Samsærismenn

Höfundur: Hermann Stefánsson

Brúður úr bandarísku sýningunni „The Kids on the Block“, en þýdd og staðfærð útgáfa af sýningunni stendur 2. bekkjum grunnskóla til boða.

„Í miðri Evrópu hafa menn gert með sér samsæri,“ segir í ljóðinu „Samsærismennirnir“ eftir argentíska skáldið Jorge Luis Borges. Samsærismennirnir eru af ólíkum kynþáttum, iðka mismunandi trúarbrögð og tala ólík tungumál en hafa sæst á eitt: „Þeir hafa tekið þá furðulegu ákvörðun að vera skynsamir.“

Menntun er furðulegt samsæri um furðulega ákvörðun, hún er samkomuleg fjölda fólks af öllu mögulegu tagi, af öllum kynjum og öllum trúarbrögðum og öllum stéttum, um að ástunda skynsemi. Samfélagið setur á fót skóla svo að börn geti lært að vera skynsöm, orðið góðir, þroskaðir, víðsýnir og heilsteyptir einstaklingar sem taka ábyrgan þátt í samfélaginu. Til þess eru ráðnir kennarar sem hafa til þess bæra menntun. Að vera barnakennari er merkilegt starf sem fylgir merkileg viðurkenning: Við, þetta samfélag, treystum þessu fólki fyrir börnunum okkar og ekki öðrum. Ég nefni þetta vegna þess að ég er ósáttur við að íslenskir skólar hafa veitt ofstækishópi aðgang að nemendunum, ofstopafólki er leyft að heimsækja skólana til að þylja upp boðskap sem í mörgum meginatriðum stríðir gegn heilbrigðri skynsemi, fólki sem hefur enga kennaramenntun og ekkert sérstakt tilkall til þess að njóta þess trausts að uppfræða börn.

Nei, ég er ekki að tala um þjóðkirkjuna. Það er önnur umræða, sem einnig á fyllilega rétt á sér. Ég er að tala um Blátt áfram, einkarekin samtök um forvarnir gegn kynferðisofbeldi gegn börnum. Fyrir fáum árum auglýstu þau í sjónvarpi, börn þuldu upp setningar um barnaníð: „Ég vil ekki að einhver strjúki mér og verði góður við pjölluna mína.“ Hvaða erindi áttu þessi skilaboð til barna meðal áhorfenda? Um það eru áhöld en með framsetningu sinni – vandlega hannaðri af auglýsingastofu með trú á sjokkáhrifum – tóku samtökin af okkur réttinn til að tala – eða tala ekki – við börnin okkar um kynferðismisnotkun. Samtökin ákváðu fyrir okkur hvenær kominn væri tími til að ræða kynferðismál við börn, hvað væri rétt að segja, hvernig það skyldi gert, á hvaða forsendum og í hvaða tilgangi. Þau ákváðu að þeirra málflutningur væri skynsemi og þar með sannarlega hvorki hræðsluáróður né hystería. Við samsærismenn gátum ekkert gert í þessu.

Síðan sjónvarpsauglýsingarnar voru og hétu hefur vegur Blátt áfram vaxið mjög og samtökin hafa jafnvel hlotið virt verðlaun fyrir starf sitt. Fleiri auglýsingar hafa birst, ef til vill ögn skaplegri. Hinsvegar ímynda ég mér að fólk hafi almennt ekki kynnt sér málflutning samtakanna sérlega vel. Vefsíðan blattafram.is er kannski tiltölulega öfgalaus og en þegar farið er á Facebook er aðra sögu að segja. Fyrst blasir við mynd af höfuðlausri konu með nýja slagorðinu: „Þú treystir henni en gæti verið að barnið þitt þekki hana betur en þú?“ Gott og vel. Skilaboðin eru ekki ósvipuð enskum auglýsingum á stríðsárunum sem vöruðu við njósnurum nasista, hvöttu börn til þagmælsku og mæltust til að þau vantreystu móður sinni; í sjálfu sér ekki að ástæðulausu – flugumenn nasista voru vissulega á sveimi – en með þessu var sáð ofboðslegri tortryggni meðal almennings sem engum þykir tilefni til stolts í dag, enda hafði þetta vond áhrif á samfélagið.

