Konur og prófkjör

Höfundur: Líf Magneudóttir

Reglulega, og gjarnan í kringum prófkjör eða val flokksmanna á lista, verða umræður um stöðu kvenna í stjórnmálum. Því hefur verið haldið fram (og með réttu) að konur eigi erfiðara með að brjótast fram og að klíkur innan flokka, gjarnan nefnd „flokkseigendafélögin“, hampi frekar körlum en konum. Konur sem taka þátt í stjórnmálastarfi finna fyrir þessu á eigin skinni. Þær þurfa einnig að þola að fjölmiðlar vilji heldur tala um klæðaburð þeirra, eldhússnilli eða hvað þær séu nú með í töskunni sinni, en síður um pólitískar áherslur. Þá veljast þær frekar til að sjá um „mjúku málin“ en efnahagsmál eða sjávarútvegsmál og eru einnig sýnilegri í innra starfi flokksins heldur en í forystusveit hans.

formennflokka_1978

Formenn stjórnmálaflokka 1978.

Uppi eru ýmsar kenningar um hvað valdi þessu. Stundum hefur verið bent á að prófkjör séu konum Þrándur í götu. Það hefur hins vegar verið dregið í efa í nýrri rannsókn sem birtist á dögunum, a.m.k. að því leytinu til að fyrirkomulagið sjálft er ekki sökudólgurinn. Í þessum pistli ætla ég að reifa það helsta sem þar kemur fram um konur og prófkjör og velta örlítið fyrir mér hvaða orsakir liggi að baki dræmri þátttöku kvenna í stjórnmálum og því að þær veljist síður til forystu.

Í áðurnefndri rannsókn þeirra Indriða H. Indriðasonar og Gunnars Helga Kristinssonar, „Primary consequences. The effects of candidate selection through party primaries in Iceland“, eru prófkjör á Íslandi skoðuð út frá átta tilgátum. Ein þeirra varðar konur og þátttöku þeirra í stjórnmálum og prófkjörum. Gagnrýnisraddir hafa haldið því fram að prófkjör séu ekki nægilega góð leið til að velja framboðslista fyrir kosningar. Þau magni upp ósætti meðal samherja, stilli upp einsleitum talsmönnum og í þeim halli á konur og ungt fólk. Indriði og Gunnar benda hins vegar á að prófkjör hafi ekki endilega þessa neikvæðu þætti í för með sér. Á Íslandi, ólíkt Bandaríkjunum, virðast prófkjör vera ákjósanleg leið til dreifstýringar og aukins lýðræðis innan flokka. Þeir segja að það sé því ekki við prófkjörin sem slík að sakast þegar konur veljast t.d. ekki til forystu, eins og raun ber vitni, heldur megi rekja ástæðurnar til annars en einungis fyrirkomulagsins.

Á Íslandi, eins og annars staðar í heiminum, hafa stjórnmálin verið karllægur vettvangur. Í sögulegu samhengi hafa þau verið yfirráðasvæði „eldri karla“ eins og Indriði og Gunnar Helgi komast að orði („dominated by old men“, bls. 21). Ef framganga kvenna er skoðuð í því ljósi má ætla að karlar hafi forskot á konur og þeim vegni því betur í prófkjörum, að því gefnu að menning stjórnmálaflokksins hafi ekki breyst og nútímavæðst í anda 21. aldarinnar.* Að meðaltali eru karlar tekjuhærri en konur, þeir eiga sér lengri sögu innan stjórnmálanna og hafa stærra og traustara tengslanet, bæði innan flokks og utan. Í sumum prófkjörum þurfa frambjóðendur að reiða sig á aðgang að fjármagni eða nýta sér persónuleg tengsl til að ná markmiðum sínum. Að því leytinu til standa karlarnir betur að vígi en konurnar.

rikisstjornin

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, kosin 2013. Í henni eru sex karlar og þrjár konur.

Hins vegar virðist hlutur kvenna ekki batna, þegar litið er til forystusæta, þótt valið sé á framboðslistann af uppstillinganefnd eða með öðrum sambærilegum hætti. Karlar hafa oftar skipað efsta sæti listans með þeirri leið og konur raðað sér í neðri sætin. Hins vegar má ætla að þátttaka kvenna hafi þar sitt að segja því færri konur en karlar bjóða sig fram í prófkjörum og síðustu áratugi hafa þær einungis verið um 35% frambjóðenda. Því væri eðlilegt að draga þá ályktun að kynjahlutföllin yrðu jafnari ef jafn margar konur og karlar myndu bjóða sig fram, en svo virðist þó ekki vera (bls. 19).

