Ofbeldi í beinni. Framhaldssaga.

Höfundur: Björg Sveinbjörnsdóttir

Ég opnaði netið þann 13. september síðastliðinn og við mér blasti ógeð.

Það sem vakti með mér viðbjóð var grein skrifuð af manni sem hefur verið ásakaður um að nauðga konu ásamt kærustu sinni. Konan kærði nauðgunina en málið fór ekki fyrir dóm vegna þess að það var ekki líklegt til að enda með sakfellingu. Maðurinn og konan kærðu konuna í kjölfarið fyrir rangar sakagiftir, það mál fór heldur ekki fyrir dóm vegna þess að það var ekki líklegt til að enda með sakfellingu.

Þrátt fyrir að sakfelling hafi ekki fengist fyrir dómstólum í nauðgunarákærunni er stór hópur fólks sem trúir konunni og tekur opinbera afstöðu með henni. Það hefur valdið óánægju því við búum að því er virðist í réttaríki. Samkvæmt mínum skilningi eru viðbrögð þeirra sem taka afstöðu með þolandanum ekki dómur. Þau eru afstaða og stuðningur með þolandanum.

Sá ásakaði skrifar greinina til að hreinsa mannorð sitt. Sem er merkilegt í ljósi þess hve hún er siðlaus og ljót. Hann virðist ekki vera tilbúinn að velta því fyrir sér afhverju kona ákveður að fara upp á neyðarmóttöku nauðgana eftir kynlíf með honum og kærustu hans. Hann sakar hana um lygar og dregur fram gögn sem eiga að styðja hans mál. Mikið af gögnunum eiga að vitna til um það hvernig konan hegðaði sér ÁÐUR en nauðgunin átti sér stað og fólk hlustar og les. Af lestrinum að dæma mætti halda að maðurinn hefði verið ákærður fyrir aðdraganda nauðgunar en ekki nauðgun.

Ad_drekka_er_ekki_glaepur

Hann bendir á að hún sé margsaga og ómarktæk sem er reyndar mjög algengt í yfirheyrslum á fólki eftir alvarleg áföll. Þau sem ákærð voru í málinu fengu reyndar tíma til að samræma sínar sögur áður en yfirheyrslur hófust. Það virðist ekki skipta máli. Hann bendir á sjúkraskýrslu sem á að sanna að kynlíf hafi átt sér stað en ekki nauðgun. Áverkarvottorðið telst ekki marktækt því það gæti allt eins verið að sönnun á að harkalegt kynlíf hafi átt sér stað. Spáið aðeins í því. Hann birti mynd af henni sem tekin er fyrr um kvöldið sem á að sýna fram á andrúmsloftið áður en nauðgunin átti sér stað. Það er ýmislegt annað hægt að lesa úr þessari mynd en gott andrúmsloft en það skiptir bara engu máli. Þetta er ljósmynd tekin áður en áfallið átti sér stað. Hann dregur upp skrif barþjóns sem gætu allt eins verið uppspuni frá rótum. Þessi skrif eru bara eitt risastórt blæðandi graftarkýli. Ofbeldi í beinni. Framhaldssaga.

Þolandinn í málinu hefur ekkert með mannorðsmissi mannsins að gera. Hann stendur sig ágætlega í því sjálfur.

Flest gögnin í málinu snúa að því sem gerðist ÁÐUR en nauðgunin átti sér stað og eiga að sanna hvernig þolandinn hegðaði sér ÁÐUR en nauðgunin átti sér stað. Það kallast á ensku victim blaming og vísar í þá tilhneigingu fólks að leita útskýringa atburðarásar í hegðun þolandans ekki gerandans. Þessi nálgun er dálítið eins og ef einhver myndi útskýra árekstur af völdum ölvunar og háskaaksturs með því að benda á hegðun þess sem varð fyrir því. Þó að samlíkingin sé mjög takmörkuð þá set ég hana fram til að reyna að sýna fram á fáránleikann

Ökumaðurinn var búinn að keyra alla leið frá Akureyri til Stöðvarfjarðar áður en það var keyrt á hann. Á leiðinni hlustaði hann á lagið „I want to die“ með hljómsveitinni Road Kill. Hann var löngu búinn að sjá bílinn sem kom á móti honum! Hefði hann verið betur sofinn hefði hann tekið eftir því að bíllinn sem kom á móti var á allt of miklum hraða, augljóslega mjög óvarkár og að allt benti til þess að ökumaður bílsins væri drukkinn.  Hann hefði átt að stoppa og bíða á meðan bíllinn keyrði framhjá honum eða snúa við! þá hefði hann ekki keyrt í veg fyrir hann. 

Svona tölum við sem betur fer ekki um bílslys og við eigum ekki heldur að gera það í nauðgunarmálum.

Einhverjar raddir á Internetinu halda því fram að réttarkerfið sé sterkasta birtingarmynd réttlætis í samfélaginu. Án þess að hlíta úrskurði þess erum við sko bara farin aftur til fortíðar, þegar allt var óréttlátt. Í villta vestrið, Þýskaland nasismans, í Mordor Hringadróttinssögu, á Overlook hotel í The Shining. Tvö síðustu dæmin eru mín. Pointið er að við værum á hræðilega óréttlátum stað þar sem mikil kúgun væri við lýði. En við erum á hræðilega óréttlátum, ósanngjörnum stað.

Mér finnst þetta bara vera eins og réttarkerfi nútímans!

