Kallarnir.is

Höfundur: Gísli Ásgeirsson.

Karlar standa saman. Forðum daga fóru þeir á veiðar, reru til fiskjar, ráku á fjall og sungu í réttum. Nú syngja þeir í kórum og fylkja liði í íþróttum, stjórnmálum, innan þings og utan. „Konur eru konum verstar“ er tugga sem löngum er japlað á. Hins vegar þarf ekki að taka fram að karlar eru körlum bestir. Samstaða karlanna er sjálfgildið í samfélaginu. Þegar á reynir, standa karlar saman.

Þessa samstöðu má glöggt sjá þessa dagana þegar fylkt er liði að baki Jóns Baldvins Hannibalssonar með þá kröfu á lofti að hann fái að kenna við Háskóla Íslands, þrátt fyrir skrautlega fortíð sína sem menn eru gjarnir á að afgreiða sem léttvægan dómgreindarbrest sem beri að fyrirgefa og gleyma.

Þetta eru langskólagengnir menn á miðjum aldri eða ofar, sumir fyrrverandi þingmenn, ráðherrar og sendiherrar, rithöfundar og álitshafar sem tala um Berufsverbot „eins og í Þýskalandi nasismans“. Þeir tala um terroristaklíku, öfgafullan sértrúarsöfnuð, femínista, hugmyndafræðilegan jaðarhóp, konur með kennivald og óþægilega mikil áhrif og spara ekki stóru orðin, eins og „kvalalosti“ og „yfirdrifinn hefndarþorsti“. Þrír leiðarar prentmiðla hafa fjallað um mál Jóns og taka undir með breiðfylkingunni. Það er þægileg afstaða að búa til sökudólg og berja á honum og þá þarf ekki að rifja upp litríka fortíð og feril Jóns og ástæðulaust að neyða Háskólann til að tjá sig um þetta mál nema að því leyti að biðja Jón innilega afsökunar og kalla hann til starfa. Að vísu þykir þeim mjög óþægilegt þegar bent er á téða samstöðu og svara þá með glósum um heiftúðuga fólkið og svarthvítan heim sérhagsmunahópanna. Svona stuðningur er einsdæmi.  Þetta eru kallarnir.is.

Varið land.

Fyrir rúmum 40 árum opinberaðist álíka samstaða karla. Þar stilltu þeir sér upp með stjarfa hönd á pung, eins og skáldið sagði. Þeir höfðu málstað að verja þá eins og nú. Álíka mynd af skjaldsveinum Jóns er ekki tiltæk. En lénið handa þeim er laust. Kallarnir. is.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.