Hvað er að okkur?

(*VV* og spoilerar).

Kvikmyndin Paradise: Love er sýnd um þessar mundir í Bíó Paradís. Um myndina segir í lýsingu á heimasíðu kvikmyndahússins :

Paradís: Ást (Paradies: Liebe) er fyrsta myndin í Paradísar tríólógíu leikstjórans Ulrich Seidl sem segir sögu 50 ára gamallar konu, Teresu, sem ferðast til Kenýa sem kynlífsferðamaður. Þar eru konur eins og Teresa þekktar sem “sykur-mömmur”, en í myndinni eru ýmis áleitin atriði ávörpuð sem og menningarheimarnir tveir mátaðir saman.

poster_paradise
Fyrir frumsýningu myndarinnar var umfjöllun á fréttamiðlinum Vísi.is þar sem rætt var við mannfræðinginn Ásrúnu Bjarnadóttur um rannsóknarverkefni hennar „Kynlífsferðir kvenna til Kenýa: Vændi eða rómantík?“. Í sömu frétt er talað við Hrönn Sveinsdóttur framkvæmdastjóra Bíó Paradísar sem segir: „Það er áhugavert að sjá hvernig hlutunum er snúið á haus. Vændi er yfirleitt í hina áttina, karlar sem kaupa konur. Í þessari mynd sér maður vel hvernig þetta er öðruvísi þegar konur eru að kaupa vændi af karlmönnum. Þær eru með allt öðruvísi þarfir að þessu leyti, miklu tilfinningalegri þarfir sem gerir þetta snúið“. Undirtónninn í fréttinni virðist okkur vera spurningin um hvort vændiskaup miðaldra kvenna í leit að ást og innileika, séu öðruvísi en vændiskaup karla. Svarar kvikmyndin kannski þeirri spurningu?

Paradís: Ást sýnir í upphafi sögunnar hvernig kynlífstúristinn Teresa upplifir það niðurlægjandi að „kaupa vændi“ í fyrsta sinn og hættir við því hún leitar að ástúð og innileika. Þegar hún heldur að hún hafi fundið innileikann endar hún á því að vera rúin inn að skinni og skilin eftir í ástarsorg. Þaðan fer hún yfir í að beita unga fátæka karlmenn kynferðislegu ofbeldi þegar hún niðurlægir þá kynferðislega og nýtir sér valdamismun þeirra á milli sem er henni í hag.

Breytingin á Teresu eftir því sem líður á myndina er mjög áhrifamikil og í lok hennar er hún farin að ástunda valdbeitingu og ofbeldi. Ofbeldishegðun Teresu fer stigvaxandi.Í fyrstu verður hún sjálf fyrir miklu áreiti og er fórnarlamb en þegar líður á beitir hún grófu líkamlegu ofbeldi á fyrrum elskhuga og er með þvingandi tilburði við ungan mann sem hún tekur með sér heim. Eftir að innileikinn sem hún vonaðist eftir reynist innantómur, gefur hún hann upp á bátinn og reynir að öðlast viðurkenningar frá karlmönnunum. Þegar það bregst líka brotnar hún endanlega niður.

En myndi þessi lýsing á atburðum vera trúverðug ef um karlkyns vændiskaupanda væri að ræða? Áreiðanlega í einhverjum tilfellum, en miðað við það sem við vitum um vændi þá virðist vera munur á því þegar karlar kaupa konur og þegar konur kaupa karla. Alls konar munur á kringumstæðum og hegðun. Gerir það aðra tegund vændiskaupanna betri en hina? Það teljum við ekki.

Það er stundum auðvelt að hafa samúð með aðalpersónunni Teresu sem býr greinilega við ástleysi, útlitskomplexa, lágt sjálfsmat og einmanaleika. Auk þess virðist Teresa hafa orðið heiftarlega fyrir barðinu á klámvæðingunni. Hún hefur lítið álit á sjálfri sér og eigin útliti, hún veltir fyrir sér hvort hún eigi að raka sig að neðan til að þóknast karlmönnum, hún fær strippara uppá herbergi á afmælinu sínu og hún tekur myndir af nöktum elskhuga á myndavélina sína – án þess að fá samþykki. Á sama tíma og hægt er að hafa samúð með því að þarna er manneskja sem líður illa, er hegðun hennar oft og mörgum sinnum andstyggileg, í gegnum alla myndina. Það sem gerir persónuna eftirminnilega er að hún er bæði fórnarlamb og gerandi í allri misnotkunarflórunni sem kvikmyndin býður okkur uppá.

