Hinn niðurlægjandi kynjakvóti

Höfundur:  Elmar Geir Unnsteinsson

gettu betur lógóÞví er reglulega varpað fram sem rökum gegn beitingu kynjakvóta, til dæmis í hinni ágætu sýndargáfnakeppni Gettu betur, að hún sé niðurlægjandi fyrir þau sem njóta góðs af breyttu fyrirkomulagi. Þetta eru skiljanleg rök og þess verð að þau séu athuguð nánar. Niðurlægingin felst væntanlega í því að sérstakar aðstæður hafi verið skapaðar sem geri það að verkum að einn einstaklingur fremur en annar nái eftirsóttum árangri. Þessar sérstöku aðstæður séu alfarið byggðar á þáttum sem tengjast verðleikum viðkomandi ekki á nokkurn hátt, t.d. kyni. Takið eftir að það er dulin forsenda hér sem segir að það sé alltaf niðurlægjandi að vera tekinn fram yfir einhvern annan ef ástæðan er ekki hæfnis- eða verðleikamunur.

Hugsum málið aðeins. Gerum ráð fyrir því að óréttlætanleg mismunun ríki á milli kynjanna. Ég held að enginn geti raunverulega efast um þetta nú á dögum. Nýlega voru enn og aftur fluttar fréttir af svokölluðum „óskýrðum“ launamun kynjanna – sem er fáránlegt og jafnvel hættulegt orðalag.[1] Til einföldunar má styðjast við Gettu betur sem dæmi. Í Gettu betur ríkir mismunun sem furðulega erfitt hefur reynst að útrýma: það eru miklu fleiri strákar en stelpur sem taka þátt. Það er óhugsandi að útskýra þennan mun með ólíkum „áhugasviðum“ eða ólíku „gáfnafari“ sem kynjunum sé í blóð borið. Jafnvel þótt slík eðlishyggja væri rétt þá ætti hún erfitt með að útskýra af hverju munurinn á þátttöku kynjanna er svona ógurlega mikill. Eða vill fólk í alvöru meina að strákar séu í eðli sínu miklu gáfaðari en stelpur? Ég vona ekki. (Um sýndargáfur kann öðru máli að gegna, en það er bara vegna þess að staðalímyndir mikilla gáfna eru allajafna karlkyns.) Það hlýtur því að vera óréttlætanleg kynjamismunun fólgin einhvers staðar í þessari keppni. Ég ætla ekki að setja fram neinar tilgátur um það hvar nákvæmlega mismununin birtist í ferlinu – enda er erfitt að vita slíkt án raunverulegra rannsókna.

Tvær öfárra kvenkyns keppenda ræða málin í Kastljósi

Tveir öfárra kvenkyns keppenda ræða málin í Kastljósi

Það þarf nú ekki meira en þetta svo það verði öllum ljóst hvar þessi tilteknu rök gegn kynjakvóta í Gettu betur lenda í ógöngum. Sá sem heldur þeim fram hefur samþykkt tvær staðhæfingar:

(1)  Það er niðurlægjandi að vera tekinn fram yfir aðra ef ástæðan fyrir því er eitthvað annað hæfnis- eða verðleikamunur.

(2)  Strákar hafa frá upphafi verið teknir fram yfir stelpur til að taka þátt í Gettu betur, án þess að það finnist önnur útskýring en rótgróin og óréttlætanleg mismunun milli kynjanna sem enn hefur ekki tekist að uppræta.[2]

Það hlýtur að leiða af ofansögðu að öllum strákum sem tekið hafa þátt Gettu betur hefði átt að finnast þátttaka sín niðurlægjandi fyrir sjálfa sig. Eini munurinn á hinu hefðbundna feðraveldisfyrirkomulagi og lýsingunni sem ég gaf á kynjakvóta er sá að feðraveldið var sennilega ekki skapað af ásettu ráði til að ná fram einhverjum tilgangi. En niðurlæging strákanna ætti að felast í því að sérstakar aðstæður hafi einfaldlega skapast sem geri það að verkum að einn einstaklingur frekar en annar nái tilteknum árangri og ástæðan fyrir því er eitthvað annað en áunnir verðleikar viðkomandi. Það má síðan auðveldlega yfirfæra þetta litla dæmi á samfélagið í heild. Karlar sem notið hafa velgengni í fortíðinni hafa gert það á kostnað kvenna sem – með sömu tækifærum, fyrirmyndum, og sömu launum – hefðu alveg getað náð sama eða betri árangri. Þetta ætti því að vera niðurlægjandi fyrir þá alla.

Vinningslið MR frá síðasta vetri

Vinningslið MR frá síðasta vetri

Auðvitað hafa strákar í Gettu betur ekki upplifað niðurlægingu af þessum sökum. Enda er ég ekki að halda því fram að þetta ætti að vera niðurlægjandi fyrir þá persónulega. Aðstæðurnar sem skapast hafa í samfélaginu eru niðurlægjandi fyrir samfélagið í heild. Ég vildi einfaldlega fjalla um þessi rök gegn kynjakvóta á þeirra eigin forsendum og gefa mér þá tilgátu að það sé niðurlægjandi að njóta einhvers útaf kynjakvóta. Í raun og veru hef ég aldrei séð neitt sem styður þessa vinsælu tilgátu. Þannig gæti hún allt eins verið ósönn. Það ætti heldur ekki að koma á óvart. Ef fólk leiðir að því hugann þá sér það að velgengni byggir sjaldnast á verðleikum þess sem hennar nýtur. Handahófskenndar aðstæður sem við höfum sjálf ekkert um að segja virðast ráða mestu: hvar í heiminum við fæðumst, hvort foreldrar okkar séu ríkir eða fátækir, hvort við tilheyrum ofsóttum hópum samfélagsins af einhverjum handahófskenndum ástæðum (trú, kynþáttur, kynhneigð, o.s.frv.) og hvort við fæðumst karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns. Enginn verðskuldar niðurstöðu sína úr happdrætti náttúrunnar, hvort sem niðurstaðan er meðfædd fötlun eða meðfædd geta til að tileinka sér hina og þessa hæfileika. Það er því erfitt að halda því fram að fólk verðskuldi samfélagsleg gæði sem því hlotnast að hluta til vegna meðfæddra eiginleika á borð við greind eða skapgerð (að því leyti sem slíkir eiginleikar eru meðfæddir).[3] Auðvitað er mögulegt að verðskulda sína stöðu í samfélaginu – en það er miklu erfiðara og flóknara en fólk virðist halda. Og það er alltaf auðvelt að ímynda sér að maður hafi komist þangað sem maður er algjörlega á eigin verðleikum.

