Hán – nýtt persónufornafn?

Höfundur: Alda Villiljós

gender-balance-istock featureÞegar ég var barn var kynímynd mín, líkt og margra annarra barna, ekki sérstaklega sterk. Jú, ég klæddi mig upp í prinsessukjóla, helst á hverjum degi, og svaraði ekki öðru nafni en Þyrnirós í lengri tíma, en seinna fékk ég frekjukast þegar mamma kallaði mig inn og sagði mér að ég gæti alls ekki leikið mér úti án þess að vera í bol, þar sem það voru farin að vaxa á mig brjóst. Ég skildi ekki hvaða máli það skipti og reyndi að útskýra fyrir mömmu að ég gæti alls ekki leikið Móglí í stuttermabol, en hún haggaðist ekki. Ég lék mér með Lego og Sylvanian Families, Barbie og aksjónkalla, safnaði límmiðum og servíettum og lék mér í bíló þess á milli. Svo að þegar ég fór fyrst að rannsaka kynímyndir fyrir rúmum þremur árum og ákvað að ég væri miklu meiri strákur en stelpa fannst mér forsaga mín ekki alveg passa.

Forsögur transeinstaklinga* eru auðvitað misjafnar, ég veit það núna, og alls ekki mikilvægt viðmið fyrir þá kynímynd sem maður vex inn í sem fullorðin manneskja, þrátt fyrir þá stereótýpu. En þegar ég var rétt að dýfa tánum ofan í þann heim fannst mér samt eins og ég passaði ekki inn. Ég hafði alls ekki „alltaf vitað” að ég væri strákur, þó ég hafi farið í gegnum skeið þar sem ég hagaði mér „strákalega”. Þá fannst mér ég þurfa að fela prinsessutímabil mitt og ást mína á postulínsdúkkum og tuskudýrum. Ég losaði mig við allt dót sem mér fannst of stelpulegt, útvegaði mér hlýrabol sem var sérstaklega hannaður til að kremja niður brjóstin til að fela þau, fór að sofa á hverju kvöldi með óbærilega bakverki eftir að hafa gengið um allan daginn með hokið bak til að fela þau enn betur og æfði göngulag og hreyfingar sem mér fannst gera mig karlmannlegri.

Þrátt fyrir allt þetta fannst mér ég enn ekki passa almennilega inn, svo ég sökkti mér ofan í bækur um og eftir transeinstaklinga. Mér tókst m.a.s. að velja efni fyrir BA-ritgerðina mína sem snerist um transfólk, svo að ég hafði góða afsökun til að lesa enn meira. Uppáhalds bókin mín frá þessu tímabili er án efa bókin Gender Outlaw (ísl. Kynjaútlaginn) eftir Kate Bornstein. Sú bók kynnti mig fyrir þeirri hugmynd að það væru fleiri en bara tvö kyn, að maður gæti verið eitthvað annað en einfaldlega karlkyns eða kvenkyns. Ég heillaðist strax af þessari hugmynd, enda hafði ég allt mitt líf sveiflast fram og til baka á kynímyndaskalanum* og oft fundist ég alls ekki vera á honum.

Ég komst í kynni við fjölda einstaklinga í gegnum internetið sem leið svipað og mér – fannst þau ekki vera karlkyns eða kvenkyns, heldur eitthvað annað, eða bæði, eða einfaldlega kynlaust. Ég mátaði flestar kynímyndirnar sem ég komst í kynni við, sumar í lengri tíma, en ákvað á endanum að ég gæti enn ekki fundið neitt sem passaði mér nógu vel. Í fyrsta skipti á ævinni fannst mér það samt ekki svo slæmt. Ég gat einfaldlega verið hinsegin (e. queer eða genderqueer), eða með breytilega kynímynd (e. gender fluid). Á þessum tíma bjó ég í London og kynntist enskum persónufornöfnum sem voru nýyrði, búin til af fólki eins og mér sem fannst það vera hvorki kvenkyns né karlkyns. Það eru til þó nokkur mismundandi fornöfn í þessum stíl, og hægt er að finna þau auðveldlega með því að leita að „gender neutral pronouns” á netinu. Mér leist hins vegar best á gamalt og gilt fornafn, „they“, en það er notað í vaxandi mæli í eintölu þegar kyn umrædds aðila er óþekkt, órætt, eða ótengt umræðuefninu. Þetta fornafn hefur líka þann kost umfram flest nýyrðin að vera mun þjálla í töluðu máli.

