Höfundur: Jackson Katz
Frá ritstjórn: Fyrirlesturinn hér að neðan var fluttur á TED í nóvember 2012. Texta fyrirlestrarins á ensku má finna með því að fara hingað og velja tungumál af hnappinum „Show transcript“ undir myndbandsglugganum. Titill fyrirlestrarins á frummálinu er: „Violence against women – it’s a men’s issue.“
Halla Sverrisdóttir þýddi fyrirlesturinn og stytti lítillega.
—
Mig langar að deila með ykkur nýrri sýn á helstu viðfangsefnin á sviði kynbundins ofbeldis – kynferðisbrota, heimilisofbeldis, misnotkunar í samböndum, kynferðislegri áreitni og kynferðisofbeldis gegn börnum – sem hefur að mínu mati gerbreytt öllum færibreytunum í þeirri orðræðu.
Þessi viðfangsefni, sem ég set undir einn hatt og kalla „kynbundið ofbeldi“, hafa hingað til verið talin vandamál kvenna – vandamál sem einhverjir vel innrættir „öðlingar“ hafa stundum tekið þátt í að vinna með, en þetta er nálgun sem ég neita að samþykkja. Ég get ekki litið á þessi mál sem „kvennamál“ sem einhverjir góðhjartaðir karlar hjálpa konunum við að leysa. Ég held því þvert á móti fram að þetta séu í raun fyrst og fremst „karlamál“. Að kalla kynbundið ofbeldi „kvennamál“ er, margra hluta vegna, hluti af vandamálinu.
Í fyrsta lagi vegna þess að það gefur körlum átyllu til að nenna ekki að spá í þetta. Margir karlar heyra hugtakið „kvennamál“ og hætta þá að hlusta og hugsa bara „Hey, ég er gaur, þetta er eitthvað fyrir stelpurnar.“ Þetta á reyndar líka við um orðið „jafnrétti kynjanna“, því fyrir mörgum gerir orðið „kynjanna“ jafnréttismál að kvennamáli. Merking orðsins „kyn“ hefur skolast talsvert til.
Það sama á reyndar við um önnur félagsleg vandamál. Þegar minnst er á „kynþátt“ upplifa margir Bandaríkjamenn það sem svo að það merki „aðrir en hvítir“. Umræða um „kynhneigð“ hlýtur þannig líka að snúast um homma, lesbíur, transfólk. Og umræða um „kyn“ hlýtur að snúast um konur. Og um leið og þetta gerist, þurrkum við þann hóp sem er í raun ríkjandi út úr jöfnunni. Ekki satt? Eins og hvítir hafi ekki kynþáttarsjálfsmynd, eins og það sé ekki kynhneigð að vera gagnkynhneigður, eða það sé ekki kyn að vera karlmaður. Þetta er ein aðferðanna sem ríkjandi valdakerfi notar til að viðhalda stöðu sinni og eitt helsta einkenni valda og forréttinda, þessi tilhneiging til að forðast gagnrýni, sjálfsrýni og verða um leið nánast ósýnilegt í allri orðræðu um mál sem fjalla þó í raun um lykilþætti þess sama kerfis. Og það er magnað að sjá þetta í verki í umræðu um heimilisofbeldi, þar sem karlar hafa að mestu leyti verið þurrkaðir út úr orðræðu þar sem karlar ættu að vera miðlægir.
Ég er kennari að upplagi og ætla að gefa ykkur sýnidæmi sem byggir á setningafræði hugsunarháttar okkar og hvernig við notum tungumálið bókstaflega til að beina athyglinni frá körlum. Í dæminu er fjallað um heimilisofbeldi en það má heimfæra það upp á hliðstæð efni. Dæmið er úr smiðju femíníska málvísindamannsins Julia Penelope.
