Vísindaleg sannindi og femínískar mýtur

Höfundar: Anne Boschini, Astri Muren, Mårten Palme og Mats Persson
Þýðing og aðfararorð: Gylfi Ólafsson

 

femínismi orðab.skýring

Nýlega var gefin út bókin Sex femínískar mýtur eftir sænska verkfræðinginn Pär Ström. Bókina þýddi Sigurður Jónsson og hún er aðgengileg til ókeypis niðurhals á vef sem Sigurður heldur úti, forrettindafeminismi.com.

Sex femínískar mýtur hlaut slæma dóma í Svíþjóð þegar hún var gefin út. Árið 2011 skrifuðu þannig fjórir þekktir hagfræðingar við Stokkhólmsháskóla greinina Vetenskapliga sanninger og feministiska myter og birtu í hagfræðitímaritinu Ekonomisk debatt, en í greininni var bókinni gefin falleinkunn

Ég sendi skeyti til Sigurðar, þar sem ég lagði að honum að lesa greinina (hann kynni augljóslega sænsku) og skrifa um hana smá innlegg. Þá bauðst ég til að skrifa nokkrar línur ef hann hefði ekki tíma eða áhuga á. Ekkert svar barst.

Hagfræðingarnir fjórir, Anne Boschini, Astri Muren, Mårten Palme og Mats Persson, draga niðurstöður sínar saman á þann hátt að á mörgum stöðum byggi bók Ströms á veikum grunni, hann velji úr talnagögn og tilvitnanir sem henta málstað hans og einfaldi þannig veruleikann sem er mun flóknari en hann vill vera láta.

Hér fyrir neðan er greinin birt þýdd með góðfúslegu leyfi höfunda. Hún hefur verið stytt á stöku stað og vísanir í heimildir hafa verið felldar út. Kaflaheitin eru tekin upp úr þýðingu Sigurðar Jónssonar sem og nokkrar af beinum tilvitnunum greinarinnar.

 

* * *

Í vor [2011] kom út bók sem merkilegt nokk hefur ekki skapað mikla málefnalega umræðu heldur frekar skrif full reiði (eða hrifningar) frá ýmsum álitsgjöfum. Bókin heitir Sex femínískar mýtur og er eftir verkfræðinginn og tölvusérfræðinginn Pär Ström. Markmiðið með bókinni er í hæsta máta lofsvert. Ström vill dýpka umræðuna um stöðu karla og kvenna í samfélaginu, umræðu sem samkvæmt honum hefur bjagast og fjarlægst raunveruleikann síðustu ár. Hann telur hreyfingu femínista hafa tekist að sá ósönnum mýtum um kynin, einkenni þeirra og stöðu í samfélaginu. Þeim hafi tekist að vera fyrri til við að skilgreina vandamálin og náð þannig forskoti í umræðunni. Réttindi og staða kynjanna eru vitanlega mikilvæg. En tekst Pär Ström að dýpka umræðuna eða kemur hann einungis með einfaldar fullyrðingar eins og meintir andstæðingur hans?

Bókinni er skipt upp í sex kafla, sem hver fjallar um eina meinta femíníska mýtu, þar sem mýtunni er lýst og hún hrakin með ýmsu efni sem er aðgengilegt. Mýturnar eru:

 • Ólík kyn eru afleiðing félagsmótunar
 • Konur fá lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu
 • Það er konum erfiðara að ná starfsframa
 • Karlar eru almennt gerendur í ofbeldismálum, konur þolendur
 • Konur vinna tvöfalt starf
 • Konur fá verri heilbrigðisþjónustu en karlar

 

1. Ólík kyn eru afleiðing félagsmótunar

Síða úr nýlegri bók fyrir yngri börn

Síða úr nýlegri bók fyrir yngri börn

Samkvæmt Pär Ström má lýsa hinu femíníska sjónarhorni svo: það er enginn líffræðilegur munur milli kvenna og karla og sá munur sem við getum séð, að minnsta kosti hvað varðar hegðun, er afleiðing félagslegrar mótunar og kynhlutverka. Þessi hugsun er gjarnan rakin til franska heimspekingsins Simone de Beauvoir („Maður fæðist ekki sem kona, maður verður kona“) og Ström dregur upp töluvert af rannsóknum í líffræði og læknisfræði sem bendir til þess að víst sé munur á körlum og konum.

