Frosin(n) í staðalmyndunum?

frosinn

Þetta er hann Kristoff. Hann var hafður með svo þetta yrði ekki stelpumynd.

Föstudaginn 13. desember verður teiknimyndin Frozen, nýjasta afurð Disney-samsteypunnar, frumsýnd í Smárabíói og Háskólabíói. Söguþráðurinn byggir á Snædrottningunni, ævintýri H.C. Andersens, og hefur aðlögun Disney sætt gagnrýni undanfarið. Bloggarinn Stephanie á The Feminist Fangirl bendir t.d. á að Snædrottningin fjallar um sterka og úrræðagóða kvenhetju sem bjargar dreng úr háska og að sagan er stútfull af þróttmiklum kvenpersónum, en að í kvikmyndaútgáfunni hefur kvenpersónum verið fækkað verulega, strákurinn sem stúlkan þarf að bjarga verið strokaður út og reffilegur karlkarakter verið settur inn, svona til að hjálpa kvenhetjunni við eitt og annað sem hún væntanlega hefði ekki ráðið við sjálf.

Knúzinu barst ennfremur ábending þess efnis að íslenskur titill myndarinnar er einhverra hluta vegna hafður í karlkyni; Frosinn, sem vekur sterk tengsl við karlkyns persónur umfram kvenkyns. Ekki er ósennilegt að hér sé einfaldlega um meðvitað val að ræða, í þeim tilgangi að höfða til markhóps myndarinnar, en engu að síður væri gaman að heyra rökstuðning dreifingaraðila fyrir þessari óþarflega gildishlöðnu þýðingu, þar sem kynhlutlausa orðið Frozen er orðið að karlkyns lýsingarorðinu Frosinn.

Fyrirmyndagildi persóna í afþreyingarefni fyrir börn er sennilega óumdeilt. Femínistar hafa löngum haldið því fram að stúlkur hafi liðið fyrir skort á frambærilegum fyrirmyndum, í afþreyingarefni sem og í raunheimum, og að úr því þurfi að bæta. Einnig virðist nokkuð viðvarandi tilhneiging að flokka barnaefni með kvenkyns aðalpersónum undir efni sérstaklega ætlað stelpum, á meðan efni með karlkyns persónum þykir ætlað báðum kynjum. Karlpersónur standa þannig fyrir hið almenna og eiga að geta höfðað til allra, en kvenpersónur helst til kvenkyns neytenda. Í pistlinum sem vísað er í að ofan leiðir Stephanie m.a. líkur að því að Disney-titlarnir Tangled og Frozen hafi meðvitað ekki verið látnir vísa beint til persónanna Rapunzsel (ísl. Garðabrúða) eða Snædrottningarinnar, þar sem það hefði skapað hættu á því að einskorða markhópinn við stúlkur.

Framleiðslu- og dreifingaraðilar sem haga markaðssetningu sinni með þessum hætti, meðvitað eða ómeðvitað, eru með því að láta undan þrýstingi staðalmynda samfélagsins. Vel er hægt að sjá fyrir sér að raunveruleg ógn við velgengni tiltekinnar myndar felist í því að neytendur álykti að hún sé á einhvern hátt helst ætluð stelpum. Með þessum pistli er þó kallað eftir því að þessir aðilar séu meðvitaðir um áhrifavald sitt og nýti það helst til að sporna gegn þróun markaðslegrar aðgreiningar í efni handa stelpum annars vegar og efni ætlað báðum kynjum hins vegar, eða gæti í það minnsta hlutleysis þegar það liggur beinast við, í stað þess að bjóða neytendum upp á gildishlaðna titla á borð við Frosinn.

SnowQueen

Hér má sjá kvenhetjuna Gerdu án aðstoðarmanns, í myndskreytingu úr gamalli útgáfu ævintýrisins um Snædrottninguna.

8 athugasemdir við “Frosin(n) í staðalmyndunum?