Ég gat þess að ofan að rökin gegn kynjakvóta væru skiljanleg. Af hverju eru þau skiljanleg? Einfaldlega vegna þess að það er fátt auðveldara en að vera blindur á eigin forréttindi. Það ætti hins vegar að vera orðið sorglega augljóst að karlkynið nýtur ýmissa forréttinda víðsvegar um heiminn og hefur gert frá alda öðli. Það finnst mér niðurlægjandi fyrir mig og alla kynbræður mína.

 


[1] Þessi talsmáti gefur í skyn að rótgróin samfélagsleg mismunun (þ.e. ekki beinlínis efnahagsleg eða réttarfarsleg) geti ekki útskýrt neitt á borð við launamun kynjanna. En allar kannanir og rannsóknir sem gerðar hafa verið í marga áratugi hljóta að taka af allan vafa um að samfélagsleg mismunun, fordómar og staðalímyndir útskýra þennan launamun.

[2] Ég bæti því við, án þess að fara út í smáatriði, að mismununin sem minnst er á í (2) getur verið fólgin í flókinni blöndu af samfélagslegum þáttum; staðalímyndum, hefðum, karlaklúbbum, og sálfræðilegum þáttum; einföldum fordómum, svokallaðri hugdrægni (e. confirmation bias), og áherslu á eðlishyggju frekar en tölfræðilega hugsun.

[3] John Rawls færir rök fyrir þessu á áhrifamikinn hátt í 12. kafla bókarinnar A Theory of Justice.

Ein athugasemd við “Hinn niðurlægjandi kynjakvóti

 1. Þú ert að misskilja svolítið. Strákar eru ekki að komast frekar áfram í þessari keppni vegna kyns síns eða vegna þess að þeir eru gáfaðri. Það heldur því enginn fram. Þeir eru fleiri einfaldlega vegna þess að fleiri strákar taka þátt. Þetta er vitað og er óumdeilt. Á sama hátt eru færri strákar en stelpur sem taka þátt í söngvakeppni framhaldsskólanna. Þeir strákar sem komast inn í keppnina gera það því ekki vegna kyns síns, heldur vegna þess að þeir sýndu henni áhuga og tóku þátt. Strákar hafa heldur ekki verið „teknir fram yfir“ stelpur enda bannar enginn þeim að taka þátt.

  Það er gott og blessað að ráðast gegn þeim ástæðum sem liggja til grundvallar því að færri stelpur taka þátt, sem ég held að hljóti að snúa að almennum áhuga og hvað krökkum finnst „kúl“ á hverjum tíma. Stelpum tókst t.a.m. að fara úr miklum minnihluta skólagenginna yfir í talsverðan meirihluta, en slíkar viðhorfsbreyfingar taka einfaldlega tíma.

  • „…sem ég held að hljóti að snúa að almennum áhuga og hvað krökkum finnst “kúl” á hverjum tíma.“

   Svo ég vitni í hinn mikla rökræðumeistara Gumma sem hefur lagt okkur línurnar hér að neðan: „Þessi rök þín eru fullkomlega anecdotal. Þín persónulega reynsla skiptir ekki máli og gefur mjög villandi mynd af stöðu mála.“

   Eða ertu nokkuð sami Gummi? Það væri vandræðalegt.

   • Enn of aftur Salvar, gaman hjá þér að sitja og krítísera einstakar setningar í röksemdafærslu fólks en svara engu efnislega.

    Í þessari tilvitnuðu setningu dreg ég engan dul á það að þetta sé mín persónulega skoðun, sbr. orðin „ég held“. Ég trúi því ekki að strákar séu gáfaðri að eðlisfari og ég hef hrakið þau rök að stelpum sé haldið frá keppninni, þannig að það eina sem stendur eftir er að stelpur hafi einfaldlega minni áhuga. Vonandi þarf ég ekki að mata þig að öllum ályktunum.

 2. Gummi, það má bæta við að konur þurftu að berjast harkalega fyrir því að fá að fara í skóla. Og aftur þegar barist var gegn því að konur fengu ekki að fara í ákveðna skóla. Kynjakvóta var komið á, kannski ekki í sömu mynd, en mjög svipað.

  • Þær þurftu að berjast harkalega fyrir því að fá að fara í skóla. Stelpur fá alveg að taka þátt í Gettu Betur. Kynjakvóta var ekki komið á, og ég skil eiginlega ekki hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu. Kynjakvóti lýsir sér með þeim hætti að annað eða bæði kynin eiga heimtingu á fyrirframákveðnum sætum í nefndum, liðum o.s.frv. Konur fengu einfaldlega að fara í skóla og nýttu sér þann rétt sinn. Þær áttu ekki heimtingu á einhverjum sætaplássum þar einfaldlega á grundvelli síns kyns. Ekki vera viljandi að reyna að mistúlka eða koma með einhvern svona þvætting.