Hér notar Ström gamalt mælskubragð; hann býr til mynd af andstæðingi sem er ekki til og gerir þessum andstæðingi upp öfgakenndar skoðanir. Enginn heldur því fram af alvöru að allur munur á körlum og konum sé vegna félagsmótunar.

Í lok kaflans lætur Ström þó mælskulistina vera og skoðar dreifni greindar hjá körlum annarsvegar og konum hinsvegar. Samkvæmt honum er þar að finna hreinan líffræðilegan mun: menn og konur eru með sömu meðalgreind en dreifni greindar er meiri meðal karla. Af því leiðir að meðal karla eru bæði fleiri greindarskertir og fleiri afburðagreindir, á meðan konur dreifast þéttar kringum miðgildi greindarskalans. Þetta viðhorf varð þekkt í fjölmiðlum árið 2005 þegar þáverandi rektor Harvard-háskóla, Lawrence Summers, hélt því fram að ein skýring þess að fáar konur væru prófessorar í náttúruvísindum og tæknigreinum við toppháskólana væri að greind karla og stærðfræðifærni hefði meiri dreifni en hjá konum.

Þessi yfirlýsing Summers vakti hörð viðbrögð og síðustu fimm árin hefur þetta verið töluvert rannsakað. Myndin er tvískipt. Sumir vísindamenn hafa séð meiri dreifni greindar karla, óháð landi og menningu. Þetta væri þá til stuðnings því sem Pär Ström heldur fram. Aðrir rannsakendur hafa þó komist að andstæðri niðurstöðu: það forskot sem karlar hafa er háð stað og tíma, sem mælir gegn því að líffræðilegir þættir liggi að baki. Sérstaklega virðist sem það aukna hlutfall stráka meðal þeirra sem eru góðir í stærðfræði hverfi þegar jafnrétti kynjanna eykst.

Hugmyndin um að karlar sýni meiri dreifni, bæði upp og niður, er heillandi og hefur líklega verið til lengi. En að þetta sé nokkuð sem einungis sé hægt að rekja til líffræðilegra þátta, eins og Ström heldur fram, er ekki almennt viðtekin skoðun meðal fræðimanna.

2. Konur fá lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu

Til að kveða niður þessa mýtu byrjar Ström kaflann á góðri umræðu um hvað laun séu í raun og veru. Hann bendir á að ekki sé hægt að bera saman tekjur beint; leiðrétta þurfi fyrir vinnutíma (að gefinni þeirri forsendu að starfsmaðurinn geti valið vinnutímann sjálfur). Sömuleiðis þurfi að taka tillit til reynslu og menntunar auk illmælanlegra þátta, svo sem eðlis starfsins, erfiðleikastigs þess og svo framvegis. Aðeins þegar gert hafi verið ráð fyrir þessu og munur sé enn til staðar sé hægt að tala um kynbundinn launamun. En síðan kemst Ström ekki mikið lengra.

Í staðinn vitnar hann til fjölmargra skýrslna frá ýmsum atvinnurekendasamtökum. Þessi samtök eru öll samhljóma: meðlimir þeirra mismuna ekki kvenkyns starfsfólki sínu.

Þetta hljómar nú vel — en er það trúlegt að samtök atvinnurekenda myndu segja nokkuð annað um meðlimi sína? Merkilegt nokk spyr Ström ekki þessi samtök út í málið.

