Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni

Höfundur: Elín Pjetursdóttir

staðganga

 

 

 

 

 

Hvað gerir maður ekki fyrir ástvini sína?

Í gegnum árin hef ég velt því fyrir mér hvort ég myndi ganga með barn fyrir samkynhneigðan bróður minn, sem að öðrum kosti ætti afskaplega örðugt með að eignast barn. Ég á líka samkynhneigða vini sem sjá varla annan kost en staðgöngumæðrun, vilji þeir eignast börn. Að auki á ég vinkonu sem vill ganga með barn fyrir systur sína sem getur ekki gengið með barn sjálf. Í mínu nánasta umhverfi er því bæði vilji og þörf fyrir staðgöngumæðrun. Samt sem áður velti ég ennþá fyrir mér réttmæti þess að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni. Ástæðan fyrir því að ég hef átt svona óskaplega erfitt með að gera upp hug minn, er vegna þess að með því að banna staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni finnst mér brotið á réttindum kvenna að vissu leyti, en með því að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni finnst mér hinsvegar brotið á réttindum kvenna að öðru leyti. Ég stóð því frammi fyrir því vandamáli að reyna að ákveða hvort skipti meira máli.

Hvað réttlætir staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni?

Konur eiga sinn líkama sjálfar og eiga þar af leiðandi að ráða því sjálfar hvað þær gera við þennan ágæta líkama sinn. Ég er þreytt á því að konum séu settar reglur, boð og bönn, varðandi sinn eigin kropp. Stór hluti kvenna býr við gífurlegt valdleysi þegar kemur að líkama þeirra. Þær mega ekki fara í fóstureyðingu, þær eru neyddar til að ganga með slæðu, nú eða þá þeim er meinað að hylja hár sitt með slæðu, líkt og á sumum opinberum stöðum í Frakklandi. Svona mætti lengi telja, því heimurinn virðist seint ætla að láta af þeim ósið að segja konum hvernig þær eigi að haga lífi sínu. Það er óþolandi og óréttlátt, og samkvæmt því ætti ég sannanlega að vera hlynnt staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni. Leyfum konum að vera valdhafar yfir eigin líkama.

Hvað mælir gegn því að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni?

staðganga 2Á hinn bóginn finnst mér ekki réttlætanlegt að það sé samfélagslega samþykkt að biðja konur, eða fólk yfirhöfuð, að nota líkama sinn í þágu annarra. Þar af leiðandi efast ég um að það sé rétt að samþykkja löggjöf sem ýtir undir þá hugmyndafræði, að það sé eðlilegt að nota líkama kvenna sem leið að eigin markmiði. Á ég rétt á því að biðja aðra manneskju um að ganga með barn fyrir mig vegna þess að mig langar að vera foreldri? Er eðlilegt að ætlast til þess að heilbrigðiskerfið styðji staðgöngumæðrun? Að ganga með barn fyrir aðra manneskju er ekki eins og að fara í beinmergsskipti. Í fyrsta lagi er enginn í lífshættu, og í öðru lagi þá eru það ekki grundvallarmannréttindi að eignast börn, rétt eins og að hafa aðgang að læknisþjónustu. Að ganga á líkama einnar manneskju í þágu annarrar er venjulega ekki gert nema í ýtrustu neyð. Að langa til að verða foreldri er varla ýtrasta neyð, þó löngunin sé bæði sterk og skiljanleg.

En ættleiðing?

Oft hef ég heyrt að þeir sem ekki geta eignast barn sjálfir eigi einfaldlega að ættleiða, og oft hef ég heyrt að lögleiða eigi staðgöngumæðrun vegna þess að ættleiðingaferlið sé óeðlilega erfitt og mismuni fólki, til dæmis ógiftum einstaklingum og samkynhneigðum pörum. Í fyrsta lagi fer hugur minn venjulega akkúrat í þá átt, að eðlilegra sé að ættleiða börn en snúa sér að staðgöngumæðrun. Við ættum því að einbeita okkur að því að bæta ættleiðingar ferlið og gera það aðgengilegra fyrir alla. Berjumst fyrir jafnrétti þar eins og annarstaðar. En svo man ég að það er ekki mitt að ákveða fyrir aðra hvort þeir/þau/þær eigi að ættleiða eður ei. Margir vilja eignast barn sem hefur þeirra eigin gen, og það er ekki mitt að dæma um réttmæti þeirrar löngunar. Hinsvegar þykja mér það tæp rök að segja að lögleiða eigi staðgöngumæðrun vegna þess að erfitt sé að ættleiða. Ef það er óeðlilega erfitt að ættleiða, þá er það vandamál sem þarf að leysa útaf fyrir sig, staðgöngumæðrun er ekki lausn á því tiltekna vandamáli. Þó umræðan um ættleiðingu sé að sjálfsögðu nátengd umræðunni um staðgöngumæðrun, þá sýnist mér þó að þetta séu tvö aðskilin málefni og því eigi að varast að blanda þeim of mikið saman.