   • Enginn þvættingur hér á ferð. Ég sagði að kynjakvótinn væri í annarri mynd. Ekki sá sami og finnst í dag. Kynjakvóti er kannski ekki gott orð. Hérna er aðeins útlistað hvernig þetta var (í kaflanum „Menntun“). http://www.heimastjorn.is/heimastjornartiminn/kvenrettindi/

    Ég mæli með að þú lesir alla greinina, þetta er mjög áhugavert, og það er ekki langt síðan þetta var.

    Konur þurftu mikið að berjast fyrir því að menntun þeirra og karla væri sú sama. Og jafnvel enn í dag berjast konur fyrir því að menntun þeirra sé tekið jafn alvarlega. Þessu hefði mátt flýta fyrir með kynjakvóta eins og við þekkjum hann í dag.

    Þú hlýtur að sjá að það er eitthvað skrýtið við hvernig Gettu Betur hefur þróast. Ég hef aldrei séð til þess að stelpur hafi eitthvað minni áhuga á spurningakeppnum en strákar. En samt taka þær þátt í mun minna mæli. Að miklu leyti tel ég að það sé vegna þess að fá fordæmi eru til staðar. Þetta eru helvíti fínir strákaklúbbar, sem fólk virðist vilja vernda með kjafti og klóm. Stelpur fá vera með. Stundum. En ekki nógu oft til að þetta virðist eitthvað fyrir bæði kyn. Stelpurnar sem hafa verið með áður voru því miður undantekningarnar á reglunni. Kannski helst þetta í hendur við að fólk tekur menntun kvenna ekki jafn alvarlega enn í dag.

    Ég skil ekki af hverju fólk ætti að „bíða og sjá hvernig þetta gerist með tímanum“, þegar hægt er að kickstarta þróuninni með kynjakvóta.

    En ekki verða alveg brjálaður. Það varst þú sem tókst dæmið um skólagöngu kvenna til samanburðar. Ég rúllaði bara með því.

   • Kynjakvóti er ekki gott orð vegna þess að þetta var ekki kynjakvóti, sem rennir stoðum nákvæmlega undir það sem ég var að segja – að konur þurfa ekki kynjakvóta til að ná langt.

    Ég er alveg sammála því að það er skrýtið hvernig Gettu Betur hefur þróast og auðvitað væri æskilegt ef fleiri stelpur tækju þátt. Þessi rök þín um að þú hafir aldrei séð að stelpur hafi eitthvað minni áhuga á spurningakeppnum er fullkomlega anecdotal. Þín persónulega reynsla skiptir ekki máli og gefur mjög villandi mynd af stöðu mála. Tölurnar um þáttöku kvenna í forkeppnum sýnir einfaldlega fram á að stelpur hafa minni áhuga á Gettu Betur og því er það móðgandi fyrir þær stelpur sem sýna áhuga að fá pláss í liðinu á grundvelli kyns síns. Sem dæmi má taka að í síðustu forkeppni MR lenti fremsta stelpan í 12. sæti, en með kynjakvóta hefði hún farið inn í liðið – ekki vegna þess að hún var sú besta, heldur vegna þess að hún er stelpa.

    Þetta komment þitt um að kynjakvótar „kickstarti“ einhverskonar þróun er fullkomlega órökstutt, þannig að það tekur því varla að svara. Í því samhengi er einnig áhugavert að benda á það að þessir kynjakvótar virðast bara eiga við þar sem konur eru í minnihluta. Sem dæmi má taka sjálfa Jafnréttisstofu þar sem eru 87,5% konur og 12,5% karlar. Það hefur ekki þótt ástæða til að „rétta“ það kynjahlutfall, enda er jafnrétti bara fyrir konur.

   • „Í því samhengi er einnig áhugavert að benda á það að þessir kynjakvótar virðast bara eiga við þar sem konur eru í minnihluta. Sem dæmi má taka sjálfa Jafnréttisstofu þar sem eru 87,5% konur og 12,5% karlar. Það hefur ekki þótt ástæða til að “rétta” það kynjahlutfall, enda er jafnrétti bara fyrir konur.“

    Að byggja röksemdafærslu sína á einu dæmi… hvað kallaðirðu það aftur í efnisgreininni á undan?

   • Eitt dæmi, Salvar, en dæmi um svolítið mikla hræsni. Jafnréttisstofa sjálf er með þennan kynjamun, sem ég geri svosem engar sérstakar athugasemdir við ef hæfasta fólkið er í starfinu. Þeir sem vilja fá kynjakvóta ættu kannski að byrja á að krefjast hans hjá þeirri stofnun sem ber ábyrgð á jafnréttismálum í samfélaginu.

    Agalega hlýturðu að hafa gaman af því að sitja hofmóðugur í einhverjum hægindastól og pissa upp í vindinn.

   • Gummi minn. Þurfa karlar kynjakvóta til að ná langt? Nú eru karlar teknir inn í framhaldsskóla (t.d. í Versló) á grundvelli kyns. Þeir eru of margir miðað við námsgetu. Þetta er nú bara eitt dæmi um alveg konkret kynjakvóta sem beitt er í dag. Yfirleitt er það lúmskara. Sem er pointið í greininni.

    ps Þú kemur skemmtilega upp um karlrembu þína í lokin með því að röfla yfir kynjahlutfalli í Jafnréttisstofu.

   • Nei, karlar þurfa þess ekki, enda er þessi kynjakvóti við Verzló reginvitleysa. Það skiptir ekki máli hvort kynið á í hlut. Það má hinsvegar alveg kanna ástæður þess að strákum gengur almennt verr í skólum og taka á því vandamáli í stað þess að þvinga þeim inn í einhverjar stöður sem þeir hafa ekki unnið sér inn fyrir.

