Kallakjör, kallafjör – og konur fagna

Höfundur: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir

Prófkjör eru afhjúpandi og áhugaverð fyrirbæri. Ég er í afhjúpandi og áhugaverðu stuði í dag og ætla þess vegna að pæla aðeins í prófkjörum. Kannski mikið til vegna þess að prófkjörs- og pungapælingar Láru Bjargar Björnsdóttur á vef Viðskiptablaðsins komu mér í sérstaklega gott stuð í morgun.

Í október 2006 var haldið prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir þingkosningar. Auður Magndís Leiknisdóttir greindi þá tíu efstu sætin með tilliti til framavona og árangurs kynjanna í prófkjörinu. Niðurstaðan var svona:

7 karlar af þeim 11 sem buðu sig fram komust á topp 10
3 konur af þeim 7 sem buðu sig fram komust á topp 10

Karlar sóttust að meðaltali eftir sæti nr. 4,4
Konur sóttust að meðaltali eftir sæti nr. 5,5

Karlar komust að meðaltali í sæti nr. 3,1
Konur komust að meðaltali í sæti nr. 6,7

Og sjáiði hvað gerðist. Þetta gerðist í alvörunni. Í alvöru, sko:

ástamöller2006

Samsett mynd af síðu 4 í Fréttablaðinu 29. október 2006.

Ásta Möller fagnaði. Sama Ásta Möller og stefndi á þriðja sæti en hafnaði í sjöunda. Staða kvenna er sterk, það er allt í rosalega fínu lagi hjá okkur. Þrjátíu prósent er nóg, við þurfum ekki að stjórna, við þurfum engin alvöru völd.

Það eru liðin sjö ár síðan ofangreint gerðist. Nú hefur aftur verið haldið prófkjör, í þetta sinn fyrir borgarstjórnarkosningar, og niðurstöður liggja fyrir. Og hvað gerist? Hvernig voru væntingarnar, hvernig er útkoman og hver eru viðbrögðin?

Tvær konur sóttust eftir fyrsta sæti á listanum. Báðar eru sitjandi borgarfulltrúar, önnur er talsverður reynslubolti og hin sér nú fyrir endann á öðru kjörtímabilinu í röð sem hún á sæti á lista og vinnur í borgarpólitík. Fólki þótti þetta heldur djarft af konunum að ætla sér í forystusæti. Ég get ekki talið þau skipti sem ég hef heyrt fólk spyrja gapandi af undrun hvað Hildur Sverrisdóttir hafi eiginlega verið að pæla. Skiptin sem ég hef heyrt fólk segja að Þorbjörg Helga hafi tapað af því að hún kunni sér ekki hóf eða ætlaði sér um of eru allmörg líka. Hér er eitt af Facebook í gær:

„hefði Þorbjörg Helga hefði verið klók og boðið sig fram í annað sæti hefði hún fengið það.“

Klókar konur eru nefnilega stilltar konur. Þær halda sig til hlés og láta körlunum eftir sviðsljósið og völdin.

Ef við greinum áætlanir og útkomu kynjanna með sama hætti og Auður Magndís fáum við eftirfarandi út:

5 karlar af þeim 13 sem buðu sig fram komust á topp 10
5 konur af þeim 7 sem buðu sig fram komust á topp 10

Einhver (öfgafemínærbuxnahitler) myndi segja að þetta liti sérstaklega vel út. Jafnvel væru karlarnir í Sjálfstæðisflokknum eitthvað örlítið farnir að hugsa sinn gang og láta sér einstaka sinnum detta í hug að kjósa konu (!).

Karlar sóttust að meðaltali eftir sæti nr. 4,0
Konur sóttust að meðaltali eftir sæti nr. 2,8

Þetta er heilmikið tilefni til bjartsýni ef maður er svona öfgafemíhitler; konurnar eru farnar að trúa á sjálfa sig og ætla sér hátt. Sama öfgasinna gæti látið sér detta í hug að í þessar konur væri komin töluverð óþolinmæði. Þreyta á feðraveldinu eða jafnvel hreinlega (bear with me) ógeð á kallaklúbbnum sem leyfir þeim náðarsamlegast að hella upp á kaffi en ekki vera með í alvörunni. En bíðum nú við:

Karlar komust að meðaltali í sæti nr. 4,6
Konur komust að meðaltali í sæti nr. 6,4

Hvað getur kona sagt? Til dæmis

dagnabbit

Konurnar stefna hærra en karlarnir og enda neðar. Og Stefanía Óskarsdóttir fagnar. Þetta er svo fínt. Við erum svo nægjusamar. Kynjahlutföllin í útkomu prófkjörs Sjálfstæðisflokksins koma henni þægilega á óvart. ÞÆGILEGA Á ÓVART. Þið verðið að fyrirgefa hástafanotkunina en HVAÐ ÞARF EIGINLEGA AÐ GERAST til að Ástu Möller og Stefaníu Óskarsdóttur og öllum hinum konunum sem fagna þessum svaðalega árangri geti mögulega þótt útkoma kvenna úr prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum vera slæm?

11 athugasemdir við “Kallakjör, kallafjör – og konur fagna

 1. Þýðir ekki að deila við kjósendur. Þeir hafa alltaf rétt fyrir sér. Þannig virkar lýðræðið. Það er ekki einusinni þannig að hæfasta fólkið sé valið, heldur bara þeir sem eru vinsælastir eða bera af sér mestan „kjörþokka“. Þá á ég ekki endilega við þessa kosningu, heldur almennt.

