Stefna stjórnvalda séð með kynjagleraugunum

EmploymentLevels

Hið raunverulega stríð gegn konum. Atvinnuleysi.

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

Frá því að kreppan skall á hefur niðurskurðarstefnunni (austerity) verið mótmælt víða um heim, sérstaklega af félagsvísindafólki sem margt hefur bent á að sú leið er kolröng hagfræði[1] en ekki síst af femínistum sem sjá hina augljósu kynjavídd stefnunnar, þ.e. það að byrðunum af kreppunni er beint og óbeint velt hlutfallslega meira yfir á konur. Þó vissulega hafi þessi umræða einnig átt sér stað í fyrri kreppum þá er umræðan nú háværari en áður, sem rekja má að einhverju leyti til breyttra viðhorfa en einnig þess hve djúp kreppan er. Til að nefna örfá dæmi bendi ég á ráðstefnu hins írska kvennaráðs (The National Women Council of Ireland) haustið 2012[2] sem bar heitið  “Bearing the brunt? Women and the recession” (sem útleggst á hinu ylhýra: Berandi þungann? Konur og kreppa),  mótmæli femínískra hagfræðinga sumarið 2012 þar sem skrifað var undir áskorun til stjórnvalda um allan heim að ganga af núverandi stefnu (og lesa má hér[3]), skýrslu Fawcett society um áhrif kreppunnar á konur frá 2012[4], bókina Women and austerity sem Routledge gaf út fyrr á þessu ári, og svo mætti lengi telja. Þessi gagnrýni hefur eðlilega verið háværari í löndum þar sem niðurskurðurinn hefur verið harðari og þar sem femínískar hreyfingar eru sterkari.

Kjarninn í gagnrýninni

Þó aðstæður séu vissulega að einhverju leyti ólíkar á milli landa er það þó sameiginlegt með vesturlöndum að konur eru yfirleitt í meirihluta þeirra sem starfa hjá hinu opinbera (eins og á Íslandi þar sem konur eru ríflega 7 af hverjum tíu starfsmönnum). Þess vegna er það fyrirfram gefið að þegar skorið er niður í opinberum störfum eru konur í meirihluta þeirra sem missa vinnuna. Hlutfall kvenna í uppsögnum er raunar hærra en halda mætti af heildartölfræðinni því þær raðast líka í lægri stöðurnar innan fagsviða á meðan karlarnir eru fjölmennari í yfirmannsstöðunum og því verndaðri.  Til að skerpa á stöðunni hjá ríkinu á Íslandi má nefna að innan heilbrigðisgeirans eru konur um 85% starfsmanna og innan  menntageirans eru þær um 80%. Þar með er ljóst að þó valdir væru starfsmenn af handahófi í skóla eða á heilbrigðisstofnun til að segja upp (sem er að sjálfsögðu aldrei gert) þá væru 8-9 konur í hverjum tíu manna hópi.  Nú er það svo að eitt stærsta hlutverk hins opinbera er að sjá um umönnun þeirra sem þess þurfa, og um þá þarf enn að sjá þó þjónustan sé skorið niður. Það dæmist á konur,  enda hefur það löngum tilheyrt kvenhlutverkinu að sjá um aðra. Niðurskurður hjá hinu opinbera þýðir þannig ekki aðeins að konur missa störf, og eiga erfitt með að fá sambærilegt starf aftur því einkamarkaðurinn sinnir ekki þessari þjónustu nema að litlu leyti, heldur einnig það að þær eru enn bundnari við heimilið en áður og geta því síður farið aftur á vinnumarkaðinn.

bearingtheburnt


Konur eru líklegri til að verða undir í alheimskreppunni. Þær eiga hættara við fátækt, lífslíkur þeirra minnka og þær hætta í námi. Þær svelta sig oftar til að auka fæði annarra á heimilinu og leiðast frekar út í vændi til að framfleyta sér og sínum.

Hér ber að árétta að alls ekki er verið að fullyrða að karlar séu lausir undan kreppuáhrifunum en staða þeirra er óhjákvæmilega allt önnur. Karlar eru fjölmennari á einkamarkaði og vinna meira í framleiðslugeiranum, sem er viðkvæmari fyrir hagsveiflum. Þess vegna hækkar atvinnuleysi fyrr meðal karla þegar kreppir að, en á móti bregst einkageirinn líka fyrr við endurreisninni svo atvinnuleysið minnkar hraðar. Atvinnuleysið á Íslandi hefur mestmegnis fylgt þessari forskrift og hefur það minnkað hlutfallslega mun meir meðal karla en kvenna á undanförnum misserum. Hins vegar er það afleiðing stefnu núverandi ríkisstjórnar að skerpt verður frekar á þeirri þróun.

