Leyfið ljótum að koma til mín…

Höfundar: Halla Sverrisdóttir og Gísli Ásgeirsson

 

Allir sem lesið hafa erlend tímarit í einhverjum mæli, hvort sem er Newsweek, Cosmopolitan eða hvað annað sem vera skal, vita að víða um heim er læknum heimilt að auglýsa þjónustu sína nánast án allra takmarkana. Við könnumst við auglýsingar á borð við þessa:

læknaauglýsing 3

Og líklega myndi flesta Íslendinga reka illilega í rogastans ef þeir sæju risavaxið skilti þvert yfir Miklubrautina eða við Vesturlandsleiðina með skilaboðum á borð við þessi:

brjóst götuskilti

Það er reyndar harla ólíklegt að það gerist, a.m.k. í bráð. Á Íslandi er nefnilega svo gott sem bannað að auglýsa lækningar og þjónustu lækna og það bann hvílir á rótgrónum stoðum í bæði starfshefðum og siðareglum lækna (1) og í lögum um lækna og lækningastarfsemi.

Í þeim lögum segir til að mynda um auglýsingar (feitletranir eru höfunda):

H. Auglýsingar.

17. gr. Lækni er einungis heimilt að auglýsa læknastarfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum í blöðum sem birta má í hæsta lagi þrisvar þegar hann hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma. Lækni er heimilt að auðkenna sig með nafni, sérgrein, aðsetri, síma og viðtalstíma á dyraspjöldum, nafnspjöldum og lyfseðlum.

Læknum og stéttarfélögum þeirra ber að sporna við því að fjallað sé í auglýsingastíl um lækna og störf þeirra í fjölmiðlum. Á sama hátt ber þeim að vinna á móti því að eftir þeim séu höfð ummæli og viðtöl í fjölmiðlum í auglýsingaskyni. Verði ekki komið í veg fyrir það ber viðkomandi lækni eða stéttarfélagi hans jafnskjótt að leiðrétta það sem kann að vera ofmælt. Öðrum en læknum er bannað að auglýsa starfsemi þeirra eða stuðla að því á annan hátt að sjúklingar leiti til ákveðins eða ákveðinna lækna.

Þannig er læknum í raun alls ekki heimilt að auglýsa sig á neinn hátt, nema í hreinu upplýsingaskyni, t.d. til að láta vita um vistaskipti eða að þeir hafi hafið störf á einhverri stofu, og svo til að gera sjúklingum ljóst hvar þeir eru til húsa, svo sem í símaskránni eða utan á starfsaðstöðu. Íslenskur læknir má sem sagt setja litla auglýsingu í fagtímarit eða dagblað (en ekki birta hana oftar en þrisvar) um að hann eða hún starfi nú á einhverri stofu eða læknasetri og læknir má að sjálfsögðu vera í símaskránni eins og við hin og setja nafnið sitt og sérgreinina sína utan á húsið þar sem hann eða hún vinnur.

spurðu lýtalækninnEru þær Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir og formaður Félags lýtalækna, og Marta María Jónasdóttir,  ritstjóri lífsstílssíðunnar Smartlands á mbl.is, þá ekki komnar út á býsna grátt svæði með dálkinum „Spurðu Lýtalækninn“ [svo]? Þangað geta lesendur Smartlands leitað til að fá svör við ýmsu sem á þeim brennur á sviði líkamlegra lagfæringa og viðhalds. Fyrir svörum situr einn þekktasti lýtalæknir landsins, og í svörunum fá lesendur að vita hvaða aðgerðir Þórdís leggur til að þeir fari í, svona miðað við lýsingarnar á ágöllum þeirra, og hvaða aðferðum Þórdís myndi sjálf beita sem starfandi læknir við hugsanlegar aðgerðir, fari svo að lesendur láti sannfærast og slái til.

Á undan hverju svari tilgreinir Þórdís nafn sitt, sérfræðisvið, nafn fyrirtækisins sem hún starfar hjá og staðsetningu þess og svipaðar upplýsingar er að finna á auglýsingaborða tengdum síðunni. Auglýsingagildi „bréfakassans“ hvað varðar annars vegar jákvæða afstöðu til aðgerðanna og verkferlanna sem um er fjallað og hins vegar starfsemi Þórdísar og læknastofunnar Dea-Medica (í Glæsibæ) er augljóst hverjum sem læs er á orð og myndmál og gráa svæðið er á stærð við Reykjanesskagann.