Af hverju ég er efins?

Persónulega er ég mjög efins um að leyfa eigi staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni. Málefnið er ótrúlega flókið og ég get ekki séð að við getum gengið úr skugga um að ekki sé brotið á rétti neins. Hvernig ætlum við að ganga úr skugga um að staðgöngumóðirin sé þarna eingöngu af velgjörð. Gætum við til dæmis verið viss um að foreldrarnir greiði henni ekki auka summu undir borðið? Hvað með félagslegan þrýsting? Með því að lögleiða staðgöngumæðrun þá gefum við þau skilaboð að það sé í lagi að biðja konur um að lána leg sitt og líkama mánuðum saman. Það gæti leitt til þess að það yrði töluvert erfiðara fyrir marga konuna að neita ástvini um aðgang að sínu legi.

Þar að auki geta komið upp allskonar flóknar spurningar sem ekki er auðvelt að svara. Hvað gerist til dæmis ef foreldrarnir deyja á meðan á meðgöngu stendur? Hver fær þá barnið? Hvað ef staðgöngumóðirin getur ekki hugsað sér að láta barnið af hendi, barnið sem er búið að búa innan í henni í níu mánuði, hvað gerist þá? Mætir lögreglan þá á svæðið og tekur barnið af staðgöngumóðurinni og fer með það til genetískra foreldra sinna. Persónulega get ég ímyndað mér fátt harkalegra en að taka nýfætt barn af nýbakaðri móður vegna lagabókstafs og vöntunar á genetískum tengslum. En á sama tíma þá væri hræðilegt að neita genetísku foreldrunum um barnið sitt á þeim forsendum að staðgöngumóðirin hafi skipt um skoðun. Ég get ekki séð að til séu rétt eða röng svör í aðstæðum sem þessum.

Að lokum vil ég benda á að meðganga getur verið hættuleg. Konur geta verið með utanlegsfóstur og þurft að fara í fóstureyðingu, fengið meðgöngueitrun, þurft að fara í keisaraskurð, misst legið og í allra verstu tilvikunum þá geta konur enn dáið í barnsnauð. Þetta eru engar smá áhættur sem okkur finnst í lagi að biðja konur um að taka á sig, allt vegna þess að einhvern annan langar í barn.

Tvær ólíkar fylkingar?

staðganga 3Ég er þreytt á því að konum sé sífellt sagt hvað þær eigi að gera við sinn eigin kropp og ég er líka þreytt á því að það þyki eðlilegt að biðja konur um að nota líkama sinn í þágu annarra. Er einhver lausn í sjónmáli? Ég er þeirrar skoðunar að staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni sé allt of flókin til að hægt sé að lögleiða hana. Ég er samt sem áður ekki á móti þeim sem vilja lögleiða hana, og ég er heldur ekki ósammála þeim að öllu leyti. Fólk hefur skipt sér upp í tvær ólíkar fylkingar og flestir virðast handvissir um að þeir séu að berjast fyrir kvenréttindum en að hin fylkingin sé að reyna að brjóta á réttindum kvenna. Mér sýnist hinsvegar að allflestir sem hafa skoðun á málefninu séu meðvitaðir um réttindi kvenna, fólk nálgast kvenréttindi einfaldlega á ólíkan hátt.

Að lokum

Mér finnst fátt í heiminum fallegra en að vinkona mín vilji ganga með barn fyrir systur sína. Hvílík ást og umhyggja! Enginn hefur stærra hjarta en þessi vinkona mín og ég vona svo sannarlega að systir hennar fái að upplifa móðurhlutverkið, enda er ég sannfærð um að hún yrði yndisleg móðir. Ég held líka að bróðir minn og maðurinn hans yrðu frábærir foreldrar, svo og aðrir vinir mínir sem einhverra hluta vegna geta ekki gengið með barn, og ég óska þess innilega að allt þetta fólk fái að verða foreldrar ef það óskar þess.

Ég ber fulla virðingu fyrir hugmyndafræði beggja „fylkinga“ og ég held ekki að það sé raunverulegt markmið eins né neins að ganga vísvitandi á rétt kvenna. Ég þekki dæmi þar sem staðgöngumæðrun væri yndisleg og myndi að öllum líkindum eingöngu leiða af sér ást og gleði. Þrátt fyrir það þá sýnist mér að álitamálin séu of mörg, og of flókin, til þess að það sé réttlætanlegt að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni. Mér finnst mikilvægara að lögin verndi okkur gegn því að aðrir noti líkama okkar sem leið að eigin markmiði.

Með helling af kærleika og virðingu

Elín

3 athugasemdir við “Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni

  1. Bakvísun: Að gefa líffæri eins og varahluti – hugleiðing um staðgöngumæðrun | Skoðun

  2. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

  3. Bakvísun: Mishátt verð á börnum – um niðurgreiðslu staðgöngumæðrunar | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.