Bananabrauð og kvótastelpur

Höfundur: Saga Garðarsdóttir

Fyrir skömmu sat ég í mestu makindum og borðaði nýbakað bananabrauð með smjöri og hló að fyndnum statusum sem birtust mér í nýju eplatölvunni minni. Gott ef ég frussaði ekki af hlátri að myndbandi af fólki að taka kaneláskoruninni í svona hundraðasta skipti – smjörblettur í bolnum gefur það sterklega til kynna.

Mitt í gáskafullu glensinu rakst ég á greinar og yfirlýsingar þar sem kynjakvóti í Gettu betur var gagnrýndur og spurningarmerki sett við hvort hann kæmi stelpum að nokkru gagni eða hvort þær yrðu kannski uppnefndar kvótastelpur. Að þeim ætti eftir að finnast þær einungis vera með í keppninni fyrir tilstilli kynbættrar pólitíkur en ekki vegna eigin verðleika. Ég ákvað að horfa ekki á kanelmyndbandið aftur heldur skrifa status í þeirri von að allt internetið mætti lesa hann og umræðunni myndi svo ljúka með kommentinu „Rétt, Saga, þetta er rétt. Sorry! Kveðja, efasemdarfólkið.“ Það hefur ekki gerst. Sennilega eru margir of uppteknir við að horfa á fyndin myndbönd og hinir eru ekki vinir mínir á Facebook. Þetta er sumsé atlaga tvö í að sannfæra alnetið, annað skiptið sem ég legg frá mér bakkelsið og loka jútúbglugganum.

Við ykkur sem eruð að æsa ykkur yfir kynjakvóta í Gettu betur og haldið að þessar róttæku breytingar gætu jafnvel smitast út fyrir menntaskólana segi ég: Það ætla ég rétt að vona. Mér finnst kjörið að henda kynjakvóta inn í sem flestar menntaskólakeppnir. Á þessu ári eru til dæmis mun fleiri stelpur spenntar fyrir Morfís í Versló eftir að stelpa þaðan varð ræðumaður ársins. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir að hennar glæsti árangur sé stúlkum í öðrum skólum líka hvatning. Það er einfalt dæmi um hvað góðar fyrirmyndir hafa mikil og skjót áhrif.

gettusagaHér má sjá hversu fullnægjandi jafnrétti er fyrir alla.

Þegar ég var í MR datt mér ekki í hug að taka þátt í forprófinu í Gettu betur, ég kunni engin ártöl utan að, kallaði alla sögufræga íslenska menn Einar Ben frá Hlíðarenda og var hrædd um að hlegið yrði að mér ef ég bæði um meiri tíma í hraðaspurningunum. Ég átti sumsé ekkert erindi í þá keppni. Auk þess verð ég að viðurkenna að Gettu betur lið Menntaskólans í Reykjavík virkaði aldrei á mig sem sérlega skemmtilegur félagsskapur. Ekki af því mér finnst minnugir strákar leiðinlegir eða af því að hópur af sveittum beturvitringum í litlu rými þar sem allir keppast við að þekkja fleiri ljóð með Káinn, telja upp persónur úr belgískum teiknimyndasögum í þeirri röð sem þær birtast og panta of margar pizzur með hakki er ekki mín kvöldvaka, heldur af því að hópur af kappsömum strákum er sjaldan fýsilegur félagsskapur ef maður er eina stelpan – burtséð frá því hversu margar höfuðborgir maður þekkir.*

Mig langaði hinsvegar að taka þátt í Morfís. Ég hafði þó engin áform um að fara í forprófið enda sama upp á teningnum þar og í Gettu Betur, þar voru bara strákar fyrir. Tveir vinir mínir sem voru í Morfíshópnum hvöttu mig til að taka þátt en ég baðst undan því enda lítið fyrir höfnun og nógu góð í líkindareikningi til að sjá að dæmið myndi seint ganga upp mér í hag. Lukkulega stóðu þeir meira með mér en ég sjálf og bókstaflega drógu mig í prufurnar. Í stuttu máli urðu þeir svo báðir liðsfélagar mínir í ræðukeppninni.

