„Græna tréð“, trúverðugleiki og talíbanar

Upp er komið deilumál við Háskóla Íslands þar sem boð um stundakennslu við stjórnmálafræðideild var dregið til baka. Sá sem kenna átti námskeiðið, Jón Baldvin Hannibalsson, er fyrrverandi þingmaður, sendiherra og ráðherra. Ástæða þess að boðið var afturkallað eru klámfengin bréf sem hann skrifaði systurdóttur konu sinnar frá því að hún var 14 ára og allt til 17 ára aldurs. Háskólinn dró boðið til baka eftir hvassa grein á knúz.is og vegna andstöðu kennara í kynjafræði við Háskólann, þar sem fram kom það viðhorf að Háskólanum bæri að taka tillit til þolenda kynferðisofbeldis. Í kjölfarið skrifaði sá sem boðið fékk og missti grein í Fréttablaðið þar sem hann lýsti ótta sínum um orðspor Háskóla Íslands.

Margir hafa tekið undir áhyggjurnar sem lýst er í þeirri grein. Þannig ræðir Ólafur Stephensen í leiðara Fréttablaðsins í dag stöðuna í Háskólanum. Ólafur gagnrýnir harðlega þá ákvörðun Háskólans að draga boðið til baka og kallar eftir dýpri og gagnrýnni umræðu um „siðferðisspurningar sem þetta mál hefur vakið“ en hann hefur hingað til séð. Ég get verið sammála Ólafi um að þetta mál vekur ýmsar siðferðilegar spurningar sem verðskulda djúpa og gagnrýna umræðu. Ég er hins vegar ósammála honum um það að þeir punktar sem þegar hafa verið nefndir séu endilega grunnir og óboðlegir. Það eru einkum tvö atriði sem mig langar til að ræða í sambandi við þetta mál, annars vegar trúverðugleiki kennara og hins vegar nemendaverndarhlutverk háskóla.

haskoliislands
Í leiðaranum ræðir Ólafur hversu mikilvægt það sé að kennsla við Háskólann sé trúverðug. Þannig telur hann að þegar Sigurjón Þ. Árnason og Jónas Fr. Jónsson tóku að sér stundakennslu við Háskólann í Reykjavík hafi mátt rökstyðja þá gagnrýni sem sú ráðning fékk á grundvelli þess „að trúverðugleiki þeirra í fjármálatengdum fögum hefði beðið hnekki vegna tengsla þeirra við fjármálahrunið“, eins og Ólafur orðar það. Öðru máli telur Ólafur gegna um Jón Baldvin og segir: „Hneykslismál Jóns Baldvins hefur hins vegar engin áhrif á trúverðugleika hans sem kennara á námskeiði um smáríki í alþjóðakerfinu.“

Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Í bréfunum til Guðrúnar Harðardóttur sem birtust í Nýju Lífi í marsmánuði 2012 má m.a. lesa lýsingar Jóns Baldvins á heimsóknum sínum til vændiskvenna í Tallinn í Eistlandi meðan hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir íslenska ríkið og meðan hann barðist fyrir pólitísku frelsi Eystrasaltslanda. Ég hef litla samúð með vændiskaupendum, sem að mínu viti auka á félagsleg vandamál með því að nýta sér neyð annars fólks . Á sama hátt og ég tel ekki eðlilegt að þau sem tengjast hruninu beint séu fengin til að kenna í Háskólanum, finnst mér ekki trúverðugt að stjórnmálamaður sem hefur orðið uppvís að vændiskaupum í fátæku smáríki sem hann heimsótti í opinberum erindagjörðum fyrir Íslands hönd sé fenginn til að kenna í Háskólanum. Ef „hneykslismál Jóns Baldvins hafa engin áhrif á trúverðugleika hans sem kennara á námskeiði um smáríki í alþjóðakerfinu,“ eins og Ólafur heldur fram, þá velti ég því fyrir mér hvort kynfrelsisréttindi og kynferðispólitík séu talin minni og ómerkilegri gildi en önnur lýðréttindi. Verslun með líkama kvenna er arðvænlegur atvinnuvegur og er tengdur neðanjarðarstarfsemi, eiturlyfjum og spillingu um veröld víða. Ég spyr þess vegna hvort það sé trúverðugt að fá kennara til að kenna um aðstæður í smáríkjum í ljósi þess að hinn verðandi kennari hefur í fyrra hlutverki sínu sem stjórnmálamaður nýtt sér gróðavænlegan atvinnuveg vændisins í þessum löndum. Hér er ekki um að ræða smávægilegar yfirsjónir, eins og að fá sér snúð í hádeginu eða reykja í laumi, heldur brot sem geta teflt trúverðugleika viðkomandi kennara í hættu.

götuvændi í tallin

Seinna atriðið varðar hlutverk Háskóla Íslands sem uppeldisstofnunar, sem hefur skyldur gagnvart sínum nemendum og ber hag þeirra fyrir brjósti. Háskóli Íslands hefur sett sér siðareglur þar sem sérstaklega er kveðið á um mikilvægi þess að kennarar hafi hagsmuni nemenda sinna að leiðarljósi. Grein 2.29 um ábyrgð í valdastöðu í siðareglum HÍ er svohljóðandi: „Kennarar gera sér ljósa valdastöðu sína í samskiptum við nemendur og gæta þess að misnota hana ekki.“

