Gátlisti forréttindakarlmannsins

tékkBarry Deutsch, sem bloggar undir nafninu „Ampersand“, hefur tekið saman þennan lista og uppfærir hann reglulega. Innblásturinn kemur frá Peggy McIntosh, prófessor við Wellesley College, en hún skrifaði ritgerðina „White Privilege: Unpacking the Invisible Knapsack“ árið 1990. Í ritgerðinni segir hún að hvítum Bandaríkjamönnum sé „kennt að sjá kynþáttahatur einungis í einstökum tilvikum af kvikindisskap, en ekki í ósýnilegum kerfum yfirráða yfir mínum hópi“. Til að sýna dæmi um þessi ósýnilegu kerfi setti Peggy McIntosh saman lista yfir 26 ósýnileg forréttindi sem hvítt fólk nýtur. Hún benti einnig á að karlmenn séu gjarnan ómeðvitaðir um forréttindin sem þeir njóta vegna þess eins að vera karlmenn og Barry Deutsch ákvað að bæta úr því.

Gátlisti forréttindakarlmannsins

  1. Ef ég sæki um starf eru mjög góðar líkur á því að ég verði ráðinn fremur en þeir kvenkyns umsækjendur sem ég keppi við. Þeim mun æðri sem staðan er, þeim mun meiri eru líkurnar mér í hag.
  2. Ég get verið nokkuð viss um að samstarfsfólk mitt muni ekki halda að ég hafi fengið starfið vegna kynferðis míns – jafnvel þótt það kunni vel að vera tilfellið (frekari upplýsingar hér).
  3. Ef ég fæ ekki stöðuhækkun er það ekki vegna kynferðis míns.
  4. Ef mér gengur illa í starfi eða á framabrautinni get ég verið viss um að það verður ekki notað sem sönnun fyrir almennu vanhæfi allra kynbræðra minna.
  5. Ég á mun síður á hættu að verða fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni en samstarfskonur mínar (frekari upplýsingar hér).
  6. Ef ég inni af hendi sama verk og samstarfskona mín og matið á störfum okkar er ekki algjörlega hlutlægt er líklegt að fólk muni almennt telja að ég hafi unnið verkið betur.
  7. Ef ég er kominn á unglingsaldur eða fullorðinsár eru líkurnar á því að mér verði nauðgað tiltölulega litlar, svo fremi sem ég lendi ekki í fangelsi (frekari upplýsingar hér).
  8. Að öllu jöfnu er mér mun síður innrætt en konum að ég eigi að óttast að vera á ferli eftir myrkur á venjulegum, opinberum svæðum.
  9. Ef ég kýs að eignast ekki börn mun enginn túlka það sem svo að mig skorti karlmennsku.
  10. Ef ég eignast börn en er ekki aðalumönnunaraðili þeirra verður það ekki túlkað sem svo að mig skorti karlmennsku.
  11. brad pitt superdadEf ég eignast börn og annast þau til jafns við eða meira en móðirin verður mér hrósað fyrir að vera einstaklega gott foreldri, jafnvel þótt ég sýni ekki nema lágmarkshæfni við umönnunina (frekari upplýsingar hér).
  12. Ef ég eignast börn og sækist eftir starfsframa mun enginn álíta mig eigingjarnan fyrir að vera ekki heimavinnandi.
  13. Ef ég sækist eftir pólitísku embætti er afar ólíklegt að fjölmiðlar muni fjalla ítarlega um samband mitt við börnin mín eða hvers konar aðstoðarfólk ég ræð til að annast þau.
  14. Ríkisstjórn Tékklands, í apríl 2010

    Lýðræðislega kjörnir fulltrúar mínir í opinbera geiranum eru að stórum hluta fólk af sama kyni og ég. Þetta verður enn líklegra eftir því sem embættið er valdameira.

