„Hæfasti“ einstaklingurinn

Höfundur: Silja Bára Ómarsdóttir

þróun

 

„Hæfasti einstaklingurinn“ er hugtak sem fer alveg svakalega í taugarnar á mér. Ég hef átt fjölda samtala við konur sem vilja „alls ekki“ láta velja sig til starfa út á kyn sitt. Ég spyr gjarnan hvort þær vilji frekar láta mismuna sér fyrir það? Eða hvort þær telji hreinlega að karlar séu aldrei valdir fyrir kyn sitt. Það verður oftast fátt um svör[1].

Kynjakvótar eru ein leið til að tryggja að karlar og konur veljist í jöfnum hlutföllum til tiltekinna starfa. Margir hafa áhyggjur af því að með kynjakvótum sé verið að setja vanhæfar konur í störf. Aldrei er spurt um hæfni karlanna sem sitja í nefndum, stjórnum og ráðum án þess að nokkur hafi metið hæfni þeirra, nema þeir sjálfir og vinir þeirra. Páll Magnússon sagði líka um daginn að Gísli Marteinn væri „besti sjónvarpsmaðurinn sem [RÚV átti] kost á til að sinna þáttagerð“. Hvergi kom fram á hvaða skala þessi gæði Gísla hafi verið metin og við hverja hann var borinn saman.

Færni karla er einhvern veginn aldrei dregin í efa þegar þeir hljóta framgang. Reyndar ekkert svo oft heldur þegar þeir hljóta hann ekki. En þegar konur vantar í stjórnmál, í þáttagerð eða hvar sem er, þá er það oftast vegna þess að þær eru ekki taldar jafnhæfar og karlar. Og hvernig skyldi standa á því? Thomas Chamorro-Premuzic er prófessor í viðskiptasálfræði við UCL. Í nýlegri færslu á Harvard Business Review heldur hann því fram að skortur á konum í leiðtogastöðum é sé að mestu leyti vegna þess að við ruglum saman sjálfstrausti og hæfni. Það er sumsé ekki að konur skorti færni, áhuga, eða að glerþakið sé of sterkt, heldur hreinlega að ofmat karla á eigin getu – hroki þeirra gengur hann svo langt að segja – er slíkt að við teljum þá vera frábæra leiðtoga. Hann er reyndar að vinna með rannsóknir á stjórnendum í fyrirtækjum, en ég held það megi auðveldlega heimfæra þær yfir á önnur svið samfélagsins.

kettlingur ljónKarlar hafa tilhneigingu til að ofmeta eigin getu. Sjálfsmat þeirra virkar heillandi á leiðtogalausa hópa, sem hafa aftur tilhneigingu til að velja sjálfhverfa leiðtoga með oftrú á sjálfum sér. Svo virðist vera sem þessi einkenni séu algengari hjá körlum en konum, svo þetta ýtir undir fjölda karla í áhrifastöðum. Og merkilegt nokk, þá eru þetta alls ekki einkennin sem stuðla að því að einstaklingur verði góður leiðtogi. Þvert á móti, og oftar en ekki eru vanhæfir einstaklingar valdir fram yfir þá sem eru hæfari, einfaldlega vegna þess að þeir ofmeta eigin færni og það mat smitar út frá sér. Þess vegna er mjög athyglisvert, segir Chamorro-Premuzic, að við séum að leggja alla þessa áherslu á að fá konur til að haga sér meira eins og karlar (bækur eins og Lean In, sem er nýkomin út á íslensku falla í þennan hóp). Hvers vegna förum við ekki hina leiðina, eins og Anne-Marie Slaughter benti á í umdeildum pistli sínum fyrir nokkru, og reynum að fá karlana til að hegða sér meira eins og konur?

Flestir þeir sem búa yfir raunverulegri leiðtogafærni, segir Chamorro-Premuzic, slá ekki í gegn sem stjórnendur í augum annarra. Þetta á sérstaklega við um konur. Hann bendir á rannsóknir sem sýna að konur eru betri stjórnendur en karlar – þótt þýðið gæti verið gallað, því konur þurfa að vera svo miklu hæfari en karlar til að fá framgang í sambærileg störf. Þannig að áhættan sem við tökum með því að stuðla að framgangi kvenna er sennilega ekki að þær verði ekki nógu hæfar í störfin sem við felum þeim. Við ættum kannski frekar að fara að leggja okkur fram við að koma í veg fyrir framgang vanhæfra karla? Hættum a.m.k. að halda því fram að „hæfasti einstaklingurinn“ standi alltaf uppi með pálmann í höndunum þegar ekkert hæfnismat hefur farið fram.