Indriði og Gunnar benda á það í niðurstöðum rannsóknar sinnar að konur séu líklegri til að fá það sæti sem þær stefna að (nema forystusætið) í prófkjörum. Þannig eigi konur betri möguleika með þeirri aðferð, þ.e. prófkjörsleiðinni, en öðrum leiðum sem farnar eru við val á lista. Í uppstillingu verður hlutur þeirra hins vegar rýrari sem nemur 12 prósentustigum. Vert er þó að hafa í huga að við þessa útreikninga studdust þeir við kosningaúrslit sl. sex ára. Ef farið væri lengra aftur í tímann er viðbúið að niðurstöðurnar sýni fram á enn rýrari hlut kvenna á framboðslistum og í prófkjörum/uppstillingum, því þrátt fyrir allt hefur ýmislegt breyst síðustu árin. Kvennaframboðið sáluga opnaði augu margra fyrir þörfinni á þátttöku kvenna í stjórnmálum, einnig innan annarra flokka. Áður en Kvennaframboðið kom til sögunnar var hlutur kvenna á Alþingi 5%.

vigdis

Forsetaframbjóðendurnir 1980. Frá vinstri: Vigdís Finnbogadóttir, Guðlaugur Þorvaldsson, Pétur J. Thorsteinsson og Albert Guðmundsson.

Eftir stendur þó, að heimur stjórnmálanna er enn býsna karllægur á Íslandi, þótt við þokumst í rétta átt. Við hljótum öll að vilja jafna stöðu kynjanna þar sem annars staðar. Niðurstöður prófkjara, sem eru oft undanfari framboðslista fyrir kosningar, hljóta að vekja spurningar um stjórnmálamenningu og birtingarmyndir kynjanna í stjórnmálum. Það er ekki ásættanlegt að karlar raðist sjálfkrafa í „öruggu“ sætin en konur séu settar skör lægra, þrátt fyrir yfirlýstan áhuga þeirra á forystusæti og óumdeilda hæfileika til að leiða lista. Sú hugarfarsbreyting sem þarf til að breyta inngróinni sannfæringu um yfirburði karla sem stjórnmálaleiðtoga kemur ekki endilega af sjálfu sér en það hefur sýnt sig að sértækar aðgerðir til að jafna kynjahlutföll geta skilað góðum árangri. Við eigum ekki að sætta okkur umhugsunarlaust við að hlutur kvenna sé þrjátíu og eitthvað prósent á Alþingi eða í sveitarstjórnum á 21. öldinni. Við eigum ekki heldur að sætta okkur við að kvenkyns leiðtogi stjórnmálaflokks eða þjóðar sé undantekningin, „the token woman“, sem er þráfaldlega dregin fram og vitnað til þegar talið berst að ójöfnum kynjahlutföllum í stjórnmálum. Svarið „en hvað með Vigdísi/Jóhönnu/Hönnu Birnu/[nafn að eigin vali]“ er ekkert svar, því fæstir hafa á reiðum höndum nöfn allra æðstu embættismanna þjóðarinnar síðustu áratugi en flestir gætu talið upp konurnar sem gegndu þeim embættum – þær eru nefnilega of fáar.

Ef við ætlum að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum þá þurfa konur að vera sýnilegar jafnt í forystusveit sem innra starfi.  Það er konum hvatning að sjá aðrar konur vera í eldlínunni eða taka að sér ábyrgðarhlutverk á hinum karllæga vettvangi. Konur sem brjóta ísinn og afbyggja hugmyndir okkar um hvað konur eigi að gera og hvernig þær eigi að vera. Prófkjör og uppstilling eru bara tæki til að velja á lista. Það að konur veljist síður í oddvitasæti í prófkjörum (og enn síður með uppstillingu) sýnir okkur að stjórnmálaheimurinn er enn á forræði karla og hins karllæga. Við þurfum líka að jafna ábyrgð karla og kvenna innan veggja heimilisins. Rannsóknir sýna að enn er meirihluti heimilishaldsins á herðum kvenna þrátt fyrir að þær séu útivinnandi eins og karlarnir. Kannski myndi jafnari ábyrgð heima fyrir auka þátttöku þeirra í stjórnmálum?

Það er því ekki við prófkjörsaðferðina sjálfa að sakast hvernig velst á lista, heldur við rótgróinn hugsunarhátt þeirra sem kjósa og samfélagslegar venjur. Í þessu ljósi væri ekki úr vegi að hvetja alla flokka til að beita sértækum aðgerðum til að jafna hlut kvenna á framboðslistum og jafnvel með handaflsaðgerðum, til að setja konur í forystusætin. Þá myndum við kannski loks ná að jafna hlutfalll kynjanna á Alþingi og í sveitarstjórnum.

 

*(kynjakvótar, fléttulistar og/eða annars konar kynjajöfnun innan flokks eða reglur um fjármuni og framboð)

vinsælirstjornmalamenn_1987_Helgarposturinn

Vinsælir stjórnmálamenn árið 1987. Könnun Helgarpóstsins.

ovinsaelirstjornmalamenn

Óvinsælir stjórnmálamenn. Könnun Helgarpóstsins 1987.

4 athugasemdir við “Konur og prófkjör

  1. Eða skikka konur til þess að mæta í prófkjör og kjósa? Og skikka fleiri konur til þess að gefa kost á sér í prófkjörum? Gæti það ekki verið áhrifaríkasta leiðin til þess að jafna hlut hæfra karla og hæfra kvenna á listunum?