En gott og vel, höfuðlausa konan gæti haft illt í hyggju. Hvar nemur sú hugsun staðar að ætla hverja manneskju að hafa illt í hyggju? Ef marka má röð „Ábendinga“ á Facebook-síðu Blátt áfram á hún sér lítil takmörk. Ekki er laust við að hrollur fari um hvern sem hefur séð Jagten eftir Thomas Winterberg við þennan lestur:

Ábending: „Ef þú þarft að fá pössun fyrir börnin, vertu búin að baða þau og klæða í náttföt fyrir svefnin [svo!] áður en hann/hún mætir. Ekki gefa barnfóstru ástæðu til þess að afklæða börnin þín.“ Stöldrum við þetta heilræði. Getur verið að í því felist talsvert ofsóknaræði? Getur verið að undir niðri liggi kyndug hugmynd um að það sé sök foreldranna ef barnfóstra misnotar barn?

Ábending: „Þegar þú ert að skoða leikskóla fyrir barnið þitt, mundu að spyrjast fyrir um hvaða reglur gilda um bleyjuskipti. Aðstæður ættu að vera þannig að fleiri en einn fullorðinn sé viðstaddur eða geti fyglst [svo!] með yfir daginn.“ Afsakið, en er verið að biðja fólk um að vera hreint út sagt frávita? Gott er að fagfólk ræði vinnureglur en ef almenningur á að ganga á milli leikskóla með spurningar sem byggja beinlínis á þeirri hugmynd að hver manneskja sé sek um barnaníð þar til annað kemur í ljós – hvert erum við þá komin? Það er ekkert að því að einn leikskólakennari sjái um að skipta um bleyjur, spurningin er sjúkleg.

blátt áfram mynd 4

Ábending: „Reyndu að forðast að vera einn/ein í bíl með einu barni/unglingi, öðru/öðrum en þínu/þínum eigin.“ Varla gæti nein ábending verið meira uppljóstrandi um forvarnarstarf á fullkomnum villigötum. Hér er beinlínis mælst til þess að einstaklingurinn setji sjálfan sig undir grun, eða forðist aðstæður þar sem hann gæti hugsanlega lent undir grun annarra. Eða hvað í veröldinni mælir gegn því að ég skutli til dæmis bróðursonum mínum til ömmu sinnar?

Ábending: „Kenndu barninu þínu að þau [svo!] ættu aldrei að vera ein með kennara eða starfsmanni/konu skólans.“ Burtséð frá öllu því jákvæða sem segja má um aukna meðvitund um kynferðisbrot gegn börnum verður að spyrja og spyrja hvasst hvernig samfélag sé verið að skapa þegar samtök með kennivald gefa ráð af þessu tagi.

Ábending: „Vertu vakandi gagnvart fullorðnum sem hella gjöfum yfir börn eða gefa foreldrum gjafir til auðlast [svo!] traust og vináttu. Þetta geta verið merki um tælingu frá einstakling [svo!] sem er að reyna að nálgast börnin þín.“ Vissulega gætu gjafir verið það og einkum ef annað við kringumstæðurnar er kyndugt. Er það nokkuð mannvonska í þessu samhengi að benda á að gjafirnar gætu hugsanlega verið til marks um gjafmildi?

Ábending: „Ef einhver í þínu nánsta [svo!] umhverfi er alltaf tilbúin að hjálpa með börnin og býðst oft til þess að fyrrabragði [svo!], er eitthvað sem ber að stalda [svo!] við og athuga.“ Ja, seisei, maður skyldi sannarlega vara sig á hjálpfýsi náungans. Sá sem hvað óhreinast hefur í pokahorninu stígur væntanlega fram og segir: Leyfið börnunum að koma til mín.

Nú er ákveðinn undirtónn í því sem kemur frá Blátt áfram: Þeir sem efast um skilaboðin, aðferðirnar og hugmyndafræðina eru annað hvort í afneitun, berjast af forpokun gegn góðri framþróun, hylma yfir með barnaníðingum, ofsækja fórnarlömbin í blindni eða eru barnaníðingar sjálfir. Þannig málflutningur er skýrasta einkennið á kreddufestu. Kreddufesta sér við öllum hugsanlegum mótbárum og ákveður að ýmist séu andmælendur af illu sauðahúsi eða hljóti verra af ef þeir lúta ekki höfði fyrir kreddunni, andskotinn bíði þeirra á næsta horni.