Þegar ég flutti til Svíþjóðar í fyrra komst ég í kynni við annað persónufornafn, „hen“, sem Svíar hafa notað í einhvern tíma og flestir þekkja, þótt ekki séu allir tilbúnir að nota það. Það kom hins vegar babb í bátinn þegar útlit var fyrir að ég þyrfti kannski að flytja aftur heim til Íslands vegna fjárhagsörðugleika. Það er nefnilega ekki til neitt persónufornafn á íslensku, svo að ég viti til, sem er hægt að nota á sama hátt og ensku fornöfnin og hið sænska. Ég gæti jú notað „það“, en ég er ekki vitsmunalaus hlutur; ég er manneskja og finnst það bæði særandi og niðurlægjandi að vera kallað „það“.

Ég átti í nokkrum samræðum við íslenska vini mína um það hvernig væri best að þýða þetta nýja fornafn svo að það yrði þjált og auðvelt í notkun, og að lokum kom út nýyrðið „hán“. Í einhvern tíma íhugaði ég að taka einfaldlega upp sænska fornafnið „hen“, en fannst það ekki nógu þjált, auk þess sem það væri auðvelt að misheyra sem „hann’“. Orðið „hán“ er hins vegar einskonar samansetning af bæði „hann“ og „hún“ en nær að hljóma algerlega öðruvísi svo það fer ekki á milli mála að þetta er allt annað fornafn. Það myndi þá beygjast „hán, hán, háni, háns” líkt og hvorugkyns orð, og lýsingarorð myndu sömuleiðis beygjast í hvorugkyni.

Hvort sem ég tala við fólk á sænsku eða ensku rekst ég alltaf öðru hvoru á fólk sem neitar að nota þau fornöfn sem ég bið þau að nota. Oftast er það fólk sem vill meina að þessi fornöfn séu röng, þau séu ekki til eða séu óþarfi þar sem hægt sé að nota „það“ í staðinn. Þetta fólk gleymir því að tungumál og málvenjur eru aldrei úr lausu lofti gripin; tungumál er skapað og mótað af okkur, notendum þess, og ný orð og orðmyndir eru alltaf að bætast við. Ég vona að Íslendingar verði viljugri til þess að taka við þessu nýyrði, enda erum við alræmd fyrir að búa til frábær nýyrði í stað þess að nota slettur úr öðrum tungumálum og um að gera að halda því áfram.

 

*Ég lærði svo seinna að það að tala um kyn sem skala á milli karlkyns og kvenkyns er einfaldlega kjánalegt; kyn er alls ekki einhver bein lína heldur stórt krot í mörgum litum sem sveiflast í allar áttir.. en það væri efni í aðra grein.

15 athugasemdir við “Hán – nýtt persónufornafn?

 1. Mikið er ég fegin að einhver ákvað loks að skrifa grein um þetta. Ég heyrði þetta fyrir held ég nokkrum árum í umræðu hjá Q-félagi hinsegin stúdenta. Vel gert, Alda. Mjög góður punktur í umræðuna varðandi transeinstaklinga.

 2. Komdu sæl Alda Villiljós og takk fyrir þessa frábæru og fræðandi grein um fjölbreytileika kynímyndanna. Ég deildi henni á FB síðu minni og þar spunnust strax áhugaverðar umræður um hugtök og hvernig beri að nota þau. Samkvæmt Wikipediu eru transsexual einstaklingar sem láta leiðrétta kyn sitt þýddir sem „transfólk“, „transmenn“ og „transkonur“ á Íslandi. Gallinn við slíkar þýðingar er að þar með fara allar skilgreiningar á transgender og hinsegin einstaklingum, sem ekki vilja endilega tengja sig við eitt kyn að lenda undir einum transsexual hatti í huga fólks. Að trans þýði það sama og kynleiðrétting. Mér þætti vænt um að heyra hvað þér finnst um slíka hugtakasmíð og hvort þú hafir skoðun á því hvernig best væri að þýða á íslensku.