    Svona frekar en að ógilda lýðræðislegt val þeirra sem mættu á kjörstað?

  2. „ví hefur verið haldið fram (og með réttu) að konur eigi erfiðara með að brjótast fram“

    Þær eiga auðveldara að koma sér á framfæri vegna fléttulista en karlmenn eiga.
    Eins og þú tókst sjálf fram er 35% ásókn en það er ekki hlutfall kynjana á alþingi.

    „að er ekki ásættanlegt að karlar raðist sjálfkrafa í „öruggu“ sætin en konur séu settar skör lægra, þrátt fyrir yfirlýstan áhuga þeirra á forystusæti og óumdeilda hæfileika til að leiða lista.“

    Óumdeildur hæfileiki er gefin einkun í gegnum atkvæði.
    Það er það sem lýðræði gengur út á.

    „en það hefur sýnt sig að sértækar aðgerðir til að jafna kynjahlutföll geta skilað góðum árangri“

    Þarna ert þú að tala um svo kallaða „jákvæða mismunun“.
    Mismunun er aldrei góð, en auðvitað getur „mismunun“ skilað slíkum árángri.

    „því fæstir hafa á reiðum höndum nöfn allra æðstu embættismanna þjóðarinnar síðustu áratugi “

    Enda eru það ekki seinustu áratugir sem eiga að skipta máli.
    Það er engin skuld í gangi.
    Við stefnum að jafnrétti og jafnrétti nálgast andskoti hratt og er komið á flestum stöðum.
    Að vilja líta til einhverja áratuga til þess að skoða hvort jafnrétti sé náð setur „cúrvuna“ í andskoti bjánalega aðstöðu. Enda mundi „cúrvan“ alltaf sýna að konur séu í slæmum aðstæðum.
    Ef hlutirnir eru of nálægt jafnrétti þá færiru þig bara aftur extra 20 ár í „Cúrvunni“ til að sýna hvað allt er ósanngjarnt.

    „Prófkjör og uppstilling eru bara tæki til að velja á lista.“

    Lýðræðisleg leið sem ber að virða, þó ég persónulega vilji persónukjör.

    „Við þurfum líka að jafna ábyrgð karla og kvenna innan veggja heimilisins. Rannsóknir sýna að enn er meirihluti heimilishaldsins á herðum kvenna þrátt fyrir að þær séu útivinnandi eins og karlarnir. Kannski myndi jafnari ábyrgð heima fyrir auka þátttöku þeirra í stjórnmálum?“

    Þarna getum við verið sammála.

    „Það er því ekki við prófkjörsaðferðina sjálfa að sakast hvernig velst á lista, heldur við rótgróinn hugsunarhátt þeirra sem kjósa og samfélagslegar venjur.“

    Ekki bara þeirra sem kjósa.

    Ef þú býður fram 35% kvennmanna og 65% karlmanna þá er ekki óeðlilegt að karlmenn séu í meiri mæli með hæfileikaríkt fólk sem ber af einfaldlega vegna þess að yfir höfuð eru fleirri karlmenn sem eru að bjóða sig fram.

    Það sem þarf að gera er að ýta á eftir kvennfólki að taka þátt í stjórnmálum.

    Annars er þetta frekjuheimur og siðblindur oft og ég sem manneskja sem tel að það sé munur á kynjunum, hvort sem við útskýrum hann með uppeldi eða genum, þá held ég að þessi heimur henti kvennfólki ekki jafn vel.
    Þær eru með betri siðferði yfir höfuð og ekki jafn ágengar og frekar.

    Það væri svosem hægt að breyta því, en pólitík breytum við seint.

  3. Já og ef við snúum okkur að hausatalningum eins og sumir feministar hafa svo gaman af.
    Það eru 5 konur (af 23) á vinsældalistanum og 5 konur (af 18) á óvinsældalistanum frá 1987. Skv. því eru konur óvinsælli stjórnmálamenn en karlar.

    Þá hefur hver karlkynsþingmaður að meðaltali á bak við sig 22 vinsældaratkvæði eða meira ne 50% meira en meðaltal kvennanna sem hlutu 14 atkvæði.

    Ein ósanngjörn ályktun væri að telja konur óhæfari stjórnmálamenn. En svona ályktun byggð á jafn einfaldri framsetning á tölum sem tekur ekki tillit til svo margra annarra undirliggjandi þátta væri í besta falli blekkjandi.

  4. Getur verið að áherslan sé röng. Þegar verið er að ræða konur, karla og pólitík er lögð mikil áhersla á að við kjósum konur í háa og flotta stöðu með góð laun. Þegar við kjósum til Alþingis og sveitastjórna kjósum við ekki einstaklinga til að þeir geti fengið að vera eitthvað merkilegt. Við kjósum fólk til að gera eitthvað merkilegt. Til að gera en ekki til að vera

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.