Lífsleikni og mannasiðir Gillz

Höfundur: Björn Teitsson

spons2

Fáir, ef einhverjir, einstaklingar hafa verið jafn mikið í brennidepli á Íslandi undanfarin ár en Egill Einarsson, sem gengur iðulega undir viðurnefninu „Gillz.“ Gillz er Kópavogsbúi sem er 32 ára gamall þegar þetta er skrifað og hefur starfað sem einkaþjálfari, útvarpsmaður, pistlahöfundur, sjónvarpsþáttastjórnandi og einnig sem rithöfundur. Bækurnar sem Gillz hefur skrifað myndu teljast sem svokallaðar sjálfshjálparbækur, þar sem Gillz gefur lesendum sínum ráð til að betrumbæta tilveru sína. Verða þær til umfjöllunar í þessari ritgerð.

Gillz hefur ekki síst verið í umræðunni undanfarin misseri vegna nauðgunarákæru á hendur honum undir lok ársins 2011. Sú kæra var látin niður falla undir lok ársins 2012. Hefur þessi kæra á vissan hátt myndað menningarlega, eða ef til vill réttara sagt, ómenningarlega, gjá – milli aðdáenda hans annars vegar og þeirra sem eru gagnrýnni á boðskap Gillz hins vegar. Vakna þá upp spurningar, eins og hver er í rauninni boðskapur Gillz og af hverju nýtur hann svona mikils fylgis?

Í þessari ritgerð verður reynt að rýna í boðskap Gillz. Verður það gert bæði út frá hugmyndum hans um hina fullkomnu birtingarmynd karllíkamans ásamt því hvernig hann telur að karlar og konur eigi að hegða sér. Verða þessar hugmyndir bornar saman við hugmyndir um æskilega birtingarmynd kynjanna sem lagðar voru fram á fyrri hluta 20. aldar, meðal annars af Grétari Fells „fagurfræðingi“ og sjálfshjálparbæklinga-höfundinum Ingimundi gamla.[1] Í annan stað verður reynt að rýna í boðskap Gillz út frá hinu menningarlega og félagslega hugtaki um öðrun, sem er ef til vill lykilhugtak í téðum boðskap – ekki síst frá kynjapólitískum, sem og pólitískum sjónarmiðum. En fyrst af öllu verður skoðaður sá jarðvegur sem leiddi af sér skoðanir þeirra sem gengu slóð undirskipunar kvenkyns á undan Gillz og spurt hvort sá jarðvegur eigi eitthvað sammerkt með hinum frjósama jarðvegi nýfrjálshyggjunnar sem er, umdeilanlega, eitt af foreldrum rithöfundarins Gillz.

Jarðvegur frjálslyndrar vinstristefnu

Rétt að hverfa aftur í tímann, eða til aldamótanna 1900, þegar kvenréttindabarátta á Íslandi var að ryðja sér til rúms svo um munaði. Sigríður Matthíasdóttir, sagnfræðingur, skrifaði greinina „Karlar og viðhorf þeirra til kvenréttinda á Íslandi um aldamótin 1900.“ Flokkaði hún þar viðhorf karla til kvenna í þrjá flokka. Voru þetta 1) baráttumenn, sem tóku þátt í baráttunni, 2) stuðningsmenn, sem studdu baráttuna, og loks 3) andstöðumenn, sem lýstu sig andsnúna kvenréttindabaráttu. Sérstaka athygli vakti að upp úr aldamótum ríkti mikill stuðningur við kvenréttindabaráttu meðal karla. Þeir sem tilheyrðu þriðja flokknum, andstöðumenn, létu í raun ekki á sér kræla fyrr en eftir 1911. Talar Sigríður um að þá hafi orðið nokkur viðsnúningur í umræðunni, sem fór meðal annars fram í fjölmiðlum, hinum ýmsu borgarasamkomum og á Alþingi. Allt frá því að lögfræðingurinn Páll Briem hélt fyrirlesturinn „Um frelsi og menntun kvenna“ hafði ríkt nokkur samstaða meðal lærðra karlmanna sem og annarra, um að konur væru jafn góðum eiginleikum gæddar og karlmenn.[2] Meðal annarra karlmanna sem voru á þessu máli má nefna Skúla Thoroddsen, og höfuðandstæðing hans (ekki þó í kvenréttindamálum) Hannes Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands.

