Harkaðu af þér! – fyrri hluti

Höfundar: Halla Sverrisdóttir, Kristín I. Pálsdóttir

 who fact sheet

Í nóvember 2011 birti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin upplýsingablað um ofbeldi í nánum samböndum og áfengi. Í upplýsingablaðinu kemur fram að rannsóknir á forvörnum sem beinast að áfengistengdu ofbeldi séu af skornum skammti og lögð er áhersla á mikilvægi forvarna og hlutverk heilbrigðiskerfisins í því að koma í veg fyrir ofbeldi í nánum samböndum m.a. með því að fást við samband þess við áfengisneyslu. Ein afleiðing ofbeldis er aukin neysla áfengis sem aðferð fyrir þolendur til að bregðast við aðstæðum sínum, þ.e. að áfengi sé notað sem sjálfsmeðhöndlun (e. self-medicating). Einnig segir að sú trú manna að áfengi valdi ofbeldishneigð sé jafnvel notuð sem afsökun fyrir ofbeldishegðun og að börn sem verða vitni að ofbeldi á milli foreldra sinna séu líklegri til að lenda í drykkjuvanda síðar á ævinni en önnur börn. Stofnunin setur svo fram eftirfarandi tillögur til að fást við vandann:

 • Safna og dreifa upplýsingum um útbreiðslu ofbeldis í nánum samböndum, stöðu áfengisneyslu og drykkjusiða fólks.
 • Stuðla að, gera og meta rannsóknir á tengslum áfengisneyslu og ofbeldis í nánum samböndum, bæði hvað varðar þolendur og gerendur, sem bæta skilning á áhættu og fyrirbyggjandi þáttum.
 • Auka meðvitund um ofbeldi í nánum samböndum hjá þeim aðilum sem fást við áfengisvanda og innleiða reglubundnar fyrirspurnir um slíkt.
 • Meta og dreifa upplýsingum um heilsufarslegan, félagslegan og annan kostnað sem tengist áfengistengdu ofbeldi í nánum samböndum.
 • Meta og stuðla að skilvirkni og hagkvæmum aðferðum til að minnka umfang áfengistengds ofbeldis í nánum samböndum.
 • Stuðla að víðtæku samstarfi stofnana til að ná tökum á ofbeldi í nánum samböndum með því að auka meðvitund um tengsl áfengisneyslu og ofbeldis í nánum samböndum.
 • Tala fyrir stefnu- og lagabreytingum til að verja fórnarlömb ofbeldis í nánum samböndum, til að draga úr drykkjuvanda og til að útiloka að áfengisneysla sé notuð til að réttlæta ofbeldisverk.
 • Tryggja að gert sé ráð fyrir tengslum milli ofbeldis í nánum samböndum og áfengisdrykkju í áfengismeðferðum og gera þjónustuna gagnvirka, þannig að skimað sé fyrir áfengisvanda þar sem tekið er á móti fórnarlömbum ofbeldis og öfugt og vísað á viðeigandi úrræði í báðum tilfellum.

 

Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur (mynd: Fréttablaðið)

Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur (mynd: Fréttablaðið)

Í rannsókn sem gerð var á ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi kemur fram að 70-80% kvenna sem komu á Vog, á því tímabili sem var til rannsóknar, höfðu orðið fyrir ofbeldi. Það er líka vitað að fátt er eins líklegt til að valda áfallastreituröskun og kynferðislegt ofbeldi. Í viðtali í Fréttablaðinu 26. janúar 2013 (bls. 30) segir Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur sálfræðiþjónustu Landspítalans, að um 5-14% fólks þrói með sér áfallastreituröskun en að áhættan fari mjög eftir tegund áfallanna. Hæst sé tíðnin hjá þeim sem verða fyrir nauðgun, en um 50% þolenda þróa með sér áfallaröskun. Næst á listanum komi svo styrjaldir, heimilisofbeldi og misnotkun. Einnig kemur fram í viðtalinu að konur séu almennt tvisvar sinnum líklegri til að þróa með sér áfallastreituröskun en karlar, „…óháð áfalli, nema þegar kemur að nauðgun. Þar segir hún tíðnina mjög svipaða hjá kynjunum.“

 

Kynjaskipt áfengismeðferð?