Við byrjum á einfaldri setningu: Jón barði Maríu. Þetta er góð og gild setning. „Jón“ er frumlagið, „berja“ er umsögnin og „María“ andlagið. Í næstu setningu er sami hluturinn sagður: María var barin af Jóni. En nú hefur áherslan færst frá Jóni yfir á Maríu og Jón er kominn aftast í orðaröðina. Í þriðju setningunni er Jóni alveg sleppt og þá segjum við: María var barin. Nú er þetta farið að snúast alfarið um Maríu. Jón er ekki einu sinni með í leiknum. Í fjórðu umferð verður til setning sem er svona: María er kona sem var barin. Og þá erum við búin að skilgreina Maríu alfarið út frá því sem Jón gerði í fyrstu setningunni. En eins og sjá má er Jón löngu á bak og burt.
Þau okkar sem starfa á sviði heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis vita að þolendasekt er viðvarandi vandamál, þ.e. það að skella skuldinni af ofbeldinu á þolandann, fremur en gerandann. Af hverju eru þessar konur í slagtogi við svona karla? Af hverju snúa þær aftur til þeirra? Hvernig var konan eiginlega klædd í partíinu? Af hverju var hún að djamma og drekka með þessum hópi karla á þessum stað? Fyrir þessu eru ýmsar ástæður og ein þeirra er sú að allt hugmyndakerfi okkar byggir á því að áfellast þolandann. Þetta gerist ómeðvitað. Hugmyndakerfi okkar snýst um að spyrja spurninga um konur, um ákvarðanir þeirra og gjörðir, hugsunarhátt og atferli. Ég ætla ekki að afskrifa umyrðalaust alla sem spyrja spurninga um gjörðir kvenna. Það er ekkert bannað. En höfum eitt á hreinu: við komum ekki í veg fyrir ofbeldi Jóns með því að yfirheyra Maríu.

Heimilisofbeldi í raun. Úr myndaröðinni A Portrait of Domestic Violence e. Sara Naomi Lewkowicz
Af hverju lemur Jón Maríu? Af hverju er heimilisofbeldi enn alvarlegt vandamál í Bandaríkjunum? Af hverju grípa svona margir karlmenn til líkamlegs, andlegs og kynferðslegs ofbeldis gegn konum, stúlkum, körlum og drengjum sem þeir þó segjast elska? Hvað er í gangi hjá karlmönnum? Af hverju berast daglega nýjar fréttir um hneyksli innan stórra samfélagsstofnana eins og Kaþólsku kirkjunnar eða Penn State eða Skátahreyfingarinnar í Bandaríkjunum? Og úr nærsamfélögum víða um landið? Af hverju nauðga svona margir karlar – konum, börnum, öðrum karlmönnum? Og hvaða hlutverki gegna þær mörgu stofnanir samfélagsins sem í raun ala af sér karlmenn sem beita ofbeldi, og það í faraldsfræðilegu umfangi?
Þetta snýst nefnilega ekki um ofbeldismenn sem einstaklinga. Þetta er mun kerfislægara vandamál. Gerendurnir eru ekki skrímsli sem skríða upp úr einhverju feni og fremja ódæði og hverfa svo aftur til síns heima. Það væri einfeldningsleg ályktun. Þá spyr ég: Hvað erum við að gera í samfélagi okkar og um heim allan? Hvaða hlutverki gegna samfélagsstofnanir, trúfélög, íþróttafélög, klámiðnaðurinn, fjölskyldueiningin og hagkerfið og hvernig skarast þau hlutverk? Hver er samverkun alls þessa?
Þegar við byrjum að skoða þessi tengsl og spyrja þessara spurninga getum við farið að ræða saman, þá getum við spurt: Hvernig breytum við félagsmótun drengja og þeirri skilgreiningu á karlmennsku sem hefur leitt til ríkjandi ástands? Við komumst aldrei að þeim spurningum á meðan við horfum bara á konur og hvað þær eru að gera og hugsa, í samböndum eða á öðrum sviðum samfélagsins.
Nú er mér ljóst að konur sem hafa reynt að opna þessa umræðu, fyrr og nú, hafa árum saman verið öskraðar í kaf og kallaðar „karlahatarar“ og „karlfjandsamlegar“, svo ekki sé minnst á það viðurstyggilega orð „femínasisti“. Þetta þekkja allir, ekki satt? Þetta kallast að skjóta sendiboðann. Okkur líkar nefnilega ekki að láta stugga við okkur. Við viljum ekki láta efast um vald okkar. Svo sestu bara niður og steinhaltu kjafti. Til allrar hamingju hafa konur ekki hlýtt því.