Á árunum 1911 til 1913 tók þó að bera á nokkurs konar sinnaskiptum í viðhorfum karla á kvenréttindum, ekki síst meðal yngri manna. Verður þá æ algengara að ræða um hlutverk kvenna út frá eðli þeirra og miklar umræður mynduðust um hið „kvenlega eðli“ og hvernig það væri sérstakt og ólíkt eðli karla. Þannig varaði kvenréttindabaráttukonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir dóttur sína, Laufeyju Valdimarsdóttur, við þessum viðsnúningi í umræðunni þegar Laufey fór á fund Alþjóðakosningarréttarsamtakanna í Stokkhólmi árið 1911, en Laufey ætlaði að ræða um stjórnarskrárbreytingu á Íslandi sem myndi færa konum kosningarétt til Alþingis. Bríet skrifaði Laufeyju:

[A]lþýða kvenna sé með málinu en ýmsar embættiskonur móti eða kærulausar. Að eldri menn séu fremur með konum en yngri menn, enkum séu yngri stúdentar (25-30 ára) móti og sumir yngri stjórnmálamenn[…]. [3]

Það sem er einna athyglisverðast við grein Sigríðar, er að hún tiltekur að það hafi verið „barátta frjálslyndra vinstrimanna“ sem hafi í fyrstu haft jákvæðar afleiðingar fyrir kvenréttindabaráttuna allt frá 9. áratug 19. aldar. Viðsnúningurinn í viðhorfum karlmanna sem byrjaði að myndast á árunum 1911 til 1913 hafi síðan fest sig í sessi:

Hugmyndir á borð við þær sem andstæðingar kvenréttinda héldu fram áttu hins vegar eftir að festa sig í sessi á þriðja áratug 20. aldar í nánum tengslum við íhaldsamanar menningarhugmyndir sem þá blómstruðu í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Á sama tíma festist í sessi sú hugmyndafræði að hlutverk kvenna væri húsmóðurhlutverkið og staður þeirra innan heimilis[…].[4]

Það var einmitt úr þessum jarðvegi sem höfundar á borð við Ingimund gamla og Grétar Fells skrifuðu um eðli konunnar. Jarðvegurinn mótaðist af íhaldssemi í menningu Íslendinga, en ef til vill var sú íhaldssemi sprottin í íhaldssemi í stjórnmálalífi – þar sem Íhaldsflokkurinn hafði tögl og hagldir. Jarðvegur Gillz mótaðist nefnilega þegar afsprengi Íhaldsflokksins, Sjálfstæðisflokkurinn, var óumdeilanlega í bílstjórasætinu við mótun nýs samfélags undir lok 20. aldar og í byrjun 21. aldar. Skipti það máli?

Birtingarmynd karla

Greinar og pistlar sem fjalla um Gillz og hugðarefni hans skipta nú tugum ef ekki hundruðum. Ein vandaðasta greinin er grein þeirra Ástu Jóhannsdóttur doktorsnema og Kristínar Önnu Hjálmarsdóttur meistaranema frá árinu 2011, „Skaðleg karlmennska?“ Rýna þær í hugðarefni Gillz eins og þau birtast í hinum ýmsu miðlunarformum, og hvernig þessi hugðarefni hafa bein og óbein áhrif á ímynd karlmennskunnar. Eitt mikilvægasta skrefið sem þær tóku í greininni var að spyrja spurningarinnar, hvort hægt væri að gera greinarmun á manninum og líkamsræktarfrömuðinum Agli Einarssyni annars vegar, og rithöfundinum og fjölmiðlastjörnunni Gillz hins vegar. Sjálfur hefur Egill látið að því liggja að hér sé um aðskilda persónuleika að ræða, sem gerir það að verkum að skoðunum Gillz eigi að taka með fyrirvara – þær eru jú bara grín. Komust þær Ásta og Kristín á þá niðurstöðu að ekki sé hægt að gera greinarmun á Agli Einarssyni og Gillz, enda greinir Gillz sjálfur í rauninni ekki þar á milli.[5]

Erfitt er að segja hvort sama máli gegni um hjónaleysin Ingimund gamla og Tobbu. Þau skrifuðu sjálfshjálparbæklinga í ástarmálum á 3. áratug síðustu aldar. Þar sem þau lýsa því bæði yfir að ráðgjöf bæklinganna sé byggð á fenginni reynslu þeirra beggja, má gera ráð fyrir að þau taki sig að einhverju leyti hátíðlega. Ingimundur gamli veitir ungum sem gömlum mönnum í það minnsta ráð um það hvernig megi heilla konur. Tilgangurinn hjá Ingimundi er ef til annar en hjá Gillz, þar sem markmið þess síðarnefnda virðist vera að sænga hjá miklum fjölda kvenna – á meðan Ingimundur ræður skjólstæðingum sínum gegn því að stunda lauslæti. Engu að síður er athyglisvert að áhersluatriðin í ráðgjöf um fullkomna birtingarmynd karla eru nokkuð lík hjá báðum höfundum.

