Tíuþúsundkerlingin

kallaseðlar

Höfundur: Líf Magneudóttir

Seðlabanki Íslands kynnir í dag nýjan seðil landsmönnum öllum til ánægju og yndisauka. Ég geri ráð fyrir því að útgáfan sé konum einmitt sérstakt ánægjuefni en því er víða haldið fram að þær séu alræmdar eyðsluklær og taki því öllum seðlum fagnandi. Síðast þegar nýr seðill var kynntur til sögunnar var það lágstemmdur tvöþúsundkall með mynd af Jóhannesi S. Kjarval. Nýi seðillinn er hins vegar stærri í sniðum – heill tíuþúsundkall! (Vonandi verður hann í hæfilegu broti svo hann passi vel í kvenmannsveski.) Á honum verður mynd af karli. Það er enginn annar en öðlingurinn Jónas Hallgrímsson, þjóðarskáldið ástsæla sem þegar er minnst á sérstökum degi í nóvember (Degi íslenskrar tungu) og orti um hana Siggu systur sína. Jónas yrði sjálfsagt hissa á þessari upphefð og ég efast ekki um að hann myndi snúa sér við í gröfinni ef hann vissi hvar hann væri grafinn. Ég botna hins vegar ekkert í því af hverju forsvarsmönnum Seðlabankans datt ekki í hug að láta konu prýða seðilinn. Með því hefði eflaust verið hægt að tryggja að kaupóða kvenþjóðin bindist honum strax tryggðaböndum.

Annars er kannski óþarfi að hafa áhyggjur af rýrum hlut kvenna á peningaseðlum Íslendinga. Á fimmþúsundkróna seðlinum er jú kona (þessi með barðastóra hattinn). Ekki nóg með að þar sé kona heldur er maðurinn hennar í bakgrunni með tveimur fyrri eiginkonum sínum! Ekki amalegur liðsauki þar á ferðinni. Svo skilst mér að Seðlabankar heimsins hafa lengi verið þekktir fyrir framsækna stefnu í jafnréttismálum. Núna á tuttugustu og fyrstu öldinni styttist til að mynda í það að kona verði seðlabankastjóri í einum af stærstu seðlabönkum heims (en yfirgnæfandi líkur eru á því að Janet Yellen verði skipuð yfir Seðlabanka Bandaríkjanna). Þá eru örugglega ekki nema svona tvær, þrjár aldir þangað til Íslendingar treysta kvenmanni fyrir slíku ábyrgðarstarfi.

ragnheiðarseðill

Ragnheiður Jónsdóttir, maðurinn hennar og hinar konurnar hans

Hvað sem því líður þá sé ég aldrei seðla. Ég nota alltaf kort og get þá bara horft á myndina af sjálfri mér. Annars detta mér í hug margar góðar konur sem hefðu getað prýtt tíuþúsundkrónurnar í stað Jónasar. En hver þarf svo sem kvenfyrirmyndir á 21. öldinni þegar fullu jafnrétti hefur verið náð?

Hér eru nokkrar af handahófi og ekki í stafrófsröð:

Látnar konur
Bríet Bjarnhéðinsdóttir
Björg C. Þorláksson
Laufey Valdimarsdóttir
Katrín Magnússon
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda)
Svava Jakobsdóttir
Torfhildur Hólm
Nína Sæmundsson
Nína Tryggvadóttir
Louisa Matthíasdóttir
Vilhelmína Lever
Júlíana Jónsdóttir
Fríða Á. Sigurðardóttir
Auður Auðuns
Ingibjörg H. Bjarnason
Ólöf frá Hlöðum
Guðrún frá Lundi

Lifandi konur
Vilborg Dagbjartsdóttir
Vigdís Finnbogadóttir
Björk Guðmundsdóttir
Sigríður Þorgeirsdóttir
Kristín Ingólfsdóttir
Jórunn Viðar
Jóhanna Sigurðardóttir
Guðrún Helgadóttir

Óþekkta alþýðukonan
Óþekkta fiskvinnslukonan
Óþekkta húsmóðirin
Óþekkta ekkjan
Óþekku femínistarnir
Sigga litla systir Jónasar

 

12 athugasemdir við “Tíuþúsundkerlingin

  1. Það er einmitt svona „væl“ sem fær fólk til þess að hætta að hlusta á ykkur. Að halda fram að það skipti einhvejru máli hvort það sé kona eða karl á þessum nýja seðli er heimskulegt. Þar sem við notum hvort eð er seðla lítið sem ekkert. Er þetta partur af hinu óútskýrða feðraveldi?

  2. Ein stutt ábending: Seðillinn verður kynntur í dag, en hann fer ekki í dreifingu fyrr en í lok næsta mánaðar.
    Stefán Jóhann Stefánsson
    Seðlabanka Íslands

  3. Segið mér, hvernig stendur á því að þið mörg hér hampið einstaklingum, þ.e. teljið rétt að draga fram einstakar konur sem fyrirmyndir, sem viðfangsefni peningaseðla, þegar sagnfræðingar eru flestir í dag á því að áhrif einstaklinga í mótun sögunnar séu mun minni en sögubækur segja fyrir um?

  4. Ekkert væl hér á ferð heldur hugleiðingar um kaldhæðinn raunveruleika sem ég hef einmitt verið að hugleiða undanfarna daga. Hér er ágætlega komist að orði um þá staðreynd að konum hefur ALLS EKKI verið gert hátt undir höfði þegar kemur að því að velja þjóðþekktar persónur á íslenska peningaseðla, hvað svo sem notkun peningaseðla líður. Það hefur einmitt komið fram meðfram fréttum af nýja seðlinum að seðlanotkun hefur aukist eftir bankahrun. Nýlega var ég að sýna útlendingi myndir af peningaseðlunum okkar á vef Seðlabankans og þá var þar mynd af grænum seðli með Vigdísi Finnbogadóttur á…. sem ég hélt „í einfeldni“ minni að yrði á væntanlegum 10 þús. króna seðli….. og því mátti það ekki verða? Fræddi útlendinginn stolt í bragði um afrek Vigdísar sem fyrsta kvenforseta lýðræðisríkis í heiminum og hvernig hún fyllti margar íslenskar konur stolti og heiðraði þeirra tilveru með hugrekki sínu.

  5. Guðm. Örn: „Að halda fram að það skipti einhvejru máli hvort það sé kona eða karl á þessum nýja seðli er heimskulegt.“ => einmitt dæmigerð viðbrögð þegar bent er á kynjahalla körlum í hag að karl bendi á að hallinn „skipti ekki máli“ og það sé „heimskulegt“ að halda því fram, m.ö.o. konur sem eru að eltast víð slíkan tittlingaskít eru heimskingjar. Góð aðferð til þöggunar!

  6. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.