Síðan gerir Ström grein fyrir rannsókn Meyerssons og Petersens frá 1997 sem náði til fjölda starfsfólks á almennum vinnumarkaði með nákvæmum upplýsingum um vinnustað og starfsskyldur. Rannsóknin er mjög metnaðarfull. Með því að greina gögnin komast höfundar hennar að því að kynbundinn launamunur sé frekar lítill. Ström vitnar í eina setningu úr rannsókninni þar sem stendur „bein launamismunun er ekki lengur vandamál.“

Þessi tilvitnun er ekki dæmigerð fyrir efni greinarinnar. Í fyrsta lagi sýna Meyersson og Petersen að beinn launamunur sé síður en svo horfinn: fyrir meðlimi LO [Alþýðusambandsins sænska] sé óútskýrður launamunur 1,5% og fyrir starfsmenn hins opinbera 5% (tölur fyrir 1990). Það er vitanlega hægt að segja að lítill munur sé ekki lengur vandamál — en hann er þarna samt sem áður. Í öðru lagi geta þessar tölu bæði van- eða ofmetið hinn raunverulega launamun. Eitt dæmi um ástæðu fyrir því að launamunur sé til staðar er til dæmis að vilji vinnuveitandi greiða starfsmanni hærri laun, getur sá fyrrnefndi gefið starfsmanninum ábatasamara starfsheiti, án þess að það hafi áhrif á starfsskyldur. Þá teljast karlar og konur til mismunandi starfshópa og „óútskýrður“ launamunur verður enginn. Dæmið sýnir hve erfitt það er að greina hvað séu raunverulega sambærileg störf.

Meyersson og Petersen benda á í grein sinni að „sömu laun fyrir sömu vinnu“ (ef það er þá mælanlegt) útiloka ekki endilega ójöfnuð á vinnumarkaðnum. Kvenkyns forstjórar fá kannski sömu laun og karlkyns forstjórar — en mjög fáar konur fá þessi störf. Ójöfnuðurinn liggur því í möguleikum kynjanna til starfsframa fremur en ákvörðun launa. Ástæður og afleiðingar þessara mismunandi starfsferla kynjanna eru víða undir smásjá hagfræðinga víða um heim. Ström gefur hinsvegar í skyn að rannsóknin sem hann vísar til sé lokaorðið. Því fer víðs fjarri.

 

3. Það er konum erfiðara að ná starfsframa

Kona rekst á "glervegg" í nýlegri auglýsingaherferð frá VR

Kona rekst á glervegg í nýlegri auglýsingaherferð frá VR

Í þessum kafla snýr Pär Ström sér að þeirri útbreiddu skoðun að til sé svokallað glerþak sem geri konum erfiðara fyrir að ná til metorða í samfélaginu — með öðrum orðum, að konur verði fyrir misrétti í samkeppninni um hæst launuðu störfin. Hann heldur því fram í staðinn að hátt hlutfall kvenna í lægri þrepum launastigans megi skýra með að konur hafi minni áhuga á starfsframa. Margt er hægt að segja um þetta. Til dæmis er engin mótsögn í tilvist misréttis og kynbundins vals: konur geta verið misrétti beittar þó þær séu að jafnaði viljugri til að vinna minna en karlar.

Hvernig er þá hægt að vita að hve miklu leyti skortur á konum í hæstu stöðum stafi af persónulegu vali þeirra sjálfra og hversu mikið af misrétti? Eins og ævinlega þegar val einstaklinga hefur áhrif á þau gögn sem til skoðunar eru, er afar erfitt að greina á milli með áreiðanlegum hætti. Það er hægt að spyrja fólk hvað því finnist; Pär Ström vitnar í fjölda stjórnenda fyrirtækja og þeir segjast aldeilis ekki setja konum stólinn fyrir dyrnar — þvert á móti. Sem vísindaleg aðferð er þetta ekki sérlega sannfærandi.

Þrátt fyrir stórar aðferðafræðilegar áskoranir á þessu sviði (hvernig er hægt að vita hvort hægur framgangur í starfi er vegna vals eða ytri hindrana?) verður að segjast að þær vísindalegu rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til að kynbundin mismunun sé til staðar.