Kvikmyndin var vel gerð og áhrifamikil. Það sem var kannski áhrifamest voru viðbrögð áhorfenda í bíósal í því sem á að vera jafnréttasta land heims. Það er að segja, þau viðbrögð að hlæja ítrekað þegar miðaldra kona beitir unga afríska stráka kynferðisofbeldi.Við höfum upplifað þetta áður, t.d. á leiksýningu á Kvennafræðaranum í Þjóðleikhúsinu í vetur þegar eitt atriði fól í sér að kona beitti karlkyns maka sinn líkamlegu ofbeldi. Grófu ofbeldi, höggum, spörkum og munnlegum svívirðingum. Hér og hvar um salinn mátti heyra hlátur. Dáldið taugaveiklaðan. Varnarhlátur. „Af hverju ber hann ekki bara frá sér, auminginn. Jah, það er nú aldeilis fyndið að hér sé kynhlutverkum snúið við, það er alltaf fyndið. Þetta er nú gamanleikrit, maður hlær nú bara að þessu“.

Hvað er að okkur? paradiselove

Við eigum bágt með að trúa því að við hefðum setið í bíóhúsi í kringum hlæjandi fólk ef myndin hefði fjallað um kynferðislegt ofbeldi og misnotkun miðaldra vestrænna karla á ungum afrískum konum. Og við veltum líka fyrir okkur ef það hefði verið einstaklingur í bíósalnum, strákur eða stelpa, sem hefði gengið í gegnum svipaða reynslu og var hlegið að?

Við getum ekki haldið áfram að gera þetta. Við verðum að rífa niður þennan vegg sem umkringir hjörtu okkar og kemur í veg fyrir að við getum tekið því alvarlega að karlmenn eru líka þolendur kynferðisofbeldis og misnotkunnar. Ef við förum ekki að líta á kynferðislega misnotkun á körlum og konum sem jafn alvarlegt ofbeldi, þá gerir það karlmönnum erfiðara um vik að segja frá slíkri misnotkun og vinna sig út úr henni – og nógu erfitt er það samt.

Stikla úr myndinni Paradís : Ást

11 athugasemdir við “Hvað er að okkur?

 1. Ég er kannski ekki alltaf sammála öllum ykkar skoðunum eða öllu því sem hefur verið birt á þessum vef, en þarna erum við algjörlega sammála. Það skiptir engu hvort kynið á í hlut sem „kaupandi“ eða „seljandi“, vændi er vændi. Tek ofan fyrir ykkur. 🙂

 2. En held þetta sé fyrsti þráðurinn sem ég hrósa, vel skrifað og pælingarnar eru mjög svo jafnréttissinnaðar.

  Bjóst engan veginn við þessu.

 3. Takk fyrir prýðileg skrif!

  Þið trúið ekki hversu margir eru orðnir jaded gagnvart femínisma (eða kannski sýnilegustu fulltrúum hans frekar? ég er ekki viss). Úr mínu tengslaneti eru það mun fleiri en ekki, konur jafnt sem karlar, fólk með ólíka heimssýn og pólitískar skoðanir. Ekki falla í þá gryfju að ætla þessu fólki einhver knee-jerk eða reactionary viðbrögð, hvað þá nokkurs konar hatur (eða fyrirlitningu, eins og það kallast víst á fagmálinu). Þetta ristir mun dýpra en það, enda hafa flestir kynnt sér málin ágætlega, t.a.m. með að leita að frumgögnum sem helstu fullyrðingar styðjast við. Sorglegt er rýni í rannsóknir/gögn skuli vera ein greiðasta leiðin til að fjarlægjast femínismann.

  Mér er alveg sama hvaða merkimiða fólk setur á sig, orð og gjörðir skipta meira máli. Svo segir mér hugur að þannig sé ástatt um marga aðra. Einglyrnið og hugmyndafræðilega rörsýnin mætti víkja fyrir kynjagleraugum sem standa undir nafni, víðsýni og jöfnum áhuga á góðum gögnum óháð því hvert þau leiða okkur. Og vitaskuld umburðarlyndi og kærleik sem flæðir í báðar áttir. Það er engin rökrétt ástæða fyrir tribalisma milli kynjanna.

  Ef ykkur langar að finna vott af bias í þessari færslu og íslenskri umfjöllun um myndina almennt, er kjörið að líta á púðrið sem fer í að leita skýringa í sjálfsmynd + andlegri og félagslegri heilsu kvennanna. Jafnan fer ekki mikið fyrir slíku þegar fjallað er um hina hefðbundnari vændiskaupendur, blessaða karlmennina. Eru þeir ekki bara með bros á vör, metafórískt sprautandi forréttindum sínum yfir leiguskrokka?