Í kaflanum „Viðmót og framkoma“ kemur til að mynda fram hjá Ingimundi gamla að „[t]il þess að vinna hylli kvenna, þurfa menn að kunna að koma vel fram. Sá, sem er þögull og þunglamalegur vinnur aldrei hylli kvenna, þótt hann sé fríður sínum.“[6] Kemur þetta heim og saman við áherslu Gillz á fyndni og að það þýði ekkert að vera feiminn: „ef kona á að velja á milli gæja sem er gáfaður eða fyndinn þá vinnur fyndni gæinn ALLTAF.“[7]

Það sama má segja um líkamsrækt og áhersluna á að karlmenn eigi að vera vöðvastæltir. Vart þarf að tíunda þá miklu áherslu sem Gillz leggur á vöðvaræktina. Í öllum bókum hans, Biblíu fallega fólksins, Mannasiðum, sem og Lífsleikni eru sérstakir kaflar sem eru tileinkaðir líkamsrækt. Fyrir utan alla aðra orðræðu sem snýst um að manngæðin sjáist best á þeim sem eru „í formi.“[8] Ráðleggingar Ingimundar gamla virðast falla vel að þessum hugmyndum, ef marka má orðin:

Frá alda öðli hefur konan bundið hugsjón sína við þann mann, sem hefir   hreinan og karlmannlegan svip og hraustan líkama. Iðkaðu því íþróttir og   hertu líkama þinn. Konum fellur það vel í geð. Þær krefjast þess meira að  segja, að karlmaðurinn hafi stælta vöðva og sterka hnefa.[9]

Ingimundur leggur einnig á það ríka áherslu, að karlmenn séu hreinlátir, hirði um hár og hendur og raki sig minnst tvisvar í viku.[10] Þetta kemur einnig heim og saman við hugarheim Gillz, sem gengur þó öllu lengra. Segir hann: „Þú þarft að þrífa húðina, lykta vel, plokka augabrýrnar, snyrta neglurnar, vera tónaður, tanaður og kjötaður. Einungis ÞÁ ertu orðinn alvöru maður.“

Ingimundur gamli tiltekur einnig menntun og kunnáttu í dansi góða eiginleika sem karlmenn þurfa að búa yfir.[11] Gillz er þessu sammála en þó virðist hann ekki líta jafn hýru auga til menntunar: „Auðvitað skiptir menntun máli, að vera duglegur er lykilatriði í þessu eins og öðru[…]. En þetta kemur þér bara x-langt. Á ákveðnum tímapunkti, ef þú vilt ná lengra, þarftu að læra að sleikja rassgöt.“[12] Dansinn er Gillz hugleikinn, rétt eins og Ingimundi sem telur danskunnáttu góðan mannkost. Samkvæmt Gillz er nauðsynlegt að kunna að minnsta kosti eitt „gott move“:

Ég hef … aldrei hitt stelpu sem fílar ekki gæja sem kunna að dansa. Þannig að ef þú kannt það þá er það bara bónus. Ef þið takið mig sem dæmi þá er ég langt frá því að vera rosalegur dansari en ég á eitt fáránlega gott move. […]  Þannig að ef að þú getur þróað eitt gott move þá ertu í góðum málum.[13]

Að lokum er rétt að minnast á að báðir höfundar telja mikilvægt að kynna sér foreldra væntanlegs kvonfangs. Ingimundur notar til þess máltakið „að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“[14] en Gillz orðar þessa hugsun þannig:

Sé mamman í góðu formi og með lúkkið í lagi heitir það að daman þín er með  lága ávöxtunarkröfu […]. Sjáið til dæmis mömmu Ásdísar Ránar – hún er enn mega flott. Ásdís Rán er því með lága ávöxtunarkröfu.[15]

Lýkur þar með samanburði á Ingimundi og Gillz. Texti Ingimundar myndi auðvitað þykja nokkuð mildur í dag, en á margan hátt var hann „Gillz síns tíma“. Hann talar um hvað konan sé veikburða og að tilfinningar kvenna beri þær jafnan ofurliði. Sem virtist vera almennt samþykkt á 3. og 4. áratug síðustu aldar. En það kom jafnvel enn betur fram hjá Grétari Fells.