Þekkt dæmi frá Svíþjóð er Wennerås og Wold (1997) sem sáu að kvenkyns umsækjendur um rannsóknarstyrki voru ólíklegri til að hljóta styrk. Sannfærandi rannsókn Goldins og Rouse (2000) greinir áhrif breyttra aðferða við val á umsækjendum í bandarískar sinfóníuhljómsveitir. Þegar valnefnd fékk ekki að vita kyn umsækjenda (tónlistarmennirnir spiluðu bakvið ógegnsætt tjald) voru fleiri konur ráðnar en fyrir breytinguna. Báðar rannsóknirnar eru áhugaverðar vegna þess að ekki var um að ræða mun í vali karla og kvenna; allir höfðu sótt um annarsvegar rannsóknarstyrkina og hinsvegar stöðu sinfóníutónlistarmanns. Tilhneiginguna til að ráða tiltölulega fáar konur (eða veita þeim færri styrki) þegar þær voru kyngreinanlegar er því ekki hægt að skýra með vísan í eigið val kvenna.

Rannsóknir á möguleikum til starfsframa eru einnig markaðar aðferðafræðilegum vandkvæðum. Í því ljósi er kannski áhugavert að spyrja fræðimenn hvað þeim finnst, jafnvel þó þeir geti ekki vitað nokkuð með vissu. Pär Ström tekur þá stefnu: hann spyr fólk hvað það haldi.

Við viljum þó halda fram að val hans á viðmælendum sé einhliða. Tveir viðmælendur sem hann af einhverri ástæðu valdi að ræða ekki við eru Eva Meyersson og Trond Peterseon, sem Pär Ström vísaði jú til sem sérfræðinga í kafla 2. Þau hafa nefnilega einnig skrifað um hið svokallaða glerþak sem finna má þegar kemur að starfsframa kvenna. Nú vill svo til að skoðun þeirra er sú að glerþakið sé til og að það sé ekki hægt að skýra tilvist þess nema að hluta með vali kvennanna sjálfra, heldur einfaldlega með mismunun. Af einhverri ástæðu ákveður Ström að vitna ekki til þessarra fræðimanna — og það getur ekki verið vegna þess að hann telji þá vera óáreiðanlega og illa innrætta fulltrúa hinnar feminísku hreyfingar. Í kaflanum á undan voru jú Meyersson og Petersen áreiðanlegir sérfræðingar sem vert var að taka alvarlega.

 

4. Karlar eru almennt gerendur í ofbeldismálum, konur þolendur

Í kafla 4 segir Pär Ström að ofbeldi gegn konum steli athyglinni í opinberri umræðu frá hinum raunverulegu fórnarlömbum, sem samkvæmt honum eru karlar. Rökin byggjast á gögnum frá BRÅ [Sænskrar forvarnarmiðstöðvar gegn glæpum], sem sýna að 60% þeirra sem verða fyrir líkamlegu ofbeldi séu fullorðnir karlar. Ef allar gerðir ofbeldis eru lagðar að jöfnu, og ekki er tekið tillit til líkamlegrar getu til að bera hönd fyrir höfuð sér, er hér góð ástæða til að líta á karla sem stærsta hóp brotaþola. En þetta er náttúrulega gróf einföldum á raunveruleikanum. Karlar og konur verða að jafnaði fyrir ólíkum tegundum ofbeldis. Karlar verða fyrir ofbeldi utanhúss og ofbeldismaðurinn þekkir sjaldan til fórnarlambsins, á meðan konur verða fyrir ofbeldi innan heimilisins, af hendi einhvers nákomins. Það er erfitt að meta hvort kynið þjáist mest vegna þessa ofbeldis, en eigi að draga einhverja ályktun er best að hún sé byggð á bestu tiltæku gögnum. Rannsókn BRÅ frá 2009, þar sem viðtöl voru tekin við slembiúrtak meðal sænsks fullorðins fólks (35.000 voru spurðir á þriggja ára tímabili), ætti að gefa góða mynd af stöðunni. Eins og Ström réttilega bendir á er niðurstaðan sú að ofbeldi sem beint er gegn konum er oftar endurtekið, er jafnan grófara og hefur meiri neikvæð áhrif fyrir þolandann.

