Jafnrétti takk

Höfundur: Sóley Tómasdóttir

Árið 1945 voru sett lög um jöfn laun karla og kvenna í tilteknum starfsstéttum og árið 1961 voru sett lög um almennan launajöfnuð karla og kvenna. Árið 2013 eru lögin enn þverbrotin á flestum vinnustöðum landsins.

 Samhengið

Kynbundinn launamunur er ekki einangrað viðfangsefni. Hann er eitt einkenni af mörgum sem öll spila saman í samfélagi sem metur ekki konur til jafns við karla. Þar sem kynbundið ofbeldi þrífst, þar sem staðalmyndir mála unglingsstelpur upp sem horuð og viljalaus verkfæri og unglingsdrengi sem vöðvastælta og óseðjandi graðfola. Þar sem stelpur og strákar fá ekki sömu tækifæri og hvatningu til að rækta með sér áhugamál, mennta sig og starfa. Þar sem femínistar eru kallaðir talíbanar og nasistar og sagt að þegja og beita sér frekar fyrir einhverju öðru en því sem þeir eru að gera.

Á meðan allt þetta þrífst mun samfélagið ekki meta konur til jafns við karla – og allt þrífst þetta vegna þess að samfélagið metur ekki konur til jafns við karla. Til að rjúfa vítahringinn þarf að afmá öll þessi einkenni og stuðla að stórkostlegri hugarfarsbreytingu í samfélaginu öllu.

 

Félagsmótun kynjaðs samfélags

Félagsmótun samfélagsins hefst strax við fæðingu og heldur áfram út lífið. Rannsóknir sýna að fullorðnir tileinka kornabörnum ólíka eiginleika eftir því hvort um stúlku eða dreng er að ræða. Barnabækur, teiknimyndir, tölvuleikir, leikföng og markaðssetning á þessu öllu beinir stelpum og strákum í ólíkar áttir, þrengir raunverulegt val þeirra um áhugamál, nám og starfsvettvang og hvetur þau til að rækta með sér mjög ólíka eiginleika.

Þannig beinir samfélagið konum og körlum í ólík hlutverk, ólík störf og ólíkar aðstæður á sama tíma og það kennir okkur hvað er gott og vont, merkilegt og ómerkilegt, verðmætt og verðminna. Og þannig verður það til að karllægir eiginleikar eru metnir langt umfram kvenlæga, að starfsstéttir sem eru að meirihluta skipaðar körlum eru að jafnaði á hærri launum en starfsstéttir sem eru að meirihluta skipaðar konum.

Dæmi um þetta gæti verið um leikskólakennara og verkfræðinga. Störfin krefjast jafnlangrar menntunar og snúast bæði um öryggi, aðbúnað og velferð til langrar framtíðar. Þau eru bæði krefjandi og lýjandi, gefandi og skemmtileg. Ef verið væri að meta störfin í fyrsta sinn í samfélagi án gamalgróins gildismats er ég ekki viss um að launamunur stéttanna yrði mikill. En það er hann svo sannarlega í dag.

 

Breytum

Kynbundnum launamun verður sumsé ekki útrýmt einum og sér, heldur verður að tryggja jafnrétti á öllum sviðum samfélagins. Verkefnið er stórt og flókið og kallar á handaflsaðgerðir í bland við fræðslu, skýra stefnumörkun, eftirfylgni og eftirlit. Ekki bara í launamálum, heldur líka í uppeldis-, velferðar-, skipulags-, menningar- og ferðamálum, í framkvæmdum, viðskiptum og hvar sem er.

Þetta stóra og flókna verkefni er engu að síður brýnt og löngu tímabært. Það er á ábyrgð okkar allra og við verðum að takast á við það. Við verðum að hafna misrétti hvar sem það birtist, vera á verði gagnvart staðalmyndum og áhrifum þeirra, ala börnin okkar betur upp og bjóða þeim fleiri tækifæri. Við verðum að hafna úreltum hugmyndum um hlutverk kynjanna, krefjast jafnari kynjahlutfalla þar sem ráðum er ráðið og hugmyndir metnar. Við verðum að krefjast jafnari sýnileika kynjanna í frétta-, menningar- og afþreyingarefni og við verðum að hafna ofbeldi af öllum sortum. Við verðum að bera virðingu hvert fyrir öðru og koma fallega fram. Og síðast en ekki síst verðum við að meta hvert annað að verðleikum, konur jafnt sem karla. Þannig, og aðeins þannig, útrýmum við kynbundnum launamun.