Körlum forgangsraðað

Þó stutt sé liðið á kjörtímabilið, og því að ekki alfarið sanngjarnt að bera núverandi ríkisstjórn saman við þá fyrri, er nú þegar orðið ljóst að hvað varðar stefnu í atvinnumálum hefur orðið  alger viðsnúningur. Þó vissulega hafi fyrri ríkisstjórn einnig skorið niður hjá hinu opinbera þá lagði hún kapp á að verja velferðarkerfið – og þar með störf kvenna. Einnig sést á stefnu fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum til 2015[5] að hún leit svo á að niðurskurðartímabilinu væri hér um bil að ljúka. Sú sem nú er við völd hefur aftur á móti ákveðið að fara hina hefðbundnu niðurskurðarleið sem stofnanir eru nú þegar farnar að bregðast við. Bara á undanförnum vikum höfum við séð uppsagnir á Vinnumálastofnun og Rúv, þar sem konur eru í miklum meirihluta.  Og taka ber tillit til þess að enn á eftir að samþykkja fjárlögin en ef svo fer sem horfir þá mun nýja árið hefjast á hrinu uppsagna hjá opinberum stofnunum.

rikisstjornin

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2013. Í henni sitja þrjár konur og sex karlar.

En stjórnvöld hafa ekki aðeins á valdi sínu að skera niður störf, heldur einnig að skapa þau. Fyrri ríkisstjórn samþykkti fjárfestingaráætlun sem skapa átti um 4000 störf[6]. Þó því miður virðist hafa gleymst að skoða þessa áætlun með kynjagleraugum, enda meginþorri hinna meintu sköpuðu starfa í karlagreinum svo sem í byggingariðnaði, þá var áætlunin mjög metnaðarfull því 4000 störf voru sem nam störfum fyrir um 40% atvinnulausra á þeim tíma og vona mátti að innspýtingin sem af fjárfestingunum kæmi myndi hjálpa til við að lækka atvinnuleysið enn meir. Mörg þessarra verkefna hefur núverandi ríkisstjórn nú slegið af borðinu og fátt stendur eftir, enda samræmist það ekki hugmyndafræði núverandi stjórnarflokka að ríkið skapi mikla atvinnu. Atvinnusköpunin á að koma frá einkageiranum enda segir í stefnuyfirlýsingunni:  “Ríkisstjórnin mun leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.[7]
Sumir vilja trúa því að jafnrétti sé nú þegar náð, eins og sést á orðræðu núverandi forsætisráðherra sem svaraði gagnrýni á hlutfalli kvenna í ríkisstjórninni með orðum á þá leið að þar réði ekki kyn heldur hæfileikar[8].  Það er þó enn staðreynd, eins og reyndar skipting ráðherrastóla er glöggt dæmi um, að vinnumarkaðurinn er mjög skiptur eftir kyni, bæði hvað varðar atvinnugreinar og starfsstéttir, sem og þátttaka í þeirri ógreiddu vinnu sem unnin er á heimilum. Á meðan svo er verða alltaf kynjaðar afleiðingar af stefnu stjórnvalda, sem bæði geta verið jákvæðar og neikvæðar. Séð með kynjagleraugum er það stefna ríkisstjórnar þessa lands, sem metið hefur verið jafnréttasta land í heimi fjögur ár í röð, að minnka kvennavinnustaðinn ríkið og færa umönnunarþjónustuna meira inn á heimilin en skapa aðstæður til þess að karlarnir í litlum og meðalstóru fyrirtækjunum geti skapað störf fyrir fleiri karla. Hvaða afleiðingar ætli sú stefna hafi fyrir samfélagið í heild? Og er ásættanlegt að þessi leið sé farin þegar aðrir möguleikar eru fyrir hendi?

Ein athugasemd við “Stefna stjórnvalda séð með kynjagleraugunum

 1. „að minnka kvennavinnustaðinn ríkið og færa umönnunarþjónustuna meira inn á heimilin en skapa aðstæður til þess að karlarnir í litlum og meðalstóru fyrirtækjunum geti skapað störf fyrir fleiri karla. Hvaða afleiðingar ætli sú stefna hafi fyrir samfélagið í heild? Og er ásættanlegt að þessi leið sé farin þegar aðrir möguleikar eru fyrir hendi?“

  Sú stefna mundi hafa þau áhrif að útflutningur mundi aukast og innflutningur minnka.
  Því meir framleiðslu sem samfélagið stendur í, því betur stendur ríkið.

  Í framhaldi mundu tekjur ríkisins lagast og í framhaldi hægt að nýta þær skattekjur í að halda þessum svo kölluðu kvennastörfum uppi.

  Ef þú blæst ríkið of mikið út þá stendur það ekki undir sjálfu sér. Ríkisstarfsmenn er kostnaður fyrir ríkið, fyrirtækji út í bæ er hagnaður.

  Aftur á móti ber ég ekkert traust til þessarar ríkisstjórnar, þetta eru ekki hægri flokkar, heldur spilltir grísir að hugsa um rassgatið á sjálfum sér og sínum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.