Siðareglur Háskóla Íslands endurspegla sjálfsmynd skólans og gildi. Nútímalegt háskólanám er byggt upp á grunni sterkra tengsla nemenda og kennara þar sem reynsla og þekking nemenda er virkjuð og hæfileikar þeirra til gagnrýnnar hugsunar efldir. Slík samvinna og mótunarferli krefst vandaðra vinnubragða þar sem kennarar hafa hagsmuni nemendanna að leiðarljósi. Nemendavernd er þannig ekki aðeins hugtak sem notað er í grunnskólum, heldur gildir einnig um samskipti nemenda og kennara á öllum skólastigum þar sem reynt er að tryggja að kennarar nýti sér ekki valdastöðu sína gagnvart nemendum. „Hneykslismál,“ svo notað sé orðfæri Ólafs Stephensen í fyrrgreindum leiðara, sem bera með sér að fullorðinn einstaklingur hafi misnotað valdastöðu sína gagnvart unglingi sem honum var treyst fyrir, getur þannig haft áhrif á það hvort viðkomandi teljist hæfur kennari í skóla sem hefur sett sér sérstakar siðareglur um mikilvægi þess að vera meðvitaður um ólíka valdastöðu nemenda og kennara. Það er skylda Háskólans að velja hæfa og trúverðuga kennara til starfa sem uppfylla siðareglur þær sem Háskólinn hefur sett sér.

Jón Baldvin endar grein sína á þessum orðum: „Fyrst svo er um hið græna tré, hvað þá um lággróður almenninganna?“ Hér er vísað í 23. kafla Lúkasarguðspjalls:

Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér en grátið yfir sjálfum ykkur og börnum ykkar. Því þeir dagar koma er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf er aldrei fæddu og þau brjóst sem engan nærðu. Þá munu menn segja við fjöllin: Hrynjið yfir okkur! og við hálsana: Hyljið okkur! Því að sé þetta gert við hið græna tré, hvað mun þá verða um hið visna?

Í 31. og 32. Passíusálmi fjallar Hallgrímur síðan um hið græna tré Krist, frjóvgunareikina, vökvaða og væna sem er „hrakið og hrist“. og spyr (31:5):

Ef gjört er svo því græna tré,
geta hver til þess næði,
hvað hið þornaða þá mun ske.
Það frá ég Jesús ræði.

Erfitt er að sjá af samhengi greinarinnar hvort „hið græna tré“ sem svo illa hefur verið komið fram við er Háskóli Íslands eða Jón Baldvin sjálfur, en þó er ljóst að hann notar líkingamál píslarsögunnar um Krist krossfestan til að varpa ljósi á stundakennslu í Háskóla Íslands. Hvert svo sem hið græna tréð er í greininni, og hver hefur verið krossfestur, þá eru það ekki lengur farísear og fræðimenn sem hrista og hrekja hið græna tré, heldur femínískir talibanar, „ofstækisfullur sértrúarsöfnuður sem gengur fram í krafti pólitísks rétttrúnaðar.“

grænt tré2

Jón Baldvin spyr hvað verði um lággróður almenninganna ef þannig er farið með græna tréð. Þegar ég lít aftur til guðspjallsins sem líkingin vísar til þá finnst mér athyglisvert að Jesús frá Nasaret beinir ræðu sinni til kvenna og barna þeirra. Hann biður þær að gráta því yfir því hvernig verði farið með smælingjana, þegar jafnvel græna tréð fær ekki staðist. „Lággróður almenninganna“ í guðspjallssögunni eru þannig þau sem standa höllum fæti í samfélaginu og geta t.d. vegna ójafnrar valdastöðu átt erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér eða verja sig. Ef líkja má Háskóla Íslands við hið græna tré með stofnunum sínum, starfsmönnum sínum og yfirbyggingu, þá má líta á nemendurna sem lággróðurinn sem Háskólanum er skylt að standa vörð um og skapa gott og öruggt starfsumhverfi, með trúverðugum og hæfum kennurum. Og það er mikilvægt að við stundum djúpa og gagnrýna umræðu um slíkar siðferðisspurningar.

6 athugasemdir við “„Græna tréð“, trúverðugleiki og talíbanar

 1. Maðurinn getur varla brotið valdajafnvægi milli sín og nemenda áður en hann fær að kenna við skólann. Ég sé ekki hvernig þessi grein í siðareglunum getur átt við hérna. Nema gert sé ráð fyrir að hann muni leita á nemendur, dæmdur fyrirfram.

  Það veit öll þjóðin af þessum bréfaskrifum hans JBH. Nemendur HÍ eru fullorðið fólk. Getum við ekki bara treyst því að menn passi sig sjálfir ef hugsanlega hann skyldi taka upp bréfsefnið aftur?

  Það væri líka hægt að fá lögregluna til að koma og setja gulan borða milli hans og nemendana til að það sé á tæru hvar línann er 😉

 2. Þetta er að minu mati goð og vönduð grein, sem byður ekki upp a hotfyndni. Punkturinn um „gleðikonurnar“ i Eystrasaltsrikjunum matti alveg koma fram, enda beintengdur við tilefnið.

 3. Þetta er ágæt gein. Nema hvað ég túlkaði ekki tilvitnanir í bréf JBH þannig að hann væri að segja frá því að hafa actually átt viðskipti við vændiskonur, heldur sagðist hafa tekið þær tali.

 4. Howdy I am so thrilled I found your blog page, I really found
  you by accident, while I was looking on Digg for something else, Anyways I am here
  now and would just like to say thanks for a remarkable post and a
  all round exciting blog (I also love the theme/design), I don’t have time
  to look over it all at the minute but I have bookmarked it
  and also included your RSS feeds, so when I have time
  I will be back to read more, Please do keep up the superb b.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.