Við þurfum ekkert að bera það saman við óréttlæti úr fortíðinni. Óréttlætið á sér stað núna. Fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi fær ekki réttláta málsmeðferð í réttarkerfi nútímans og nei, ákærðir eða dæmdir einstaklingar fá heldur ekki gagnleg úrræði upp í hendurnar. Mér þykir engin furða að fólk sé ósátt, að fólk sé reitt. Það eru mjög eðlileg viðbrögð við óréttlæti.

Sumir segja að réttarkerfið teiki hugarfar samfélagsins. Það hangi s.s aftan í hugarfari samfélagsins í tilteknum málum. Það er ein pæling, önnur er að réttarkerfið verndi einungis hagsmuni ráðandi afla. Það blasir allavega við að réttarkerfið er ekki föst og heilög stærð. Það þarf að ræða um svo margt, það þarf að ræða um tilgang fangelsa, eru þau stofnun refsinga, geymslustaðir, eða staður meðferða og uppbyggingar? Það þarf að ræða um vinnulag og endurmenntun lögreglunnar, viðhorf til þeirra sem verða fyrir naugðun, viðhorf til þeirra sem nauðga. Eigum við að taka þessa umræðu eða viljum við halda áfram að tala um réttarríkið í CAPS LOCK og upphrópunum?

Að spila út „réttarkerfisspilinu“ hvenær sem færi gefst í umræðunni um kynferðisofbeldi eru þöggunartilburðir.

Þegiðu við búum í réttarríki. Hættu að taka afstöðu, við búum í réttarríki. Hættu að finnast óþægilegt að barnaperrar kenni í háskóla, við búum í réttarríki.  Ef réttarkerfið lagði ekki mat á nauðgunina þá gerðist hún ekki. Hættu að taka afstöðu með þolendum við búum í réttarríki. Hættu að þola ekki karlrembutal við búum í réttaríki.

Jú við búum einmitt í réttarkerfi! Þess vegna eigum við einmitt að taka þátt í að tala um það og byggja það upp.

5 athugasemdir við “Ofbeldi í beinni. Framhaldssaga.

 1. Æi, ég veit það ekki, svei mér þá. Það má deila um smekklegheit myndbirtingarinnar en áhugaverðara þætti mér að einhver myndi tala um hin gögnin sem Egill Einarsson hefur lagt fram, máli sínu til stuðnings.

  Annars finnst mér alvarlegast í þessu máli að allir voru búnir að gera upp hug sinn, meira að segja áður en málið var komið af stað í réttarkerfinu. Annars vegar fólk sem var 100% sannfært um að Guðný væri að ljúga og hins vegar fólk sem var 100% sannfært um að Egill og Guðríður væru nauðgarar. Ummæli beggja hópanna voru, svo vægt sé til orða tekið, ósmekkleg.

  Í raun hefur mér orðið flökurt af þeim báðum.

  • Þú gleymir þriðja hópmun, sennilega vísvitandi, sem vildi bara leyfa til þess mentuðu fólki og til þess ráðnu til starfa, að fella dóm í málinu, sem síðan yrði lagður til grundvallar sekt eða síknu. Þetta fólk hefur aðstöðu til að kynna sér málið eins nákvæmlega og kostur er.

   Ég vona að þér flökri ekki mikið við þriðja hópnum sem líkast til er í meirihluta þeirra sem var nóg boðið.

   • Ég er ekki alveg viss um hvaða þriðja hóp þú ert að tala um. Ég skil það helst þannig að þriðji hópurinn tákni þá sem vinna innan dómskerfisins. Ég er ekki dómbær á að leggja mat á störf þess fólks. Gagnrýni mín beinist að umræðunni sem er í gangi í þjóðfélaginu og sérstaklega á netheimum.

    Ef ég er að gleyma einhverju þá sver ég fyrir að það er ekki vísvitandi.

 2. Fyrirgefðu, en hvernig getur nokkur manneskja fengið að æla útúr sér öðru eins hatri á opinberri síðu? Ef ég myndi kæra þig fyrir nauðgun en hefði verið uppvís að hverri lyginni á fætur annari um hvernig allt gerðist og hvernig hlutirnir atvikuðust, vitni myndu staðfesta það að ég hefði LOGIÐ trekk í trekk um svo gott sem allt sem gerðist áður en MEINT atvik átti sér stað, hvers vegna í veröldinni ætti að taka mig trúanlegan um restina?

 3. Við verðum að notast við heilbigða skynsemi en ekki fordóma og upppískaðar tilfinningar þegar við metum mál eins og þessi.

  Greinarhöfundur virðist ekki sjá að í umræddu máli þar sem meintir gerendur og þolandi hafa haft samskipti allt kvöldið, hljóta samskiptin að varpa ljósi á meintan glæp.

  Að líkja því við slys af völdum ölvunnar, þar sem hlutaðeigendur hafa ekki hist, er einfaldlega heimskulegt. Slíkar hugrenningar, geta einungis orðið til í hugum þeirra sem hafa ákveðið, að sama hvað kona gerir þá er hún gersamlega óábyrg gjörða sinna og að allt sem kemur fyrir hana er öðrum að kenna.

  Ég er eiginlega mest hissa á því að einhver geti fengið sig til að skrifa af svona miklu hatri og gersamri vöntun á einfaldri skynsemi. Það er ótrúlegt að einvhver geti aðhyllst þennan fáránleika sem við erum innrætt með á hverjum degi í þessu landi.

  Sem betur fer er fólk farið að rísa upp á móti þessari heimsku

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.