Harkaðu af þér! – seinni hluti

Höfundar: Halla Sverrisdóttir og Kristín Pálsdóttir

Úr fjársöfnunarþættinum Áfram Vogur á ÍNN

Í fyrri hluta þessarar greinar, sem birtist hér á knuz.is í gær, þann 21.11., var vikið að tengslum ofbeldis og áfengisneyslu og tíðni áfallastreituröskunar tengdri ofbeldissögu, einkum hjá konum. Þá var rætt um gagnrýniverðan skort á því að þessum málaflokki sé sinnt sem skyldi innan þeirra samtaka sem eru stærsti rekstraraðili meðferðarstöðva á Íslandi, SÁÁ.

Nú stendur yfir fjáröflunarátak hjá SÁÁ til að fjármagna viðbyggingu við Vog. Liður í fjáröfluninni eru sex þættir sem SÁÁ hefur látið gera og eru frumsýndir á mánudagskvöldum á sjónvarpsstöðinni ÍNN undir heitinu Áfram Vogur – þættir um störf og sögu SÁÁ. Þegar þetta er skrifað hafa verið sýndir fjórir þættir sem eru aðgengilegir á vef sjónvarpsstöðvarinnar.

Þórarinn Tyrfingsson í Áfram Vogur

Þórarinn Tyrfingsson í Áfram Vogur

Í þáttunum er spjallað við yfirmenn og starfsfólk SÁÁ og var Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Vogi til viðtals í fyrsta þætti. Í öðrum þætti var rætt við Valgerði Rúnarsdóttur lækni á Vogi, Halldóru Jónasdóttur dagskrárstjóra á Vík og Þóru Björnsdóttur hjúkrunarforstjóra á Vogi.

Í viðtölum í þessum tveimur þáttum koma fram viðhorf sem nauðsynlegt er að staldra sérstaklega við, enda eru þættirnir framleiddir af SÁÁ og endurspegla viðhorf stjórnenda og starfsfólks á Vogi, og um leið stefnu og nálgun stofnunarinnar í heild.

Að bera harminn í hljóði

Þórarinn Tyrfingsson ríður á vaðið með þeirri yfirlýsingu, þegar komið er á mínútu 6.20 í 1. þætti, að það sé misskilningur að áfengisvandi skapist af áföllum. Hann vitnar svo í rannsókn, sem hann skilgreinir ekki að öðru leyti en því að hann segir hana frá Harvard-háskóla, en í rannsókninni segir hann hafa komið í ljós að „margir okkar láta það ekkert á sig fá þó að þeir lendi í áföllum. Við erum mjög merkilegir mennirnir.“ Á 23. mínútu sama þáttar bætir hann svo við:

Það þýðir ekkert að hugsa um þessi áföll, maður þarf að fara út, maður þarf að ala upp börnin sín, maður þarf að takast á við vandamálin sín og þetta er það sem við erum að kenna sjúklingunum okkar.

Þóra Björnsdóttir hjúkrunarforstjóri er á svipuðum slóðum og Þórarinn og segir, um það bil á mínútu  13.51. í 2. þætti:

Þóra Björnsdóttir: Stundum þurfa þær [konur] meiri hvatningu til að bera sig vel meðan að þeir eru vanir að bera harm sinn í hljóði og einhverjir töffarar.

Rúnar Freyr Gíslason, þáttastjórnandi: Harka þetta af sér og svona.

Þóra Björnsdóttir: Já, já …

Af þessum orðum má ráða mikið skeytingarleysi gagnvart áhrifum áfalla. Í fyrsta lagi er það alls ekki svo að það sé ótvírætt að áföll valdi ekki áfengis- og vímuefnavanda. Það þarf ekki að lesa sér lengi til í áfallafræðum til að sjá talað um áfengismisnotkun sem afleiðingu áfalla og er nóg að benda á upplýsingaskjalið frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem minnst er á í fyrri hluta þessarar greinar. Einnig segir í bók Ingólfs V. Gíslasonar Ofbeldi í nánum samböndum (bls. 33):

Það er óumdeilt að neysla áfengis og ofbeldi í nánum samböndum eru tengdir þættir. Á hinn bóginn er deilt um orsakasamhengi. Er áfengið orsök ofbeldisins eða er það bara „afsökun“ eða þáttur sem dregur úr hömlum en ofbeldið eigi sér aðrar grunnástæður (Flanzer 1993; Gelles 1993)? Hér gildir þó hið sama og varðandi aðra orsakaþætti að um er að ræða samspil neyslunnar og annarra þátta.