 


[1] við reyndar vitum að það má alls ekki láta karlana gjalda fyrir kyn sitt, og það er t.d. enginn í ríkisstjórn Íslands bara fyrir það að vera karlmaður, en það er önnur saga

15 athugasemdir við “„Hæfasti“ einstaklingurinn

 1. Eitt sem vantar alveg inn í umræðuna á þessari síðu er sá líffræðilegi/þróunarfræðilegi munur sem er að körlum og konum. Mér finnst eins og allt sem ég les inná þessari síðu t.d. þessi grein, og Gettu betur greini geri ráð fyrir því að þetta séu allt samfélagsleg „mein“.

  Ég geri ráð fyrir að ritsjórn þessara síðu og lesendur almennt aðhyllist frekar þróunarkenninguna heldur en t.d. sköpunarkenninguna. En ef við lítum á þróun karl og kvendýra (á líka við um manninn) þá eru það yfirleitt kvendýrin sem keppa um hylli kvendýra með ýmsum aðferðum sem jafnvel geta valdið þeim skaða, t.d. fjaðrir páfuglsins sem gera honum ekki auðveldara að komast undan rándýrum heldur öfugt, þetta er dæmi um kynjað val.

  Kynjað val virkar yfirleitt meira að karldýr, þau er litríkari (draga að sér hættu), þau berjast jafnvel upp á líf og dauða og svo framvegis. Ef fólk aðhyllist þróunarkenninguna og það að við séum komin af öðum ætti það að geta samþykkt að þetta hefur af einvherju leiti mótað okkur og hvernig kynin haga sér. T.d. hafa karlmenn almennt meiri áhuga á keppnis íþróttum eða bara keppni almennt. Karl“dýrin“ vilja auka sýna hylli á einhvern hátt með því að vinna hljóta einhverja viðurkenningu. En þetta er hins vegar ekki þáttur sem verkar eins sterkt á kven“dýrin“. Þetta hlýtur að hafa á einhvern hátt áhrif á það að karlmenn hafi meiri áhuga á keppnum á borð við Gettu betur eða bara almennt áhuga á að ná langt. Eru lesendur algjörega ósammála mér og telja þetta allt eitthvað samfélagsmein sem hægt er að uppræta með aðgerðum t.d. kynjakvótum?

  • „yfirleitt KARLdýrin sem keppa um hylli kvendýra með ýmsum aðferðum“*

   átti að sjálfsögðu að vera svona eins og flestir átta sig á

  • Eins og það er gaman að fylgjast með dýrunum og þá sérstaklega fallegum dýrum eins og páfuglum hefði ég haldið að okkar tegund væri örlítið þróaðri.

   Það eru líka tegundir dýra sem éta afkvæmi sín ef of mikið er af þeim, sem betur fer er það aðferð sem við höfum ekki tekið upp þrátt fyrir of öra fólksfjölgun í sumum löndum.

   Talað er um að kvenkyns köngulær éti karldýrið eftir mökun en ég efast um að þér þyki það spennandi kostur. Hundar borða líka stundum eigin úrgang.

   Hafa karlmenn meiri áhuga á að ná langt? Ég veit nú ekki hversu margar konur þú þekkir en af minni reynslu hafa þær ekkert minni áhuga á því heldur en karlar. Ég hugsa að það sé bara einstaklingsbundið en miðað við tölur ætti maður að halda að það væru öfugt. Það eru til dæmis miklu fleiri stelpur sem klára menntaskóla en strákar og eigum við þá að halda því fram að stelpur séu metnaðarfyllri og klárari en strákar? Nei, þann mun mætti skýra í mismunandi kröfum sem samfélagið gerir til kynjanna. Ég mæli með því að þú kynnir þér tvær greinar á vísindavefnum; annars vegar svar Þorgerðar Þorvaldsdóttur við spurningunni ,,Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?“ og hins vegar svar Ástu Kristjönu Sveinsdóttur við sömu spurningu.

 2. Guðmundur Örn, þú talar um karldýr og kvendýr eins og þau séu sitt hvor tegundin sem þróast samsíða, ekki sama tegundin…. karlar geta af sér konur og konur geta af sér karla, þannig að þetta gengur ekki upp hjá þér. Svona fyrir utan hinar alhæfingarnar hjá þér.

