Á föstudögum skreppa margir á leiguna og ná sér í eitthvað gott og skemmtilegt til að glápa á með krökkunum. Það væri ekkert vitlaust að hlusta fyrst á Colin Stokes spjalla um bíómyndir, stelpur, stráka, Bechdel-prófið, muninn á Leiu prinsessu og Dóróteu og heilu vetrarbrautirnar fullar af karlkyns persónum …
„Skreppa margir á leiguna“ Er feministar algjorlega veruleikafirrtir thad fer enginn a leigur lengur.
Mjög áhugaverðar pælingar.
Ég er upprennandi kvikmyndagerðarmaður sjálfur. Þegar kemur að mínu fagi þá held ég að gallinn sé að flestallir karlkyns handritshöfundar hafa enga hugmynd um hvernig eigi að skrifa fyrir konu. Verst er ástandið í nördakúltúrnum sem ekki einungis er mjög fasískur undir niðri heldur úir og grúir þar af kvenfyrirlitningu eða algjöru skilningsleysi á hlutverki kvenna á handritsstigi.
Persónulega er ég sannfærður um að galdurinn við að skrifa vel hvort sem er fyrir karla eða konur er að hugsa ekki um persónurnar sínar út frá kyni heldur einungis sem manneskjur.
Mig langar að varpa fram þessum spurningum og hver sem er má prófa að svara þeim:
1. Eru karlmenn ófærir með öllu um að skrifa almennilegar rullur handa konum?
2. Eru allar erótískar senur sem karlmenn skrifa klám by definition þar sem þeir hljóta að hlutgera konur í hvert einasta skipti?
Ástæðan fyrir seinni spurningunni er sú að ég hef mikinn áhuga á erótískri cinemu, kannski vegna þess að enginn virðist gera henni almennileg skil í nútímanum. Kúltúrlega séð finnst mér ég vera á Íslandi staddur milli tveggja helvíta. Annars vegar er það útlitsdýrkunar- og yfirborðsmennsku- Miley Cyrus-diskópíkuglimmerpopparaprumpkjaftæði sem er bæði anti-erótískt og er líklega að ýta undir sexual harassment menningu. Hins vegar er mótsvarið við því sem ég vil kalla neó-púritanisma. Það er fólk sem sér klámvæðingu alls staðar, frá legókubbum og upp úr. Skoðanir þess fólks virðast mér ekki lengur vera anti-porn heldur anti-sex. Þau vilja koma á einhvers konar illa skilgreindri siðbót, vera litla virðingu fyrir einstaklingsréttindum og hafa nánast Viktoríanska sýn á hlutina.
Þarna hlýtur að vera hægt að finna einhvern milliveg og því tel ég það vera aðkallandi fyrir alla sem pæla í kúltúr að hugsa aðeins um þessar tvær öfgar sem hann virðist vera togaður í átt að.
Sæll Sveinbjörn, mig myndi langa að reyna að svara spurningum þínum, sem eru skýrar og skorinorðar, en fyrst langar mig aðeins að þú skýrir betur neó-púritanismann sem þú talar um. Bara svo við séum áreiðanlega á sömu bylgjulengd ef við reynum að ræða saman.
Svo ég noti dæmin frá þér, hvar hefur þú séð Legokubba tengda klámvæðingu? Ég hef séð Lego gagnrýnt (að ég tel réttilega) fyrir aumar tilraunir til að koma með „stelpulegó“ þó að í áratugi hafi stelpur alveg gert sér hefðbundnu kubbana að góðu. Sú gagnrýni var engan veginn klámtengd. Einfaldlega gagnrýni á endalausa skiptingu í stelpur annars vegar og stráka hins vegar. Sem á þennan furðulega hátt afmanneskjar kannski stelpurnar. Strákarnir eru normið, stelpurnar eru hitt, eru aðraðar (gerðar að „other“). Þú segir sjálfur að þú viljir skrifa um mannsekjur burtséð frá kyni. Finnst þér svona kerfisbundin skipting þá ekki einmitt trufla það? Gæti verið að sú gagnrýni sé einmitt akkúrat sem þig vantar, til að geta vaxið og dafnað sem kvikmyndagerðarmaður sem getur skrifað handrit þar sem allir eru jafnir, konur og karlar, heteró, hinsegin eða alla vega? Getur verið að þú hafir látið glepjast af áróðri gegn femínistum og teljir óvart allt sem gagnrýnir kynjaskiptingu vera eitthvað púrítanískt og þar með ómarktækt?
