hendi? Hvert var tilefni þeirra 100 mála sem komu til hennar kasta í fyrra? Hver voru afdrif málanna? Eru þessi mál ekki miklu miklu fleiri, enda þótt lögreglan sé víðs fjarri?

Lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir áhugaleysi í þessum málum. Lengi hefur þess verið beðið að sérstakt lögregluteymi í þessum málum hefji störf.

En af hverju stafar áhugaleysið? Það er hreinlega eins og það sé þegjandi samkomulag í samfélaginu um að karlar eigi að geta keypt vændi í friði, þrátt fyrir að skilaboð löggjafans gætu ekki verið skýrari.

Hvers vegna hafa dæmdir vændiskaupendur ekki verið nafngreindir? (Ef einhver ætlar að halda því fram að kaup á vændi séu „eðlileg viðskipti“ þá ættu slík viðskipti varla að vera feimnismál, eða hvað? Meira að segja eftirlýstir eiturlyfjasalar skammast sín fyrir að tengjast mansali og vændi.)

Bara djók?

Það er þess vegna forvitnilegt að líta á nokkrar fréttir sem gefa mikilvægar vísbendingar um viðhorf til vændiskvenna sérstaklega.

Nú er staðan þannig að hér á landi er það vændiskaupandinn sem er glæpamaður, ekki sá sem selur honum vændi. Fólk í vændi er gert að aðhlátursefni eða jafnvel athugasemdalítið fjallað um fólk sem hluti, eins og þessi frásögn af Pressunni, um brasilískan raunveruleikaþátt þar sem til stóð að selja meydóm ungrar stúlku:

Ástralskur kvikmyndagerðarmaður hefur fylgt stúlkunni eftir síðustu mánuði og gert málinu skil. Samkvæmt frásögn hans verður stúlkan afmeyjuð um borð í flugvél á milli Ástralíu og Bandaríkjanna til að forðast ákæru.

Einnig birtist á Pressunni frétt um bandaríska vændiskonu sem seldi sig fyrir máltíð. Engar ályktanir voru dregnar í fréttinni um aðstæður þess sem þetta gerir, heldur var tónninn í fréttinni frekar þannig að hæðast að konunni fyrir að selja sig fyrir svo lágt verð.

Þegar þarna var komið sögu var Christine Baker, áhugamanneskja um ostborgara, handtekin, grunuð um vændi. Henni er gert að mæta fyrir rétt 1. maí næstkomandi, en ekki er vitað til þess fyrr að tveir tvöfaldir ostborgarar hafi verið skiptimynt í viðskiptum af þessu tagi.

Ég gæti nefnt til viðbótar bullfrétt af sama miðli, þar sem talað var um baráttu sænsku lögreglunnar við vændiskonur. Fréttin er raunar úr sænskum miðli, sem virðist jafn grunlaus og Pressan um að ekki er ólöglegt að selja vændi í Svíþjóð. Það er ólöglegt að kaupa það.

Samantekt

Hér voru birtar mikilvægar vísbendingar um viðhorf. Það er litið niður á vændiskonur og aðra sem stunda vændi. Kaup á vændi eru refsiverð en nöfn hinna dæmdu eru aldrei birt. Gerendur líta á mansal og vændi sem markað, þar sem meira að segja börn eru til sölu. Lögreglan segist hafa fengið hundrað vændismál inn á borð hjá sér, en svo ekki söguna meir. Við fáum fjölmargar frásagnir af grófu mansali, en lögreglan virðist ekki eiga nein úrræði. Þeim sem leyfa sér að tala um vændi og mansal er gjarnan hótað málsóknum.

Björgvin Björgvinsson, yfirlögregluþjónn í kynferðisbrotadeild lögreglunnar segir þetta í apríl í fyrra:

Það kemur mér ekki á óvart að eftirspurn eftir vændi sé mikil. Mál tengd vændi hafa ekki verið inni á okkar borði og þessi mál eru ekki í forgangi hjá okkur. Þetta eru mál sem þyrfti að vinna betur í en til þess þarf auðvitað peninga og mannskap.

Nú. Hvaðan komu þá þessi hundrað mál? Og hvert fóru þau?

 

Ein athugasemd við “Ha, 100 vændismál?

  1. Bakvísun: Ha, 100 vændismál? | Ingimar Karl Helgason

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.