Á eftir bolta kemur barn

Höfundar: Gísli Ásgeirsson (2 börn, 3 barnabörn, 2 kettir) og Halla Sverrisdóttir (2 börn)

 

Kvenfélög til sjávar og sveita hafa lengi verið meðvituð um augljós tengsl boltaíþrótta og barneigna

Kvenfélög til sjávar og sveita hafa lengi verið meðvituð um augljós tengsl boltaíþrótta og barneigna

 

Íþróttir og tölfræði eiga saman eins og smér og brauð. Við mælum hraða, lengd, hæð, teljum stig, leiki, mörk, berum saman, búum til lista, töflur og afrekaskrár, spáum í spilin og veltum vöngum. Tölurnar eru líka efni í ótal spurningaþætti og spurningaspil og án tölfræði hefðu íþróttanerðir færri umræðuefni. Því ber að fagna nýjum flokki í yfirgripsmikla tölfræði boltaíþrótta. Þetta eru markahæstu mömmurnar, sem Óskar Ófeigur Jónsson fræddi okkur um á Vísi.is í gær. Þar segir:

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði 28 mörk í Pepsi-deild kvenna í sumar og hefur skoraði 51 mark síðan að hún varð mamma í apríl 2011. Harpa bætti í sumar metið yfir flest mörk hjá mömmu á einu tímabili en á enn eftir að ná Helenu Ólafsdóttur yfir flest mörk sem móðir.

Þar segir einnig:

Harpa eignaðist Steinar Karl í apríl 2011 og sneri aftur í boltann í júlí. Harpa skoraði sex mörk í níu síðustu leikjunum sumarið 2011 og hjálpaði Stjörnunni að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Í fyrra skoraði Harpa 17 mörk í 18 leikjum sem var fimmti besti árangur mömmu frá upphafi en sumarið í sumar var engu öðru líkt.  Met Ástu B. Gunnlaugsdóttur var búið að standa í 28 ár og frá því áður en Harpa fæddist. Ásta skoraði 20 mörk í 13 leikjum fyrir Breiðablik sumarið 1985 en árið áður eignaðist hún Hólmfríði Ósk Samúelsdóttur sem seinna varð Íslandsmeistari með Blikum eins og mamma hennar.

Ásta getur huggað sig við það að hún á enn metið hjá tveggja barna mömmum því Ásta skoraði 12 mörk fyrir Blika sumarið 1992 eða fimm árum eftir að hún eignaðist landsliðskonuna Gretu Mjöll Samúelsdóttur.

messi_minni

Lionel Messi á einn son. Greinarhöfundar hafa ekki upplýsingar um hvort hann hefur skorað fleiri eða færri mörk eftir fæðinguna..

Knattspyrnukonur geta samkvæmt þessu skipst í allnokkra flokka á markalistanum. Barnlausar, frumbyrjur, tvíbyrjur, þríbyrjur og þar fram eftir götunum. Þessi nálgun opnar á ótal möguleika í viðbót og að hætti sannra jafnréttissinna verða karlar ekki hafðir útundan. Ef á að gera tölfræði þessa sviðs nógu góð skil verður að velta við öllum steinum, tína allt til. Og útkoman gæti orðið nýr og spennandi kafli í hinni sívinsælu bók, Íslenska knattspyrnan, sem kemur út á hverju ári. Til verður efni í ótal spurningar í Gettu betur og einboðið að hafa samband við Stefán Pálsson. Þarna er akur sem bíður plægingar.

Dæmi um flokka fyrir tölfræðinga: Markahæsta helgarforeldrið, markahæsti meðlagsgreiðandinn, markahæsta stjúpforeldrið, markahæsta ættleiðingarforeldrið, markahæstu einstæðar mæður/feður og fráskildir leikmenn af báðum kynjum, ásamt ótal undirflokkum eftir barnafjölda.

Þetta gæti einnig kryddað steingeldar lýsingar meintra sparkspekinga sem sumir hverjir láta sér nægja að lýsa eingöngu því sem fyrir ber á skjánum og allir heima í stofu sjá hvort sem er. Það þarf varla gripsvit til. Góður lýsandi á að kappkosta að gleðja hlustendur og áhorfendur með fróðleiksmolum og þá er þessi tölfræði hreinasta gullnáma. Gerum okkur í hugarlund hæfilega spennandi leik í einhverri deild og hækkum í viðtækinu:

útvarp

… og nú fær Jón Jónsson boltann en hann er tveggja barna faðir eins og flestir vita, búinn að vera í löngu feðraorlofi sem hefur án efa haft áhrif á sparkhæfni hans. Þarna kemur Geir Ólafsson bakvörður á fullri ferð, alltaf lipur að vinna varnarvinnuna sína (klisjuviðvörun!!)  en hann er barnlaus og nær ekki að stöðva Jón, Helgi markvörður er vel á verði og grípur knöttinn eins og sönnum helgarpabba sæmir!

Jón fékk reyndar vott af eftirfeðraorlofsþunglyndi en kveðst hafa fengið ómetanlegan stuðning hjá liðsfélögunum við að takast á við það.

Sigurgeir  bakvörður er hins vegar kominn í fantaform, þrátt fyrir að hafa verið slæmur af couvade syndrome  á meðan þau hjónin biðu frumburðarins, en geirvörturnar á honum eru nú til allrar lukku orðnar sem nýjar og hann segist orðinn miklu betri af iðrakveisunni.

Við sjáum að Sveinn Sveinsson er á bekknum í þessum leik og kemur varla við sögu, enda stendur hann í harðvítugri forræðisdeilu. Hann ætti þó að vera í góðu hlaupaformi eftir að hafa náð að forðast skilnaðarlögfræðing fyrrverandi eiginkonu sinnar í tvær vikur samfleytt….“*

Af nógu er að taka. Þetta gæti orðið til þess að slúðurþyrstir antisportistar settust fyrir framan skjáinn með glampa í augum. Við erum jú alltaf í boltanum!

 

 

*athugasemd höfunda: Öll nöfn leikmanna, annarra en þeirra sem nefnd eru í grein visir.is, eru skálduð.

Ein athugasemd við “Á eftir bolta kemur barn

  1. Mig langar að benda á grein Bjargar Kristjánsdóttur Fræðileg samantekt á hreyfingu og lífsgæðum unglinga. Þar segir m.a. „Í þessari rannsókn kom fram að stúlkur kusu frekar að stunda líkamlega hreyfingu í afslöppuðu andrúmslofti með vinum sínum án þess að vera í stöðugri keppni og líkamlega hreyfingu sem jók á andlega vellíðan þeirra.“

    Hvaðan kemur þessi krafa um keppni og sigur?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.