Konur, öðrun og nýfrjálshyggjan

Hlutverk kvenna

Grétari Fells, sem er kynntur í tímaritinu Eimreiðinni sem ljóðskáld, rithöfundur og fyrirlesari, var annt um að miðla viðhorfi sínu til kvenna og kvenréttindabaráttu. Í grein sem birtist í Eimreiðinni árið 1935 og ber titilinn „Konan“ talar hann gjarnan um hið sérstaka „eðli konunnar“. Hann ræðir einnig kvenréttindabaráttu:

Og nú er komið að kvenréttindahreyfingunni[…]. Ég vil taka það skýrt fram, að ég álít þá stefnu í aðalatriðum heilbrigða og heillavænlega, þegar ekki er farið með hana út í öfgar. Það nær t.d. engri átt, að annar helmingur        mannkynsins, sem er þar að auki oft nefndur „betri helmingur“ þess og það með réttu, skuli ekki hafa sama rétt og hinn helmingurinn til þátttöku í opinberu starfslífi […]. En kvenréttindastefnan má ekki miða að því, beint eða óbeint, að útrýma séreðli konunnar og framleiða verur, sem eru hvorki karlar né konur.[16]

Samkvæmt Grétari hafa konur því séreðli. Hann talar um konur sem miklar tilfinningaverur sem eigi oft erfitt með að breyta samkvæmt skynsemi og að tilfinningarnar láti „oftar meira til sín taka heldur en hagsmunagáfan“.[17]

Gillz víkur oft að því að konur séu tilfinningaverur, og vill hann ráðleggja lesendum sínum (líklega ungum karlmönnum/drengjum) að nýta sér þá tilfinningasemi sér til hagsbóta. Í bókinni Mannasiðir lýsir hann því hvernig megi nýta sér móðureðli kvenna:

Kellingar elska börn. Ef þú þarft að kvarta gefðu þá þjónustustúlkunni merki með handabendingu og þá væntanlega skottast hún til þín. Síðan horfir þú í augu hennar og segir lágt þannig að enginn annar … heyri: „Fröken, veistu hvað er langt í matinn? Ég þarf nefnilega að sækja litlu þriggja ára frænku mína sem er veik út á flugvöll og er því svolítið tímabundinn.“ Sú staðreynd að kellingar elska börn hjálpar þér í þessu tilfelli.[18]

Hér má einnig taka eftir hvernig Gillz talar um konur, þ.e. sem „kellingar“. Konur fá reyndar mun fleiri viðurnefni í bókum Gillz. Þar á meðal eru orð eins og „pussy“, „prinsessa“ eða einfaldlega „drasl“. Að sama skapi talar hann af mikilli óvirðingu um konur þegar kemur að kynlífi. Samkvæmt Gillz virðist hlutverk kvenna í kynlífi einskorðast við að vera viðfangsefni, vera þolandinn í þeim aðgerðum sem hann kallar að „skrúfa frá“, „að tappa af“, „að hamra“, „að sprengja“, „að bleyta á sér liminn“, „gera dögy“ eða einfaldlega „loka málinu“.[19]

Öðrun Gillz

Samkvæmt Michel Foucault myndi þetta teljast dæmi um öðrun, þar sem Gillz bendir á veikleika hinna, til að undirstrika sinn eigin styrkleika. Þetta gerði Ingimundur gamli að vissu leyti líka, þó ekki á jafn öfgafullan hátt. Konurnar eru eftir sem áður viðfangsefnið, þær eru „bráðin“ á meðan karlar eru „veiðimennirnir“. En þar með er ekki einu sinni hálf sagan sögð, því öðrun Gillz nær yfir mun fleiri hópa en einungis kvenmenn.

Gillz virðist vera mjög í nöp við þá sem hafa á lofti einhverja gagnrýni um hann. Um þá skrifar hann:

Oft er þetta fólk sem finnst ekkert meira töff en að búa í 101 Reykjavík og kalla sig listamenn. Þetta eru illa til hafðir einstaklingar yfirleitt og virðist það nánast partur af lúkkinu eða ímyndinni að vera sem ógeðslegast. Þetta lið, sem ég kalla nú yfirleitt bara drasl, reynir að skera sig úr með því að vera í 1500 króna úlpu, með húfu og vettlinga og órökuð æxlunarfæri.