Skemmst er að minnast stóra brjóstapúðamálsins sem enn eimir af í samfélaginu og það gæti næstum hvarflað að manni að velta lýtalækna hefði minnkað vegna þess vandræðamáls, fyrst þessi þjónusta er nú kynnt og henni haldið að lesendum á vinsælu vefsvæði. Á sama hátt og fólk er minnt á vetrardekk undir bílinn, smurþjónustu og viðgerðir er það hvatt til að gleyma nú ekki að uppfylla viðurkennda útlits- og fegurðarstaðla og skreppa með skrokkinn á bekkinn til lýtalæknis áður en í óefni er komið.

Hvort upplýsingaveita og hollráð lýtalæknisins á Smartlandi er siðferðilega vafasöm, á gráu svæði í skilningi læknalaganna eða beinlínis í bága við þau lög skal ekki úrskurðað um hér. En hér er óneitanlega á ferðinni rof á tiltekinni hefð sem læknar á Íslandi hafa almennt haldið sig við, þá hefð að auglýsa þjónustu sína ekki eins og hverja aðra neysluvöru – og auglýsing er þetta, jafnvel þótt hún sé prúðbúin sem „bréfakassi“.

Að það skuli einmitt vera lýtalæknir sem verður til að rjúfa hefðina ætti auðvitað ekkert að koma á óvart, enda fátt markaðsvænna en lýti á líkömum.

——-

(1)

Um auglýsingar segir m.a. í Siðareglum lækna:

20. gr.

Lækni er ósæmandi að vekja á sér ótilhlýðilega athygli eða gefa í skyn yfirburði sína yfir aðra lækna með því að hampa eða láta hampa menntun sinni, þekkingu, hæfni, afrekum, aðferðum eða vinsældum, hvort heldur er í auglýsingum, á vefsíðum, í viðtölum, blaðagreinum, ritgerðum, fyrirlestrum, útvarpserindum, sjónvarpi eða á annan hátt.

Frá ritstjórn knuz.is, 7.11. 2014:

Knuz.is hefur verið bent á að ný læknalög hafi tekið gildi um síðustu áramót þar sem ákvæði úr eldri lögum, sem takmörkuðu mjög auglýsingaheimildir heilbrigðisstarfsmanna, eru felld úr gildi. Rétt skal vera rétt og nauðsynlegt er að hafa þessa lagabreytingu í huga þegar um málið er fjallað. Samkvæmt 24. gr. nýju laganna skal ráðherra setja reglur um slíkar auglýsingar með reglugerð. Sú reglugerð hefur enn ekki verið sett og því óljóst hvert lagaumhverfi lækna varðandi auglýsingar verður á næstum árum. Nánari umfjöllun um þetta má sjá í Læknablaðinu, hér og hér.

3 athugasemdir við “Leyfið ljótum að koma til mín…

  1. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég sé svona í íslenskum fjölmiðlum. Fyrir 2-3 árum var grein í Nýju lífi að mig minnir þar sem einhver kona fór til nafngreinds lýtalæknis og lét flikka upp á sig og fá ráðleggingar. Það voru myndir og viðtal við lækninn og gráa svæðið var sýnilegt úr geimnum. Ég veit ekki til þess að nokkur eftirköst hafi orðið við þessari birtingu.

  2. Hún Þórdís var sennilega með mér í barnaskóla, ég man allavega mjög vel eftir henni úr æskunni. Mér finnst erfitt að horfa á hana í dag, því hún er svo óheilbrigt strekkt í framan, komin með skásett augu og eins og varirnar hafi verið pinnaðar upp. Hún sjálf er því ekki gangandi meðmæli með lýtaaðgerðum í andliti blessunin. Hún var svo miklu eðlilegri og fallegri áður. Ég er ekki fanatískt á móti lýtaaðgerðum sem slíkum en ljóst er samanber pistilinn hér að ofan að reynt er að fleka fólk undir hnífinn. Lifið vel og brosið með hjartanu, það þrælvirkar.

  3. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.