Einnig er hægt að spyrja sig hvort það ofbeldi sem konur beita sé virkilega jafn algengt og Pär Ström heldur fram. Snögg skoðun á tölulegum gögnum sýnir að dómstólar deila ekki þessari sýn hans. Árið 2010 voru karlar gerendur í 94% grófra ofbeldismála. Af þeim sem eru grunaðir um einhverja tegund ofbeldisbrots eru karlar 80%. Karlar berja því ekki bara konur, þeir berja einnig aðra karla og eru valdir að grófasta ofbeldinu. Ström velur stakar setningar úr viðtali við fulltrúa BRÅ („Þrjár af hverjum fjórum konum sem beita ofbeldi notast við barefli. Það sama gerir þó aðeins einn af hverjum þremur körlum“. [Þýðing SJ, s. 40]) og notar þær til að sýna fram á að ofbeldi kvenna sé víðtækt. Það er enn eitt dæmi um bjagað og ósanngjarnt val Pärs Ström á gögnum og rannsóknarniðurstöðum.

Okkur sýnist hann reyna í þessum kafla að snúa upp á talnagögn til að búa til þá mynd að konur séu hreint ekki minna ofbeldisfullar en karlar. Þýðir þetta að hann haldi því fram að enginn kynjamunur sé í ofbeldishneigð? Sé svo stendur þessi kafli í undarlegu ósamræmi við kenningar hans í kafla 1 um að það sé víst munur á kynjunum, þar sem til séu karllæg og kvenlæg hegðunarmynstur, þar sem dæmi um hið síðara sé að konur búi yfir meiri samkennd og umhyggju? Mótsögnin milli kafla 1 og kafla 4 er enn eitt dæmi um ósamræmi í málflutningi höfundar.

 

5. Konur vinna tvöfalt starf

Kona kemur heim úr vinnunni, í vinnuna.

Kona kemur heim í vinnuna úr vinnunni.

Í kafla 5 snýr Pär Ström sér að fullyrðingu sem oft heyrist: að konur vinni tvöfalt meira en karlar, þ.e.a.s. að konur stundi yfirleitt fulla vinnu og beri samtímis meiri ábyrgð á börnum og búi en makinn. Til að sýna fram á þetta bendir hann á tímaráðstöfunarkönnun Hagstofunnar sænsku. Samkvæmt Ström sýnir könnunin að konur vinni vissulega meira heimavið, en að þetta sé vegið upp af vinnu karla á vinnumarkaðnum. Reikni maður meðaltal vinnu í þjóðfélaginu sést að karlar vinna að jafnaði 8 klukkustundir og 16 mínútur, á meðan konur vinna 7 klukkustundir og 57 mínútur. Karlar vinna þannig að jafnaði 19 mínútum lengur á dag en konur — karlar ættu að vera óánægðari en konurnar, en það eru þeir ekki.

Þessu er hægt að mótmæla á marga vegu. Til dæmis er ráðstöfun tíma fyrir allt þjóðfélagið ekki málinu viðkomandi. Fyrir utan heildarráðstöfun tíma (20–84 ára), sem Ström notar, gefur Hagstofan einnig út gögn eftir því hvar fólk er í lífsferlinum. Sá hópur sem er áhugaverðastur fyrir þá umræðu sem Ström talar inn í er hjón eða fólk í sambúð sem er á vinnumarkaði og á eitt eða fleiri börn; þessi hópur skiptir jú tíma sínum milli vinnu og umfangsmikilla starfa innan heimilisins. Skoði maður gögnin fyrir þennan hóp [sjá töflu í upprunalegu greininni] sést að konur vinna meira en 40 mínútum lengur á dag.

