Heykvíslar nútímans

Höfundur: Ingunn Sigmarsdóttir

 

Myndskreyting frá 17. öld - baskneskir hvalveiðimenn undan Vestmannaeyjum

Myndskreyting frá 17. öld – baskneskir hvalveiðimenn undan Vestmannaeyjum

Í september árið 1615 stigu baskneskir hvalveiðimenn á land á Vestfjörðum eftir skipbrot í óveðri. Til þess að bjarga sér frá hungurdauða slátruðu þeir fáeinum kindum sem þeir hlupu uppi. Fáfróðir bændur vígbjuggust og stormuðu af stað með heykvíslar, skóflur og önnur tiltæk vopn og barefli. Skemmst er að segja frá því að þarna var murkuð líftóran úr hvalföngurunum útlendu sem gátu enga björg sér veitt. Sökum tungumálaörðugleika, fáfræði, fordóma og ótta var forgangsröðin sú að drepa fyrst og spyrja svo. Þessi saga hefur ekki fengið mikið pláss í annálum okkar eða sögukennslu íslenskra skóla enda til háborinnar skammar fyrir okkur sem þjóð að taka svona á móti bágstöddu fólki. Ég vona svo sannarlega að móttökur útlendinga hér á landi hafi breyst og líklega sanna síhækkandi tölur úr ferðaþjónustunni það að gestrisni okkar hefur eitthvað þroskast.

Það sama finnst mér ekki mega segja um framkomu okkar hvert við annað. Ennþá eru heygafflar og önnur morðtól munduð og reitt er til höggs án þess að spyrja um málavöxtu. Stungið fyrst, barið og síðan spurt. Oftar er þó alls ekki spurt. Ef einhver hefur það hugrekki til að bera að spyrja spurninga sem varða kynferðisofbeldi, spurningar sem snúast um þolendur, og þá sérstaklega ef minnst er á gerendur –  tala nú ekki um ef þeir eru frægir –  ja, þá bara verður allt vitlaust. Sérstaklega í skjóli tölvuskjásins sem reynst hefur býsna gott virki fyrir kjaftagleiða dómara samfélagsins. Ef bent er á ósanngirni, kynbundinn launamun, ofbeldi og önnur mein sem grassera í þjóðfélaginu rísa upp fáfróðir sjálfskipaðir verjendur og munda vopnin. Drepa án þess að spyrja og skrifa margir hverjir sóðaleg ummæli, oftar en ekki full af stafsetningar- og rökvillum um hlussur, tussur og brussur og hvaða nöfn sem þeir nú velja.

Í janúar sl. gerði ég athugasemd við brandara „vinar“ míns á Facebook þar sem hann spurði hvað væri líkt með konum og grasi?  Jú, það þyrfti að slá þau reglulega. Þetta þótti mörgum góð fyndni. Ég spurði hann hvort honum þætti ekki, sem eiginmanni og föður, óábyrgt að grínast með jafn alvarlegt efni og heimilisofbeldi. Benti honum á að margar konur ættu um sárt að binda vegna slíks og brandarar af þessu tagi væru óviðeigandi. Holskefla sú sem ég fékk yfir mig daginn þann í netheimum minnti mig nokkuð á heykvíslaárásir vestfirsku bændanna á sautjándu öld. Og ég sem hélt að netið og öll menntunin okkar hefði útrýmt fáfræði og fordómum! Til að gera langa sögu stutta lauk „vinskap“ okkar í netheimum þennan dag. Sumir studdu mig, öðrum fannst þetta óþarfa tittlingaskítur. „Vinur minn“ fyrrverandi sá ekki ástæðu til að biðjast afsökunar. M.a.s. konunni hans þótti þetta fyndinn orðaleikur!

Undanfarið hef ég fylgst með umræðum á knuz.is og víðar í netheimum þar sem dómharðir besservisserar fara mikinn og úthúða þeim sem benda á siðferðisbresti í þjóðfélaginu. T.d. þeim sem spyrja um réttmæti þess að ráða klæminn eldri borgara, sem misbauð unglingsstúlku með dónalegum bréfum, til starfa hjá ríkisstyrktri menntastofnum. Ótrúlegasta fólk mundar tiltæk vopn og reiðir til höggs. Jú það er allt í lagi að benda á ofbeldi og dónaskap, bara ef enginn er nafngreindur, og alls enginn frægur. Þeir frægu eiga sér hvatvíst heimavarnarlið í góðri herþjálfun.

Ég hef í mínu starfi sem kennari og umsjónarmaður skólabókasafns oft verið spurð af hverju ég kaupi ekki mannasiðabækur Gillz og fleira lesefni í þeim dúr. Ég segi stundum við börnin að þau skilji það þegar þau verði stór, af hverju ég vilji ekki kaupa bækur sem niðurlægja konur. Börnin hrista hausinn en sum segja mér glottandi að amma eða afi hafi gefið sér bókina og hún sé geðveikt kúl. Sum segja mér líka frá ljótum tölvuleikjum og bíómyndum sem þeim hafi verið leyfður aðgangur að heima fyrir í trássi við lög. Fyrir stuttu las ég grein um lítinn erlendan dreng sem alist hafði upp með leiknum Grand theft auto og hafði nýlega murkað líftóruna úr einhverjum fjölskyldumeðlimum. Slíkt hryggir mig meira en orð fá lýst og fær mig til að óttast um siðferði drengjanna okkar í framtíðinni. Kannski netverjarnir hvatvísu séu einmitt af fyrstu kynslóð þeirra sem alist hafa upp við slíka leiki? Verðugt rannsóknarefni fyrir félags- og mannfræðinga?