Karlar hafa hins vegar mikilvægt hlutverk í þessu starfi, sem grundvallast á því að við, karlarnir, getum sagt ýmislegt sem konur fá ekki að segja – eða öllu heldur, þegar við segjum ákveðna hluti er hlustað á okkur þótt margir daufheyrist við sömu hlutunum af vörum kvenna. Þess vegna segi ég við karla, við samstarfsfólk mitt: Við þurfum fleiri karla sem hafa hugrekki til að standa upp, taka sér stöðu við hlið kvenna og hætta að láta eins og þetta sé eitthvað kynjastríð. Eitt af því sem er ljótast við gagnrýnina á femínista og þær konur sem hafa byggt upp og starfrækt kvennaathvörf og stuðningshópa fyrir þolendur kynferðisofbeldis er þegar þeim er gert það upp að vera á móti karlmönnum. Vitið þið hvað? Kerfið sem býr til karla sem beita konur ofbeldi býr um leið til karla sem beita aðra karla ofbeldi. Tölum aðeins um karlkyns þolendur. Flestir karlmenn sem eru beittir ofbeldi verða fyrir því af hendi annarra karlmanna. Þetta eiga karlar og konur sameiginlegt: Að vera þolendur ofbeldis af hálfu karlmanna. Að draga úr ofbeldi karla er hagsmunamál okkar allra.
Í störfum mínum og starfsfélaga minna innan íþróttafélaga og í bandaríska hernum og í ýmsum skólum þróuðum við nálgun sem við köllum áhorfendanálgunina við forvarnir gegn ofbeldi.
Þessi nálgun felur í sér veigamikla þematíska breytingu. Kjarninn er að í stað þess að skilgreina karla eða konur sem gerendur eða þolendur beinum við sjónum okkar að því sem við köllum áhorfandann, sem er hvaða einstaklingur sem er, sem er ekki gerandi eða þolandi – vinur, liðsfélagi, vinnufélagi, fjölskyldumeðlimur, hver sá sem á ekki beina aðild að ofbeldinu en er þó hluti af þeirri félagslegu samverkan og því jafningjasamfélagi sem ofbeldið á sér stað í. Hvernig bregst áhorfandinn við? Hvernig lætur hann í sér heyra? Hvernig getur hann andmælt vini sínum, gerandanum, eða stutt vin sinn, þolandann? Hvernig hættir hann að standa þögull hjá þegar ofbeldi er beitt?
Þegar karlar og karlamenning eru annars vegar snýst þetta um að fá karla sem ekki beita ofbeldi til að rísa gegn þeim sem það gera. Við þurfum að fá karlmenn til að trufla hvern annan við að tala eins og ofbeldismenn. Ef þú ert strákur og ert að hanga með vinum þínum og einhver þeirra segir eitthvað niðrandi um konur eða brandara sem felur í sér kvenhatur þarftu að hætta að hlæja með eða láta eins og ekkert sé. Þú þarft að segja: Gætirðu sagt brandara um eitthvað annað? Þetta gæti verið systir mín, vinkona mín, mamma mín. Mér er illa við svona tal.
Því sá sem segir ekkert, er hann ekki óbeint að samþykkja hatursorðræðuna?
Með áhorfendanálguninni reynum við að þjálfa fólk í að grípa inn í þetta ferli, trufla það, og skapa jafningjamenningu þar sem ofbeldisfull hegðun er óásættanleg og ekki liðin í þessum jafningjahópi. Ef við búum til andrúmsloft þar sem einhver setur niður við að sýna af sér kvenfyrirlitningu getur það ekki annað en dregið úr ofbeldinu. Vegna þess að dæmigerður gerandi er hvorki sjúkur né afbrigðilegur. Hann er bara venjulegur gaur.