 1. Það er vissulega gleðiefni að kona skuli leikstýra Disneymynd, en ég hnaut um þetta í greininni á Bustle sem þú vísar í, Óli Hjörtur: „Aside from Eudora and Tiana in The Princess and the Frog, I can’t think of a Disney princess with lasting positive female relationships.“ Höfundur greinarinnar virðist vera búin að gleyma Brave, sem sker sig alveg sérstaklega úr öðrum Disney-myndum að því leyti að myndin hverfist að langmestu leyti um samband móður og dóttur OG hefur enga rómantíska hliðarsögu. Enda engin tilviljun að þegar Merida, aðalpersóna þeirrar myndar, var tekin inn í „Prinsessugalleríið“ hjá Disney og fékk hressilegt „meikóver“ til að gera hana meira glitrandi, mjórri og skæslegri (og taka af henni bogann hennar) var því mótmælt harkalega af aðdáendum hennar, sem máttu ekki til þess hugsa að þessi óvenjulega teiknimyndapersóna yrði prinsessuð þar til hún yrði óþekkjanleg! Meðal þeirra sem lögðu sitt til málanna í þeirri umræðu var Brenda Chapman, meðhöfundur að Brave. http://www.theguardian.com/film/2013/may/13/brave-director-criticises-sexualised-merida-redesign?guni=Article:in%20body%20link. Það var fjallað um myndina Brave hér á knúzinu í ágúst í fyrra: http://knuz.is/2012/08/13/hin-hugrakka-stendur-undir-nafni-2/.

  Ég á eftir að sjá Frozen, en hvað sem kvenkyns leikstjórn líður geta þær breytingar sem er minnst á í greininni ekki annað en vakið eftirtekt hjá femínískt hugsandi bíógestum, sérstaklega ef maður þekkir ævintýri Andersens.

 2. Ég er mjög sammála að titill myndarinnar hefur verið ranglega þýddur á klakanum, en það er þó lágmark að sjá myndina áður en hún er dæmd efnislega séð. Einnig vil ég vekja athygli á að pistillinn sem höfundur bendir á er fimm mánaða gamall.

  Stutt google-leit hefði greint frá raunverulegri stöðu kvenpersóna myndarinnar:
  http://www.thedailybeast.com/articles/2013/11/29/disney-s-sublimely-subversive-frozen-isn-t-your-stereotypical-princess-movie.html

  „There’s been a bit of pre-release backlash on this one, not just the terrible Olaf-centered ad campaign, but also Elsa and Anna looking so ‘conventional’ as Disney female leads go. Which is fair until you’ve seen them moving around and speaking. The character animation is really spot on for expressing Anna’s overeager, utterly sincere heroism, as contrasted with Elsa’s alternately constrained and bridled mannerisms. They both look and act normal as Disney princess stock types when they’re standing perfectly still, trying to be just that, and then neither of them being able to do it is kind of the whole point.“
  -Gagnrýni eftir Bob ‘MovieBob’ Chipman (29. nóvember)

  Ástæðan fyrir því að ‘Rapunzel’ er ekki titill Tangled og að ‘Snædrottingin’ er ekki titill Frozen er tvíþætt:

  A) ekki nógu margir kannast við nafn persónanna því ævintýrið er ekki jafn þekkt og önnur H. C. Andersen ævintýri í bandaríkjunum.

  B) Markaðsetningin er ekki gíruð gagnvart neinu sérstöku kyni í heimalandi sínu. Titilinn er kynlaus þar og er andlit markaðssetningarinnar næstum-kynlausi snjókarlinn Olaf. Myndin er fokdýr (eins og Tangled), jafnvel miðað við nútímamyndir og hafa því Disney ekkert annað val en að beina myndinni til flest allra markaðshópa, ekki bara kynja. Síðast þegar þeir skelltu ‘Princess’ í titilinn sinn urðu músasamsetypan fyrir fjárhagslegum vonbrygðum og þegar þeir reyndu að selja aðalpersónu sína í titlinum (John Carter) reyndist það ein verst heppnaða kvikmynd þeirra fjárhagslega í sögu fyrirtækisins. Markaðssetning snýst því miður um að fá eins marga til að kaupa vöruna eins og mögulegt er, og byggist áframhaldandi markaðssetning fyrirtækis á hvað gengur og hvað gengur ekki. Það er raunveruleikinn.

  Þýðingin á íslenska titlinum er svo sannarlega klunnaleg, en að nota hann sem ástæðu til að sporna gegn miðasölu myndarinnar er fáránlegt og gerir lítið úr því góða sem myndin sjálf hefur að bjóða.

  Að lokum vil ég benda á að plakatið sem er notað í pistlinum er eitt af mörgum. Önnur útgáfa er til af því þar sem Elsa tekur upp mest allt plakatið (http://www.impawards.com/2013/frozen_ver9.html) og má sjá fleiri hér: http://www.impawards.com/2013/frozen_ver2.html

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.