    Hvaða karlrembu ertu svo að tala um? Er ég að gera lítið úr konum? Sparaðu þetta ofnotaða karlrembuspil fyrir alvöru karlrembur.

   • Ég ímynda mér að Rússar séu stolltir yfir því að búa yfir mörgum góðum skákmeisturum. Það er væntalega ekki vegna þess að þeir séu náttúrulega betri eða gáfaðri en aðrar þjóðir, hendur vegna þess hve mikil áhersla var lögð á að ungt fólk tæki þátt. Gettu betur yrði líklega að sama skapi betri keppni ef jafnmikill áhugi væri hjá stelpum og strákum, enda úr stærri hóp að velja. Ef það er rétt að staðalímynd sé ástæðan, þá þarf að finna leið til að breyta henni. Líklega er þessi aðferð ekki sú eina, en bráðabirgða íhlutun eins og þessi gæti verið sú fljótvirkasta.

 3. Niðurlægingin fellst í því að taka þátt í keppni (forkeppni) og vera veitt verðlaun (þáttaka í sjónvarpskeppni) án þess að þurfa að hafa unnið fyrir þeim.

  Hver vil skreyta sig með stolnum fjöðrum?

 4. Óskýrður launamunur vísar eða á að vera sá munur sem er eftir þegar búið að að tillit til þátta eins og starfsaldurs, fjölda vinnustunda og álíka. Þetta er ekkert annað en rétt málnotkun byggð á aðferðafræði. Áskorunin fyir rannsakendur er að fynna breytu (þátt) sem útskýrir part af þessum áður óskýrða muni.
  Raunverulegar ástæður kynbundis launamuns eru líklega tengdar þeim punktum sem þú nefnir, en ef að kannarnirnar mæla þá ekki þá er ekki heiðarlegt að gera ráð fyrir að þetta hljóti að vera ástæðan

  • Já, þetta er auðvitað rétt hjá þér Jóhann. Ég vildi eingöngu meina að orðið „óskýrður“ gæti gefið meira í skyn en bara það að munurinn sé ekki skýrður með þeim breytum sem verið er að mæla. Við erum einfaldlega ekki jafn viss í okkar sök hver skýringin kann að vera. Ég ætlaði mér ekki að segja að kannanirnar dragi skýringuna sem ég sting upp á í ljós og það er rétt að það að halda því fram væri óheiðarlegt. Ég var hins vegar bara að fetta fingur út í orðalag.

 5. Ég held að kynjakvótar í ‘Gettu Betur’ sé áhugaverð tilraun.

  En mér finnst notkun þín á orðinu „mismunun“ óhefðbundin. Þú segir í viðaukanum:

  mismununin sem minnst er á í (2) getur verið fólgin í flókinni blöndu af samfélagslegum þáttum; staðalímyndum, hefðum, karlaklúbbum, og sálfræðilegum þáttum; einföldum fordómum, svokallaðri hugdrægni (e. confirmation bias), og áherslu á eðlishyggju frekar en tölfræðilega hugsun.

  Ég skil hvað þú átt við en ég held að umræðan verði ruglingsleg, ef við ætlum að kalla alls konar hefðir og staðalímyndir „mismunun“. „Kynjahalli“ væri e.t.v. betra orð.

  Ekki er það mismunun að konan mín (og mjög margar aðrar konur) máli sig á morgnana, en ég (og aðrir karlar) ekki??

  • Takk fyrir ábendinguna, Einar. Sennilega hefði ég mátt orða þetta skýrar því að vitanlega átti ég ekki við að staðalímyndir o.þ.h. væru mismunun. Ég sagði að mismunun „geti verið fólgin í“ slíkum atriðum. Og þá á ég auðvitað við að slík atriði geti verið orsök mismununar. En þetta er nú smáatriði í greininni og ekki ætlun mín að færa sérstök rök fyrir því.

 6. Mér finnst áhugaverðast og röksterkast að pæla í þessu máli út frá algjörlega köldum showbiz-staðreyndum.

  Áhorf á Gettu betur hefur dalað og áhorf á Útsvar hefur aukist. Af hverju? Vegna þess að Gettu betur er ekki nógu góð skemmtun og ekki nógu gott sjónvarpsefni. Þar er komin fullkomin ástæða fyrir því að setja á kynjakvóta í Gettu betur, auka gæði þáttarins og tjakka upp áhorfið með því að skapa meiri fjölbreytni.

  Stefán Pálsson fjallaði frábærlega um þetta hér á knuzinu og ég ætla að leyfa mér að linka á hans grein hér með: http://knuz.is/2013/01/23/231-hvernig-gettu-betur-eydilagdi-daginn/

  • Eftir að hafa lesið grein Stefáns er finnst mér komin skýring á því af hverju hallar á stúlkur og lausnin *er* kynjakvóti, en honum þarf að halda inni í 6 ár en ekki 4 til að ná árangri (allir meðlimir klíkunnar hafa ekki þekkt annað en kynjakvótann í 2 ár).

  • Vilt þú þá ekki bara upplýsa okkur um hvað telst vera gott sjónvarp og hvað vont?

   Það telst t.d. gott sjónvarp að spyrill bíði með að gefa upp að um rétt svar hafi verið að ræða eftir að svar er gefið, og jafnvel að skjóta inn auglýsingum á þeim tíma? Líka telst það gott sjónvarp að lið ‘leiki’ smá vankunnáttu við svörun, þ.e. að þau þykist ekki vita svarið í svolítinn tíma þar til á síðasta séns.

