„Það er nú meira hvað menn eru farnir að deyja“

Höfundur: Ása Fanney Gestsdóttir

„Það er nú meira hvað menn eru farnir að deyja“, var haft eftir gamalli konu á síðustu öld sem furðaði sig á öllum minningargreinunum í Mogganum. Eins er það með kynferðisafbrotin sem við skolum niður með morgunkaffinu. Þetta eru meiri ósköpin. Aumingja fólkið. En auðvitað er þetta ekkert nýtt. Hér áður fyrr var hvíslað um stelpu eða strák sem hafði ,,lent í einhverju“. Nú eru erfiðu málin uppi á borðum og rædd opinskátt. Það er eina leiðin. Biskupinn, Breiðavík og allt hitt opnaði augu okkar sem betur fer.

Þolendur eiga heiðurinn að þessari hugarfarsbreytingu, með því að rjúfa þagnarmúrinn og gefa okkur innsýn í reynsluheim sinn. Fólk eins og ég og þú sem hefur orðið fyrir ógeðslegum glæpum. Við vitum öll að það er ekki fólki að kenna að því er nauðgað, hvort sem það var í stuttu pilsi eða of fullt eða hvorugt..  Það er hræðilegt að verða fyrir kynferðisofbeldi, en við tölum ekki lengur um sálarmorð.  Fólk hefur að sjálfsögðu áfram sál.  Þetta vitum við í dag.   Misnotkun á börnum vekur upp rosalega reiði.  Þá segir stundum einhver það sem allir eru hugsa, að réttast væri að hengja þessi skrímsli upp á pungnum og húðstrýkja þau.

Auðvelt er að hafa samúð með þeim sem brotið hefur verið á. Þetta eru ótrúlegar hetjur, þau sem koma fram og segja frá. Oft er vitað hver gerandinn var, hann er þá kannski dáinn eða er ógæfumaður á jaðri samfélagsins.

Dögun e. Einar Jónsson. Listamaðurinn sækir innblástur í þjóðsöguna um Nátttröllið

Málið vandast hins vegar þegar farið er að benda á einhvern hér og nú, jafnvel vinsælan fjölskylduföður.  Hinn meinti gerandi er ekki kaþólskur prestur heldur listamaður, ekki ógeðslegur karl heldur sætur strákur. Kannski uppáhalds leikstjórinn þinn eða mikils metinn hugsuður, jafnvel femínisti?  Tröll sem breytist ekki í stein þótt sólin skíni á það. Fínn og skemmtilegur gaur. Manneskja eins og ég og þú. Þetta er kannski einhver misskilningur?

Hugrænt misræmi fer af stað, tvær hugmyndir sem stangast á hvor við aðra. Hér höfum við fórnarlamb, fínan gaur og skrímsli en þú mátt bara velja tvo. Hvernig getur það gengið upp?

Þú vorkennir fórnarlambinu, en þú skilur það ekki.  Þú ert góð og skilningsrík manneskja. Þú hatar skrímsli. Þú skilur fína gaurinn. Fórnarlambið verður að skilja fína gaurinn. Er fíni gaurinn fórnarlambið? Er fórnarlambið skrímsli? Mikið er þetta óþægilegt, þarf endalaust að vera að ræða svona mál?

Það er svo auðvelt að standa með þeim sem við skiljum. Kirkjan passar prestana. Kvikmyndafólkið lýsir yfir stuðningi við Polanski. Valdafólkið styður pólítíkusana og plebbarnir eiga sinn mann. Allt fínir gaurar sem gera mistök. Fórnarlambið verður bara að skilja það og þá verða allir sáttir. Þetta gerðist hvort eð er fyrir svo löngu síðan og var eiginlega ekkert svo alvarlegt. Gæti komið fyrir hvern sem er. Dómgreindarbrestur. Life goes on.

Þar með erum við komin í þau spor þöggunar sem svo margir hafa fetað. Upplýst og góð segjum við: Uss, uss, nú er komið nóg. Við erum nefnilega búin að fyrirgefa og gleyma. Við viljum fá frið.

Fyrirgefning okkar breytir engu fyrir þolandann. Hann fær engan frið. Hann þorir kannski ekki út úr húsi eða fær hræðsluköst, getur ekki treyst, hefur tapað sínu gamla sjálfi og reynir að finna sig í breyttum veruleika. Þægindamörk og meðvirkni okkar hinna með gerendum skipta þar engu máli. Þau skipta bara ekki máli.

Sumir þurfa að vera í friði fyrir fínum gaurum, við verðum að skilja það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.