Í lok 5. kafla bendir Ström á ójöfnuð milli kynjanna: karlar munu í krafti meiri vinnu á vinnumarkaðnum fá hærri lífeyri en konur. Þetta er ekkert vandamál ef fólk ver öllu lífi sínu með sama maka, því tekjum heimilisins er jafnan jafnt skipt innan heimilisins. Staðan breytist hinsvegar ef parið skilur. Konan mun þá ekki njóta lífeyris mannsins á sama hátt og ella. Samkvæmt Ström er einfalt að koma í veg fyrir þetta með því að setja lög sem kveða á um að lífeyrisréttindi skiptist jafnt við skilnað. Hann gleymir þó að karlar munu skapa sér meiri mannauð (reynslu) á vinnumarkaðnum, og munu því hafa hærri tekjur það sem eftir er vinnu þeirra á vinnumarkaðnum (þegar hjón skilja áður en lífeyrisaldri er náð). Þessu misrétti er tæplega hægt að breyta með lögum.

6. Konur fá verri heilbrigðisþjónustu en karlar

Kaflinn byrjar á að segja það útbreidda hugmynd að prófanir á lyfjum fari aðallega fram á körlum, en að samkvæmt sænskum lyfjayfirvöldum sé það ekki rétt. Næst þvertekur Ström fyrir það að konur fái almennt verri meðferð við hjartasjúkdómum, og vísar þar til tveggja heimilda sem andmæla þessu. Annarsvegar er þar aðsend grein eftir 15 hjartalækna  í morgunblaðinu Dagens Nyheter og hins vegar grein frá TT-fréttaveitunni sem lýsir doktorsritgerð sem skrifuð var við háskólann í Umeå. Næst er vísað til nokkurra heimilda sem segja að konur sæki frekar læknisaðstoð en karlar, séu meira frá vinnu vegna sjúkdóma og fái ávísað meira af lyfjum. Einnig er bent á að Krabbameinssjóðurinn veiti tvöfalt meira fé til rannsókna á brjóstakrabbameini en blöðruhálskrabbameini. Sú niðurstaða sem dregin er af þessu er að konum sé ekki mismunað í heilbrigðiskerfinu eða í rannsóknum; mögulega sé körlum aftur á móti mismunað í rannsóknum. Umræðan um mögulega mismunun gagnvart konum í lyfjaprófunum hefur verið mikil í mörg ár. Málið er ekki eins einfalt og Ström vill vera láta. Í Bandaríkjunum hefur sú stofnun sem hefur með lyfjaprófanir að gera, National Institute of Health, unnið að því frá  byrjun tíunda áratugarins að auka hlutfall kvenna í lyfjaprófunum. Fyrir prófanir á heilsuhraustu fólki er sama þróun sýnileg í Svíþjóð, sem sést til dæmis í tölum frá Lyfjastofnuninni. Hér er vissulega ójafnvægi milli kynja og árið 2000 voru 30% af prófunum á heilsuhraustu fólki einungis á körlum á meðan minna en 5% voru gerðar einungis á konum. Þær sem eftir standa, 65%, voru gerðar á báðum kynjum.

Það er því erfitt, á grunni málflutningi Pärs Ströms, að sannfærast um að vandamálið sé einhver mýta. Hægt væri að draga upp mun eðlilegri mynd, sem er að konur hafi áður verið færri meðal þeirra sem prófa lyf en að jákvæð þróun hafi átt sér stað síðan. Það er hinsvegar ennþá óeining um það hvað kalla megi „rétt“ hlutfall og hvort þessu hlutfalli hafi verið náð. Þannig birti tímaritið Nature árið 2010 nokkrar greinar sem færa rök fyrir því að konur séu fáliðaðar í lyfjaprófunum almennt og að þetta sé slæmt fyrir konur — ein greinin færði til dæmis rök fyrir því að rannsóknir á þunguðum konum ættu að aukast. Án þess að taka afstöðu til þess sem er rétt eða rangt er hinsvegar augljóst að Ström gefur ekki réttláta mynd af stöðu rannsókna á þessu sviði.