Sæl Kristín
Ég skal viðurkenna að það var ónákvæmt af mér að tengja legókubba við klámvæðingu. Það er rétt að legókubbamálið tengdist ekki beinlínis klámvæðingu heldur kynjaskiptingu (ég er sammála því að mér fannst það hallærislegt).
En svo ég snúi mér að meginmálinu. Ég er sammála því sem kom fram í myndbandinu hér að ofan. Það eru ótrúlega fáar myndir gerðar sem fjalla um konur, eru með konum í aðahlutverki og þar sem konur eru skilgreindar út frá öðru heldur en körlum. Mig langar að taka dæmi um tvo kvikmyndagerðarmenn (báðir karlar ef þú fyrirgefur það) sem hafa gjörólíka sýn á konur. Annar hefur fengið á sig mikið skítkast og gagnrýni af menningarvitum og hinn nánast ekki neitt.
Quentin Tarantino hefur í gegnum tíðina gert myndir með sterkum kvenpersónum. Þær eru í aðalhlutverki, þær þurfa ekki á körlum að halda og þær skilgreina sig ekki út frá þeim heldur. Ég vil meina að Tarantino sé feminískur kvikmyndagerðarmaður. Ég er hins vegar nánast sá eini sem held þessari skoðun á lofti. Þar sem hann gerir B-myndir–sleazy, vulgar, in bad taste–þá nýtur hann ekki sammælis fyrir þetta.
Lars von Trier hefur í gegnum tíðina gert myndir með konum í aðalhlutverki. Kvenpersónur hans eiga það hins vegar sameiginlegt að vera masókískir fábjánar. Þær skilgreina sig oftast nær út frá körlum sem þær eru að reyna að þóknast (flest allir karlmenn í myndunum hans eru sadistar) og negla sjálfa sig á krossa sem að þeim er rétt sem fórnardýr fyrir þessa grimmu veröld. Honum er hrósað í hástert af menningarelítunni fyrir myndirnar sínar því þær eru „listrænar“ jafnvel þótt hann sé að mínu mati mannhatari með ansi svæsið kvenhatur í ofanálag við það.
Sem handritshöfundur hlýt ég að skrifa út frá þeirri veröld sem við lifum í, en ekki út frá útópíu. Það er ómögulegt að skrifa handrit þar sem allir eru jafnir af því sú veröld er ekki til auk þess sem það væri dramatískt flatt að gera það. Því er ég ekki alveg viss um að ég skilji hvert þú ert að fara þar. Það sem ég er að meina er að ég held að handritshöfundar geri þá villu að leggja of mikla áherslu á kyn persóna sinna. Kona getur gert allt sem karl getur gert, haft áhuga á öllu því sem karl hefur áhuga á og öfugt o.s.frv.
Svo ég komi nú í lokin að því sem ég vil meina að sé neó-púritanismi. Ég er nokkuð sammála grein sem Eiríkur Örn Norðdahl skrifaði um fólk sem virðist vilja upphefja einhvers konar illa skilgreinda siðbót innan þjóðfélagsins. Hann getur gert því mun betri skil en ég svo ég linka á hann hér: http://norddahl.org/blogg/2013/10/07/trigger-warning-klam-klam-og-klam/
En mín eigin skoðun er að neó-púritanismi hafi risið upp sem afl gegn þeirri klámvæðingu sem fólk heldur að sé í gangi í samfélaginu. Ég er ekki að neita neinni klámvæðingu, hún er til staðar, en ég er ekki sannfærður um að hún sé jafn óheft eins og fólk heldur. Gallinn við neó-púritanismann (innan femínisma) finnst mér vera að hann gagnrýnir nefnilega ekki kynjaskiptingu heldur heldur henni á lofti, bara með öfugum formerkjum. Vegna feðraveldisins eru karlmenn „base“ í eðli sínu og eru í rauninni kynferðisafbrotamenn allir með tölu, sumir af þeim hafa einfaldlega ekki látið til skarar skríða ennþá. Þetta finnst mér allavega vera ein af meginstoðunum í hugmyndakerfi fræðimanna eins og Andreu Dworkin og Gail Dines svo maður taki tvö dæmi. Þessi hugsunarháttur leggur áherslu á skiptingu og sundrungu kynjanna og hefur að mínu mati umhverfst frá anti-porn yfir í anti-sex. Það eru miklu fleiri hliðar á neó-púritanisma en þetta er ein þeirra.