Eitt af því eftirminnilegasta sem Martin Luther King sagði var þetta: „Þegar upp er staðið eru það ekki orð óvina okkar sem særa mest, heldur þögn vina okkar.“ Það hefur verið ærandi þögn innan karlamenningarinnar um þann endalausa harmleik sem er ofbeldi karla gegn konum og börnum, ekki satt? Við þurfum að rjúfa þessa þögn og við þurfum karla til að gera það.
Þetta er hægara ort en gert. Ég stend hér núna og segi þetta en í karlasamfélagi er erfitt fyrir stráka að mótmæla öðrum strákum. Þess vegna er þetta líka spurning um leiðtogafærni karla. Ábyrgðin á andófinu ætti auðvitað ekki að vera í höndum smástráka eða háskólanema heldur fullorðinna karla, karla með völd. Þá karla eigum við að kalla til ábyrgðar því þeir eru leiðtogar á sínu sviði. Við þurfum að fá fleiri fullorðna karlmenn með völd til að setja þessi mál í forgang, en það ætlar að verða einhver bið á að það gerist.
Í veislu fyrir nokkrum árum sagði kona við mig: „Og hvað hefur þú starfað lengi að vitundarvakningu innan hersins?“ Og ég svaraði: „Ég verð að leiðrétta þig, ég er ekki að þjálfa hermenn í vitundarvakningu. Ég vinn við leiðtogaþjálfun innan hersins.“ Þetta hljómar kannski svolítið stórkarlalega en það er mikilvægt að gera greinarmun á þessu. Ég starfa líka mikið með íþróttafélögum og reynsla mín er sú að ef þjálfari eða liðsstjóri segir eitthvað opinberlega sem er niðrandi um konur, eða samkynhneigða, eða fólk af öðrum kynþáttum verður fjölmiðlafár. Og þá segir kannski einhver: Þessi maður þarf vitundarvakningu. Þá svarar kannski einhver: Æ, látið ekki svona, ekki bilast af rétthugsun, hann lét bara eitthvað heimskulegt flakka. Tölum um eitthvað annað.
Þá segi ég: Þessi maður þarf enga vitundarvakningu, hann þarf leiðtogaþjálfun. Hann er slæmur leiðtogi vegna þess að við búum í samfélagi með fólki af margs konar kynjum, kynhneigðum og kynþáttum og sá sem talar svona er fallinn á leiðtogaprófinu.
Í íþróttafélögum í bandarískum háskólum vita allir að það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi, eða hvað? Engin afsökun er til fyrir því að vera ekki með forvarnarþjálfun gegn kynferðisofbeldi eða heimilisofbeldi sem skyldu fyrir alla íþróttamennina, þjálfarana, stjórnendurna. En það vantar leiðtogafærnina. Ekki leiðtogafærni ungu íþróttamannanna, nemendanna, heldur stjórnenda félaganna, rektora háskólanna, þeirra sem eru við stjórn og taka ákvarðanir um nýtingu fjármagns og forgangsröðun innan sinna stofnana. Þarna eru karlmenn, í langflestum tilvika, að bregðast sem leiðtogar.
Auðvitað er til fullt af karlmönnum sem er mjög umhugað um þetta. Ég veit það, ég starfa með karlmönnum og hef gert áratugum saman. Það er bara ekki nóg að vera mjög umhugað um eitthvað. Við þurfum fleiri karlmenn sem þora að rísa upp, taka sér stöðu við hlið kvenna.
Konur eiga skilið að við gerum það, um það efast enginn. En synir okkar eiga það líka skilið. Við þurfum að gera þetta fyrir unga karlmenn sem eru að vaxa úr grasi í kringumstæðum þar sem þeir völdu ekki sjálfir að vera karlmenn í karlamenningu sem skilgreinir karlmennsku fyrir þá á tiltekinn hátt.
Von mín er sú að með framsækni og samstarfi karla og kvenna getum við byrjað þetta breytingaferli, til að komandi kynslóðir þurfi ekki að ganga í gegnum þær hörmungar sem við stöndum frammi fyrir á degi hverjum.
Ég veit að við getum það. Við getum gert betur.