   Svo er líka gott sjónvarp að fá að tengjast keppendum á öðrum forsendum en svarkunnáttu þeirra, við gætum fengið smá klippur inn á milli þar sem einn keppandi fær að tjá sig um hitt og þetta um sig, eða þá að við fáum sérstakan þátt sem fjallar eingöngu um keppendur – förum í heimsókn og sjáum aðstæður – allt tilfinningaklámið í bókinni.

   Það er gott sjónvarp, það selur, það hefur margasannast sama hvað þér finnst um þetta – erum við ekki annars bara í þessu til að búa til gott sjónvarp – það sem selur? Eða ert þú að tala um öðruvísi gott sjónvarp?

 7. Það er haldin keppni í að klifra upp í tré – aparnir vinna alltaf og það eru of fáir fiskar sem taka þátt. Lausnin er ekki að tilgreina að 30% keppenda verði að vera fiskar, það bætir ástandið ekki neitt, og sérstaklega ekki fyrir fiskana – það þarf að breyta keppninni ;o)

  Annars er þetta mjög fín grein að mestu leiti. Góð leið til að skrifa svona grein er að skrifa hana ekki „til andstæðingsins“ heldur að ímynda sér að maður sé að reyna að höfða til einhvers sem maður elskar mjög mikið en hefur bara ekki séð þína hlið málsins.

  Ég tók einu sinni þátt í tiltekinni keppni á framhaldsskólastigi. Ég stóð mig vel en ekki alveg nógu vel til þess að komast í úrslit. Vegna þess að ég var 2-3 árum yngri en allir sem komust áfram þá var mér samt boðið að taka þátt í úrslitakeppninni. Það má segja að ég hafi verið tekinn inn á „aldurskvóta“. Það er skemmst frá því að segja að þegar á hólminn var komið þá gekk mér ömurlega, spurningarnar voru mun erfiðari en ég átti von á og mér leið eins og fisk á þurru landi. Mér fannst ég vera vitlaus og ég vildi sem minnst hugsa eða tala um þessa keppni á eftir. Það er mín reynsla af því að vera tekinn inn á „aldurskvóta“.

  En mál málanna er auðvitað að þetta er orðið pínlegt með kvenhylli Gettu Betur, það er fullt, fullt af stelpum sem geta staðið sig nákvæmlega jafn vel og strákarnir. Fullt af stelpum sem, í staðinn fyrir að lesa bók fyrir svefninn, lesa Trivial Pursuit spurningastafla og alfræðibækur. Vandamálið er bara að það gengur illa að fá þær í liðin.

  Til þess held ég að það væri best að beita hvetjandi aðgerðum, frekar en þvingandi. Betri verðlaun t.d. og auka verðlaun í hverjum einasta þætti (fyrir alla liðsmenn) ef það er stelpa í liðinu. En þá myndi ég vilja að það væri BANNAÐ að taka inn stelpu í liðið bara vegna þess að hún væri stelpa, þær yrðu að ná sama árangri og strákarnir. Kosturinn við slíkt fyrirkomulag er að þá fengirðu allan „strákaklúbbinn“ til að opna dyrnar hjá sér upp á gátt til að fá klárustu stelpurnar með sér, í staðinn fyrir að kvarta yfir „keppendunum á fölsku forsendunum“.

  Að því sögðu þá vil ég samt enda þetta á jákvæðari nótum, því þó ég sé ekki fylgjandi kynjakvótum þá ber umræðan um þá ótvíræða kosti. Aðal kosturinn í þessu tilviki er auðvitað að allt talið um kynjakvóta vekur athygli á því hversu klaufaleg þessi keppni er og hversu illa hefur gengið að breyta henni til hins betra.

   • Hehe, þessi athugasemd kemur ekki svo á óvart.

    Það er hárrétt tekið eftir hjá þér að ég er þarna með réttu eða röngu að bera stelpur sem keppa í Gettu Betur saman við fiska sem klifra í trjám. Og þegar betur er að gáð er ég líka að gera aðra hluti. Ég er t.d. að líkja strákum sem keppa í Gettu Betur við apa, eins lítilmannlegt og það er. En mér til málsbóta er ég líka að líkja sjálfum mér við fisk á þurru landi með skírskotun í sömu trjáklifrandi fiskana, svo ég er þó allavega að fylgja gullnu reglunni um að gera ekki náunganum neitt sem ég myndi ekki vilja að hann myndi gera mér. Og til að útskýra líkinguna aðeins betur þá er hún skírskotun í skrítlu sem gagnrýnir menntakerfið og hvernig það er sniðið að hæfileikum þeirra fáu. Þú getur séð skrítluna með því að smella á nafnið mitt í upphaflegu færslunni.

    Það sem ég er hinsvegar að reyna að koma til skila er að það þarf að laga keppnina sjálfa, ekki meðhöndla einkennið með kynjakvótum.

    p.s. mér líkar annars illa að tala um að Gettu Betur sé keppni í gáfum, það er verið að keppa hver getur lagt mest á minnið, þetta er minnisleikur. Maður getur lagt á minnið alla heimsins þekkingu án þess að verða gáfaður fyrir vikið – og öfugt.

 8. Þetta er heiðarleg – en nokkuð misheppnuð – tilraun að rökréttri röksemdafærslu frá þessu sjónarhorni.

  Fyrst um duldu forsenduna um niðurlægingu. Hún snýr að því að það sé niðurlægjandi að reglusetning gefi þau yfirlýstu skilaboð að þú þurfir á forskoti að halda á einhverju sviði vegna kynferðis þíns. Það snýst því ekki beinlínis um það að fá einhver forréttindi út af fyrir sig, heldur þau skilaboð frá samfélaginu að þú þurfir á þeim að halda. Ég mundi ekki beinlínis kalla það niðurlægjandi, en nokkuð móðgandi adróttun engu að síður og óeðlilegt viðmið til að byggja á í stefnumótun.