  Ég hef líka verið að leika mér að því að fallbeygja „hán“ á íslensku og finnst þetta hið skemmtilegasta orð. Eini gallinn er kannski sá að þegar hán er beygt í hvorugkyni eins og þú leggur til, (hán, hán, háni, háns) þá líkist það mjög mikið karlkynsbeygingunni á „“hann“, sérstaklega í nf, þf. og ef. (hann, hann, honum, hans). Stundum er kvenkynið mest hinsegin vegna þess að það sker sig úr (hún, hún, henni, hennar). Að beygja „hán“ í kvenkyni sem (hán, hána, hánni, hánnar) myndi að mínu viti hjálpa til að rjúfa þá einokun sem karlkynið hefur á tungumálinu sem hið ómarkaða, normalíseraða kyn.

  Takk aftur!

  • Sæl Sigríður – og í mínu tilfelli væri það víst „sælt“ 😉

   Mín skilgreining þar hefur oftast verið sú að transsexual þýði fólk sem ætlar eða er búið að gangast kynleiðréttingar aðgerð/ir og/eða hormóna, en transgender, eða einfaldlega trans* sé notað sem regnhlíf yfir alla trans* einstaklinga (stjarnan hér er notuð sem tákn fyrir hvað sem gæti komið á eftir trans – transsexual, transgender, og undir transgender kemur allt annað, t.d. genderqueer, agender, gender fluid, o.s.frv.). Trans* manneskja væri mitt persónulega val á íslensku (það er ókostur við íslenskuna að gender og sex eru bæði þýdd sem kyn!), en ég hef líka séð fólk nota orðið transari, er samt ekki nógu mikið inni í íslenskri hinsegin menningu til að vita nákvæmlega hvaðan það kemur eða hvernig það er notað (þ.e. er það eins og sænska transar sem er mjög saklaust og þjált, eða eins og enska tr*nny, sem er flokkað sem móðgun og má eingöngu notast af trans* konum til að endurheimta orðið?).
   Ég setti reyndar upp texta á facebook fyrir nokkru síðan þar sem t.d. þróaðist þetta nýja fornafn, en umræðan snerist almennt um hinsegin orð sem ég kunni ekki að þýða, og það komu margar skemmtilegar tillögur og umræður í kringum þau – ef einhver vill skoða, þá er það allt saman hér: https://www.facebook.com/notes/alda-villilj%C3%B3s/%C3%ADslenskar-%C3%BE%C3%BD%C3%B0ingar-%C3%A1-%C3%BDmsum-lgbtq-tengdum-or%C3%B0um/10150237664812122

   Mér fyndist persónulega óþægilegt að fallbeygja hán í kvenkyni – eins og Bjarki bendir á væri heldur óþjált að beygja þá lýsingarorð sem koma eftir í hvorugkyni, og þó það virki kannski vel fyrir Halldór, eða önnur karlmannsnöfn, að snúa því svoleiðis, myndi það alls ekki virka fyrir mig, sem hefur verið komið fram við sem kvenkyns alla mína ævi. En áhugaverð pæling samt, og finnst mér mikilvægt að halda því kannski dálítið opnu fyrir hvern og einn að koma fram við þetta nýja orð eins og þeim finnst best, og sjá einfaldlega hvert það fer. Og góður punktur líka að í hinsegin baráttu er einmitt mikilvægt að sjá hlutina frá nýju og öðruvísi sjónarhorni, svo kannski væri einmitt bara allt í lagi að blanda kynjunum saman! Það er líka alveg rétt hjá þér að kvenkynið má einmitt bara nota um konur en karlkyn um allt. Hvorugkynið er hins vegar aldrei notað um manneskjur, sem er ástæðan fyrir að mér finnst rosalega gaman að nota það. 🙂