Því miður eru ekki allar stelpur svo lánsamar að eiga svona freka og áræðna vini og því miður hafa þær oft ekki eins mikla trú á sér og þær mega. Það er auk þess alltaf erfitt að trúa því að hægt sé að feta nýja og óþekkta leið hafi maður engar fyrirmyndir, hafi maður aldrei séð aðra komast á leiðarenda.

Kynjakvóti er ekki til að troða ófærum stelpum í stöður sem þær ráða ekki við á kostnað geðveikt klárra stráka. Kynjakvótar eru til að koma fullkomlega frambærilegum stelpum á mið sem þær eru ragar við að róa á af því að þær hafa ekki fengið sjókort og áttavita. Að fá þær í áhöfn er hreinn gróði fyrir strákana því þær koma með ný veiðarfæri um borð!

Þetta ár vann MR Morfís í fyrsta skipti í, að ég held 18 ár, þá eini skólinn með jafnt kynjahlutfall. Það tapaði enginn á þessu rétt eins og að enginn hefur eða mun nokkurn tímann tapa á jafnrétti.

Þátttaka mín í Morfís styrkti mig og gaf mér aukið sjálftraust til að kýla á hlutina og halda áfram að fara út fyrir kynjuð norm. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að brjóta upp hefðir og venjur í menntaskólakeppnum og athuga hvort það leiði eitthvað betra af sér því alsannað er að höfum við einhvern tíman tækifæri til að gera tilraunir og mistakast hrapalega og komast upp með það, þá er það í menntaskóla. Hver veit nema kynjakvóti í menntaskólum geri það að verkum að þeir verða óþarfir utan þeirra.

Við þá stráka sem hafa áhyggjur af kynjakvóta af því að þeir óttast að verið sé að vega að þeim segi ég: Ef þú ert fáránlega góður og fær þá mun ekkert stoppa þig. Kynjakvóti er ekki vopn gegn þér, heldur aðferð til að búa til besta og fjölbreyttasta teymið.

Við þá stráka sem hafa áhyggjur af kynjakvóta af því að stelpur gætu verið uppnefndar segi ég: Eftirlátið okkur þær áhyggjur. Það er miklu verra að fá ekki tækifæri til að láta ljós sitt skína en að vera kölluð kvótastelpa af óöruggum rökþrota strákum.

Við þær stelpur sem hafa áhyggjur af því að komast bara áfram vegna kyns síns en ekki verðleika segi ég: Sleppið því. Þið munið alltaf þurfa að sanna ykkur tvöfalt á við strákana og hafa meira fyrir hlutunum meðan ójafnræðis gætir. Allir ykkar sigrar eru verðskuldaðir.

Þið hin: Bakið bananabrauð, horfið á fólk internetsins taka kaneláskorun og undirbúið ykkur undir næstu orrustu til jafnréttis.

*Sú mynd sem ég dreg hér upp af strákum í Gettu betur er byggð á sönnum atburðum en vissulega einfölduð í kómískum stíl. Ég hef enga fordóma gagnvart Gettu betur strákum, margir af mínum bestu vinum hafa verið í Gettu betur eða horft á Gettu betur. Ég er hinsvegar mjög opin með fordóma mína gagnvart fólki sem pantar hakk á pizzur og mér finnst að það ætti að hugsa sinn gang.

17 athugasemdir við “Bananabrauð og kvótastelpur

 1. „Kynjakvóti er ekki til að troða ófærum stelpum í stöður sem þær ráða ekki við á kostnað geðveikt klárra stráka. Kynjakvótar eru til að koma fullkomlega frambærilegum stelpum á mið sem þær eru ragar við að róa á af því að þær hafa ekki fengið sjókort og áttavita. Að fá þær í áhöfn er hreinn gróði fyrir strákana því þær koma með ný veiðarfæri um borð!“

  Já!