  Næst um almennt samfélagslegt óréttlæti – já, flestir myndu samþykkja að einhvers konar óréttlæti og ómálefnaleg mismunun á grundvelli kynferðis viðgengst í samfélagi okkar og það geri ég sannarlega. Sú almenna röksemd er hins vegar ekki fullnægjandi fyrir því að slíkt óréttlæti viðgangist á tilteknu sviði og á tiltekinn hátt; það þarf að sýna fram á í hverju tilviki fyrir sig, í hverju það felst og þannig hvernig er hægt að sporna gegn því.

  Þú gefur þér að „óhugsandi“ sé að útskýra mun á þátttöku kynjanna í Gettu Betur (og þá væntanlega á öðrum sviðum) með eðlishyggju-rökum, án þess að rökstyðja það neitt frekar. Það er ekki heldur rökrétt að hafna tilteknum tilgátum án þess að skoða þær nánar, jafnvel þó það sé rétt sem þú segir að þær útskýri ólíklega þennan mikla mun einar og sér geta þær engu að síður verið skýringarþáttur.

  Til að mynda bendir ýmislegt til þess að karlar hafi að jafnaði meiri áhuga á keppnisíþróttum en stelpur og að heilastarfsemi þeirra sé marktækt ólík að ýmsu leyti, t.d. hugsi strákar frekar með vinstra heilahvelinu og séu líklegri til að vera góðir í að fást við afmörkuð/einsleit svið hugsunar. Taktu eftir að þar með er alls ekki verið að segja að stelpur séu „miklu heimskari“ heldur en strákar, heldur að almennur munur geti verið á áhugasviðum og styrkleikum kynjanna. Kynin hafa jafnan mælst með jafnháa greindarvísitölu að jafnaði, konur jafnvel með hærri undanfarið, og ýmis „eðlishyggjurök“ hafa verið fundin til í fræðum heilataugavísinda sem útskýra almenna yfirburði kvenna á ýmsum sviðum hugsunar; t.d. er varðar lausn og samþættingu ólíkra verkefna, starfsemi á vinstra heilahveli, tungumálakunnáttu o.fl.* Slíkur eðlismunur getur síðan margfaldast í meðförum samfélagsins fyrir tilstilli félagsmótunar, myndunar áhugabrauta í lífinu og félagslegrar samsömunar einstaklinga með svipaða eiginleika.

  Það skemmtilega er að þetta talar þú sjálfur um – að Gettu Betur sé „sýndargáfnakeppni“ og það í samræmi við karllægar staðalmyndir um gáfur – en virðist ekki gera þér grein fyrir því hvernig það eru prýðilegur mótrök gegn öðru í máli þínu. En þetta eru bara dæmi um tilgátur sem koma til greina en þú hafnar án þess að skoða.

  Þú viðurkennir síðan að þú hafir enga hugmynd um í hverju meint mismunun felst – en vilt samt ráðast í aðgerðir sem byggja á gefinni forsendu um slíka mismunun. Þú lítur síðan fram hjá einu dæmunum þar sem tilgáta þín hefur verið sannreynd, þ.e. próf lagt fyrir alla nemendur í skólanum, og henni hafnað; þ.e. með því að strákar svöruðu fleiri spurningum rétt. Sú niðurstaða þeirra tilrauna er í engu samræmi við þá tilgátu að kynjamunurinn byggi á ómálefnalegri mismunun heldur þvert á móti bendir hún til að hann byggi á þeirri málefnalegu forsendu að fleiri strákar hafi svarað fleiri spurningum rétt. Sem er viðfangsefni keppninnar sem um ræðir og því einkar málefnalegt.

  Tilvitnun þín í hugmyndir Rawls er skemmtileg; um það að ekkert okkar vann inn yfir meðfæddum hæfileikum sínum og því sé óréttlátt að við njótum ávaxta þeirra. Á móti þessu má í fyrsta lagi benda á, eins og Nozick gerði, að það er samt sem áður sanngjarnara að við njótum þeirra heldur en einhver aðrir. Í öðru lagi má halda því fram að hæfileikar okkar séu hluti af okkur sjálfum, okkar persónu og sjálfsmynd, en ekki einhver aðskilinn eiginleiki, og því sé réttlátt að þeir hæfileikar sem skapa verðmæti eða ná tilteknum árangri njóti ávaxta þeirra amk. í meira mæli en aðrir. Loks má benda á að ofan á eðlishyggjuna bætist jafnan mikil vinna, metnaður og þjálfun þeirra sem árangrinum ná og eiga hann þar með heldur skilinn. Alltént væri samfélag sem hafnaði alfarið rétti einstaklinga til að njóta afraksturs erfiðis síns og hæfileika varla sérlega líklegt til árangurs.

  Það er amk. alla jafna gerður skýr greinarmunur á ómálefnalegri mismunun og málefnalegum mismun, eins og þú reyndar virðist sjálfur gera í öðrum hlutum greinarinnar. Þar er málefnalegur mismunur rakin til mismunar í þeim eiginleika sem verið er að leitast eftir (eins og t.d. að svara spurningum rétt), en ómálefnaleg mismunun til mismunar í eiginleikum sem ekki eru málinu viðkomandi (eins og t.d. kynferði).

  Til að draga saman lendir þú semsagt í ógöngum þegar þú mistúlkar duldar forsendur og berð þær saman við ósambærileg tilvik, afskrifar tilgátur án þess að skoða þær og gefur þér í kjölfarið að þín tilgáta sé rétt – á sama tíma og þú viðurkennir að engin sönnunargögn séu fyrir hendi og þó tiltæk sönnunargögn bendi til hins gagnstæða. Á þessum grundvelli viltu síðan byggja stefnu í samfélaginu.