Sú krafa hefur orðið hávær undanfarið, að boðið sé upp á kynjaskipta áfengismeðferð, sem byggir á kynjafræðilegum rannsóknum á áfengis- og vímuefnavanda, frá upphafi komu á meðferðarstofnun. Hún er ekki síst til komin vegna þess að konur vilja fá meðferð í samræmi við ofangreind tilmæli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og er sjálfsögð afleiðing aukinnar þekkingar í áfallafræðum og tengsla þeirra við rannsóknir á áfengisvanda og ofbeldi. Kallað er eftir heildrænni meðferð þar sem tekið verði á öllum þáttum áfengisvandans; sálrænum, líkamlegum og félagslegum, ekki síst með tilliti til þess háa hlutfalls kvenna sem á ofbeldissögu að baki.

Það fyrirkomulag hefur verið viðhaft við áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi að mestöll meðferðarstarfsemi er einkarekin, á kostnað ríkisins að mestu leyti þó. Sjálfsagt eru margar ástæður fyrir þessu og ein þeirra væntanlega sú að áfengis- og fíknivandi einskorðast ekki við það að vera heilbrigðisvandi heldur er líka félagslegur og kemur auk þess einnig við sögu í málaflokkum innanríkisráðuneytisins. Tvær einkareknar meðferðarstofnanir voru á fjárlögum fyrir árið 2013: SÁÁ, sem fékk um 700 milljónir, og Hlaðgerðarkot, sem fékk 100 milljónir.

SÁÁ er sá rekstraraðili sem annast langstærstan hluta skipulegrar áfengismeðferðar hérlendis, að mestum hluta fyrir rekstrarfé frá ríkinu, og gagnrýni um að þeim þáttum sem hér hafa verið nefndir sé ekki sinnt sem skyldi, í takt við nýjustu rannsóknir erlendis og ábendingar sem fram koma í áðurnefndum skýrslum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og velferðarráðherra, hefur lítið verið sinnt.

Vilji SÁÁ reka alvöru spítala hljóta samtökin að þurfa að fara að tileinka sér þá þekkingu sem fyrir hendi er á tengslum ofbeldis og áfengis- og vímuefnavanda. Það er sjálfsögð krafa þeirra sem kaupa af þeim sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Það getur ekki talist ásættanlegt að starfsmenn reki þetta eftir eigin nefi. Það er ekki hægt að veifa vísindafánanum eftir hentugleikum, á meðan engar rannsóknir hafa farið fram á árangri meðferðarinnar síðan Kristinn Tómasson gerði sína rannsókn árið 1998. Engin viðleitni er til að svara kalli kvenna um að meðferðin verði aðlöguð betur að þeirra þörfum og nýjustu rannsóknum á þessu sviði. Engar rannsóknir hafa t.d. verið gerðar á þeim konum sem glíma við vímuefnavanda og ekki hafa skilað sér til meðferðar hér á landi.

SÁÁ hefur að vissulega hjálpað mörgum í gegnum tíðina og fjöldi þakklátra einstaklinga vitna um það. Það er þó engin afsökun fyrir því að leyfa sér að fylgjast ekki með því nýjasta sem er að gerast í þessum fræðum.

Þekkingarskortur og skeytingarleysi gagnvart afleiðingum ofbeldis og tengslum þess við áfengis- og vímuefnavanda eru ekki til bóta við að tryggja það að fólk komi heilt út úr áfengismeðferð. Það hlýtur að vera krafa tímans að verkkaupi, íslenska ríkið, geri meiri kröfur til verktakans, SÁÁ, um þekkingu á málefnum skjólstæðinga sinna og að í starfi SÁÁ verði farið að leiðbeiningum bæði velferðarráðuneytis og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Í seinni hluta greinarinnar, sem verður birt á knúz.is á morgun, 22.11., verður fjallað um nýleg ummæli sem stjórnendur og starfsmenn SÁÁ létu falla í þáttum sínum Áfram Vogur, sem sýndir eru um þessar mundir á sjónvarpsstöðinni ÍNN, og rýnt nánar í þá afstöðu stofnunarinnar sem lesa má úr þeim.

6 athugasemdir við “Harkaðu af þér! – fyrri hluti

 1. Bakvísun: Harkaðu af þér! – seinni hluti | *knúz*

 2. Bakvísun: Hvað býr að baki viðhorfum Rótarinnar til meðferðar? |

 3. Bakvísun: Athugasemdir við þingsályktunartillögu |

 4. Bakvísun: Skráning atvika og önnur gæðamál í meðferðarstarfi |

 5. Bakvísun: Umræðan um meðferðarúrræði | Píratar blogga

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.