  Þegar ég var á fyrsta ári í menntaskóla tók ég þátt í forprófinu fyrir Gettu betur. Ég hafði allt að því sjúklega gaman af spurningaspilum og vinir mínir neituðu að spila meira trivial við mig svo mér datt í hug að taka þátt. Ég skoraði tiltölulega hátt, allavega þannig að mér var boðið að koma á kvöld þar sem mögulegir liðsfélagar yrðu mældir út. Ég mætti þangað, með hjartað í buxunum yfir að ég skyldi vera að trana mér svona fram, enda með 16-ára-sjálfsmyndarkomplexa á háu stigi. Þegar ég fann loksins stofuna sem átti að mæta í voru þar ca. 4 strákar, allir 2-3 árum eldri en ég sem þekktust allir frekar vel og ég held að hafi allir verið í liðinu áður. Við spiluðum einn umgang af Gettu betur þar sem ég þorði varla að koma upp orði, enda fannst mér þeir miklu klárari en ég. Needless to say þá höfðu þeir ekki samband við mig aftur og liðið samanstóð á endanum af þessum hópi. Auðvitað hefði ég átt að standa betur fyrir mínu og myndi gera það ef sama staða kæmi upp í dag en þá fannst mér vera betri lausn að horfa bara á þetta heima í stofu í staðinn. Ekki að það komi málinu neitt við en mig minnir að liðið hafi tapað í fyrstu eða annarri umferð í útvarpinu.

  Hefði alveg verið til í smá kynjakvóta þá, sko.

 2. „Kynjakvóti er ekki til að troða ófærum stelpum í stöður sem þær ráða ekki við á kostnað geðveikt klárra stráka. Kynjakvótar eru til að koma fullkomlega frambærilegum stelpum á mið sem þær eru ragar við að róa á af því að þær hafa ekki fengið sjókort og áttavita. Að fá þær í áhöfn er hreinn gróði fyrir strákana því þær koma með ný veiðarfæri um borð!“

  Já!

  Þegar ég var á fyrsta ári í menntaskóla langaði mig mikið að taka þátt í Gettu betur. Ég tók þátt í forprófinu og skoraði allavega það hátt að mér var boðið að koma á kvöld þar sem endanlegt lið yrði valið. Ég var náttúrulega með 16-ára-sjálfsmyndarkomplexa á háu stigi og með hjartað í buxunum yfir að vera að trana mér svona fram, en ákvað samt að mæta á þetta kvöld. Þegar ég fann loksins stofuna sem ég átti að mæta í mættu mér u.þ.b. fjórir strákar, allir 2-3 árum eldri en ég og ég held að þeir hafi allir verið í liðinu áður. Við spiluðum eina umferð af Gettu Betur spilinu þar sem ég þorði varla að koma upp orði enda fannst mér þeir vera svo miklu miklu klárari en ég. Needless to say, þá höfðu þeir ekki samband við mig aftur og liðið samanstóð af þessum strákum ásamt liðsstjóra. Ekki að það komi málinu neitt við, en ég held þeir hafi tapað í fyrstu eða annarri umferð í útvarpinu þetta árið.

  Hefði alveg verið til í smá kynjakvóta þá, sko.

 3. Þegar Verzló fór í Úrslit 2010 þá var Eva Fanney í liði verzlinga og var hún ósjaldnast stigahæst, enda stuðningsmaður.

 4. Skemmtileg grein og vel skrifuð.

  En ég er algjörlega ósammála. Held það ætti að leita allra annara leiða til að auka þátttöku stúlkna fremur en kvótakerfi. Veit ekki alveg hvaða leiða enda ekki stúlka og veit ekki hvað myndi helst styðja þær til aukinnar þátttöku og áhuga.

  Aftur á móti hef ég dæmi mér til stuðnings. NBA körfuknattleiksdeildin í USA er í yfirgnæfandi meirihluta mönnuð svörtum mönnum eða ríflega 75%. Ég held að ekki sé til sá hvíti aðdáandi körfubolta sem myndi hafa áhuga á að sjá kvótakerfi sett á NBA deildina einfaldlega til að geta haldið með eigin kynþátt. Enda held ég að ekki margir aðdáendur Gettu betur séu mikið að spá hvort hvort liðið sitt hafi stráka eða stelpur í því, heldur bara hvort það hljóti hljóðnemann.

