Barnaver í Helguvík

Höfundur: Kári Emil Helgason

barnaverksmiðja 1

Ég hef staðið í nær þrotlausum rökræðum á internetinu síðan grein mín, „Að leigja út leg kvenna eins og geymsluskáp“ birtist hér á Knúzinu á föstudaginn var. Sérstaklega ber á því að ég sé sakaður um að vilja banna konum hitt og þetta og að ég sé forræðishyggjusinni.

Fólk gerir alls konar hluti sem geta haft siðferðisleg áhrif og krossverkanir langt út fyrir þeirra persónulega rými og þar af leiðandi er það ekki alltaf einkamál hvað við viljum. Málið snýst hins vegar ekki um einstakar konur sem eru til í að ganga með börn fyrir aðra. Það snýst um víðtækari samfélagsleg áhrif þess að leyfa staðgöngumæðrun og að það verði samfélagslega samþykkt að konur gerist staðgöngumæður.

Í grein minni fjallaði ég helst um staðgöngumæðrun á Indlandi, en þar eru miðstöðvar þar sem konur sem vinna sem staðgöngumæður dvelja þá mánuði sem meðgangan stendur yfir. Þessar miðstöðvar eru gjarnan kallaðar „barnaverksmiðjur“ af gagnrýnendum. Af hverju ætli það sé?

Fólk sem ég hef deilt við á netinu segir gjarnan að staðgöngumæðrun þessara kvenna sé bara vinna eins og hver önnur. En að hvaða leyti er hún öðruvísi?

 • Er ekki munur á að vinna með höndunum eða heilanum, og að vinna með kynfærunum?
 • Er ekki munur á starfi, sem er hægt að gera að starfsferli, og starfi sem fæstir eru viljugir til að gera nema einu sinni?
 • Er ekki munur á að vinna vinnu sem þú getur hætt í þegar þú vilt, og hins vegar vinnu sem felur í sér fóstureyðingu (á annarra manna barni!) til að geta sagt upp?

Mér finnst samlíkingin við launavinnu ósannfærandi.

Það felst ákveðin þversögn í síðasta punktinum, því konur eru í raun sviptar líkamsrétti sínum undir þessum kringumstæðum (þ.e. að þurfa að velja milli sjálfstjórnar og fóstureyðingar á annarra manna fóstri hins vegar). Og í þessu felst þversögnin um að ég sé forræðishyggjusinni, því mér er einmitt mjög annt um að verja sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Jú, ég er hlynntur einni takmörkun á því sem konur geta gert við líkama sinn (en fyrir mér snýst það, nota bene, meira um ábyrgð þeirra sem óska þess) en ég er algjörlega andsnúinn því að búa til aðstæður þar sem vafi verður um friðhelgi líkama kvenna.

 

Gróðavædd meðganga, aukinn hagvöxtur

Horfum framhjá þessum mun sem ég taldi upp. Hvers vegna þá ekki að lögleiða staðgöngumæðrun í gróðaskyni á Íslandi? Af hverju er verið að leggja áherslu á þessa „góðgerðarstarfsemi“? Ég spyr því sumar konur sem ég deildi við sögðu það rétt sinn að hafa möguleika á að taka þessa „vinnu“ að sér.

Ég sé fyrir mér að skipta út fyrirhuguðu Álveri í Helguvík fyrir Barnaver. Þannig mætti spara orku og tilkostnað, og skapa einkarekinn starfsvettvang fyrir lækna sem annars myndu kannski flytja úr landi. Þar gætu konur sem vantar atvinnu látið sæða sig á rannsóknarstofum og gengið með börn fyrir annað fólk.

Og hvað væri því til fyrirstöðu að ríkar konur sem langaði í börn en nenntu ekki að standa í að vera óléttar nýttu sér þjónustuna?  Af hverju ættu þær að leggja slíkt á sig þegar þær geta borgað öðrum fyrir ómakið? Af hverju þarf að takmarka þjónustuna við einstaklinga, homma og ófrjó pör?

Hér er líka útflutningstækifæri. Enginn sæðis- eða eggjabanki er til hér, vegna hættu á skyldleikaræktun. En hér væri hægt að opna slíka einvörðungu til útflutnings. Í „Premium-pakka“ Barnaversins væri útlendingum boðið upp á íslensk egg og sæði, sem komið væri fyrir í staðgöngumæðrum, og börnin svo flutt út út eftir fæðingu. Hvít, hreinræktuð norræn börn með ljóst hár og blá augu myndu seljast eins og heitar lummur.

Ég fór viljandi yfir strikið í þessu dæmi og það er ekki ætlun mín að leggja til einhvers konar „slippery slope“. Ég vil benda á að takmörkun við staðgöngumæðrun í góðgerðarskyni án greiðslna er handahófskennd.