  15. Þegar ég óska eftir að fá að tala við „þann sem er í forsvari“ er líklegt að ég hitti fyrir einstakling af sama kyni og ég sjálfur. Þetta verður enn líklegra eftir því sem viðkomandi aðili er hærra settur innan stofnunarinnar.
  16. Á æskuárunum er líklegt að ég hafi fengið meiri hvatningu til að vera virkur og athafnasamur en systur mínar (frekari upplýsingar hér).
  17. supermanÁ æskuárunum gat ég valið úr fjölda mismunandi fyrirmynda og staðalímynda af sama kyni og ég, innan margs konar miðla. Ég þurfti aldrei að leita þær uppi, karlkyns hetjur voru (og eru) reglan en ekki undantekningin.
  18. Á æskuárunum er líklegt að ég hafi fengið meiri athygli frá kennaranum mínum en skólasystur mínar, jafnvel þótt þær hafi rétt jafn oft eða oftar upp hönd (frekari upplýsingar hér).
  19. Ef ég á slæman dag, viku eða ár þarf ég ekki að velta því fyrir mér hvort hver einasta neikvæð og slæm upplifun hafi tengst mismunun eða fordómum vegna kynferðis míns.
  20. Ég get kveikt á sjónvarpi eða skimað yfir forsíður dagblaðanna og séð þar umfjöllun um fjöldann allan af einstaklingum af sama kyni og ég, af öllum sviðum þjóðfélagsins.
  21. Ef ég sýni af mér ábyrgðarleysi í fjármálum mun enginn tengja það við kynferði mitt.
  22. Ef ég sýni af mér ábyrgðarleysi í umferðinni mun enginn tengja það við kynferði mitt.
  23. Ég get ávarpað hóp fólks á opinberum vettvangi án þess að ég sé um leið að leggja alla kynbræður mína fyrir dóm almennings.
  24. slutJafnvel þótt ég sofi hjá mörgum konum er engin hætta á að ég verði brennimerktur sem „drusla“, nema þá í gamni, og það fyrirfinnst ekki nein karlkyns hliðstæða við „druslustimpilinn“ sem konur geta fengið á sig (frekari upplýsingar hér).
  25. Ég þarf aldrei að hafa áhyggjur af því hvaða skilaboð klæðaburður minn sendir um það hversu tilkippilegur ég er kynferðislega (frekari upplýsingar hér).
  26. Fatnaðurinn sem ég nota er yfirleitt bæði ódýrari og betur hannaður en fatnaður kvenna úr sama þjóðfélagshópi og ég. Ég get ekki valið úr jafn fjölbreyttum fatnaði og konurnar en fötin sem ég klæðist eru líklega bæði þægilegri og hentugri, jafnvel þótt þau séu ekki klæðskerasniðin (frekari upplýsingar hér).
  27. Sú daglega umhirða og snyrting sem samfélagið krefst af mér kostar tiltölulega lítið og tekur lítinn tíma (frekari upplýsingar hér).
  28. Ef ég kaupi mér nýjan bíl er líklegt að mér verði boðið hagstæðara verð en konu sem ætlar að kaupa sambærilegan bíl (frekari upplýsingar hér).
  29. Ef ég er ekki aðlaðandi í hefðbundnum skilningi eru ágallarnir oftast lítilvægir og það er auðvelt að horfa fram hjá þeim.
  30. Ég get talað hátt án þess að eiga á hættu að vera kallaður skass. Ég get verið ákveðinn og fylginn mér án þess að vera kallaður tík.
  31. Ég get óskað eftir lögbundinni vernd gegn ofbeldi af því tagi sem einkum bitnar á körlum án þess að það sé túlkað sem sértæk hagsmunagæsla afmarkaðs samfélagshóps, enda er sú tegund ofbeldis kölluð „glæpir“ og telst sameiginlegt, samfélagslegt vandamál. (Ofbeldi sem einkum bitnar á konum er yfirleitt kallað „heimilisofbeldi“ eða „kunningjanauðgun“ og er flokkað sem vandamál afmarkaðs samfélagshóps.)
  32. Ég get treyst því að dagleg orðræða í hversdagslegum samskiptum sé nánast undantekningalaust í karlkyni. „Allir menn eru jafnir fyrir Guði“, þingmaður, ráðherra, formaður, lögfræðingur, læknir, forseti, hann, sá.
  33. Færni mín til að taka mikilvægar ákvarðanir og sinna öllum almennum störfum mun aldrei verða vefengd með vísan í hvaða tími mánaðarins er hverju sinni.
  34. Það mun enginn ætlast til þess að ég skipti um eftirnafn þegar ég geng í hjónaband eða krefja mig um skýringar ef ég geri það ekki.
  35. Ákvörðun um að ráða mig í starf mun ekki taka mið af getgátum um það hvort ég muni eða muni ekki ákveða að stofna fjölskyldu innan óákveðins tíma.
  36. Newly elected Pope Francis I, Cardinal Jorge Mario Bergoglio of Argentina, leads a a mass with cardinals at the Sistine Chapel at the VaticanÖll algengustu trúarbrögð veraldarinnar hafa einstaklinga af sama kyni og ég í leiðtogastöðum. Jafnvel Guð almáttugur er í karlkyni samkvæmt flestum veigamestu trúarstefnunum.
  37. Samkvæmt kenningum allra útbreiddustu trúarkenninga heimsins ætti ég að vera höfuð fjölskyldu minnar og eiginkona mín og börn undirgefin mér.
  38. Ef ég á eiginkonu eða sambýliskonu eru líkur á því að verkaskipting á heimilinu sé með þeim hætti að hún sinni flestum húsverkunum, einkum þeim leiðigjörnu og minnst gefandi (frekari upplýsingar hér).
  39. Ef ég eignast börn með eiginkonu minni eða sambýliskonu get ég búist við að hún sinni flestum daglegum umönnunarstörfum því tengdu, svo sem bleyjuskiptum og matmálstímum.
  40. Ef ég eignast börn með eiginkonu minni eða sambýliskonu og það kemur á daginn að annað okkar þarf að fórna starfsferlinum að hluta eða heild til að ala upp börnin eru líkur á að við munum bæði ganga að því sem gefnu að það verði hún sem færir þá fórn.
  41. tom fordAð því gefnu að ég sé gagnkynhneigður eru tímarit, auglýsingaskilti, sjónvarpsefni, kvikmyndir, klámefni og nánast öll fjölmiðlun stútfull af léttklæddum konum sem er ætlað að höfða til mín kynferðislega. Sambærilegt myndefni af karlmönnum fyrirfinnst en er mun fáséðara.
  42. Almennt upplifi ég mun minni þrýsting um að vera grannur og í formi en konur (frekari upplýsingar hér). Ef ég er feitur hefur það líklega mun minni félagslegar og hagrænar afleiðingar fyrir mig en það hefur fyrir feitar konur (frekari upplýsingar hér).
  43. Ef ég er gagnkynhneigður er afar ólíklegt að ég verði nokkru sinni beittur alvarlegu líkamlegu ofbeldi af hendi maka eða ástkonu (frekari upplýsingar hér).
  44. Bláókunnugt fólk víkur sér yfirleitt ekki að mér á götum úti og skipar mér að „brosa“ (frekari upplýsingar hér og hér).
  45. Ég verð svo gott sem aldrei fyrir kynferðislegri áreitni á götum úti. Ég þarf ekki að velja mér leið af kostgæfni í almenningsrými til að forðast að verða fyrir áreitni (frekari upplýsingar hér).
  46. Konur grípa að öllu jöfnu ekki fram í fyrir mér eða trufla mig jafn oft og karlar grípa fram í fyrir konum eða trufla þær.
  47. Ég nýt þeirra forréttinda að vera ómeðvitaður um forréttindi mín sem karlmaður.