Gillz heldur áfram og lýsir því þegar hann, ásamt vinum sínum, hittir fyrir mann sem hann kallar „40 kílóa drasl“ sem á „greinilega heima í 101 og stoltur af því“. Gillz segir frá því að hann hafi tekið af honum ullarhúfu, kúkað í húfuna og komið henni síðan aftur fyrir á höfði mannsins. Á sömu síðu má sjá útskýringarmynd þar sem Gillz heldur á lágvöxnum og grönnum manni með annarri hendi, á meðan vinahópur hans hlær að óförum 40 kílóa „draslsins“.[20]

Skotspónar Gillz eru fleiri. Hann tekur einnig til blökkumenn og „slær tvær flugur í einu höggi“ þegar hann bætir við skoðun sinni á fólki sem er ættað frá Asíu:

Ég er heillaður af sumu í menningu blökkumannsins. Þeim er skítsama um nám og nenna ekki að vinna en eru mjög duglegir í kellingunum. Hins vegar er Asíubúinn mjög duglegur að mennta sig og vinna en lélegur að stunda kynmök.[21]

 Þá eru ótaldir fordómarnir sem Gillz sýnir samkynhneigðum karlmönnum. Birtast þeir meðal annars þegar Gillz talar um að einhver hafi ekki náð að sýna tilheyrandi karlmennsku. Eru þeir hinir sömu þá vagínur, þeir „taki hann í bílskúrinn“ og svo framvegis. Gillz talar um að „Friðrik-Ómara sig upp“ sem þýðir að gott sé að klæða sig öðruvísi. Hann bætir samt við: „Þegar ég boða að menn eigi að Friðrik-Ómara sig í gang þýðir það ekki að menn dressi sig upp eins og öfuguggar.“[22] Reyndar er hatursræða Gillz í garð samkynhneigðra karlmanna sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að hann sýnir miklar „hómó-erótískar“ tilhneigingar. Þá ekki aðeins í sinni eigin sjálfsdýrkun heldur einnig með dýrkun sinni á vöðvum annarra karlmanna. Aftast í bókinni Lífsleikni tekur Gillz að sér að svara spurningum lesenda, sem eru þó líklegast skrifaðar af honum sjálfum, án þess að það sé fullyrt hér. Gillz fékk spurninguna „Er ég rjómi?“

Sæll, Gillz.

Ég er ekki hommi, það er alveg klárt. Er alltaf að fara heim með stelpur (enda búinn að lesa bæði biblíuna og mannasiðabókina). Engu að síður þá fæ ég alveg GRJÓT-harðan þegar ég sé þessa steragæja rífa upp 190 kg í bekk. Hvað er málið? Mig langar nefnilega EKKERT að vera rjómi. Geturðu útskýrt fyrir mér af hverju þetta er svona?

Gillz svarar: „Þetta er fullkomlega eðlilegt. Ég verð horny líka þegar ég sé menn taka á því. Svona er þetta bara.“[23]

Nýfrjálshyggjan

Af framansögðu er ljóst að Gillz er í nöp við marga þjóðfélagshópa. Svo marga reyndar að ef til vill hafa fáir gefið því gaum að honum er mjög í nöp við þá sem myndu teljast til félagshyggjufólks í stjórnmálum, þá sér í lagi þingmenn eða aðra meðlimi Vinstri grænna. Þannig segir Gillz:

Hjöbbi K … fór eitt sinn á grímuball sem Georg Bjarnfreðarson. Því mæli ég alls ekki með því fáir fæla kellingarnar meira frá en sú persóna[…]. Kellingum verður hugsað til Steingríms J. en eins og flestir ættu að vita þá verða kellingar mjög ógraðar þegar þær sjá Steingrím. Píkur þola ekki menn sem hækka skatta.[24]

Þegar  Gillz lýsir yfir aðdáun sinni á strippbúllum segir hann einnig að til „eru menn með leggöng eins og Steingrímur J. Sigfússon sem eru á móti strippbúllum“.[25] Það þarf vart að taka það fram, að það þykir ekki fínt að vera með leggöng samkvæmt Gillz. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, kemur einnig við sögu:

„Hvað segið þið stelpur? Finnst ykkur ekki Jón Bjarnason hafa vaxið í starfi?“  Þær vita náttúrlega ekkert hver Jón Bjarnason er, verða eitt spurningamerki í framan og þá segir þú: „Nei, það er vinstri græni dvergurinn í Landbúnaðarráðuneytinu!“ Þá fara þær að hlæja, horfa á þig og hugsa: Vá, ógó massaður, ljóshærður, brúnn – gegt fyndinn og líka gáfaður. Mig langar í’ann![26]

