Á seglskútu feðraveldisins

Höfundur: Kári Emil Helgason

Síðastliðið ár vann ég hjá stórfyrirtæki í New York. Lífið var eins og fantasía og ég var Melanie Griffith í Working Girl. Starfsfólkið talaði í styttingum eins og KPUs og PMO og CSR og SSO, og alls konar fjárhagsíðorðum eins og „conservative bullish estimate“ og heilsaði með frösum eins og „I just wanted to touch base“. Haldin voru sumarpartý í The Loeb Boathouse í Central Park og fyrirtækjaskútan var notuð til að fara í siglingakeppnir við starfsmenn JPMorgan Chase og Citigroup.

Ég vann með fólki sem hafði haft yfirumsjón með margmilljarðasamrunum og þurfti hratt að læra ákveðnar leikreglur um hvaða orð skyldi nota, hvenær skyldi brosa, hvenær skyldi þegja og hvenær ætti að gefa fólki „stank face“.

Working Girl frá 1988

Yfirmenn mínir voru allir konur. Ég vann í markaðsdeild sem féll undir yfirráð kvenkyns fjármálastjóra fyrirtækisins. Deildinni stjórnaði listrænn stjórnandi og yfirmarkaðsstjóri, báðar konur. Undir listrænum stjórnanda var yfirhönnuður – einnig kona. Þær voru afburðagreindar og kunnu leikinn miklu betur en ég.

En samt hafði ég ákveðið forskot. Þegar ég var tekinn með á fundi ávarpaði fólk oft mig – lægst setta manninn í herberginu – en ekki kvenkyns yfirmenn mína. Fólk horfði gjarnan í augun á mér á meðan það talaði. Fólk beindi spurningum sínum til mín. Karlsins í hópnum.

Svo ég tali nú ekki um hinar konurnar sem voru á sama stigi og ég. Fólk lagði á sig að muna nafnið mitt en ekki þeirra. Oft fannst mér eins og ég ætti auðveldara með að tjá mig, eins og það gerðist meira af sjálfu sér hjá mér en hjá þeim. Þegar þær töluðu yfirhöfuð fann ég oft hvöt til að skýra betur það sem þær voru að segja eða leiðrétta þær; þótt ég reyndi að hemja það eftir fremsta megni.

Ég hafði forskot allt frá fyrsta degi. Vissulega er ég greindur og hæfileikaríkur, en ég er líka karlmaður. Ég get mætt í vinnuna í einkennisbúningi valdaklíkunnar, jakkafötum, sem hafa verið með okkur frá nítjándu öld, en ekki seventís uppfinningunni „the power suit“. Ég hef tenórrödd frá náttúrunnar hendi, ekki alt eða uppgerðaralt (sem verður sópran þegar hún er búin að fá sér í glas). Genin mín gerðu mig hávaxinn og ég þarf ekki fótabúnað til að tróna yfir fólki. Ég er líka hvítur og tala ameríska ensku svo til hreimlaust. Ég leið ekki einu sinni fyrir það að vera innflytjandi.

Eins og ég samsama mig með Melanie Griffith var ég þó aldrei hún. Ég upplifði aldrei kynferðislega áreitni á vinnustaðnum. Ég var aldrei plataður á gervistefnumót með Kevin Spacey. Ég upplifði aldrei neitt nema virðingu frá kvenkyns samstarfsmönnum mínum, á meðan stríðið sem gekk á milli samstarfskvenna minna – það var Sigourney Weaver og Melanie Griffith „all over again“. Ég vann heldur aldrei fyrir Harrison Ford.

Fyrirtækið var alls ekki slæmt þegar kom að stöðu kvenna á heildina litið. Konur voru í mörgum áhrifastöðum innan fyrirtækisins: fjármáladeild, markaðsdeild, mannauðsdeild, tæknideild, líffyrirtækjadeild – allt voru þetta deildir undir stjórn kvenna. Fyrirtækið virtist skilja að þær báru ríkari skyldur gagnvart uppeldi barna sinna og þurftu því oftar að taka frí en karlarnir og fyrirtækið virtist ekki refsa fyrir það. En alltaf fann ég fyrir einhverju óljósu og illskýranlegu á bak við lög ofan á lög af skrifstofupólítík, eitthvað sem var að.

Ég gæti til dæmis kallað það feðraveldið eða jafnvel bara drauginn frá steinöld: Leikreglur sem eru eitthvað svo afkáralegar á tuttugustu og fyrstu öldinni sem fléttast inn í persónulegt drama, kynjapólítík, minnihlutapólítík, landspólítík; allt hulið á bak við pólítíska rétthugsun og niðurnjörfað í óskrifaðar reglur (sem Hollywood hefur þó þrátt fyrir allt skrifað niður fyrir heiminn að leika eftir).

Lífið hjá bandaríska stórfyrirtækinu var mikil og flókin upplifun og ég er enn að losa hana í sundur og skilja. Með hverju lagi eykst flækjustigið, en með hverju lagi erum við nær kjarnanum. Vonandi leysum við málið að lokum eins og vinnustelpan gerði og við fáum gaurinn, djobbið og skrifstofu með útsýni. Maður má alltaf vona.

3 athugasemdir við “Á seglskútu feðraveldisins

  1. Ég starfa líka í BNA í þokkalega stóru safni. Síðasta sumar stofnuðum við til samstarfs við stórt alþjóðlegt fyrirtæki um ýmis aðföng og tæknilega aðstoð. Við sem vorum viðstödd fyrstu fundina við stórfyrirtækið vorum ég, yfirmaður minn og svo kona sem sér um að sækja um ýmis styrki og sækja fjármuni til einkafyrirtækja sem auðvelda okkur reksturinn.

    Eftir fyrstu fundi færðust samskiptin yfir í tölvupósta að mestu og það sló mig mikið þegar einn slíkur sem hefði átt að vera stílaður á konuna var hins vegar stílaður á mig. Ég svaraði ekki póstinum og eftir nokkra klukkutíma svaraði hún honum. Svona lagað hefur ekki gerst aftur. Mér þótti þetta afskaplega neyðarlegt og hrikalegt að konur lendi í þessu. Það er skömm af þessu.

  2. Þegar þær töluðu yfirhöfuð fann ég oft hvöt til að skýra betur það sem þær voru að segja eða leiðrétta þær; þótt ég reyndi að hemja það eftir fremsta megni.

    Ertu enn svona mikil karlremba? Það eru menn eins og þú sem viðhalda feðraveldinu!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.