Þar sem Þórarinn Tyrfingsson talar bara í karlkyni er þó möguleiki á því að hann eigi bara við karlmenn en þeir eru vissulega í mun minni hættu á því að fá einkenni áfallastreituröskunar en konur, eins og kemur fram í viðtali við Berglindi Guðmundsdóttur sem vísað er til í fyrri hluta þessarar greinar.

Einnig er hér vert að minnast á að rannsóknir á áhrifum ofbeldis á börn sýna að þau sem verða fyrir því eru mörgum sinnum líklegri til að lenda í misnotkun vímuefna en þau sem ekki verða fyrir slíkum áföllum. Í skýrslu UNICEF sem kom út í mars 2013 kemur t.d. fram að 3,4 sinnum líklegra er að stúlkur sem hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi á heimili sínu hafi orðið drukknar og 6,6 sinnum líklegra er að þær hafi reykt kannabisefni (Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir, bls. 33). Ef forsvarsmenn SÁÁ neita því að samband sé á milli áfalla og neyslusögu er einboðið að spyrja hvort að kenning þeirra sé sú að ofbeldis- og kynferðisbrotamenn leiti frekar uppi fórnarlömb með líffræðilegar forsendur fyrir vímuefnafíkn?

Annað sem vekur athygli er orðalagið sem notað er. „Það þýðir ekkert að hugsa um þessi áföll … þetta er það sem við erum að kenna sjúklingunum okkar“, og svo er talað um að „bera sig vel“, „bera harm sinn í hljóði“ og „harka af sér“ í tengslum við áföll. Allt er þetta í miklu ósamræmi við þau tilmæli sem komið hafa frá stjórnvöldum á síðustu árum, bæði innlendum og alþjóðlegum stofnunum þar sem lögð er áhersla á úrvinnslu áfalla og að inni á meðferðarstöðvum sé bæði skimað eftir gerendum og þolendum og viðeigandi meðferð boðin fram við bæði áfengis- og vímuefnavandanum og ofbeldisvandanum *.

Kynjaskipt meðferð – heildræn nálgun?

Í ítarlegri skýrslu velferðarráðuneytisins um ofbeldi í nánum samböndum segir: „Unnt er að fullyrða að konur eru í mun ríkari mæli en karlar í hópi þeirra sem verða fyrir alvarlegu líkamlegu ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka, ofbeldið er líklegra til að eiga sér oft stað og líklegra er að það sé hluti af ofbeldis- og kúgunarmynstri.“(bls. 33). Í skýrslunni kemur einnig mjög skýrt fram að gerendur í ofbeldismálum eru oftast karlar, hvort sem að það eru karlar eða konur sem eru fórnarlömb. Um þetta vitna þær stofnanir samfélagsins sem taka á móti þolendum. Það er því nöturlegt að hlusta á Þóru Björnsdóttur gera lítið úr því ofbeldi sem konur verða fyrir með því að afgreiða málið á eftirfarandi hátt (frá mínútu 8.15 í 2. þætti):

Við erum sem sagt, sem sagt, þarna með teymisvinnu, læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og áfengis- og vímuefnaráðgjafar saman með sjúklinginn. Þannig að, þannig að við erum með svona heildræna nálgun og það hvort að konur koma, sko, eftir ofbeldi, sem sagt, þetta er svona, sko, ekkert svona fremst sko. Það koma margir með glóðarauga sko, bæði karlar og konur, sko.