Þetta hefur verið fremur rambling póstur og satt best að segja held ég að mér hafi ekki tekist að gera nógu vel grein fyrir máli mínu að svo stöddu. Ég er hins vegar afar forvitinn að vita hvað þér finnst um þær tvær spurningar sem ég lagði fram.
Svo ég segi það í lokin þá lít ég á mig sem femínista. Ég er alinn upp á feminísku heimili og var kennt það frá blautu barnsbeini að bera virðingu fyrir konum og að þær væru jafnokar mínir í einu og öllu. En ég er einnig libertarian á sama tíma. Ætli ég myndi ekki flokkast sem borgaralegur femínisti heldur en róttækur.
Hæ hæ Sveinbjörn!
Gott að við getum afskrifað legókubbana úr klámvæðingar-neópúrítanisma ásökunum þínum. Leitt hins vegar að þú kemur ekki með nein góð dæmi um þennan meinta neó púrítanisma og þess vegna tel ég mig enn vera nett á annarri blaðsíðu en þú. En ég skal svo sem alveg reyna að fara í þitt „meginmál“ (fyrir mér er það risastór meginmál að fólk hætti að ásaka femínista um púrítanisma, takk).
Þú skrifar:
„Sem handritshöfundur hlýt ég að skrifa út frá þeirri veröld sem við lifum í, en ekki út frá útópíu. Það er ómögulegt að skrifa handrit þar sem allir eru jafnir af því sú veröld er ekki til auk þess sem það væri dramatískt flatt að gera það. Því er ég ekki alveg viss um að ég skilji hvert þú ert að fara þar.“
Ég er ekki „að fara neitt þar“, ég er bara að pæla áfram með þína hugmynd í upprunalega kommentinu um að geta skrifað um konur og karla burtséð frá kyni. Ég var kannski naíf að telja að þú vildir að allir væru jafnir í þessum heimi þar sem kynið skipti ekki lengur máli?
Sem svo reyndar aðeins síðar:
„Kona getur gert allt sem karl getur gert, haft áhuga á öllu því sem karl hefur áhuga á og öfugt o.s.frv.“
Eigum við að byrja að skoða tölur um annað en kvikmyndir? Launamál, kynbundið ofbeldi, almenn lífsþægindi eins og t.d. hvernig fólki líður í almannarými og hverjir verða helst fyrir áreiti þar? O.s.frv. Viltu, kæri Sveinbjörn, í alvöru segja mér bara sisonna, talandi bara um almenna borgara í venjulegu vestrænu samfélagi, að það sem þú þarna heldur fram sé heilagur sannleikur? Að upplifun kvenna sem á hverjum degi allan ársins hring benda á að þetta sé ekki raunin, sé bara uppspuni?
Þú segir sjálfur að þetta sé langt og út um allt hjá þér. Ég missti aðeins þráðinn þarna í síðari hálfleik, þegar þú vísar í skrif Einars Arnar, sem ég las þegar það var birt en var ekki sammála. Við tvö hljótum að geta verið sammála um að reyna, reyna, að taka þetta punkt fyrir punkt. Fyrst bið ég um svar við þessum fyrri hluta þínum. Þá kannski get ég reynt að svara seinni hlutanum. En það svar er reyndar svo viðamikið að kannski verður það heill pistill. En kannski samt ekki. Maður hefur bara svo og svo mikinn tíma.
Ég er hræddur um að við séum að tala á svo ólíkum nótum um allt aðra hluti að ég er satt best að segja orðinn hálf ringlaður af því öllu.
Það sem ég er að tala um eru áherslur í listum og menningu, ekki áherslur í raunveruleikanum. Þegar ég segi að konur geti allt sem karl getur gert o.s.frv. er ég að tala um það út frá listrænum skrifum. Að sjálfsögðu er ég meðvitaður um bágari stöðu kvenna í launamálum, kynbundnu ofbeldi og fleira. Og að sjálfsögðu þarf það að breytast til hins betra.