  Þess má einnig geta að ég hef enga hugmynd hvernig auka mætti þátttöku hvítra manna í NBA enda eru einfaldlega líkamlegir yfirburðir svarta mannsins algjörir og geta stúlkur sem hafa áhuga á Gettu betur prísað sig sælar að þurfa ekki að kljást við neina slíka yfirburði.

  • Þrjú atriði:
   1) Líkamlegir yfirburðir eru sannanlega tengdir erfðum, vitsmunalegir yfirburðir eru það ekki.
   2) NBA atvinnuíþrótt, Gettu betur er amatöraskemmtiþáttur.
   3) Svartir eru minnihlutahópur í Bandaríkjunum.

 5. Þáttaka stelpna í forprófi Morfís hefur verið mjög mikil öll síðustu ár og varð þar engin breyting á í ár. Með kynjakvótum hefði lið Borgarholtsskóla í fyrra sem engöngu var skipað stelpum ekki getiað orðið að veruleika (nema kvótarnir gangi bara yfir stelpufjölda?)..

  Fjöldi stelpna í Morfís liðum er að aukast án kynjakvóta, blessunarlega. Þannig geta stelpur í þeirri keppni allavega enn notið þess að komast inn á eigin verðleikum, en ekki kvótum. Mér hefði liðið ansi skringilega þegar ég var í menntaskóla ef ég hefði komist inn í lið vegna kynfæragerðar.

 6. Þetta er fín grein og nauðsynleg hvatning. Því miður þurfum við á mörgum sviðum enn að vera með reglur og lög um kynjakvóta-og það er sannarlega róttækt inngrip í það sem sumum finnst að ætti að arta sig með bæði tíð og tíma. Í fyrri athugasemdum er ein stolt af því að hafa hlaupið upp kantinn með strákunum, á eigin verðleikum og þrátt fyrir að vera kona. Ég hef alveg tekið mína eigin spretti upp kantinn, yfir miðju og alveg inn í teig en haft talsvert meira fyrir því en drengir og menn í mínu fagi. Þegar tíð og tími og allt annað bregst er líklega bara alveg ágætt að vera með kynjakvóta og jafnvel praktísera öfga-feminisma.

 7. Sem karlmaður, þá er ein spurning sem ég velti fyrir mér. Er ekki kynjakvóti niðurlægin fyrir kvenfólk að því leytinu til að ef sem dæmi að stelpa sé ekki eins góð/vitur fyrir keppnina og strákur en hún skal vera af því að hún er stelpa og er þá ekki verið um leið að mismuna drengnum af því hann er með tippi?

  Hvar er réttlætið í því ?

  Ekki misskilja mig á þann hátt að þetta sé eitthvað karlrempudæmi en ég er bara velta fyrir mér réttlætinu með þessum kynjahvóta.

  Kannski þarf þessi kynjahvóti ekki vera til staðar heldur þarf að breyta fyrirkomulaginu hvernig liðin eru skipuð frá skólunum sjálfum, þ.e. hvernig er staðið að valinu og hvernig stelpur geta keppt um sæti í liðinu á jafnréttisgrundvelli við stráka og það sé bæði kynin sem velja liðið en ekki einhver einn kall eða ein kona svo allt sé „fair“