Enn og aftur kemur upp þemað um mikilvægi vöðva. Vöðvarnir og gott líkamlegt form virðist því vera lykillinn að því að Gillz leyfist að gera lítið úr öðrum en þeim sem eru hvítir, í flottum fötum, ríkir, sofa hjá mörgum stelpum, eru ekki drasl … en umfram allt í góðu formi. Það þarf einnig að vera vel snyrtur, rakaður um allan líkama, nýta sér rakakrem, plokka hár og svo framvegis. Í stuttu máli þarf að hafa fullkomna stjórn á líkamanum, og þannig nærðu einnig stjórn á tilfinningum. Gillz bendir í raun sérstaklega á hvað þessi tilfinningalega aftenging (detachment) er mikilvæg: „Ef síminn hringir og þér líður ógeðslega illa FELDU ÞAÐ.“[27]

Þessi tilfinningalega aftenging, og árátta um að hafa fullkomna stjórn á líkamanum, minnir um margt á aðalsöguhetju skáldsögunnar American Psycho eftir bandaríska rithöfundinn Bret Easton Ellis. Sagan fjallar um afsprengi nýfrjálshyggjunnar á 9. áratugnum, mann að nafni Patrick Bateman. Líf persónunnar er ekkert nema umbúðir, ef svo má segja, og allt gengur út á að sýna ytra yfirborð eins og allt sé ætíð í himnalagi – og þá sérstaklega líkamlegt útlit. Leiðir þetta til svo mikillar tilfinningalegrar aftengingar að reglur samfélagsins hætta að skipta hann máli. Ellis var með sögunni að gera grín að, og einnig að benda á, alvarleika þess, hvernig ný kynslóð svokallaðra „uppa“ (yuppie) var að myndast, kynslóð sem hugsaði um lítið annað en peninga og útlit.[28] En hvernig tengist það Gillz?

Hér hefur þegar verið rakið að Gillz er mjög í nöp við vinstri menn og það ekki aðeins vegna þess að femínismi hefur verið skilgreindur sem vinstri stefna. Tengsl Gillz við nýfrjálshyggjuöfl á Íslandi eru í raun mjög greinileg. Gillz hefur gefið út bækur sínar hjá bókaútgáfunni Bókafélaginu. Útgáfan rekur einnig Almenna bókafélagið. Eini fastráðni starfsmaður Bókafélagsins er Jónas Sigurgeirsson en lengi vel var Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, eini eigandi fyrirtækisins. Árið 2011 bættust fleiri við í hópinn, þar á meðal Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, og Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.[29] Þessir eigendur Bókafélagsins voru allir meðlimir Eimreiðarhópsins svokallaða, en markmið hans var að innleiða markaðshagkerfi á Íslandi í ætt við nýfrjálshyggju – sem óneitanlega tókst.

Niðurstöður

Í þessari ritgerð var reynt að gera grein fyrir lífsviðhorfum Egils „Gillz“ Einarssonar eins og þau birtast í þremur bókum hans. Allar bækurnar hafa hlotið mikla sölu og mikið lof fjölmargra nafntogaðra einstaklinga. Aftan á bókunum má meðal annars lesa ummæli eins og: „Gillz sýnir enn og aftur að hann er ekki bara frábær þjálfari. Fyndnasta bók sem ég hef lesið“, frá Aroni Pálmarssyni, landsliðsmanni í handbolta, „Láttu hundrað apaketti hafa ritvél og úr verður einn Shakespeare. Þessi Shakespeare er Gillz“, frá Þórarni Þórarinssyni blaðamanni og „tussufín bók“, frá viðskiptamönnunum og fyrrum fjölmiðlastjörnunum Simma og Jóa. Þetta lof sem bókin hefur hlotið er auðvitað varhugavert. Augljóst er að bækur Gillz eru uppfullar af hatursáróðri, fordómum og kvenfyrirlitningu. Jafnvel þótt sjálfshjálparbókahöfundur eins og Ingimundur gamli, eða samfélagsrýnir á borð við Grétar Fells hafi gerst sekir um að hlutgera konur, þá er ekki annað að sjá en að Gillz taki þeim fram svo um muni, og þá bara í kvenfyrirlitningu. Þá er ótalið allt annað.