Þýðing: Halla Sverrisdóttir

 

4. 9. 2013:

Frá ritstjórn: Glöggur lesandi hefur bent okkur á að eldri útgáfu af þessum lista sé að finna í tímaritinu Veru, 1. tbl. 2004. Listinn er á bls. 51 og og í þeirri útgáfu eru 34 liðir.

 

13 athugasemdir við “Gátlisti forréttindakarlmannsins

  1. I am one of those who is offended by the word „male privilege“.
    What I really want to know is, if I „check my privilege“ what should be the end result? I seriously want to know this.
    If someone tells me to check my privilege, does that mean that I should come to the conclusion that
    I should change my behavior?
    I should express sympathy with non privileged people?
    I should feel guilty?
    I can not discuss certain things because I don’t have insight?
    I am evil?
    Really, I don’t understand where this whole privilege thing is supposed to lead to.

    • Ja mér finnst allt í lagi að þeir sem eru í forréttindastöðu átti sig á því og hlusti frekar á þá sem eru undirokaðir. Núna fara t.d margir karlmenn í þvílíka vörn þegar rétt er um launamisréttið, minni völd kvenna í samfélaginu eða hættu kvenna á að vera nauðgað og ömurlegt dómskerfið. Kannski væri betra fyrir þessa menn að hætta í þessari vörn og fara að hluta á konurnar og hvað þær hafa að segja.