4 athugasemdir við “Jafnrétti takk

 1. Hvers vegna þurfa menn að fara út á markaðinn til að vera metnir að verðleikum? Hvers vegna eru heimgreiðslur ti foreldra tabú á meðan dagforeldrar fá laun og leikskólakennarar? Hverju er um að kenna? Markaðshyggju? Karllægri sýn?

 2. „Dæmi um þetta gæti verið um leikskólakennara og verkfræðinga.“

  Það er ekki hægt (á lógískan hátt allavega) að nota þetta sem dæmi um kynjabundin launamun. Það eru engir leikskólakennarar á opnum markaði á íslandi, það eru hinsvegar verkfræðingar bæði á markaði og að vinna fyrir hið opinbera… Markaðurinn býr til samkeppni sem hífir upp laun verkfræðinga, þó þeir vinni hjá hinu opinbera. Ef vinna verkfræðinga væri einungis að fá frá ríkinu, þá væru laun þeirra eflaust lægri glóbalt.

  Það er auk þess vel þekkt að allskyns vísindamenn fá betur borgað ef þeir vinna fyrir einkafélög, heldur en að tileinka líf sitt ‘hreinum’ vísindum – Margir stunda vísindin sín þrátt fyrir það og fá margfallt lægri laun, af því að á endanum eru lífsgæði ekki metinn í launum nema að hluta til.

  Það er líka vel þekkt að mismunandi markaðir búa til mismunandi há laun fyrir fólk með ólíka menntun, algjörlega óháð lengd námsins. Það er ekki alveg skýrt hvað Sóley meinar með „handaflsaðgerðir“ en maður hlýtur að spyrja sig hvort hún meini ekki „afnám á markaðskerfum“ , og hvað kæmi þá í staðinn? Handafls miðstýring ?

 3. Þá þarf að gefa kynjunum jafnara færi á launavinnu og frítíma. Í dag eru karlar með 21% fleiri skráðar vinnustundir á einstakling. Vinnuþrælkun íslenskra karla veldur því að þeir kynnast illa börnum sínum og sérstaklega í samfélagi þar sem skilnaður er frekar reglan en undantekningin standa karlar sem alltaf voru í vinnunni þegar börnin voru minni í veikri stöðu.

  Hér skal enginn halda fram að ég sé að halda fram að konur séu ekki að standa undir sínum hluta í samfélaginu, en mikið af framlagi þeirra er ekki launavinna (þar á ég t.d. við barneignafrí, heimilisstörf og stuðning við aldraða fjölskyldumeðlimi). Það sem ég er að halda fram er að það sé félagslega gagnlegt körlum að taka meiri þátt í þessum verkum og á sama hátt væri gott fyrir konur að geta verið til jafns á vinnumarkaði á við karla. Slíkt myndi bæta möguleika þeirra á að fá starfsframa og ætti að auka jöfnuð í lífeyrismálum.

  Skref á að auknum jöfnuði í atvinnuþátttöku gæti t.d. verið að:
  afnema yfirvinnu
  gefa körlum rétt til að biðja um hlutastörf.
  auka hlut feðra í fæðingarorlofi.
  bæta réttindi karla til að taka umönnunarfrá frá vinnu.

  • Héðinn,

   Þegar fæðingarorlof karla var tekið upp tóku femínistar og aðrir því fagnandi því nú skyldi sko sjá fyrir endann á launamuninu. En allt kom fyrir ekki og sérstaklega eftir kreppu hafa vinnuveitendur tekið að leita leiða til að geta rekið nýbakaða feður eftir að þeir taka sér fæðingarorlof. Þetta órétti er illkæranlegt og til þess fallið að viðhalda kerfinu. Það sem þarf er víðtækari vitundarvakning á öllum sviðum. Það þarf að efla karla til að yfirhöfuð þora að kvarta yfir þessu, því oft á tíðum þykir það ekki „karlmannlegt“ og eins þarf að setja einhvers konar mekanísma á stað sem gerir vinnuveitendum erfiðara að ganga á rétt feðra sem taka orlof.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.