 

Af hverju ekki að borga?

Hingað til hefur verið lögð mikil áhersla á það í allri umræðu um málið að ekki megi greiða konum fyrir, og er þá litið til t.d. Bretlands, sem hagar málum þannig. En af hverju má það ekki, þótt um „greiða“ sé að ræða? Er það ekki í raun eðlilegt í ljósi alls þess álags sem fylgir meðgöngu? Hvar verður línan dregin? Hver ber kostnað af óléttufötum, járntöflum, miska, líftryggingu? Óttast fólk að greiðslurnar yrðu nýttar til að hvetja vinkonur eða skyldmenni sem eru tregar til? Verður þá ekki bara borgað svart?

Er ekki svo að fólk er einfaldlega hrætt við þessa vöruvæðingu barna og/eða þessa nýtingu á líkama kvenna í þágu annarra? Er ekki svo að fólk sér að engin íslensk kona myndi láta bjóða sér að vera starfsmaður í Barnaveri í Helguvík? Og af hverju ætti Lakśimi frá Gujarat-héraði að vilja það eitthvað frekar? Því það er raunin í dag – konur í Indlandi búa inni á læknastofum í tíu mánuði þar sem þær bera öðrum börn, og einhverjir Íslendingar hafa þegar nýtt sér það í trássi við íslensk lög. Þetta fólk er svo fast í tollinum með börnin sem þau eignuðust ólöglega. „Þú leyfðir mér þetta ekki svo ég gerði það bara samt.“

Það verða alltaf einhverjir sem brjóta reglur. Öll bönn leiða af sér brot á bönnum. Það er ekki vandamál bannsins, heldur þeirra sem fara á svig við bannið. Staðgöngumæðrun er þess eðlis að það verða að gilda um hana lög og reglur. Ég er fylgjandi því að línan sé dregin fyrir framan hana: að hún verði ekki leyfð. Það er ekki þar með sagt að ég haldi að hvert einasta tilvik um staðgöngumæðrun hljóti að vera slæmt. En í mínum huga er gráa svæðið of stórt og loðið til að ég sjái fyrir mér að nokkur löggjafi geti verndað rétt allra málsaðila: tilvonandi foreldra, staðgöngumóður og síðast en ekki síst barnsins í kviði hennar, og ég tel það vega þyngra en þrá fólks til að eignast sér blóðskyld börn.

 

10 athugasemdir við “Barnaver í Helguvík

 1. Mér finnst ekki koma fram (a.m.k. ekki nógu skýrt) það sem mér sjálfum finnst mesta grundvallaratriðið, og gleymist furðuoft í umræðunni:

  Það er (að mínu mati) ekki hægt fyrir konu að vera ólétt af fóstri „einhvers annars“. Fóstur í móðurkviði ER FÓSTUR ÞEIRRAR KONU. Meðan það er ekki á hreinu er öll umræða um staðgöngumæðrun á siðferðislega mjög hálum ís.

  Önnur kona getur verið genetísk móðir barnsins (með sama hætti og t.d. þegar kona þiggur gjafaegg).

  Staðgöngumóðir ER MÓÐIR þess barns sem hún gengur með. Svo getur verið búið að semja um að aðrir taki við foreldrahlutverkinu stax og barnið fæðist. Líffræðilegur faðir er vissulega faðir barnsins, en FYRIR fæðingu er umráðaréttur hans yfir hinu ófædda barni aldrei sá sami og móðurinnar.

  Setjum upp tvö dæmi til umhugsunar:

  (a) Myndi ég spyrja systur mína hvort hún væri tilbúin að gerast staðgöngumóðir og ganga með barn fyrir mig og konu mína?

  (b) Myndi ég biðja systur mína að verða ólétt (t.d. með „hefðbundnum“ hætti með sínum manni) til að ganga með barn fyrir mig og mína konu?

  Hver er munurinn??

  Munurinn er MINNI heldur en umræða um staðgöngumæðrun gefur alla jafna í skyn. Myndi ÉG vera reiðubúinn spyrja systur mína um (b)? Ég held ekki. Hvað myndir þu gera??

  Ég skrifaði aðeins meira um þetta sjónarmið hér:
  „Með annars barn í móðurkviði??“ http://patent.blog.is/blog/patent/entry/1319113/

 2. Í pistlinum segir:

  einhverjir Íslendingar hafa þegar nýtt sér það í trássi við íslensk lög. Þetta fólk er svo fast í tollinum með börnin sem þau eignuðust ólöglega

  Þetta er ekk rétt. Íslensk lög ná ekki yfir samninga á Indlandi, læknisaðgerðir né barnsfæðingar þar. Þetta fólk braut ekki lög.