Oft ber jafnréttismál á góma, bæði í mínu starfi og einkalífi. Margir af báðum kynjum hafa sagt við mig að jafnrétti sé hið besta mál en bara ekki „öfgafemínismi“. Þegar ég spyr hvað um sé rætt verður fátt um svör. Æ bara svona æstar kerlingar á netinu eða t.d. óþarfa gagnrýni á uppröðun í Toys´R´Us. Það sé einmitt svo þægilegt að kaupa afmælisgjafir í stelpu- og strákaganginum þar, t.d. prinsessudót og svoleiðis (prinsessur hafa náttúrulega ekki áhuga á kynbundnum launamun, þær eiga fullt af peningum!) Ekkert má nú orðið segir fólk og dæsir. Allir orðnir húmorslausir bara. Og enginn megi segja neitt þá séu þessar æstu kerlingar roknar til að skrifa skammir á netinu. Ekki get ég þó líkt saman þeim greinum sem ég hef nýlega lesið eftir femínista og þeim árásum sem æstur múgurinn setur af stað sem andsvar. „Margur heldur mig sig“. Stundum bið ég fólk sem talar illa um femínista að fletta orðinu upp í orðabók. Hvort jafnrétti sé þeim á móti skapi. Nei ekki jafnrétti, bara þessar geðillu hlussur, tussur og brussur sínöldrandi. Þá missi ég næstum móðinn.

Óskir mínar um betri heim snúast ekki bara um jafnrétti og útrýmingu ofbeldis af hverju tagi, heldur einnig um málefnalega og kurteisa umræðu fólks á milli, í netheimum jafnt sem raunheimum. Að heykvíslar og önnur morðvopn séu lögð til hliðar og mannúð og kærleikur höfð í huga þegar við sláum á lyklaborðið eða opnum munninn til svara, hvert svo sem málefnið er. Ég vona sannarlega að framtíð dætra minna verði ekki sá vígvöllur sem mér sýnist íslenskt netsamfélag stefna í að verða. Að þær fái að segja sínar skoðanir án þess að vera dæmdar norður og niður. Og ekki síst, að þær fái ekki lægri laun en karlmenn og fái að njóta sín í eigin skinni með kostum og göllum án þess að eiga á hættu árásir og niðurbrjótandi gagnrýni. Að múgurinn drepi ekki fyrst og spyrji svo líkt og gert var fyrir vestan 1615.

 

5 athugasemdir við “Heykvíslar nútímans

 1. Áhugavert að þú bendir á heykvíslar og kyndla í sömu andrá og þú mælir með ofsóknum á hendur þeim sem hafa aðra siðferðistilfinningu en þína.

  Þú talar um besservíssera sem úhúða þeim sem „benda á siðferðisbresti“. Persónulega finnst mér aðfarirnar á móti Jóni Baldvini og Agli Einarsyni séu ögn meira en „ábendingar um siðferðisbresti“ og líkist frekar skipulögðu mannorðsmorði.

  Slík afstaða hefur ekkert með jafnrétti að gera, þó þú og aðrir felið ykkur á bak við slíka retorík. Hún á frekar skylt við einelti, frekju og umburðarleysi gagnvart náunganum.

  Vígvöllurinn sem þú talar um er gerður af þér og stöllum þínum sem sá hatri og umburðarleysi í kringum sig af einstökum dugnaði.

  Ef þú gætir notað eitthvað af þeim kærleika sem þú eftrilýsir í þínum eigin skrifum þá væri stórt skerf tekið í að uppræta þá heimsku sem femínismi stendur fyrir.

 2. „Ég segi stundum við börnin að þau skilji það þegar þau verði stór, af hverju ég vilji ekki kaupa bækur sem niðurlægja konur.“

  Þætti þér þetta eðlilegt viðhorf hjá kollega: „Ég segi stundum við börnin að þau skilji það þegar þau verði stór, af hverju ég vilji ekki kaupa bækur sem…“

  „…fjalla um ókristilega hluti“
  „…sýna unglingadrykkju og fíkniefnaneyslu“
  „…hvetja til kommúnisma“
  „…tala um aðrar getnaðarvarnir en skírlífi“

  Það á ekki að ritskoða bókasöfn, þau eiga að innihalda allskonar bækur. Það á að treysta fólki sjálfu til að vega og meta hugmyndir, og það gerir það ekki nema það hafi aðgang að þeim.
  Hlutverk skólabókasafna er enn fremur að hvetja börn til lesturs, og að þú látir persónulega hugmyndafræði koma í veg fyrir að börnin hafi aðgang að bókum sem þau sækjast eftir að lesa er skammarlegt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.