Ítalski heimspekingurinn og marxistinn Antonio Gramsci skilgreindi á sínum tima hegemóníu (hegemony) sem ástand þar sem tiltölulega fjölbreytilegt þjóðfélag þarf að beygja sig undir hugmyndafræði ráðandi stétta, einfaldlega vegna þess að ráðandi stéttir ráða yfir umræðunni, meðal annars í gegnum fjölmiðla. Þetta á að miklu leyti við um Ísland þegar Gillz var á hátindi vinsælda sinna, en það er ekki nema rétt rúmlega ár síðan hann hvarf stundarkorn úr sviðsljósinu. Gillz hafði greiðan aðgang að fjölmiðlum. Hann var sjónvarpsstjarna og útvarpsstjarna. Hann, ásamt stuðningsmönnum hans, gátu haft áhrif á alla umræðu og litað hana með hatursáróðri um margra ára skeið. Fyrirlitning Gillz á fólki sem býr í póstnúmeri 101, og sá frasi sem hefur verið búinn til um það fólk – sem byggir aðallega á því að það drekki mjólkurkaffi, eða „latté“ – er orðinn svo útbreidd að hvert íslenskt mannsbarn virðist aðhyllast hana, með öllum þeim tungumálafrösum sem því fylgja. Fyrir síðustu forsetakosningar var það enginn annar en sitjandi forseti sjálfur sem nýtti sér þetta, í þeim tilgangi að afla sér vinsælda. Þegar maður einn á kosningafundi í Grindavík sagðist halda að landsbyggðin stæði höllum fæti gagnvart höfuðborgarsvæðinu sagði Ólafur Ragnar Grímsson: „Þið treystið þinginu betur en 101 Reykjavík?“ Ólafur uppskar mikinn hlátur.

Að lokum var þeirri spurningu varpað fram, hvort Gillz sé afsprengi – eða jafnvel einn helsti talsmaður nýfrjálshyggju. Þetta er að mati undirritaðs mikilvæg spurning sem þarf að rannsaka betur. Ef bækur hans eru skoðaðar má sjá greinilega orðræðu sem stuðlar beinlínis að hatri gegn vinstri flokkum, og ekki síst gegn femínistum – sem kenna sig einmitt oft við félagshyggjuöfl. Að mati undirritaðs er augljóst mál að Gillz hafi tekist að hafa áhrif á bæði kynjapólitískar og pólitískar skoðanir yngri kynslóðarinnar, sér í lagi ungra karla. Með orðum eins vinsælasta þáttastjórnanda frá upphafi í íslensku sjónvarpi, sem tók Gillz einmitt eitt sinn drottningarviðtali: „Svona er Ísland í dag.“

Heimildaskrá

Ásta Jóhannsdóttir og Kristín Anna Hjálmarsdóttir: „Skaðleg karlmennska? Greining      á bókinni Mannasiðir Gillz.“ Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun.   Reykjavík, 2011. Aðgengilegt þann 9.12.2012: [http://netla.khi.is/greinar/2011/alm/005/005.pdf].

Cohen, Roger: „Bret Easton Ellis Answers Critics of ‘American Psycho’,“ í: New York Times. Birtist fyrst 6. Mars, 1991. Aðgengilegt þann 9. 12.2012:   [http://www.nytimes.com/1991/03/06/books/bret-easton-ellis-answers-critics- of-american-psycho.html?pagewanted=all&src=pm].

Egill Einarsson: Biblía fallega fólksins. Reykjavík, 2006.

Egill Einarsson: Mannasiðir Gillz. Handbók herramannsins. Reykjavík, 2009.

Egill Einarsson: Lífsleikni. Handbók karlmannsins. Reykjavík, 2010.

Grétar Fells: „Konan,“ í: Eimreiðin (41:3) 1935. Bls. 291-298.

Ingimundur gamli og Madama Tobba: Leiðarvísir í ástarmálum. Handbók hjóna og ástarbréf. Þorfinnur Skúlason og Örn Hrafnkelsson bjuggu til prentunar. Hafnarfirði, 2003.

Jóhann Páll Jóhannsson: „Sjálfstæðismenn stofna rannsóknarsetur,“ í: DV. Birtist fyrst: 17. júlí, 2012.

Sigríður Matthíasdóttir: „Karlar og viðhorf þeirra til kvenréttinda á Íslandi um  aldamótin 1900,“ í: Ritið (8:1) 2008. Bls. 31-61.

 


[1] Ingimundur Sveinsson og Jónína Sigríður Jónsdóttir gáfu út sjálfshjálparrit undir höfundanöfnunum Ingimundur gamli og Madama Tobba.

[2] Sigríður Matthíasdóttir: „Karlar og viðhorf þeirra til kvenréttinda á Íslandi um aldamótin 1900.“ Bls. 40-48.

[3] Sama, bls. 55. Birtist upphaflega í: Bríet Héðinsdóttir: Strá í hreiðrið. Bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur byggð á bréfum hennar. Reykjavík, 1988. Bls. 127.