Upphafleg áætlun mín með pistlinum (sem ég viðurkenni að hafa ekki gert nógu góða grein fyrir) er að brydda upp á umræðu um það hvort listamanninum beri skylda til að gera siðferðislega rétta list og bera þannig samfélagslega ábyrgð. Því er ég ekki sammála enda í hvers nafni og hvers siðferði ætti listamaðurinn að fara eftir. Ég er mjög hrifinn af því sem kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn David Cronenberg hefur sagt um þetta og ætla ég að leyfa mér að birta það hér:
„An artist’s responsibility is to be irresponsible. As soon as you start to think about social or political responsibility, you’ve amputated the best limbs you’ve got as an artist. You are plugging into a very restrictive system that is going to push and mold you, and is going to make your art totally useless and ineffective.“
Ég held því ekki fram að hér ríki nein opinber ritskoðun. Hins vegar held ég að hér á landi, og víðast hvar annars staðar, ríki mikil óopinber ritskoðun. Ég held að listamenn finni fyrir miklum þrýstingi á að sjálfsritskoða sig og sín verk. Þessi þrýstingur kemur frá mörgu (velmeinandi, lang flest af þeim) fólki sem finnst þjóðfélagið vera að sökkva niður í einhvers konar móralskt kviksyndi (hvort sem það er klámvæðing, ofbeldi, spilling o.s.frv.) Þessi innri ritskoðun er dæmi um neó-púritanisma.
En þar sem mig langar að einfalda umræðuna á ný má það bíða betri tíma. Ég vil því brydda upp á nýrri og mikilvægari spurningu sem hver sem er má prófa að svara:
Ber listamanninum skylda til að gera siðferðislega rétta list og bera þannig samfélagslega ábyrgð?
Þessi spurning er vissulega ekki ný af nálinni en alltaf jafn mikilvæg fyrir því.
Ég skal svara þessari síðustu spurningu þinni um skyldu listamannsins með einu orði: Nei.
Því listamanni ber engin skylda til eins né neins. Hver listamaður þarf náttúrulega bara að vinna eftir eigin sannfæringu og/eða þörf til að tjá eitthvað. Og hann þarf að geta staðið undir því að verkið sé greint og gagnrýnt.
Leitt að þú skulir í alvöru halda fast í það sem mér finnst alger fásinna og er hætt að nenna að taka þegjandi: Að spyrða femínisma saman við púrítanisma. En ókei, ef þig langar til að halda bara áfram að vaða í þeirri villu, so be it.
Sæl Kristín
Takk fyrir það. Að lokum vil ég segja að ég tengi fæstan femínisma við neó-púritanisma, einungis þann sem er predikaður af róttækustu anti-porn femínistunum eins og Andreu Dworkin og Gail Dines og þeirra aðdáendum.
Góðar stundir
Nei, listamaðurinn ber ekki ábyrgð nema hann kjósi að axla hana. Tilgangur menningarlegrar gagnrýni er hins vegar að koma á samræðum við listamenn og neytendur listarinnar og Bechdel-prófið er einn mekanismi í slíkri gagnrýni. Það var fundið upp fyrir þrjátíu árum og hefur augljóslega ekki breytt mikli—listamenn kjósa enn að gera myndir í stórum stíl sem hafa ekki fleiri en eina konu sem tala við hverja aðra um eitthvað annað en menn.
En Bechdel-prófið býður ekki upp á gildismat. T.d. er myndin Gravity sem er núna í bíó ekki slæm eða ófeminísk mynd þótt hún standist ekki Bechdel prófið. Það ræðst einfaldlega af því að persónur myndarinnar eru aðeins fjórar, og þar af eru þrjár karlkyns.
Eins fellur myndin Brokeback Mountain á Bechdel-prófinu þar sem engar af hinum nefndu kvenpersónum myndarinnar tala við hver aðra nema um karlpersónur myndarinnar. Það ræðst hins vegar af því að fókus myndarinnar er á ástarsambandi tveggja karlmanna.
Þú nefnir Tarantino. Eldri myndir falla margar á Bechdel-prófinu og nýjar líka, þ.m.t. nýjasta mynd hans Django Unchained (og Inglorious Basterds slefar rétt svo yfir). Þrátt fyrir það á hann margar eftirminnilegar kvenpersónur og hann skrifar konur oft vel. Það vill þó þannig til að kvendrifnu myndirnar hans, Kill Bill 1 og 2 og Death Proof, snúast um gríðarlega ofbeldisfulla hefnd kvenna gegn körlum. Þær eru því langt frá því að vera myndir sem bjóða upp á góðar fyrirmyndir og ef ég ætti dætur gæti ég ekki sýnt þeim þessar myndir fyrr en þær væru töluvert gamlar.