  2. Er ekki komið gott af því að skrapa botnkekkina úr fórnarlambamenningartakninum á tumblr?

    Það er búið að dekka ansi margt af þessum tékklista á Knúzinu, hlakka til að sjá restina: http://i.imgur.com/0mDLWGT.jpg 🙂

    Er ykkur ósammála um margt, en óska ykkur alls hins besta!

  3. Vá… þvílíkur fórnarlambshugsunarháttur.

    Ég er ansi hræddur um að þið, sem eruð á þessari skoðun, þurfið að breyta um hugsunarhátt, sjálfum ykkar vegna…

  4. Samkvæmt femíniskum fræðum hafa konur verið kúgaðar í þúsundir ára af vondum forréttindakarlmönnum!
    En getur þetta staðist þegar skoðaðar eru sögulegar staðreyndir?
    Fann þessar tölur í blaðagrein um sjóslys:
    Drukknanir 1911-1915:


    1911 drukna 61 karlmenn
    1912 -„- 93 -„-
    1913 -„- 62 -„-
    1914 -„- 74 -„-
    1915 -„- 58 -„-
    348 karlmenn alls

    Á þessu tímabili
    drukna 17 konur alls

    meðaltal á ári 69,6 karlmenn , 3,4 kvenmenn.“

    Hlutfallið er að 20.47 sinnum fleiri forréttindakarlmenn deyja drukknunardauða en konur á tímabilinu 1911 til 1915!

    Hvernig má það vera að forréttindastétt karlmanna lét þetta gerast?
    Af hverju voru ekki konurnar látnar róa til fiskjar og fórna lífi sínu?

    Getur einhver skýrt þetta kynjamisrétti í sögulegu samhengi?
    Var feðraveldið (Pariarkið) veikara á þessu tímabili (1911-1915)?

    Vona að sérfræðingar í kynjafræði geti skýrt þennan mun.

    Sjá heimild
    http://www.dv.is/blogg/niels-arsaelsson/2012/3/3/drukknanir-1911-1915/

    • Ég ætla bara að spyrja; Hve margir karlmenn létu lífið vegna barnsburðar á þessu tímabili? Voru það fleiri eða færri 38?

      • Karlar líkamlega geta ekki fætt barn og því ertu að reyna að bera saman epli og appelsínur.
        Konur geta farið á sjó og augljóslega gerðu það, þar sem það voru einhverjar sem létust af völdum þess.

  5. Þessi forréttindanálgun er bara önnur leið til að segja hvitum körlum að þegja og vera úti í umræðu um málefni eins og jafnrétti kynjanna.

    S.s. tilraun til þöggunar. Takk fyrir þetta, ritstjórn knuz.is.

    Þetta er bara annað Mansplaining bull eins og Gísli birti á þessum vef um daginn.

  6. Þetta er einmitt leið til umræðu, ekki þöggunar. Að vera sér meðvitaður/meðvituð um forréttindi sín er eina tillagan sem er sett fram. Ég sem hvít kona í millistétt hef ákveðin forréttindi. Ég er meðvituð um þau og tek samt þátt í umræðunni.
    Tvíhyggjuhugsunarháttur þar sem veröldin er svart hvít er merki um einsleitni og grefur undan umræðu. Hlutirnir eru sjaldan annað hvort eða.

  7. Númer 17.

    Virkilega óraunhæfar staðalímyndir sem útilokað er að ná. Fullkomnir að öllu leiti, ofur massaðir og með flawless útlit. Sennilega LANG stærsta ástæðan fyrir gífurlegri steraneyslu meðal ungra karlmanna sem er enganveginn eitthvað skárra en anorexia. Hvers vegna er aldrei rætt neikvætt um þessar staðal ímyndir (HE-MAN, Thundercats, Rambo, Superman, Swartzenegger…) ? Þetta eru nákvæmlega sömu öfgar og líkamsúrkynjun og er með barbídúkkur EN hér teljið þið þetta sem FORRÉTTINDI???

  8. Það er nú alveg ótrúlegt hvaða ástæður þið getið komið með fyrir t.d hvers vegna færri konur sæki um nám í fögum sem eru betur borguð en önnur (t.d hagfræði, tölvunarfræði og verkfræði…) Þá er þetta allt feðraveldinu að kenna og á þeirra ábyrgð að ekki fleiri konur sæki um í þessum fögum.