[4] Sama, bls. 61.

[5] Ástu Jóhannsdóttir og Kristín Anna Hjálmarsdóttir: „Skaðleg karlmennska?“ Bls. 8-9.

[6] Ingimundur gamli og Madama Tobba: Leiðarvísir í ástamálum, bls. 17.

[7] Egill „Gillz“ Einarsson: Mannasiðir, bls. 104.

[8] Kaflarnir heita t.a.m.: „Gymmið,“ „Gymmið og mataræðið“ og „Einkaþjálfarinn leysir vandann.“

[9] Ingimundur gamli og Madama Tobba: Leiðarvísir í ástamálum, bls. 19.

[10] Sama, bls. 20.

[11] Sama, bls. 20-21.

[12] Egill „Gillz“ Einarsson: Mannasiðir, bls. 14.

[13] Egill „Gillz“ Einarsson: Biblía fallega fólksins, bls. 141.

[14] Ingimundur gamli og Madama Tobba: Leiðarvísir í ástamálum, bls. 22.

[15] Egill „Gillz“ Einarsson: Mannasiðir, bls. 107.

[16] Grétar Fells: „Konan.“ Bls. 294.

[17] Sama, bls. 295.

[18] Egill „Gillz“ Einarsson: Mannasiðir, bls. 107.

[19] Sjá orðalista aftast í öllum ritum Gillz sem vitnað er til í þessari ritgerð.

[20] Egill „Gillz“ Einarsson: Mannasiðir, bls. 68-69.

[21] Sama, bls. 27.

[22] Egill „Gillz“ Einarsson: Lífsleikni, bls. 66.

[23] Sama, bls. 104. Að vera rjómi, þýðir að vera samkynhneigður skv. Gillz.

[24] Sama, bls. 11.

[25] Egill „Gillz“ Einarsson: Mannasiðir, bls. 54.

[26] Sama, bls. 59.

[27] Sama, bls. 80.

[28] Roger Cohen: „Bret Easton Ellis Answers Critics of ‘American Psycho’.“

[29] Jóhann Páll Jóhannsson: „Sjálfstæðismenn stofna rannsóknarsetur.“
_______________________________
Athugasemd ritstjórnar: Ritgerðin var verkefni í námskeiðinu Ómenning: Ógnvaldar og spilliefni í íslenskri menningu (ÞJÓ503M) við Háskóla Íslands haustið 2012.

6 athugasemdir við “Lífsleikni og mannasiðir Gillz

 1. Furðulegt af greinarhöfundi að tala um félagshyggjuöfl og nýfrjálshyggjuöfl sem andstæða póla. Er ekki orðið tímabært fyrir svokölluð félagshyggjuöfl að líta í eigin barm í stað þess að rýna í bækur Gillz í tíma og ótíma?

  “Spurning dagsins: Þröstur, er ekki næsta skrefið útrás? Jú, næsta skrefið í útrás okkar er að kenna Norðurlandabúum hvernig þeir geti grætt á félagslegu leiguhúsnæði.” (Fréttablaðið 20. mars 2006:2).

  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=271627&pageId=3889251&lang=is&q=%DEr%F6stur%20%D3lafsson

 2. Má til með að benda á fleiri greinar:

  „Útburðir Félagsbústaða hf“ e. Sigrúnu Ármanns Reynisdóttur. Mbl. 15. október 1998:62.

  „R-listinn – svik?“ e. Guðjón Sigurðsson. Mbl. 27. október 1998:55.

  „Um útburð úr félagslegu leiguhúsnæði“ e. Björk Vilhelmsdóttur. Mbl. 7. september 2004:20. Ég fæ ekki betur séð en að hún afgreiði þar félagshyggju sem „gamaldags fyrirgreiðslupólitík“.

 3. „Þurrkunta sem þú ert, þú ert ekkert að gera annað en að leggja manninn í einelti. Viltu að ég fari að leggja þig í einelti MH þurrkuntu viðbjóðurinn þinn! Alveg hrikalega hvað maður óskar skítapakki eins og ykkur allt hið versta. Eins lítið álit og maður hafði á ykkur treflaógeðunum í hamrahlíðinni fyrir!!! Djöfull ertu ógeðsleg!!! Eins mikið og ég vona að þessi umfjöllun um ykkur sverti ykkar skítamannorð, það sama og þið eruð að gera við Egil ekki satt?? ;)“, sendi einhver viti sínu fjær einum af stofnendum hópsins.

 4. Bakvísun: Karlar sem hata konur – nú er nóg komið | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.