  „Við eigum bágt með að trúa því að við hefðum setið í bíóhúsi í kringum hlæjandi fólk ef myndin hefði fjallað um kynferðislegt ofbeldi og misnotkun miðaldra vestrænna karla á ungum afrískum konum.“

  Þetta er hárrétt. Yrði veisla hjá fjölmiðlum og margur bloggarinn væri ekki sáttur heldur. Hugsanlega sæist stöðuuppfærsla eða tvær á Facebook.

  Afsakið sletturnar, þetta var meira straumur af hugsunum en útpæld uppbygging.

 4. Menn lesa full mikið í hláturinn þegar það er orðin hugsanalestur. Ég hló þegar Tony Montana dritaði niður c.a. 50 manns með AK47 og sagði um leið ‘say hello to my little friend’. Það hefði ég liklega ekki gert ef þetta væri ekki bíómynd. Enda mjög alvarlegt að skjóta fólk, jafnvel alvarlegra en vændi. Sumt fólk á mjög auðvelt með aðgreina raunveruleika frá skáldskap jafnvel þótt atburðir eigi sér einhverskonar hliðstæðu í raunveruleikanum. Crazy fólk í bíómyndum er oft fyndið. Alvöru crazy fólk, ekki eins mikið. En ég verð að taka fram að ég hef ekki séð umrædda mynd. En ég veit að hún er jafn raunveruleg og Harry Potter, s.s. uppspuni frá grunni.

 5. Bakvísun: Nokkrir hlutir sem ég las í vikunni sem mér fannst áhugaverðir | Hið persónulega og pólitíska

 6. Þetta minnir mig örlítið á það þegar ég fór á Django Unchained í bíó. Í háalvarlegu atriði þar sem hetjan Django hékk öfugur niður úr lofti, nakinn til pyntingar af hvítum þrælahaldara, þá hljómaði hlátur um salinn. Þá hugsaði ég einmitt með mér; ef þetta væri nakin kona sem væri bundin og pyntuð myndi fólk þá hlæja? Nei, einhvernveginn finnst mörgum karlmenn ekki geta verið fórnarlömb og fara í einhvern vandræðilegan gír þegar það gerist.

 7. Mig langar að þakka þeim sem skrifaði þessa grein fyrir hana. Ég hef ekki séð myndina svo ég ætla ekkert að tjá mig efnislega um hana. Hins vegar er fínt að vekja athygli á því að karlmenn geta einnig verið fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis og það sé sammannlegt vandamál, ekki einungis einkamál ákveðinna hópa eða kyns.
  Manni finnst oft nokkuð óhuggulegt að allt það slæma sem karlmenn geta lent í sé álitið fyndið. Enn í dag geta karlmenn sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi kvenna meira og minna gleymt því að fá einhverja samúð frá þjóðfélaginu. Þessi pistill er því mikilvægur partur af leiðréttingarferli.

 8. Ulrich Seidl í viðtali við ZOO Magazine árið 2009:

  „I really love these moments in the cinema when some people in the audience laugh while others don’t find it funny at all, and are even upset that other people are laughing. I think moments like that are especially interesting—moments of awkwardness and pain but which you can laugh about as well.“

 9. Bakvísun: Rangur hlátur | WHEEL OF WORK

 10. „Breytingin á Teresu eftir því sem líður á myndina er mjög áhrifamikil og í lok hennar er hún farin að ástunda valdbeitingu og ofbeldi. Ofbeldishegðun Teresu fer stigvaxandi.Í fyrstu verður hún sjálf fyrir miklu áreiti og er fórnarlamb en þegar líður á beitir hún grófu líkamlegu ofbeldi á fyrrum elskhuga og er með þvingandi tilburði við ungan mann sem hún tekur með sér heim. Eftir að innileikinn sem hún vonaðist eftir reynist innantómur, gefur hún hann upp á bátinn og reynir að öðlast viðurkenningar frá karlmönnunum. Þegar það bregst líka brotnar hún endanlega niður.“

  Þetta fannst mér einna áhugaverðasti punkturinn í þessari grein. Út alla frásögnina bar ég hana í huganum saman við vændi þar sem gerandinn er karl og þolandinn kona. Ég er ekki sammála málsgreininni sem kemur á eftir, um að sagan yrði ósannfærandi að þessu leyti ef hlutverkum væri víxlað. Þvert á móti kemur tenging við ýmislegt annað í okkar menningu upp í hugann, þættir sem eiga stóran þátt í að skapa ójafnvægi á milli kynjanna, svo sem mismunandi tilfinningalegt uppeldi drengja og stúlkna, og staðalímyndir.

  Mjög áhugaverð umfjöllun, svo ekki sé meira sagt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.