Ákall um afnám vændis í Frakklandi

Frá því var sagt hér á knúz.is í ágúst 2012, að þrýst væri á frönsk stjórnvöld um að taka upp afnámsstefnu vændis í Frakklandi.

Najat Vallaud-Belkacem, kvenréttindaráðherra Frakklands

Najat Vallaud-Belkacem, kvenréttindaráðherra Frakklands

Í vor lofaði kvenréttindaráðherra, Najat Vallaud-Belkacem, frumvarpi til laga um þetta mál með haustinu. Á föstudaginn birtist yfirlýsing frá hópi stjórnmálamanna úr öllum flokkum, sem hafa tekið afstöðu með afnámsstefnunni. Hér er birt þýðing á yfirlýsingunni, sem birtist á vef Le Monde en þar má sjá hverjir undirrita hana. Einnig má heimsækja vef hreyfingarinnar, þar sem yfirlýsingin birtist upprunalega.

Við getum ekki lengur látið eins og ekkert sé. Við finnum okkur knúin til að fylkja liði, burtséð frá stjórnmálaskoðunum, og berjast fyrir því sem við teljum vera þjóðþrifamál.

Þvert á klisjurnar sem fjölmiðlar bera svo ítrekað á borð fyrir okkur – að vændi sé slæmt, en óumflýjanlegt, að áform um afnám stríði gegn frelsi einstaklinga – teljum við nauðsynlegt og eðlilegt að berjast kröftuglega fyrir afnámi vændiskerfisins. Til hvers að hafa barist gegn ofbeldi og misrétti, barist fyrir jafnrétti kvenna og karla og fyrir rétti hvers og eins að ráða yfir eigin líkama, ef   þessu kerfi sem ýtir undir tvöfalt ofbeldi, félagslegt og kynferðislegt, er svo leyft að blómstra?

Sem varðmúr ryðfrírrar hefðar feðraveldisins um aðgengi að líkömum, og þá um leið að konum sem persónum, í skjóli meintra kynferðislegra þarfa karla, hefur þetta kerfi viðhaldið rétti vændiskaupenda til að krefjast kynlífs gegn greiðslu. Með því að nýta sér eymd og varnarleysi fólks sem stundar vændi hefur þetta úrelta kerfi komið í veg fyrir raunverulegt jafnrétti í kynlífi, þar sem löngunin er gagnkvæm og báðir njóta. Það afneitar hinum eina sanna rétti: kynfrelsi lausu undan öllum boðum, hvort sem þau eru af siðferðislegum, sálrænum eða efnahagslegum toga.

OFBELDI GEGN KONUM

Líkt og nauðgun, innan eða utan sambands, eða kynferðisleg áreitni, er vændiskerfið ekki einn þáttur af mörgum í eðlilegu kynlífi heldur ein gerð kynferðislegs ofbeldis. Hvernig er hægt að telja sér trú um að kerfi, sem byggir á kerfisbundinni afneitun á löngun annars aðilans og á efnahagslegum forsendum hins, geti tengst frjálsu og fullnægjandi kynlífi? Samtök sem styðja fólk í vændisgeiranum og berjast gegn ofbeldi gegn konum sjá dæmi um það á hverjum degi að endurtekin kynmök án löngunar, jafnvel þótt þau séu samþykkt, eru í sjálfu sér kynferðislegt ofbeldi og hafa líkamleg og sálræn áhrif sem eru fyllilega sambærileg við aðra tegund kynferðislegs ofbeldis.

place-de-labolitionNei, afnám vændis er engin útópía, ekki nema ef við notum merkinguna sem Victor Hugo gaf því orði, „raunveruleiki morgundagsins“. Afnám vændis er enn síður tilraun til að uppræta kynlíf, heldur markviss stefna sem miðar að því að draga þá sem viðhalda þessu kerfi til lagalegrar ábyrgðar og bjóða fólki í vændisaðstæðum upp á lausnir.

Afnám vændis mun ekki leiða til þess að vændi hverfi á einum degi. En það mun gera samfélagið allt ábyrgt og stilla því upp við hlið þolenda þessarar misnotkunar – gegn þeim sem á henni græða.

Því hverjir græða á óbreyttu ástandi? Fólk í vændi er enn skilgreint sem afbrotafólk,  kaupendur vændis eru aldrei sóttir til saka, vændisfólki af erlendum uppruna er hótað brottvísun úr landi þegar í raun ætti að verja það gegn þeim sem gera það út …

Það er kominn tími til að umbylta sjónarhorninu. Það sem við krefjumst í dag er að stefnan verði, í fyrsta skipti í sögu landsins, raunverulega sú að afnema vændi. Þannig má koma í veg fyrir myndun nýrra vændishringja og um leið fjölga valmöguleikum þeirra sem vilja komast úr vændisaðstæðunum. Þetta er spurning um siðferðislega skyldu okkar.

HEILDSTÆÐ STEFNA

Þess vegna rísum við upp og krefjumst heildstæðrar stefnu sem miðar að því að

– snúa sektarbyrðinni við, þannig að ekki sé bannað að húkka viðskiptavini og að kaup á kynlífi verði bönnuð,

– gefa vændisfólki um allt land, bæði af frönskum og erlendum uppruna, sem óska þess að komast út úr vændisofbeldinu, val um aðrar lausnir með því að styðja það félagslega,

– gera upptækar eignir sem tilheyra vændishringjum og styðja fórnarlömb þeirra fjárhagslega,

– þróa metnaðarfulla fræðslu um jafnrétti og kynferðismál.

Við lýsum því yfir, hátt og snjallt, að það er hræsni og heigulsháttur að koma sér hjá afskiptum með því að fela sig á bak við „samþykki“ vændisfólks. Við vitum vel að „samþykkið“ hefur enga merkingu í samhengi við raunverulega möguleika hvers og eins/hverrar og einnar. Frammi fyrir tilhneigingum til að hversdagsgera „kynlífsþjónustu“ og algerum skorti á skilningi samfélagsins og vilja til aðgerða, hafa margir vændisseljendur enga raunverulega möguleika aðra en vændið.

Það að einhverjir/ar samþykki að vinna undir lágmarkslaunum eða að selja úr sér líffæri til að framfleyta sér hefur aldrei talist gildur rökstuðningur fyrir launum undir lágmarkstaxta eða kaupum á líffærum. Flest vitum við líka að þegar misrétti á sér stað eru það ævinlega hinir veikustu sem neyðast til að fórna vinnustyrk sínum eða líkamlegu heilbrigði. Þótt einhverjir kjósi að lifa samkvæmt frumskógarlögmálinu – að hinir sterkustu séu frjálsir til að nýta sér þá veikustu á meðan þeir, sem eiga sannarlega ekkert val, samþykkja það – ætlum við að vera stolt af því að hafa fremur kosið samfélagslegan sáttmála og áætlun sem mun leiða af sér betra samfélag.

Og þessi hreyfing snýst um svo margt annað en aðeins vændi og ranglætið sem í því felst. Þess vegna hvetjum við þig til að ganga til liðs við okkur og velja jafnrétti milli kvenna og karla, tryggja val um kynfrelsi byggðu á gagnkvæmni og jafnrétti, frjálsu undan helsi drottnunar og ofbeldis, en einnig – og í því felst veigamesta samfélagslega breytingin – frjálsu undan markaðslögmálinu!

 

Þýðing og aðfararorð: Kristín Jónsdóttir

Ein athugasemd við “Ákall um afnám vændis í Frakklandi

  1. Bakvísun: Hver er munurinn á því að borga eða fá eitthvað ókeypis? (ath. betri titil) | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.