Rétt er að halda því til haga að ég efast ekki um orð fórnarlamba barnaníðinga. Rétt er að taka fram að það er gott að fórnarlömb barnaníðinga hafi samtök á borð við Blátt áfram, hjálpi hvert öðru við að vinna í sjálfu sér og takast á við tráma. Það er eðlilegt að fórnarlömb í bata lendi á villigötum en þar með eru þau ekki endilega hæfir uppfræðendur fyrir almenning, hvað þá skóla. Rétt er að nefna að ég álít samtökin ekki ein um villigötur en ef til vill gætir áhrifa þeirra víða. Sjónvarpsþátturinn Kastljós er stundum lagður vikum saman undir barnaníð, hann vandar umfjöllun sína og erfitt að koma við nokkurri gagnrýni en þó skulum við ekki gleyma að sterkt efni vekur sterk viðbrögð. Við skulum bara segja eins og er: Það selur. Hversu langt er yfir í að klæmast á efninu þegar efnið er góð söluvara? Í þætti sínum Málinu sýndi Sölvi Tryggvason fyrir ekki margt löngu lítt blörrað myndskeið af manni að athafna sig í vefmyndavél sem hann hélt að væri beintengd barni. Hversu mörg börn sáu myndskeiðið í sjónvarpinu? Enginn andmælti þessu en þversögnin er æpandi: Sölvi sýndi börnum klámmynd til að vara við mönnum sem gætu sýnt börnum klámmynd.

Ég trúi ekki á þá sjúklegu hugmyndafræði sem Blátt áfram boðar, það ofsóknarbrjálæði sem samtökin vilja að fólk lifi í. Ég trúi ekki á ábendingar sem byggðar eru á velmeinandi ofstæki. Ég trúi ekki þeim sem halda að aukin umræða merki að misnotkunarfaraldur hafi brotist út, það er helber vitleysa, hysterískt bull. Ég trúi ekki þeim sem segjast trúa börnum – en gera það bara þegar það hentar þeirra eigin heimsmynd. Ég trúi syni mínum, honum finnst þetta fáránlegt rugl. Fólk getur ráðið Blátt áfram prívat og persónulega til að uppfræða sig ef það vill en samtökin eiga nákvæmlega ekkert erindi í skólakerfið.

Við höfum gert með okkur ofurlítið samsæri um að vera skynsamar mannverur. Það er furðuleg ákvörðun. En þegar hún á annað borð hefur verið tekin virðist allt annað svo gersamlega út í hött.

————————-
Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu í maí 2013.

4 athugasemdir við “Samsærismenn

 1. Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las þetta:

  „Nú er ákveðinn undirtónn í því sem kemur frá Blátt áfram: Þeir sem efast um skilaboðin, aðferðirnar og hugmyndafræðina eru annað hvort í afneitun, berjast af forpokun gegn góðri framþróun, hylma yfir með barnaníðingum, ofsækja fórnarlömbin í blindni eða eru barnaníðingar sjálfir. Þannig málflutningur er skýrasta einkennið á kreddufestu.“

  Ef þú setur „íslenska feminista“ eða „knuz.is“ í stað „Blátt áfram“ er setningin alveg jafn sönn 🙂

 2. Blátt áfram að beita sömu hugmyndafræði og margir femínista-hópar þar með talið þið hér á knúz.is. Að reyna að stjórna gjörðum annarra segja hvað má og hvað má ekki gera.

  „Samtökin ákváðu fyrir okkur hvenær kominn væri tími til að ræða kynferðismál við börn, hvað væri rétt að segja, hvernig það skyldi gert, á hvaða forsendum og í hvaða tilgangi.“

  Kannski ekki ósvipað þegar að „Jafnréttis“stofa ákvað að fólk mætti ekki fara á dirty night til að skemmta sér á Sjallanum…..

 3. Hér eru líka dæmi um þöggunaraðferðir sem Blátt áfram hefur lært af íslenskum feministum og engum öðrum:

  „Nú er ákveðinn undirtónn í því sem kemur frá Blátt áfram: Þeir sem efast um skilaboðin, aðferðirnar og hugmyndafræðina eru annað hvort í afneitun, berjast af forpokun gegn góðri framþróun, hylma yfir með barnaníðingum, ofsækja fórnarlömbin í blindni eða eru barnaníðingar sjálfir. “

  Settu „íslenska feminista“ inn fyrir „Blátt áfram“ og fáir myndu fatta muninn. Sjá til dæmis:

  http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/tha-finnst-mer-eg-ekki-eiga-heima-a-islandi-heldur-i-kina-menningarbyltingarinnar

 4. Ég gat nú ekki annað en hlegið þegar ég las þetta:

  „Nú er ákveðinn undirtónn í því sem kemur frá Blátt áfram: Þeir sem efast um skilaboðin, aðferðirnar og hugmyndafræðina eru annað hvort í afneitun, berjast af forpokun gegn góðri framþróun, hylma yfir með barnaníðingum, ofsækja fórnarlömbin í blindni eða eru barnaníðingar sjálfir.“

  Þetta eru þöggunaraðferðir sem samtökin Blátt áfram hafa lært af engum öðrum en íslenskum feministum. Til dæmis:

  http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/tha-finnst-mer-eg-ekki-eiga-heima-a-islandi-heldur-i-kina-menningarbyltingarinnar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.