Kjallarakjökur

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Það er með vilja gert að hafa fyrirsögnina neikvæða, persónulega og ómálefnalega, því kjallaragrein Inga Freys Vilhjálmssonar í DV í morgun er öll á þeim forsendum. Þar er fyrirsögnin „Neikvæður femínismi“ og til umfjöllunar eru nafngreindir einstaklingar í stóra Jóns Baldvins málinu, Hildur Lilliendahl og Helga Þórey Jónsdóttir, sem að vísu er kölluð Guðrún á mörgum stöðum í greininni. Þær skrifuðu knúzgreinina margumtöluðu sem velti þessum bolta af stað. Þar var hvergi minnst á femínisma, kvenfrelsisbaráttu eða jafnréttismál. Forsenda höfunda var staða þolenda gegn gerendum, siðferðisþátturinn í ráðningu Jóns til starfa við Háskólann og réttlætingin fyrir henni. Beiðni þeirra var einföld: „Við förum fram á að Háskóli Íslands og Félagsvísindasvið svari fyrir þessa ráðningu“.

Öll umræðan í framhaldinu hefði getað snúist um siðferðisþáttinn og réttlætið en í andsvörum hafa margir frá upphafi klifað á vondu femínistunum sem vilja ekki leyfa reyndum stjórnmálamanni að ausa úr brunni visku og reynslu. Í þeirra munni er femínismi neikvætt orð og femínistar eru vont fólk. Þegar þetta dugði ekki, voru þær sakaðar um annarlegar hvatir, grimmd og kvalalosta. Hefði Ingi Freyr verið sakaður um svipaðar hvatir eftir greinaskrif sín um umdeild samfélagsmál, hefði honum væntanlega sárnað. En hann slæst í hóp þeirra sem vilja drepa umræðunni á dreif. Þegar rök þrýtur, er gripið til stimpla. Ef femínismi er tekinn út úr jöfnunni stendur eftir spurning um siðferði og réttlæti.

DV skilgreinir sig, beint og óbeint sem fjölmiðil sem gagnrýnir stofnanir, valdhafa og kerfið. Það tekur málstað lítilmagna og kúgaðra, þeirra sem brotið er á og vill gjarna rétta hlut þeirra. Það hikar ekki við að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur og hefur hvatt til gagnrýninnar umræðu. Mörgum er í minni flokkur greina og viðtala undir yfirskriftinni „Rjúfum þögnina um kynferðisofbeldi“. DV þorir meðan aðrir þegja. Eða hvað?

Það er eitthvað brenglað við að þessi sami fjölmiðilli skuli síðan kvarta yfir því að almennir borgarar spyrji gagnrýninna spurninga sem tengjast rekstri einnar af stærstu, dýrustu og áhrifamestu stofnunum ríkisins. Þetta hefur DV gert í tveimur leiðurum og nú í kjallaragrein. Í stað þess að ræða þetta mál á ofangreindum forsendum er lagt upp með að í hlut eigi vondir femínistar með vondan femínisma að leiðarljósi. Þessi tilvitnun í kjallara IFV er gott dæmi um það: „Hvernig þjónar það hinni femínísku baráttu að Jón Baldvin fái ekki að kenna á einu námskeiði við Háskóla Íslands? Er einhver sigur unninn í því fyrir kvenfrelsisbaráttuna?“ Þessu er best svarað með því að hvetja höfund til að lesa aftur fyrrnefnda knúzgrein og leita að „femíniskri baráttu“ og „kvenfrelsisbaráttu“. Það ku vera háttur góðra blaðamanna.