 2. Og það þarf hvorki prófkjör né Sjálfstæðisflokkinn til. Á uppstilltum lista Besta flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar voru karlar í þremur efstu sætunum.

 3. Jú, Elín, ég heyrði svo sannarlega í Jarþrúði. Og ég hef rætt þetta við hana persónulega. Sama gildir um fleiri ósáttar sjálfstæðiskonur. Mér finnst bara ekkert áhugavert að til séu konur í Sjálfstæðisflokknum sem mótmæla þessu ástandi. Það er sjálfsagt og sjálfgefið að svo sé. Hinsvegar finnst mér STÓRmerkilegt og fréttnæmt að til séu konur í Sjálfstæðisflokknum sem fagna þessu ástandi og finnst þetta til eftirbreytni.

 4. Eins og Viðar F nefnir í sínu commenti þá hafa kjósendur alltaf rétt fyrir sér, þannig virkar lýðræðið hvort sem okkur líkar niðurstaðan eða ekki. Það má vel vera að þær konur sem buðu sig fram séu mun hæfari til starfans en þeir karlar sem náðu kjöri en eftir situr að þeir einstaklingar sem kusu í prófkjörinu nýttu sinn lýðræðislega rétt á þennan hátt og við getum alls ekkert gefið okkur um forsendur atkvæðagreiðslu þeirra, né eigum við á nokkurn hátt rétt á því að þeir rökstyðji atkvæði sín eða útskýri ástæður síns vals. Mér skilst að meðalaldur þeirra sem sóttu prófkjörið hafi verið fremur hár og því alveg hugsanlegt að gamaldags viðhorf hafi haft áhrif á atkvæði einhverra, sem er vissulega sorglegt ef satt er. En lausnin á því er ekki að ógilda prófkjör eða setja upp lýðræðislega hamlandi regluverk á borð við fléttulista, heldur þurfa sjálfstæðismenn sem og flokksmenn annarra flokka að taka sig saman og styðja við bakið á þeim frambjóðendum sem halloka kunna að fara vegna kynferðis síns, kynhneigðar, litarhafts eða annarra ómálefnalegra ástæðna. Tala skal gegn fordómafullum viðhorfum og hvetja íhaldssamt fólk til að opna huga sinn og skoða málin í kjölinn áður en ákvörðun er tekin. Þetta kann að taka tíma, en það næst á endanum. Á meðan skal samt leyfa lýðræðinu að vera í friði.

 5. Ég kaus í þessu prófkjöri, mætti á fundi frambjóðandanna, hvar þeir héldu erindi og kynntu sín stefnumál og kaus að lokum bara þá einstaklinga sem höfðu trúverðuga afstöðu til þess að sjá borgarskipulag sem er líklegra til að taka okkur í átt að borgum eins og Kaupmannahöfn og Amsterdam og fjær borgum eins og Los Angeles og Atlanta. Ergo, þétting byggðar, vistvænar samgöngur, almenningssamgöngur og flugvöll einhvers staðar annars staðar. Kannski voru þetta of karllæg viðhorf sem stjórnuðu gjörðum mínum, (og einkabíllinn og Los Angeles þá kvenlæg?), en þau leiddu bara til þess að ég treysti mér til að kjósa 2 konur á móti 4 körlum. Og nú spyr ég, getur verið að kynferði fólks hafi minna með það að gera hvað Sjálfstæðismenn kjósa en stefnumálin? Og getur verið að konurnar hafi bara haft verri stefnumál skipulagslegs öngstrætis er karlarnir? Getur verið að typpa og píkutalning sé rugl, en málefnaskoðun sé það ekki? Nú grunar mig að flestir sem standi að þessum vef (lesist ritstjórn), sem og greinarhöfundur séu ekki í Sjálfstæðisflokknum, og það getur verið að þeirra reynsla sé að í þeirra flokkum séu menn kostnir eftir því hvers konar kynfæri þeir hafa, en það þýðir ekki að þeir geti yfirfært eigin fordóma yfir á hægrimenn. Kannski kjósa hægrimenn í prófkjörum þá hvers stefna þeim fellur best? Útilokum það að minnsta kosti ekki.

 6. Mikið rosalega er fólk búið að fá leið á þessu flokkspólitíska steríótýpíska kjaftæði. Það verður gaman að sjá VG og Sjálfstæðisflokkinn rífast um þessi 3 atkvæði sem þau geta skipt á milli sín í vor.

 7. Snilld i framhaldi langar mig að forvitnast um hvort hægt væri að finna út hver vinnuafkost eða framleiðni. Framtak og mæting hja topp 10 fulltrúa væri…. ætli það kæmi ekki eitthvað merkilegt þar framm….hver vinnur vinnuna… nu mana eg ykkur blaðamenn og pennar að halda áfram og að auki að muna eftir þessum skrifum fyrir næstu kosningar

 8. Hvenær ertu sátt Hildur ?

  Þegar allir flokkar eru með fléttulista, en bara þegar hallar á kvennfólk, eins og VG ?

  Þarna var lýðræðisleg kosning, ég sem einstaklingur sem mundi aldrei kjósta sjálfstæðisflokkinn get samt borið virðingu fyrir því.

  Finnst þér í lagi að lýðræðisleg kosning sé ekki virt, heldur fólkið otað ofar en það átti að enda, en einungis ef það er með píku ?

  Feminisminn er á skítugum nótum hvað pólitík varðar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.