Svo nefnirðu Lars von Trier. Hann skrifar oftar en ekki kvendrifnar myndir, en konur í myndunum hans eru efni í ritgerðir sem ég er ekki fær um að skrifa. Það truflar mig við hans nálgun að mér finnst hann sem karlmaður og höfundur oft skína í gegnum þessar konur og þær öðlast fyrir mér ekki fullkomið líf. Needless to say er ég ekkert svakalegur aðdáandi hans og allra síst á femínískum nótum.
Ég held ég hafi meðfram þessu svarað að karlar eru hreint ekki ófærir um að skrifa konur, þótt auðvitað gangi misvel. Ég get nefnt fjöldan allan af eftirlætum sem eru að miklu eða öllu leyti skrifaðar af körlum, og af því þú nefndir nördaheiminn skal ég halda mig þar: Dory í Finding Nemo, Dórótea og Glinda í Galdrakarlinum í Oz, (og illa drottningin í Return to Oz holy crap!) Cersei drottning og Arya Stark í Game of Thrones, Starbuck, Number Six og Roslin forseti í Battlestar Galactica, Seven of Nine í Star Trek: Voyager og Buffy, Willow og Cordelia í Buffy the the Vampire Slayer/Angel. Þær eru færri nördakvikmyndirnar sem gera þetta vel en eru eflaust til og það er bara of snemma dags fyrir mig að muna eftir þeim.
Loks vil ég detta inn á spurninguna þína um erótískar senur. Mér finnst þær almennt séð illa heppnaðar í velflestum kvikmyndum og líklega út af (ekki neó-) púrítanisma og arfleifð kerfisbundinnar ritskoðunar í bandaríkjunum. Kynlífssenur kvikmynda og sjónvarpsþátta búa systematískt til óraunhæfar væntingar um hvað kynlíf er með óhóflegri glamúríseringu og stílíseringu sem færir þær allar langt í burtu frá einu sinni grennd við að sýna kynlíf eins og það er (eða á að vera, hvernig sem við skilgreinum það). Hér er vandamálið ekki aðeins kvenpersónanna eða karlrithöfundanna, heldur allra. Mér finnst þetta samt eiginlega efni í aðra umræðu á öðrum forsendum og því ætla ég að láta staðar numið hér.
Sæll Kári
Takk fyrir greinargóð svör. Það er fínt að þú nefndir sjónvarpið. Mér finnst mun algengara að finna þar flottar kvenpersónur. Fyrir vestan vinna nánast alllir bestu handritshöfundarnir í sjónvarpi vegna meira frelsis sem þeir njóta þar heldur en í bíómyndum. Pistillinn minn snerist hins vegar um kvikmyndir svo því lét ég sjónvarpið eiga sig en það er fínt að nefna það.
Ég er sammála þínum punkti varðandi erótískar senur. Ástæðan fyrir því hversu ósexý þær eru flestar er held ég einmitt út af púrítanisma og sjálfsritskoðun. Þegar ég tala um neó-púrítanisma er ég að tala um það trend sem mér hefur því miður þótt vera vaxandi á vinstri væng pólitíkurinnar og hefur tekið undir þessa gömlu kröfu hægrimanna að setja einhvers konar siðferðislegan þrýsting á listamenn að þeir geri móralskt rétta list. Að lokum langar mig að vitna í gagnrýnandann Stephanie Zacharek um þessi mál:
Somehow we’ve been brainwashed by the media to believe that contemporary movies are full of sex, that they’re teeming with greased-up, naked bodies getting it on every which way. But alert, astute moviegoers who have been watching movies carefully for the past 20 years or so know that’s hardly true. If anything, there’s less sex (and less nudity) in American movies today than there was 30 years ago. There may be more “sexual content,” if you’re talking about innuendo or the mere act of two people rolling around, gingerly and artfully, on a bed. But sexual content isn’t the same as sex: It’s a construct designed to make adult moviegoers think they’re seeing a representation of real sex, when really all they’re getting is some dumb and decidedly unsexy postmodern signifier in the form of, say, an actress with a sheet discreetly wrapped around her bosom — and who wants to get into bed with that?
Góðar stundir