Ingimar Karl Helgason tók saman yfirlit yfir þessa umræðu og birti á vefsetri sínu. Hann hefur fylgt því eftir á Facebook. Þar segir hann í stöðuuppfærslu:

Hildur Lilliendahl og Helga Þórey mega ekki hafa skoðun og er refsað fyrir tjáningarfrelsi sitt og réttlætiskennd. Orð sem notuð hafa verið eru meðal annars: brennuvargar, pólitískur rétttrúnaður, talíbanar, refsing, heift. osfrv. Þetta hafa þær fengið á sig í opinberum fjölmiðlum, dögum saman, fyrir að voga sér að lýsa skoðun sinni í grein á vefriti. Þær hafa einnig verið sakaðar um kvalarlosta, gægjufíkn og hefndarþorsta. Hildur vakti athygli á því í status á Facebook og sagði að þetta þætti sér miður og líka að fólk tæki undir slíkan málflutning. Þá er ráðist á hana fyrir það.“

Þetta mál verður alltaf umdeilt og einboðið að ræða það á málefnalegum forsendum. Þessi kjallaragrein er varla innlegg í slíka umræðu. Ég var sjálfur ekki alfarið sammála knúzgreininni á sínum tíma. En ég get alveg rætt það við höfunda hennar án þess að ausa yfir þær  fúkyrðum og fordæma þær persónulega.

7 athugasemdir við “Kjallarakjökur

 1. Gísli. Þú segir um DV: ,,Það hikar ekki við að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur og hefur hvatt til gagnrýninnar umræðu.“ Það er tilgangurinn með greininni: Að gagnrýna það sem mér finnst gagnrýnivert í orðum Hildar og Helgu og hvetja til gagnrýninnar umræðu. Þú hlýtur að fagna því?

  • Ég fagna auðvitað gagnrýninni umræðu og málefnalegri. En eins og þú sérð, þá hnýti ég í þessa femínisku tengingu þína og forsendu, eins og fram kemur í greininni. Finnst þér sjálfum réttlátt að meta spurningu þeirra í knúzgreininni margumtöluðu út frá femínisma?

 2. Nú er ég búinn að lesa kjallaragreinina hjá Inga Frey. Verst þykir mér hvað hún er öll útbíuð í stafsetningarvillum. Þar eru viðhöfð stór orð svo hann bætist þá einfaldlega í þann haug fólks sem hefur haft uppi óþarflega stór orð um málið, sem eru nánast allir.

  Að því sögðu sé ég hluti í henni sem ég get að sumu leiti verið sammála og einnig aðra sem ég er ósammála.

  Ef við byrjum á því sem ég er ósammála. Að það sé einhver dulin hótun í orðum Hildar og Helgu er einfaldlega rangt. Ingi Freyr gefur sér það að þær séu mun valdameiri manneskjur en raun er. Þetta er þeirra skoðun á ráðningu Jóns Baldvins og þær eiga sama rétt á að varpa henni fram eins og hver annar. Ég er ósammála þeim í rökstuðningi þeirra varðandi mál Jóns Baldvins en það breytir því ekki að skömmin er Háskólans. Allar útskýringar stofnunarinnar á máli Jóns Baldvins hafa verið lélegri en sú síðasta svo skólinn situr uppi með Svarta Pétur. Að halda öðru fram finnst mér vera eins og að skjóta sendiboðann.
  Orð Rúnars Helga í grein Inga Freys eru dæmi um hlut sem ég orðinn óskaplega þreyttur á. Að gefa sér að fólk hafi alltaf verstu hugsanlegu ástæður til að gera og segja ákveðna hluti. Allt þetta tal um kvalalosta, gægjufíkn og hefndarþorsta er að halda fram ákveðnum mótífum sem viðkomandi hefur engar forsendur til að trúa að séu á rökum reistar. Þetta er vondur siður í íslenskri umræðu, demónísering á andstæðingum sínum.