Í kaflanum eru nefnd dæmi sem Ström telur sýna að karlar fái verri heilbrigðisþjónustu en konur, til dæmis að konur fái meira af sýklalyfjum þó karlar séu gjarnari til að fá sýkingar en konur. Þá er ávísað tvöfalt meira af geðlyfjum til kvenna en karla. Sýnir þetta að hallað sé á karla? Niðurstaðan er ekki augljós og við höfum ekki læknisfræðilega þekkingu til að skoða þetta í þaula. Okkur vitandi hefur Pär Ström ekki þessa þekkingu heldur, og í ljósi þess hvernig hann velur bestu molana meðal rannsóknaniðurstaðna, efumst við um niðurstöðu hans hér einnig.

 

7. Að lokum

Við höfum sýnt fram á að vísindin eru ekki jafn einföld og Pär Ström vill vera láta. Mögulega túlkum við ekki jafnréttisumræðuna á sama hátt og hann, en það teljum við ekki ágalla á bókinni. Þvert á móti teljum við gott að mismunandi túlkanir á samfélaginu séu krufðar til mergjar. En vilji maður vísa til rannsókna og byggja málflutning sinn á vísindalegum grunni er mikilvægt að hafa eitthvað til að byggja á og vera óhlutdrægur í vali og túlkun á vísindaniðurstöðum. Pär Ström hefur því miður — þrátt fyrir yfirlýsingar um að „raunverulegt jafnrétti [sé] aðeins hægt að byggja á sannleika“ [sem er meira að segja undirtitill bókarinnar í íslenskri þýðingu hennar] — mistekist í bók sinni.

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Vísindaleg sannindi og femínískar mýtur

 1. Þarf greinilega að lesa þessa bók. Heyrist meira vit í henni heldur en umræðu feminista.

  Og svo maður taki nú sama pólin og er alltaf tekið, átt þú ekki syni, bræður, feður, frændur…. (Svona svo þú skammist þín fyrir að draga í efa raunveruleg vandamál karlmanna í þessari grein.)

 2. Varðandi fyrsta atriðið, þá hrekur það ekki fullyrðinguna um að fleiri karlar séu yfirburðagreindir, af líffræðilegum ástæðum, það að forskot karla virðist háð tíma og rúmi. Frekar bendir það til þess að tími og rúm séu breytur sem líka skipta máli. Varðandi stærðfræðina þá virðist aukið jafnrétti líka stuðla að því að fleiri konur verði færar í stærðfræði, það er rétt. Það er samt eins með stærðfræðina eins og með greinindina, að það eru fleiri karlmenn þar á bæ með yfirburða skor. Þar eru líka fleiri á jaðrinum.

  Um fimmta atriðið myndi ég segja að þið getið ekki sakað Ström um að velja þær rannsóknir og tölfræði sem honum hentar og henda öðru út og gert svo það sama með því að henda út tölfræðinni um heildina og skoða frekar einhvern hóp sem ykkur hentar. Það að ykkur þykir sá hópur,,áhugaverðari“ kemur málinu ekki við. Það er verið að tala um þjóðfélagið í heild sinni. Því er eina vitið að skoða þá tölfræði. Þið verðið líka sjálfar að vera vísindalegar.

  Um umfjöllun Ström um ofbeldi er það að segja að þið hrekið ekki megin fullyrðingu hans um að karlar verði oftar fyrir ofbeldi en konur. Fullyrðing ykkar um að konur verði líka fyrir grófara ofbeldi en karlar sem og að afleiðingar þess séu verri fyrir konur stenst heldur ekki. Karlar eru td. fórnarlömb morðingja í 4/5 tilvika (svona fyrst þið viljið styðjast við tölfræði varðandi þetta).

  Í lokin vill ég líka benda á að farið með rangt mál þegar þið sakið Ström um að gera ykkur upp skoðanir. Þessi skoðun sem hann sakar ykkur um að hafa er í fyrsta lagi ekki öfgakennd, því hún er vel þekkt í félagsvísindum. Mjög margir feministar hafa líka hamrað á þessu aftur og aftur. Þetta getið þið séð með því að gúgla orðin feminism, nature vs. nurture, saman.

  Annað var það ekki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.