 8. Berum nú saman siðferði Morfís og Gettu Betur.

  Í mínum tíma í Morfís þá þótti það mikil herkænskuleg aðferð að hafa unga stelpu (þá sérstaklega busa) sem frummælanda í liðinu því þá myndu dómarar ekki dæma hana harkalega. Miðað við þau dómblöð sem ég sá þá virkaði það á suma dómara en alls ekki alla.
  Morfís er spilltasta menntaskólakeppnin því þeir keppendur sem komast lengst að geta valið vini sína til að hafa með í liðinu þrátt fyrir að efnilegir einstaklingar séu í boði. Einnig skal líka verið tekið inní að margir þátttakendur eru bara til skrauts (óháð kyni auðvitað. Miðað við persónutöfra), þjálfar skrifa ræðurnar ofan í þau og treysta svo á reyndari meðlimi til að skrifa svör ofaní þau.
  Þetta virkar bara því Morfís er ekki ræðukeppni, heldur keppni í útúrsnúningi og fíflalátum. Sem er synd.
  En í Gettu Betur er ekkert kjaftæði, þú mætir í próf og ef þú ert með þeirra hæstu þá kemstu í liðið! Ekkert spillingarvesen og bull. Hæfasti aðilinn kemst að óháð kyni.
  En með kynjakvóta þá ertu að meta stelpur útfrá öðrum stelpum en ekki frá öðrum einstaklingum. Hversu mikið afturkall til fortíðar er það að þurfa setja stelpur í sérhóp vegna þess að meirihlutinn trúir því ekki að stelpur geta verið metnar sem einstaklingar? Það er það sem kynjakvótinn er að segja, kynjakvótinn á að koma í veg fyrir spillingu og fordóma en Gettu Betur getur ekki falið sig bakvið slíkt krabbamein. Þetta er í gjörsamlegri andhverfu frá hugmyndafræði femínisma.

 9. Las þessa grein í gær og fannst hún æðisleg. Svo fór ég að huga að öðrum hlutum en greinin hefur augljóslega legið í undirmeðvitundinni því ég bakaði eina bananaköku í dag:

 10. Las og er ósammála.

  Þú getur ekki verið í herferð um að allir eigi að fá greitt jafnt fyrir sömu vinnuna en farið svo á annan vígvöll og sagt að það gildi ekki þar. Þarna ertu að taka ávinning þeirra hæfustu og oft duglegustu frá þeim, með því að neita þeim um sæti sökum kyns í keppni sem þeir höfðu sannað að þeir væru hæfastir til að taka þátt í.

  Það er voðalega auðvelt að henda fram einhverji dæmisögu þar sem einstaklingurinn sem hefði venjulega ekki tekið þátt var dreginn af stað og það hafi breytt lífi hans, líkt og Saga gerir. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg og verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess.

  Ef ég ætti að henda fram sambærilegri sögu, þá gætum við horft á feimna og óörugga einstaklinginn sem venjulega þorði ekki að taka þátt í keppni, fannst hann ekki eiga heima í henni, þetta væri fyrir aðra en hann.
  Svo komu vinirnir og skoruðu á hann að taka nú þátt í forkeppninni og sjá hvað gerðist, hann væri miklu betri en hann gerði sér sjálfur grein fyrir.
  Hann lætur undan, tekur þátt í forkeppninni og endar með 3 bestu niðurstöðuna. Því miður voru þeir 2 sem stóðu sig betur af sama kyni og hann, hann kemst því ekki inn því jú, við verðum að gæta jafnréttis, þ.e hafa eins jöfn kynjahlutföll og mögulegt er.

  Þetta er ekki jafnrétti. Jafnrétti eru jafnir möguleikar allra, sama af hvaða kyni eða uppruna þeir eru.

  Það er allt gott og blessað við að hvetja bæði kyn til þess að taka þátt í forkeppnum, reyna að breyta sýn á keppnina og jafn vel verðlauna þá sem taka þátt í forkeppninni með einhverjum ráðum, fríðindum eða einföldum verðlaunum, en ekki skal taka verðskuldaðan ávinning þeirra sem stóðu sig best frá þeim.

 11. Kosturinn við kynjakvóta er sá að karlmanninum sem er hafnað, eingöngu vegna kyns síns, getur huggað sig við það að mismununin var jákvæð!

  Kalli
  (Fyrrverandi keppandi)

 12. Flott grein og er ég sammála Sögu í barasta öllu i greininni, þar með talið fordómum gegn pizzum með hakki..algjör vibbi.
  En kynjakvótinn er nauðsynlegur og mun hann sanna sig í betri stjórnun og ákvörðunartökum í framtíðinni.

 13. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.