—
Jackson Katz er bandarískur kennari, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður. Hann hefur þróað forvarnar- og upplýsingakerfi gegn kynbundnu ofbeldi sem kallast Mentors in Violence Prevention (Leiðtogar í forvörnum gegn ofbeldi), sem hefur verið notað innan bandaríska hersins og hjá ýmsum íþróttafélögum.
Ég er ennþá ekki með á hreinu hvað kynbundið ofbeldi er. Er það ofbeldi þegar
a) einhver beitir annan af öðru kyni ofbeldi, alltaf eða
b) þegar einhver beitir annan ofbeldi vegna þess kyns sem viðkomandi hefur óháð því hvort að gerandi sé af sama kyni eða ekki.
Sæll Haukur
Til ađ svara spurningu thinni ad tha eru bædi a og b rett. Thad fer eftir hverjit eiga i hlut og hvad hentar feministum best hverju sinni…..enda serdu ad enginn feministi hefur haft fyrir thvi ad svara ther.
Petur
Reyndi að birta þessa athugasemd fyrr í dag, en fékk villuathugasemd. Biðst forláts ef þetta birtist tvisvar:
Hvað með ofbeldi í lesbískum samböndum? Hér er samantekt um margar góðar rannsóknir um það efni: „About 17-45% of lesbians report having been the victim of a least one act of physical violence perpetrated by a lesbian partner“.
Hér má lesa meira: http://www.musc.edu/vawprevention/lesbianrx/factsheet.shtml
Heldur það vatni að karlar séu á einhvern hátt, allir sem einn, ábyrgir fyrir kynbundnu ofbeldi, þegar þessar tölur eru skoðaðar?
„In May, 2007, researchers with the Centers for Disease Control reported on rates of self-reported violence among intimate partners using data from a 2001 study. In the study, almost one-quarter of participants reported some violence in their relationships. Half of these involved one-sided („non-reciprocal“) attacks and half involved both assaults and counter assaults („reciprocal violence“). Women reported committing one-sided attacks more than twice as often as men (70% versus 29%). In all cases of intimate partner violence, women were more likely to be injured than men, but 25% of men in relationships with two-sided violence reported injury compared to 20% of women reporting injury in relationships with one-sided violence. Women were more likely to be injured in non-reciprocal violence.[citation needed]
Straus argues that these discrepancies between the two data sets are due to several factors. For example, Straus notes that crime studies use different methodologies than family conflict studies.[36] Additionally, Straus notes that most studies show that while men inflict the greater portion of injuries, women are at least as likely as men to shove, punch, slap or otherwise physically assault their partner, and that such relatively minor assaults often escalate to more serious assaults. Men generally do not report such assaults if asked general questions about violence or abuse; older studies frequently failed to ask about specific actions, thus falling afoul of quite different cultural gender norms for what constitutes abuse. Minor assaults perpetrated by women are also a major problem, even when they do not result in injury, because they put women in danger of much more severe retaliation by men.[citation needed]“
Kannski allt í lagi að hugsa um þetta sem samfélagslegt vandamál staðin fyrir að reyna að kyngera ofbeldi og benda bara á annað kynið.
Voðalega finnst mér feministar alltaf smekklegir í sinni umræðu.
Tek það fram að ég hef verið kýldur einu sinni og sleginn líklega um 3-4 skipti af kvennmanni.
Ég slóg eitt skipti til baka, hin skipti forðaði ég mér. (Þá var ég búin að vara einstaklingin við þegar ég sá hvert stefndi og hún sló mig samt).
Núna er ég nokkuð viss um að nánast hver einasti feministi hérna inni hugsar strax „hvað gerði hann af sér“ eða „hann hefur farið með hendurnar eitthvað sem hann átti ekki að gera á djamminu“…
Þetta væri auðvitað viðbjóðsleg hugsun, en bara ef við snúum kynjunum við ekki satt ?
Bakvísun: Harmleikjavæðing ofbeldis | *knúz*
Bakvísun: Uppskeruhátíð hvítra millistéttarkvenna í Malmö | *knúz*