Þóra Björnsdóttir ræðir um heildræna nálgun í Áfram Vogur á ÍNN

Þóra Björnsdóttir ræðir um heildræna nálgun í Áfram Vogur á ÍNN

Ummæli Þóru um ofbeldi eru sérstakt áhyggjuefni, þar sem þau bera vott um mikið skilnings- og áhugaleysi á því vandamáli sem kynbundið ofbeldi er. Skilgreining Þóru á heildrænni nálgun er líka vægast sagt óhefðbundin, þar sem það orðalag er jafnan notað um þá aðferð að nálgast sjúkling og vanda hans ekki eingöngu út frá líffræðilegu ástandi heldur skoða manneskjuna í heild, þ.e. taka einnig til skoðunar sálrænar og félagslegar hliðar vandans.

Loks kveður Þóra upp úr með það að: „besta leiðin til að … verja sig gagnvart ofbeldi það er að vera ódrukkin, sko, og það er að vera edrú. Þannig að það er, það er best.“

Það er hægt að segja margt um þessi ummæli. Hér er verið að tala niður til kvenna og gera þær ábyrgar fyrir því ofbeldi sem þær verða fyrir. Þessu viðhorfi hafa konur eytt mikilli orku í að útrýma á undanförnum árum. Það er ofbeldismaðurinn sem ber í öllum tilfellum ábyrgð á ofbeldinu sem hann beitir en ekki þolandinn, hvort sem hann er í viðvarandi neysluástandi eða undir áhrifum þegar ofbeldið á sér stað. Það gerir þessi ummæli enn alvarlegri að þau skuli koma frá yfirmanni á spítala sem leggur mikla áherslu á það að um sjúkdóm sé að ræða hjá alkóhólistanum.

Þegar Þóra er svo spurð um það hvort að rétt sé að bjóða upp á kynjaskipta meðferð þegar á Vogi, en ekki aðeins á eftirmeðferðarstöðvunum, segir hún að hún „hafi nú verið að spyrja konurnar á Vogi hvort að þær vildu sér deild og þær hafi svarað því neitandi“ og bætir svo við: „við starfsfólkið, okkur finnst gott að hafa þetta svona blandað. Það er líka svona, sem sagt þarna, svona einhver svona stundum, sko, ja, kannski mýta um það að konur séu svona og karlar hins veginn sko, í fráhvörfunum og veikindunum.“

Það er svo sannarlega engin mýta að vímuefnavandi birtist með mismunandi hætti hjá kynjunum, enda viðurkenna þær Halldóra og Valgerður það í þáttunum. Og einhver ástæða er fyrir því að SÁÁ býður líka upp á kvennameðferð eftir afeitrun á Vogi. Þóra vitnar hér ekki til neinnar sannreyndrar þekkingar heldur talar hún út frá persónulegu gildismati. Konurnar vilja … starfsfólkinu finnst. Engar rannsóknir virðast hafa verið gerðar á raunverulegum þörfum kvenna í áfengismeðferð eða á upplifun þeirra á henni hér á landi; þær upplýsingar liggja að minnsta kosti ekki á lausu.

Konur sem verða fyrir ofbeldi mæta síður til meðferðar

Í Svíþjóð hafa slíkar rannsóknir hins vegar farið fram. Niðurstöður þeirra sýna að tilteknir hópar kvenna nást ekki inn til meðferðar og að þar á meðal eru einmitt konur sem hafa mátt þola kynferðislegt/líkamlegt ofbeldi. Engin ástæða er til að ætla að þessu sé öðruvísi farið hér á landi og hlýtur að teljast verðugt verkefni að rannsaka það. Þrátt fyrir þetta heldur Þóra því fram í áðurnefndum viðtalsþætti (á u.þ.b. mínútu 15.00), að konur séu

… ekki hræddar á Vogi sko, þær eru ekki, þær upplifa sig ekki að þær séu á einhverjum stað sem að ógni þeim, sko… Þannig að það er ekki þannig að, að þarna, að fólk þurfi að vera hrætt við að koma í meðferð út af því að það sé einhverjir vondir karlar sem ætli að lemja þær eða gera þeim eitthvað slæmt sko.

vogurHvað hefur Þóra fyrir sér þegar hún setur fram þetta mat? Það er margt sem bendir til þess að þetta sé ekki rétt hjá Þóru. Auðvitað eru ekki tóm illmenni í áfengismeðferð, og mikil einföldun að setja þetta fram á þennan hátt, en það kemur þó fyrir og hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Ekki þarf að leita lengra en í dóm sem kveðinn var upp síðasta vor, yfir manni sem kynntist ungri stúlku á Vogi og misþyrmdi henni síðan þegar út var komið, til að sjá dæmi um alvarlegar afleiðingar þess fyrirkomulags sem nú er viðhaft á Vogi. Vægari tilvik geta líka dregið dilk á eftir sér og stutt er að minnast frétta af ungri stúlku sem var áreitt við komu á Vog. Samkvæmt fréttinni var ekki tekið af nægri fagmennsku á því atviki af starfsmönnum Vogs.