 3. Á þá ekki með sömu rökum að banna líffæragjafir? Það er nokkuð sem „fæstir eru viljugir til að gera nema einu sinni“, þar er líkami fólks vöruvæddur, þar má ekki borga fyrir og þar getur fólk líka orðið fyrir miklum þrýstingi af hálfu ættingja eða vina.

 4. Mjög flottur pistill hjá þér. Sem kona geri ég þá kröfu að nýlenduþjóðir geti ekki nýtt sér kúgun kvenna í þriðja heiminum og notað sem þræla í barnaframleiðslu. PS fólkið fór á svig við lög með því að heimta vegabréf handa barni sem átti ekki rétt á því. Með tilfinningakúgun náðu þau sínu fram.

 5. Ég held að það sé alltaf stærra upp í sig tekið þegar verið er að banna fólki hluti en þegar verið er að leyfa þá á þeirri almennu forsendu að allir eigi að ráða sér sjálfir – sem síðan má eiga við með fræðslu og hvötum af ýmsu tagi í stað þess að banna og refsa.

  Nýverið gaf ég syni mínum nýra. Hann var ekki í lífshættu, en hann hefði þurft að nota kviðskilunarvél á nóttinni alla ævi til að hreinsa blóð sitt og það var ljóst að lífsgæði hans yrðu mun meiri ef hann fengi nýra.

  Til allrar hamingju erum við komin yfir mjög keimlíka umræðu um siðferðilegar flækjur í kringum líffæragjafir sem voru í gangi fyrir nokkrum áratugum, því ég fékk að gefa honum nýra. Annars hefði einhver velviljaður aðili eflaust geta tekið upp á því að banna mér það til að koma í veg fyrir að það færi af stað líffærasala og fólk yrði kúgað félagslega eða fjárhagslega til að vera „geymsluskápur“ fyrir líffæri handa öðrum.

  Augljóslega fór ekkert slíkt vesen í gang og ekkert bendir til þess að það séu teljandi vandræði í kringum þessa hluti í Bretlandi eða Bandaríkjunum. Sumt fólk vill einfaldlega við viss skilyrði gefa líffæri, ganga með börn fyrir aðra og fleira þess háttar.

  En alltaf er látið eins og það sé einhver sérstök góðmennska fólgin í því að láta eins og konur séu viljalaus verkfæri umhverfisins og að það eigi að banna þeim allskyns hluti til að vernda þær sjálfar.

  Ég þekki margar konur sem eiga ekki orð yfir þennan málflutning og vilja bara ráða því sjálfar hvort þær bjóði sig fram til að ganga með börn ef þær langar til. Persónulega vona ég að það verði niðurstaðan, því það held ég að sé eitthvað sem við getum lært að lifa með og getum gert að fallegu hlutverki í stað þess að einblína á mögulega ókosti og þessa meintu kúgun sem virðist vera svo vinsælt að sjá í hverju horni.

 6. Líkt og greinarhöfundur hef ég farið í hálfhring. Fyrst fannst mér þetta gráupplagt – ég gæti eignast börn með mínum manni án þess að þurfa að fara einhverskonar bakdyraleið – svo, þegar umræðan fór í gang, kom efinn.

  Það sem ég þrávelti mér uppúr er þetta: á ég rétt á, eða tilkall til, að eignast barn á mínum forsendum vía staðgöngumæðrun vegna þess að a) mig langar það, og b) ég get það? Höfum við ekki skautað framhjá þessum punktum þegar umræðan snýst um hvort konur séu sjálfsákvarðandi eða vöruvædd verkfæri? Ættum því getum? Takandi þennan pól, þ.e. ef við nálgumst þetta útfrá spurningunni hvort barnlaust fólk eigi rétt á að eignast börn, verður eðlismunur á staðgöngumæðrun og líffæragjöfum kannski svolítið skýrari.

  Ennfremur, ef allir eiga rétt á að eignast barn, á fólk þá einnig rétt á að eignast barn mixað úr eigin genamengi? Með þessum vangaveltum er ég samt ekki að stilla ættleiðingum upp sem kórréttum alternatív við staðgöngumæðrun, frekar að velta upp hvort okkur beri yfirhöfuð að útvega barnlausum börn – sem svo leiðir til frekari spurninga sem naga mig: Er að eiga barn markmið í sjálfu sér? Erum við, hin barnlausu, minniháttar konur eða menn? Á ég að eignast barn? Og ef staðgöngumæðrun (og eða ættleiðing) er negld í gegn og ferlið er auðveldað og opnað upp á gátt fyrir fólk í minni stöðu, ber mér þá að eignast barn?

 7. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

 8. Bakvísun: Mishátt verð á börnum – um niðurgreiðslu staðgöngumæðrunar | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.