  • Rangt hjá þér Erna, margar tegundir sýna sexual dimorphisma (mun á kynjum) sem er oft til kominn vegna kynjaðs vals (sexual selection). Í kynæxlun er mismunandi valþrýstingur á kynin (t.d. vegna þess að sæði er „ódýrari“ í framleiðslu heldur en egg).

   http://en.wikipedia.org/wiki/Sexual_selection
   http://en.wikipedia.org/wiki/Sexual_dimorphism

   (Guðmundur hefur þó ekkert endilega rétt fyrir sér þó að mannkynið sýni mun á milli kynja)

  • Það þarf bæði konu og karl til að geta af sér afkvæmi Erna, og það tengist ekki á neinn hátt meðfæddum mismun kynjanna nema e.t.v. til að sýna betur fram á hann. Ef þú hefur þolinmæði fyrir hrútskýringar þá kannski þú rétt rennir yfir þessa ágætis wikipediu grein um huglægan mismun milli karla og kvenna, því það eru ekki bara typpi og leggöng sem skilja kynin að: http://en.wikipedia.org/wiki/Sex_differences_in_human_psychology

   • Arnar, þú hlýtur að vera einstaklega fáfróður um sálfræði fyrst þú kýst að hunsa stærsta ágreiningsmálið innan fagsins, sem er nature vs nurture. Þessi tilhneiging til sálfræðilegs mismunar útskýrir ekki neitt og er til staðar á milli einstaklinga hvort sem þeir eru karlkyns eða kvenkyns. S.s. þó ákveðnir eiginleikar séu vissulega líklegri hjá konum og aðrir hjá körlum þýðir það ekki að orsökin sé líffræðilega bundin við kyn.

  • Erna, Ertu í alvörunni að halda því fram að það sé ekki meðfæddur hegðunarmunur á körlum og konum? Karlar og konur hafi eðlislega sömu hegðun og séu einungis mótuð af umhverfi sínu og uppeldi!

 3. „Eru lesendur algjörega ósammála mér og telja þetta allt eitthvað samfélagsmein sem hægt er að uppræta með aðgerðum t.d. kynjakvótum?.“

  Ég er alveg sammála þér að það er líffræðilegur munur á hegðun, hvötum og áhugasviði karla og kvenna.
  Það er líka eitthvað sem er ekki hægt að gera mikið í.

  Hinsvegar eru ýmis samfélagsmein varðandi viðhorf samfélagsins til karla og kvenna, og sjálfsmyndir bæði karla og kvenna. Þessum samfélagslegu atriðum (ólíkt líffræðilegu atriðum) er hægt að breyta og laga og þessvegna hlýtur að vera eðlilegt að einblína á samfélagsmein frekar en líffræðilegan mun.

  Ég hef sjálfur enga tröllatrú á kynjakvótum (ég held í raun að enginn hafi það). Allavega alls ekki til lengdar.
  En kannski er það áhugaverð æfing til skammstíma því kannski stuðlar það að aukinni meðvitund um að það er alvarlegt vandamál til staðar, og kannski hristir það aðeins upp í valdastrúktur sem má alveg hrista aðeins upp í.

  Persónulega held ég að stærsta hindrunin í jafnréttisbaráttu í dag eru viðhorf í samfélaginu, miklu frekar en lög og reglur og boð og bönn (eða líffræðilegur munur).

  • Þessu er ég alveg sammála Orri. Persónulega held ég að konur og karlar dreifist víða á hegðunarskalann, ef svo má að orði komast, og ekki endilega í einhverju jöfnu hlutfalli. Ég tel að það stafi bæði af líffræðilegum og samfélagslegum ástæðum sem eru eins misjafnar og við erum mörg.

   En eins og þú segir kann kynjakvótun að vera góð skammtímaæfing til að brjótast úr mótinu. Eftir að að viðhorfin hafa breyst kann að vera kynjahlutföll í hinum ýmsu ábyrgðarstöðum verði jafnari. Það er hins vegar ekki hægt að segja að endamarkmiðið verði að vera jöfn hlutföll. Þau gætu ef til vill orðið ójafnari í aðra hvora áttina, þ.e.a.s. fleiri konur heldur en karlar, eða fleiri karlar heldur en konur. Breytt viðhorf ættu að vera endamarkmiðið.

 4. Silja:

  „Færni karla er einhvern veginn aldrei dregin í efa þegar þeir hljóta framgang.“

  Einmitt!

  Hvað með Gísla Martein í RÚV („hann fékk stöðuna af því að hann er sjálfstæðismaður“) og Pál Vilhjálmsson til Landsspítalans („hann fékk stöðuna af því að hann og Bjarni Ben eru þremenningar“)?

  Hér þarf ekki að fara lengra til baka en svosem eina VIKU til að hrekja þessa staðhæfingu.