    Það væri nú athyglisvert að vita hvernig þið útskýrið hvers vegna margfallt fleiri karlmenn sitji í fangelsi og fái oftar lengri dóma fyrir sama glæp. Ef að forréttindin eru svona gífurleg, hvers vegna eru þá svona margir hvítir karlmenn bakvið lás og slá? Hvers vegna gátu þeir ekki bara fengið sér draumadjobbið sitt með háu launin sem beið eftir þeim með opinn faðminn? Þið hljótið að sjá hversu langsóttar þessar samsæriskenningar eru komnar stundum.

    Mér finnst líka alltaf mjög spes þegar að einhver heimtar að maður taki á sig einhverja ábyrgð þegar sú manneskja tekur ekki neina ábyrgð á því sem gerist eða ekki gerist í lífinu hennar,heldur kennir viðhorfi gagnvart kynferði sínu um allar launahækkanir sem ekki hafa verið veittar, það að hún sé ekki í draumastarfinu, að hún sé með lélega sjálfsímynd. Sjálfur hef ég ítrekað lent í því að mér sé neitað um launahækkun. Ég myndi segja það gangi kanski í gegn í fimta hvert sinn. Málið er að það þýðir ekkert að gefast upp og benda á einhvern annan til að kenna um eftir fyrstu fjögur. Það verður að hýfa sig upp, taka ábyrgðina í eigin hendur, hætta að vorkenna sér og reyna aftur. Ég hef aldrei upplifað þennan gífurlega forréttinda pakka sem þú telur fylgja því að vera hvítur karlmaður. Ég hef heldur ekki upplifað mig sem það fórnarlamb sem að margir falla í þá gryfju að gera og að aðstæður mínar séu allar utanaðkomandi öflum að kenna. Ég hef bara sætt mig við það að lífið er erfitt og ef þú virkilega villt eitthvað þá verðurðu að leggja þig alla/n fram við að ná því.

    • Ég held þetta sé alveg rétt hjá þér. Þetta tal um forréttindi og feðraveldi er að miklu leiti afsökun fyrir slöku gengi í lífinu. Að bera út þennan boðskap hentar mjög vel sem hluti af pólitíkinni, því það eru margir í þeim sporum að leita sökudólga annarstaðar heldur en hjá sjálfum sér og eru því tilbúnir að kaupa þá skýringu að það hafi verið vitlaust gefið á einhvern hátt. Þetta kallast á fræðimálinu „afneitun“, þ.e. að neita að trúa því hvert raunverulega vandamálið er og leita þrálátlega að öðrum skýringum. Það er erfitt fyrir alla að horfast í augu við sinn innri mann og viðurkenna að eitthvað mætti betur fara. Fyrstu viðbrögð eru yfirleitt afneitun því það er mun auðveldar að kenna einhverju öðru um.

      Þetta er ástæðan fyrir því að feminismi er hættulegur. Þetta dregur kjarkinn úr konum sem þyrftu frekar að fá hvatningu. Þessi aðferðafræði hentar líka vel fyrir sósíalískan hluta feminismans. Því með þessu móti er hægt að réttlæta ríkisafskipti. Því hvernig eiga konur annars að eiga séns, nema ef ríkið tekur spilin af fólki og deilir þeim jafnt á milli allra?

      Raunveruleikinn er sá að það er erfitt fyrir alla að ná árangri. Og það fyrsta sem ungar konur þurfa að heyra þegar það gengur ekki allt upp strax í byrjun er ekki að þær eigi ekki séns í þessum „karlaheimi“ eða einhverjar svona mis sannar kenningar um kynjajafnrétti. Sumt á þessum lista er alveg rétt og ekkert hægt að þræta fyrir. En það væri líka hægt að gera sambærilegan lista um forréttindi kvenna. Þau forréttindi eru ekki síðri, þó þau séu ekki hin sömu.

      Svo er þessi pistill reyndar stílaður inn á karlmen. Þeir eiga að gera sér grein fyrir forréttindum sínum og halda kjafti þegar rætt er um kynjajafnrétti. Eða vera kallaðir ‘mansplainer’ að öðrum kosti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.