Höfundur: Steinunn Rögnvaldsdóttir

Hér er Ungfrú Kólumbía vegin og metin á vefsíðu tengdri keppninni Miss World
Forsíðufrétt vísis.is þegar ég vaknaði sunnudaginn 8. september bar titilinn: „Hafa femínistar eyðilagt fegurðarsamkeppnir?“. Fréttin kom undirritaðri lítið á óvart, enda hafði blaðakona Vísis hringt í mig á laugardagskvöldi til að biðja um viðbrögð mín við því að einhver heimasíða tengd Ungfrú Heimur væri með böggum hildar yfir því að femínistar væru að skemma fegurðarsamkeppnir á Íslandi og þess vegna ætti íslenski keppandinn í Miss World ekki séns því hún væri lítið kynnt og illa undirbúin.
Eftir smá meðgöngutíma gat ég þróað svar mitt til blaðamanns frá „þetta er nú meira vælið“ í „Steinunn Rögnvaldsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands telur að það séu fleiri en femínistar sem að átta sig á því að staðlaðar útlitskröfur og kassalegar skilgreiningar á fegurð, geti verið skaðlegar fyrir ungar stúlkur og það samfélag sem við viljum búa í“. Gott og blessað, þetta er frekar fyrirsjáanlegt svar við umræðu sem kemur ítrekað upp og er yfirleitt eins. Rökin með og á móti eru yfirleitt þau sömu, þó að samningur frá fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ísland árið 2009 þar sem að keppendur voru nánast sviptir sjálfræði, hafi vakið þó nokkra athygli. Endilega skoðið það nánar hér
Það sem var hins vegar sérstaklega áhugavert, var að þegar að tengill var birtur í fréttinni á umrædda vefsíðu hvar grátið var undan femínistum, var að finna þetta gullkorn um íslenska keppandann: „However, she looks like a beauty that Miss World likes – sweet and subdued.“
Ég veit ekki um ykkur en mér finnst það segja ýmislegt um gagnrýni á femínista að hún komi frá þeim sem telja að kona sé mestum kostum búin þegar hún er sæt og undirgefin*. Merkilegt samt að það skuli ekki vera fréttaefni.

Guðrún Jónsdóttir og Magdalena Schram, borgarfulltrúar Kvennalistans, mótmæla fegurðarsamkeppni árið 1985
* Enska orðið „subdued“ hefur margs konar merkingu, sjá t.d. hér. „Undirgefin“, „hógvær“ og „hlédræg“ koma öll til greina sem þýðing á orðinu,, sem og „spök“, „hlýðin“ og „undirokuð“, allt eftir samhenginu.