  Einnig: þú þarft ekki að skammast þín vitundarögn fyrir misgjörðir þeirra sem deila þínu kynferði, ekki frekar en ég skammast mín fyrir að vera með nef vegna þess að Jósef Stalín var með nef.

  *Sjá m.a. http://www.nber.org/digest/feb06/w11474.htmlhttp://business.time.com/2010/11/30/are-women-less-competitive-than-men-explaining-the-gender-gap/http://www.chicagobooth.edu/capideas/fall02/genderandcompetition.htmlhttp://online.wsj.com/article/SB10001424052748704013604576246612976236624.htmlhttp://www.webmd.com/balance/features/how-male-female-brains-differ og http://science.howstuffworks.com/life/men-women-different-brains1.htm

  • Takk fyrir gott svar á mikilvægar ábendingar. Ég hef ekki öðru við þetta að bæta nema því að tilgangur greinarinnar var eingöngu að reyna að hrekja niðurlægingarrökin gegn kynjakvóta. Hvergi gerist ég svo metnaðarfullur að ætla að það dugi sem réttlæting fyrir beitingu kynjakvóta almennt eða í þessu tilfelli. Um önnur mál eru efasemdir þínar allar réttmætar en ég fjalla ekki um þær til að geta einbeitt mér bara að einni röksemd sem oft er beitt í þessu máli.

   Þú setur fram eina tilgátu sem á að aðgreina fyrirkomulagið sem ég gef mér einfaldlega að sé til staðar, án þess að færa fyrir því rök, nefnilega feðraveldi, og kynjakvóta. Það er að segja að reglusetning hafi þau yfirlýstu skilaboð að einhver sé tekinn fram yfir annan vegna kyns. Þetta er áhugavert þótt ég hafi ekki séð neinn sem heldur fram niðurlægingarrökunum orða þau með þessum hætti.

   Mér detta alveg í hug einhver atriði sem vert er að ræða ef þessi tilgáta skal tekin alvarlega. Til dæmis má velta því fyrir sér hvort kynjamisrétti gegn konum hafi bara verið niðurlægjandi þegar það var fest í lög og hvort það hafi þá hætt að vera niðurlægjandi þegar það var a.m.k. afmáð úr lögum. Mér finnst það skrítin afleiðing og ímynda mér að launamunur sé alveg jafn niðurlægjandi og áður.

   En það má vel velta þessu fyrir sér. Kannski geri ég það seinna.

 9. Hehe, þessi athugasemd kemur ekki svo á óvart.

  Það er hárrétt tekið eftir hjá þér að ég er þarna með réttu eða röngu að bera stelpur sem keppa í Gettu Betur saman við fiska sem klifra í trjám. Og þegar betur er að gáð er ég líka að gera aðra hluti. Ég er t.d. að líkja strákum sem keppa í Gettu Betur við apa, eins lítilmannlegt og það er. En mér til málsbóta er ég líka að líkja sjálfum mér við fisk á þurru landi með skírskotun í sömu trjáklifrandi fiskana, svo ég er þó allavega að fylgja gullnu reglunni um að gera ekki náunganum neitt sem ég myndi ekki vilja að hann myndi gera mér. Og til að útskýra líkinguna aðeins betur þá er hún skírskotun í skrítlu sem gagnrýnir menntakerfið og hvernig það er sniðið að hæfileikum þeirra fáu. Þú getur séð skrítluna með því að smella á nafnið mitt í upphaflegu færslunni.

  Það sem ég er hinsvegar að reyna að koma til skila er að það þarf að laga keppnina sjálfa, ekki meðhöndla einkennið með kynjakvótum.

  p.s. mér líkar annars illa að tala um að Gettu Betur sé keppni í gáfum, það er verið að keppa hver getur lagt mest á minnið, þetta er minnisleikur. Maður getur lagt á minnið alla heimsins þekkingu án þess að verða gáfaður fyrir vikið – og öfugt.

  • Þetta hér að ofan er tvöfaldur póstur síðan í gær og var sett inn sem svar við annarri færslu – það má eyða þessu eintaki

 10. Þetta er heiðarleg – en nokkuð misheppnuð – tilraun að rökréttri röksemdafærslu frá þessu sjónarhorni.

  Fyrst um duldu forsenduna um niðurlægingu. Hún snýr að því að það sé niðurlægjandi að reglusetning gefi þau yfirlýstu skilaboð að þú þurfir á forskoti að halda á einhverju sviði vegna kynferðis þíns. Það snýst því ekki beinlínis um það að fá einhver forréttindi út af fyrir sig, heldur þau skilaboð frá samfélaginu að þú þurfir á þeim að halda. Ég mundi ekki beinlínis kalla það niðurlægjandi, en nokkuð móðgandi adróttun engu að síður og óeðlilegt viðmið til að byggja á í stefnumótun.

  Næst um almennt samfélagslegt óréttlæti – já, flestir myndu samþykkja að einhvers konar óréttlæti og ómálefnaleg mismunun á grundvelli kynferðis viðgengst í samfélagi okkar og það geri ég sannarlega. Sú almenna röksemd er hins vegar ekki fullnægjandi fyrir því að slíkt óréttlæti viðgangist á tilteknu sviði og á tiltekinn hátt; það þarf að sýna fram á í hverju tilviki fyrir sig, í hverju það felst og þannig hvernig er hægt að sporna gegn því.

  Þú gefur þér að „óhugsandi“ sé að útskýra mun á þátttöku kynjanna í Gettu Betur (og þá væntanlega á öðrum sviðum) með eðlishyggju-rökum, án þess að rökstyðja það neitt frekar. Það er ekki heldur rökrétt að hafna tilteknum tilgátum án þess að skoða þær nánar, jafnvel þó það sé rétt sem þú segir að þær útskýri ólíklega þennan mikla mun einar og sér geta þær engu að síður verið skýringarþáttur.