  En þá að því sem ég er að sumu leiti sammála. Ég sé heldur ekki hvernig það tengist jafnréttisbaráttu að meina Jóni Baldvini að kenna við Háskólann. Hildur og Helga segja í sinni upphaflegu grein að þolendur kynferðisofbeldis eigi að fá grið innan HÍ. Braut Jón Baldvin persónulega gagnvart öllu því fólki? Mér finnst þær líka detta í þá gryfju að barngera fullorðið fólk. Nemendur í HÍ teljast vera fullorðið fólk. Partur af því að vera fullorðinn er að þurfa að eiga við aðstæður sem eru hugsanlega óþægilegar. Ef við ætluðum að vernda alla þá sem gæti liðið óþægilega einhvers staðar þyrftum við líklegast öll að búa inni í plastbólu. Það má vel vera að þetta sé ónærgætið af mér en upp á praktíska lausn held ég að það verði að standa. Annað mjög mikilvægt í þessu sambandi er að ef manneskja hefur gerst brotleg við lög eða almenna siðferðiskennd, hefur játað brot sitt, tekið út þá refsingu sem hún átti skilið (umdeilanlegt hvort Jón Baldvin hafi gert það eða ekki), þá er hún með hreinan skjöld aftur. Við verðum að passa okkur á því að dæma ekki fólk til ævilangrar útlegðar og útskúfunar úr samfélaginu. Í rauninni er það alveg eins og um fanga væri að ræða. Að lokinni afplánun væri honum meinað um vinnu alls staðar.
  Annað sem ég get tekið undir hjá Inga er að benda á að mjög mikið af fólki stjórnast af þessum hugsunarhætti: Ef þú ert ekki með okkur ertu á móti okkur. Hildur Lilliendahl hefur mér stundum fundist hafa fallið í þessa gryfju. En ég held að fáir geti talist vera saklausir af þessum hugsunarhætti, ekki heldur þú Gísli. Þú fellur í þessa gildru þegar þú segir að „í þeirra munni er femínismi neikvætt orð og femínistar eru vont fólk“. Hvaða þeir? Á það við um alla sem hafa tjáð sig um málið sem eru ekki 100% sammála Hildi og Helgu? Spyr sá sem ekki veit.

  Bara að því sé haldið til haga þá finnst mér hegðun Jóns Baldvins gagnvart Guðrúnu Harðardóttur svívirðileg. Í rauninni hefur hann sloppið ótrúlega billega frá því máli. Sú holskefla af sympatíu sem hann hefur sjálfur fengið finnst mér líka vera út úr öllu korti. Mér er hins vegar fyrirmunað að sjá hvað eitthvað af þessu hefur með það að gera hvort hann væri góður gestakennari fyrir þann áfanga sem hann átti að kenna. Kannski þarf ég á mansplaining að halda, hver veit.

 3. Fyrst þú spyrð, Sveinbjörn, er mér ljúft og skylt að svara. Þessir „þeir“ er hópurinn sem afvegaleiðir umræðuna með stimplum og klisjum sem koma þessu tiltekna máli ekki við. Það á ekki við um alla sem hafa tjáð sig um málið og eru ekki 100% sammála Hildi og Helgu. Það er nefnilega vel hægt að vera ósammála þeim á málefnalegum grundvelli. Eins og kemur fram í niðurlaginu.

 4. „Annað mjög mikilvægt í þessu sambandi er að ef manneskja hefur gerst brotleg við lög eða almenna siðferðiskennd, hefur játað brot sitt, tekið út þá refsingu sem hún átti skilið (umdeilanlegt hvort Jón Baldvin hafi gert það eða ekki), þá er hún með hreinan skjöld aftur. “

  Jón Baldvin hefur aldrei nokkurn tímann játað á sig kynferðislega áreitni. Þvert á móti hefur hann ítrekað neitað því að nokkuð kynferðislegt hafi legið að baki hinum mjög svo kynferðislegu bréfum sem hann ritaði, og neitað því að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða. Hann hefur ekki sætt neinni refsingu og hefur neitað því að hafa brotið lög. Hann hefur ekki einu sinni játað á sig siðferðisbrest. Það eina sem hann hefur viðurkennt er „dómgreindarbrestur“, en ekkert umfram það.

  Þannig að það á engan veginn við um hann að hann hafi játað brot sitt eða tekið út sína refsingu. Hann neitar sök, þó að sönnunargögnin liggi fyrir í formi umræddra bréfa. Það er stór hluti af vandanum í þessu máli og þess vegna er ekki hægt að segja að hann sé með hreinan skjöld.

 5. Amingja Ingi. Hann mátti þola svo þola svo slæmaar svíviðriðnar af minni hálfu sem hann reyndar taldi beinast að Hildi að hann þurrkaði mig út.
  Ekki er það í fyrsta skipti sem ingi sé ástæðu til að stinga upp í mig. Hitt skiptið var þegar hann hótaði að stefna blaðamanni eftir að hafa „kjallarakjökrað“ yfir stefnum sem að honum beindust.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.