 5. Þó að hugtakið „hæfasti einstaklingurinn“ fari svona svakalega í taugarnar á þér, þá heyrist mér þú samt gera ráð fyrir því að til sé einstaklingur sem vissulega er hæfasti einstaklingurinn í tiltekið starf – það eru bara ekki karlmenn í eins mörgum tilfellum og karlmenn hljóta störfin. Eins og greinin e. Thomas Chamorro-Premuzic sem þú vísar í (las hana einmitt sjálfur um daginn), þá er megin ástæðan fyrir því sú að ráðningarstjórar rugli gjarnan saman sjálfstrausti og hæfni. Og ég tek fram að ég gæti ekki verið meira sammála því!

  Klárir ráðningarstjórar vita samt alveg að hæfur stjórnandi þarf að búa yfir mikilli tilfinningagreind, auðmýkt, færni í mannlegum samskiptum, skipulagsfærni, færni í lausn ágreiningsmála, búa yfir sannfæringarkrafti, heiðarleika, jákvæðni, frumkvæði, leiðtogahæfileikum o.s.frv. o.s.frv. Klárir ráðningarstjórar tilgreina allar þessar hæfniskröfur í starfsgreiningu áður en ráðning á sér stað og meta síðan umsækjendur eftir þessum þáttum.

  Í þessu ferli (sem er kallað starfsmannaval í mannauðsstjórnun) getur ráðningarstjóri vissulega gert þau alvarlegu mistöku að ofmeta karlkyns umsækjanda vegna ofmats umsækjandans á sjálfum sér. Klár ráðningarstjóri er hins vegar mjög meðvitaður um ýmiskonar atferlishneigðir í fari umsækjenda svo sem oföryggi, iðrunarfælni og fulltrúahneigð. Því getur hann auðveldlega fundið hæfasta einstaklinginn í tiltekið starf, án tillits til kynferðis, þjóðernisuppruna, trúarbragða, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.

  Ef ráðningarstjóri færi að beita kynjakvótum til að ráða hæfari einstaklinga, í stað þess að bæta gæði sinna eigin starfa, þá þarf hann fyrst að gera sér upp ákveðna staðlímynd kynjanna. Þó að fjölmargar rannsóknir sýni að konur búi að meðaltali yfir betri tilfinningagreind en karlar, þá myndi klár ráðningarstjóri aldrei ráða kvenkyns umsækjanda umfram karlkyns umsækjanda byggt á þeim upplýsingum einum saman. Hann myndi meta tilfinningagreind allra umsækjenda óháð kyni og nota þær upplýsingar (ásamt upplýsingum úr mati annarra þátta) til að taka ákvörðun um ráðningu.

  Kynjakvótar eru því ekkert annað en uppgjöf á störfum ráðningarstjóra. Jack Welch, fyrrverandi forstjóri General Electric, hefur margoft bent á að ráðningarstjórar gegni mikilvægari hlutverki innan fyrirtækja heldur en fjármálastjórar. Ég tek heilshugar undir það með honum og það væri mikil skömm af því fyrir íslenska fyrirtækjamenningu ef þessu mikilvæga hlutverki ráðningarstjóra yrði skipt út fyrir kynjakvótum og staðalímyndum sem þeim fylgja!

 6. Þóra og þið félagsfræðingar, mér finnst þetta vera hálfgerðir útúrsnúningar, að vísa td í köngulær er útí hött, auðvitað erum við þróaðari en köngulær en það eru fílar líka. Við neitum því samt ekki að fílar hafa „eðli.“ Hún er annars merkileg wikipedia greinin um greind fíla (https://en.wikipedia.org/wiki/Elephant_cognition) þar kemur ma fram að fílar eyða eitthvað um 10 fyrstu árum lífs síns í að læra hvernig samfélag fíla fúnkerar, möo hafa þau stöðu barns fram að þeim tima, ekkert er allt of langt síðan fólk var að gifta krakka 12-13 gamla og gefa þeim stöðu fullorðins, þannig að það er ekki langt hér á milli.

  En fílar hafa auðvitað ekkert talmál, og geta því ekki skipulagt sig á sama máta og menn. Höfrungar hafa aftur á móti einhverskonar talmál, og rannsóknir á greind þeirra gefur til kynna að þeir séu ekkert lengur en menn, og stundum jafnvel fljótari að átta sig á gátum sem lagðar eru fyrir þá (https://en.wikipedia.org/wiki/Cetacean_intelligence). En höfrungar hafa enga þumla, og þal ekkert skrifmál, við erum þróaðari vegna þess að við höfum tæki og tól til þess að safna þekkingu og setja saman hluti. Það er ekkert endileg þar með sagt að sauðvitlaus manneskja sé endilega „eðlis“greindari en klár höfrungur.

  Þrátt fyrir það myndi engum detta í hug að halda því fram að höfrungar hafi ekkert eðli.
  Hvernig getur það þá staðist að maðurinn, einn dýra hafi ekkert eðli og allt sé félagsmótun?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.