Fagmennska er í raun lykilorðið í þessu sambandi. Fagmennska felur í sér, meðal annars, að hlusta á gagnrýnisraddir, kynna sér nýjustu rannsóknir, framkvæma og birta eigin rannsóknir eða hvetja til rannsóknarverkefna á vegum óháðra aðila, eiga opið samtal við jafnt fagfólk sem skjólstæðinga og sæta reglubundnu og ströngu gæðaeftirliti. Eins og sakir standa virðist íslenska ríkið, sem verkkaupi að meðferðarúrræðum fyrir fólk með áfengis- og fíknivanda, ekki gera neinar kröfur um slíkt til verktaka síns, SÁÁ. Né heldur virðist verktakinn ætla að eiga frumkvæði að því.

* Lögð er áhersla á skimun og meðferð við ofbeldi á meðferðarstöðvum í skýrslu velferðarráðuneytis. Rótin – félag um málefni kvenna með fíknivanda sendi fyrr á þessu ári erindi vegna þessa til landlæknis og velferðarráðherra. Sjá: http://www.rotin.is/skimun_vegna_ofbeldis/.

4 athugasemdir við “Harkaðu af þér! – seinni hluti

  1. Takk fyrir að skrifa um þetta mikilvæga efni, ég þekki margar konur sem hafa farið á vog bæði persónulega og vegna starfs míns(geðhjúkrunarfræðingur) og margar þeirra eiga ekki góða reynslu. Þær hafa verið áreitar kynferðislega af öðrum sjúklingum, niðurlægðar og hefur starfsfólk gert lítið úr ofbeldis sögu þeirra og verið með þolendaábyrgð. Þetta er auðvitað Ekki í lagi og ætti ekki að viðgangast.

  2. Hver sem hefur farið í gegnum meðferð hjá SÁÁ nýlega getur staðfest að miðað við fjárskortinn sem þessi félagasamtök búa við þá eru þau að gera það allra besta sem þau geta til að hjálpa fólki að komast á réttu brautina. Auðvitað væri hægt að hafa þetta mikið betra, en það mundi þá líka kosta mikið meira. Ég hef svosem engar fræðilegar sannanir fyrir því, en það er algjörlega mín tilfinning gagnvart SÁÁ að þar sé verið að gera það besta úr ástandinu. Ef það væri hægt að hafa sér meðferðir fyrir alla minnihlutahópa áfengissjúkklinga þá væri það örugglega gert.
    Af minni reynslu þá er það algjört undantekningar tilfelli að maður hitti manneskju sem hefur verið óánægt með sína meðferð á vogi.
    Minn skilningur á þessum ummælum er sá að SÁÁ bjóði fyrst og fremst uppá meðferð við áfengis og fíkniefnavanda. Og hvort sem eintaklingur þjáist af einhverskonar eftirköstum eftir áfall, þá getur hann orðið edrú ! Og lykilatriði í að takast á við áfallastreituröskun er einmitt að viðkomandi sé orðinn allsgáður, síðan er hægt að takast á við hverja þá kvilla sem manneskja getur haft samhliða vímuefnavandamáli.
    Það eru fáir eða engir sálfæðingar sem koma beint að meðferð sjúklinga á vogi, að mér vitandi. Einfaldlega vegna þess að þeir eru annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu og starfa með fólki sem er í líkamlegu og andlegu ástandi til þess að geta tekist á við hverjar þær raskanir eða sjúkdóma sem það kann að hafa.

  3. Bakvísun: Hvað býr að baki viðhorfum Rótarinnar til meðferðar? |

  4. Bakvísun: Skráning atvika og önnur gæðamál í meðferðarstarfi |

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.