  Til að mynda bendir ýmislegt til þess að karlar hafi að jafnaði meiri áhuga á keppnisíþróttum en stelpur og að heilastarfsemi þeirra sé marktækt ólík að ýmsu leyti, t.d. hugsi strákar frekar með vinstra heilahvelinu og séu líklegri til að vera góðir í að fást við afmörkuð/einsleit svið hugsunar. Taktu eftir að þar með er alls ekki verið að segja að stelpur séu „miklu heimskari“ heldur en strákar, heldur að almennur munur geti verið á áhugasviðum og styrkleikum kynjanna. Kynin hafa jafnan mælst með jafnháa greindarvísitölu að jafnaði, konur jafnvel með hærri undanfarið, og ýmis „eðlishyggjurök“ hafa verið fundin til í fræðum heilataugavísinda sem útskýra almenna yfirburði kvenna á ýmsum sviðum hugsunar; t.d. er varðar lausn og samþættingu ólíkra verkefna, starfsemi á hægra heilahveli, tungumálakunnáttu o.fl.* Slíkur eðlismunur getur síðan margfaldast í meðförum samfélagsins fyrir tilstilli félagsmótunar, myndunar áhugabrauta í lífinu og félagslegrar samsömunar einstaklinga með svipaða eiginleika.

  Það skemmtilega er að þetta talar þú sjálfur um – að Gettu Betur sé „sýndargáfnakeppni“ og það í samræmi við karllægar staðalmyndir um gáfur – en virðist ekki gera þér grein fyrir því hvernig það eru prýðilegur mótrök gegn öðru í máli þínu. En þetta eru bara dæmi um tilgátur sem koma til greina en þú hafnar án þess að skoða.

  Þú viðurkennir síðan að þú hafir enga hugmynd um í hverju meint mismunun felst – en vilt samt ráðast í aðgerðir sem byggja á gefinni forsendu um slíka mismunun. Þú lítur síðan fram hjá einu dæmunum þar sem tilgáta þín hefur verið sannreynd, þ.e. próf lagt fyrir alla nemendur í skólanum, og henni hafnað; þ.e. með því að strákar svöruðu fleiri spurningum rétt. Sú niðurstaða þeirra tilrauna er í engu samræmi við þá tilgátu að kynjamunurinn byggi á ómálefnalegri mismunun heldur þvert á móti bendir hún til að hann byggi á þeirri málefnalegu forsendu að fleiri strákar hafi svarað fleiri spurningum rétt. Sem er viðfangsefni keppninnar sem um ræðir og því einkar málefnalegt.

  Tilvitnun þín í hugmyndir Rawls er skemmtileg; um það að ekkert okkar vann inn yfir meðfæddum hæfileikum sínum og því sé óréttlátt að við njótum ávaxta þeirra. Á móti þessu má í fyrsta lagi benda á, eins og Nozick gerði, að það er samt sem áður sanngjarnara að við njótum þeirra heldur en einhver aðrir. Í öðru lagi má halda því fram að hæfileikar okkar séu hluti af okkur sjálfum, okkar persónu og sjálfsmynd, en ekki einhver aðskilinn eiginleiki, og því sé réttlátt að þeir hæfileikar sem skapa verðmæti eða ná tilteknum árangri njóti ávaxta þeirra amk. í meira mæli en aðrir. Loks má benda á að ofan á eðlishyggjuna bætist jafnan mikil vinna, metnaður og þjálfun þeirra sem árangrinum ná og eiga hann þar með heldur skilinn. Alltént væri samfélag sem hafnaði alfarið rétti einstaklinga til að njóta afraksturs erfiðis síns og hæfileika varla sérlega líklegt til árangurs.

  Það er amk. alla jafna gerður skýr greinarmunur á ómálefnalegri mismunun og málefnalegum mismun, eins og þú reyndar virðist sjálfur gera í öðrum hlutum greinarinnar. Þar er málefnalegur mismunur rakin til mismunar í þeim eiginleika sem verið er að leitast eftir (eins og t.d. að svara spurningum rétt), en ómálefnaleg mismunun til mismunar í eiginleikum sem ekki eru málinu viðkomandi (eins og t.d. kynferði).

  Til að draga saman lendir þú semsagt í ógöngum þegar þú mistúlkar duldar forsendur og berð þær saman við ósambærileg tilvik, afskrifar tilgátur án þess að skoða þær og gefur þér í kjölfarið að þín tilgáta sé rétt – á sama tíma og þú viðurkennir að engin sönnunargögn séu fyrir hendi og þó tiltæk sönnunargögn bendi til hins gagnstæða. Á þessum grundvelli viltu síðan byggja stefnu í samfélaginu.

  Einnig: þú þarft ekki að skammast þín vitundarögn fyrir misgjörðir þeirra sem deila þínu kynferði, ekki frekar en ég skammast mín fyrir að vera með nef vegna þess að Jósef Stalín var með nef.

  *Sjá m.a. http://www.nber.org/digest/feb06/w11474.htmlhttp://business.time.com/2010/11/30/are-women-less-competitive-than-men-explaining-the-gender-gap/http://www.chicagobooth.edu/capideas/fall02/genderandcompetition.htmlhttp://online.wsj.com/article/SB10001424052748704013604576246612976236624.htmlhttp://www.webmd.com/balance/features/how-male-female-brains-differ og http://science.howstuffworks.com/life/men-women-different-brains1.htm

 11. Afsakið, hélt það hefði misfarist að senda athugasemdina inn og ætlaði ekki að birta hana tvisvar – má eyða henni og þessari með mín vegna 😀

 12. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.