 3. Þetta er hið áhugaverðasta mál fyrir okkur sem látum okkur félagslega málfræði varða. Í málfræði er orðflokkum skipt upp í opna og lokaða flokka eftir því hvort þeir geta tekið við nýyrðum. Við getum hæglega bætt við nafnorðum, lýsingarorðum, sagnorðum og sumum greinum atviksorða í málið, jafnvel forsetningum. Hins vegar hefur verið gengið út frá því að sumir orðflokkar, t.d. fornöfn og samtengingar séu lokaðir. Hér er þeirri kennisetningu ögrað. Ef orðið hán hlýtur viðtökur og kemst í notkun þá hefur kennisetningunni verið hrundið. Það verður spennandi að sjá hverju fram vindur.
  Innlegg Sigríðar Guðmarsdóttur er áhugavert en hefur annmarka sem Alda hefur séð fyrir. Fornöfn stýra kynbeygingu lýsingarorða sbr. „hann er hár/gamall/fróður“ og „hún er há/gömul/fróð“ (í þetta þurfa Svíar ekkert að spá). Ef hán er fær kvenkynsbeygingu yrði það að taka með sér kvenkynsmynd lýsingarorða: „hán er há/gömul/ung“. Það myndi varla ganga: „Þarna kemur Halldór, hán er gömul og fróð“. Jafnvel hvorugkyn myndi vefjast fyrir ýmsum en það er þó eina leiðin til að dæmið geti gengið upp: „Þarna kemur Halldór, hán er gamalt og gott“. Hán yrði sem sagt að haga sér á allan hátt eins og orðið það. Munurinn fælist þá í því að hán myndi vísa til persónu en það til dýra og hluta, líkt og dreifingin á milli he/she og it í ensku. Þannig kemur út kerfi sem er sjálfu sér samkvæmt og myndi virka. Eftir stendur spurningin hvort málnotendur treysti sér til að breyta – spurningin um það hvort fornöfn eru í raun og sann lokaður orðflokkur – hvort innbyggða málfræðikunnáttan okkar hamli okkur frá því að gera svona kerfisbreytingu á tungumálinu. Líka þeim okkar sem myndu annars telja hana æskilega og jafnvel nauðsynlega í þágu jafnréttis kynjanna.

  • Sæll Bjarki, þetta er bæði maklegt og réttvíst innlegg. Það er hins vegar stór spurning hvort Halldóri sé meiri greiði gerður með því að tala um hán í hvorugkyni eða kvenkyni. Hvort tveggja kynið hvorugs og kven hristir upp í hugmyndinni um karlkynið sem hið ómarkaða kyn. Er endilega mikilvægt í hinsegin baráttu að „dæmið gangi upp“, þ.e. að fornafnið og lýsingarorðið sé í samræmi? Ég spyr í fúlustu alvöru.

   Ég er prestur að atvinnu og köllun og var 20sta í röð íslenskra kvenpresta. Á þeim tíma þótti sjálfsagt og eðlilegt að vísað væri til kvenprestanna í karlkyni og talað um þá prestana jafnvel þótt við værum allar konur. Á seinni árum er ég farin að andæfa þessum málskilningi og vísvitandi brjóta málfræðireglurnar sem sjálfkrafa vísa til mín sem að Sigríður sé góður eða lélegur prestur eftir atvikum, en ekki góð og léleg. Ég geri það til að sýna fram á að veruleika hins ómarkaða kyns sem bindur mig sjálfkrafa á karlkynsbás. Ég segi líka stundum að Guð sé góð, þó að það sé algerlega rangt málfræðilega til að benda á það að guðið sem ég trúi á er ekki kall á jakkafötum.

   Ég er svolítið hrifin af hvorugkyni og get því alveg gúdderað Halldór sem hvorugkynshán. En ég held að notkun kvenkynsins kalli oft á róttækari viðbrögð, einmitt vegna þess að það má ekki nota það um annað en konur, meðan nota má karlkynið sem hið almenna.

   Halldór, hán er bæði góð og falleg.
   Halldór, hán er bæði gott og fallegt.
   Halldór, hán er bæði góð/ur og falleg/ur.
   Hanna, hán er bæði góður og fallegur.

   Þetta finnast mér skemmtilegar transæfingar og minna mig á barnabókina „Selur kemur í heimsókn“ sem ég las í bernsku og snerti mig djúpt.

 4. Fynst geggjað cool að lesa þessa grein. takk fyrir að skifa hana.
  Langaði bara að benda á að það eru allavega til þrjú kynlaus fornöfn sem er verið að nota núna ;P Hín, hán og hé. Persónulega fynst mér hé skemtilegast, þótt ég hafi máttað hin tvö lika.

 5. Bakvísun: Orðsending til íslenskrar umræðuhefðar | *knúz*

 6. Bakvísun: Hvað er hinsegin? Síðari hluti | Ásta Kristín Benediktsdóttir

 7. Bakvísun: Leyndardómar fornafna og femínísk málstýring | Knúz - femínískt vefrit

 8. Bakvísun: Hán | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.