Forréttindafrekjur og annað baráttufólk

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

Þótt fjölmiðlar hafi enn ekki áttað sig þekkja flestir vávarann **VV** sem er notaður til að vara fólk við því að það sem á eftir kemur gæti vakið upp slæmar minningar og valdið því að það endurupplifir slæma reynslu. Mig langar að hafa einhvers konar vávara hér. Hann er þó ekki sambærilegur við **VV** heldur langar mig að vara fólk við því að taka þessum skrifum persónulega. Ég hef engan áhuga á því að fara í manninn. Ég er að leita að boltanum, ég er að leita að ferli boltans fram og til baka á vellinum.

Þeir sem hér verða notaðir sem dæmi eru alls ekki í mínum huga „vonda fólkið“. Þið sem kannist við að vísað sé til ykkar ummæla eða gerða, ég bið ykkur bara um að taka því með opnum huga.

Þegar ég leyfði mér að vera blind

freyja frekja

Frétt um viðbrögð Freyju eftir ummæli Vigdísar Finnbogadóttur í DV frá 7. desember.

Fyrst játning: Þegar Freyja Haraldsdóttir byrjaði að skrifa um aðstæður fatlaðra og brotalamir í kerfinu sem þeir eru háðir var ég fyrst mjög spennt, las af áfergju þessar framandi frásagnir og deildi samviskulega á Facebook. En á þriðja eða fjórða pistli gerðist eitthvað. Ég varð leið á Freyju. Leið á þessum málaflokki. Það flögraði að mér að hún væri pínulítið þreytandi og jafnvel einum of tilætlunarsöm.

Ég ætla að vera algerlega hreinskilin, jafnvel myndin af henni fór að virka á mig sem einhvers konar „ofbeldi“, áreiti gagnvart mér og mínu fullkomna lífi í mínum fullkomna líkama. Og þar hafið þið það.

Ég skammaðist mín fyrir þessi viðbrögð og ég fór leynt með þau. Kannski sleppti ég orði um þetta einhvers staðar, í símtali, á einhverjum þræði á Facebook, ég man það ekki. En þegar ég spái í þetta svona eftir á að hyggja næ ég ekki upp í að ég hafi getað verið svona óforskömmuð og svona óforbetranlega hrokafull í forréttindastöðu minni. Ég er aftur farin að hlusta á Freyju og ég ber takmarkalausa virðingu fyrir henni og baráttu hennar. Og ég reyni að verja hana í hvert skipti sem ég heyri (eða sé á skjánum) einhvern ýja að því, eða fullyrða blákalt, að hún sé þreytandi, frek og tilætlunarsöm.

Ég veit að það eru ekki allir sammála mér en mér er sama …

Sjálf hef ég í smá tíma staðið í baráttu fyrir ýmsu sem mér finnst mega betur fara í samfélaginu. Skrifað nokkur greinarkorn en aðallega yfirlesið og metið tugi annarra greina um efnið, ásamt félögum mínum í ritstjórn þessa vefrits, knúz.is. Þetta er stundum bölvað vesen og hefur tekið frá mér töluverðan tíma en mér finnst þetta gaman og ég er enn sannfærð um að ég sé að berjast fyrir breytingum sem myndu hafa jákvæð áhrif á samfélagið allt, hvort sem um er að ræða fullorðna eða börn, kvenkyns, karlkyns, hinsegin eða allskyns. Baráttumálin eru margvísleg, femínisminn lætur sig varða málefni ýmissa annarra en bara „venjulegra“ kvenna og innan femínismans eiga sér endalaust stað skoðanaskipti og umræður um blæbrigði og áherslur í hinum ýmsu málaflokkum.

Auðvitað eru ekki allir sammála því að nokkur þörf sé á að halda femínisma svona á lofti. Auðvitað finnst ýmsum þessi sífellda klifun þreytandi. Ég hef fundið fyrir því að fólk sem þekkir mig ekki vel, virðist telja að ég geti ekki hugsað um neitt annað.

Og svo eru líka þeir sem líta svo á að það að benda á ójafnrétti og mismunun sé væl um tilbúin fórnarlömb, að þar sem jafnrétti sé náð, séu allar kröfur um bætt hlutskipti kvenna ekkert annað en illar áætlanir um að ná fram forréttindum.

En þetta dugir ekki til að draga endanlega úr mér allan móð.

… en stundum er mér minna sama

Svo eru til þeir sem finnst baráttan virðingarverð, sem sjá jafnvel hetjur í þeim sem standa hvað mest í kastljósinu, þeim sem fjölmiðlar hafa stillt upp sem nokkurs konar líkömnun femínismans (ég er sem betur fer algerlega laus við að vera ein af þeim), en sem getur nú stundum gersamlega ofboðið róttæknin í þessum hetjum. Í haust gerðist einmitt það að slatti af frekar áberandi fólki í þjóðlífinu raðaði sér í þennan flokk. Rithöfundar, menntamenn, þekktir pistlahöfundar sem eiga það stóran menningarkapítal að þeir fá jafnan mikla dreifingu og hlustun, fundu sig knúna til að lýsa því yfir að nú hefði verið farið yfir mörkin. Já, femínisminn, í holdgervi tveggja skjaldmeyja, fór yfir einhver velsæmismörk sem hugsandi fólk veit að verða að vera til.

Helga Þórey Jónsdóttir og Hildur Lilliendahl fengu þannig ýmis fúkyrði yfir sig fyrir að hafa birt áskorun á Háskóla Íslands um að svara fyrir ráðningu Jóns Baldvins Hannibalssonar. Helga Þórey og Hildur voru í raun bara að skrifa niður það sem margir höfðu hugsað og rætt sín á milli í laumi. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að háskólasamfélagið var skekið af þessari ráðningu. Mér er til efs að ítrekuð sjálfsvarnarskrif Jóns Baldvins hafi breytt þeirri tilfinningu. En enginn lagði í að segja neitt upphátt. Menntafólk og listamenn gat ekki staðið heils hugar með Helgu Þóreyju og Hildi, sem riðu á vaðið, heldur fundu sig knúna til að finna að því hvernig þær báru sig að við það. Ó, hvað það er ósæmilegt að rifja upp hvað maðurinn er ósæmilegur. Algert taktleysi! Ég nenni ekki að reyna að ræða tvískinnunginn eða hvað sem það ætti að kallast þegar þessi hópur fyllist vandlætingu á þennan hátt, þessi sami hópur og svo oft er svo duglegur við að skjóta niður hina ógurlegu pólitísku rétthugsun.

Sterkasta dæmið er líklega stöðufærsla sem birt var á Facebook af Rúnari Helga Vignissyni rithöfundi og kennara í ritlist við HÍ, þar sem viðhöfð voru ansi sterk orð um þær stöllur; látið að því liggja að þær væru haldnar gægjufýsn, hefndarþorsta og kvalalosta. Hildur svaraði svo með annarri stöðufærslu, þar sem hún taldi upp þá sem höfðu smellt á „líkar við“ hnappinn hjá Rúnari Helga. Fyrir það var Hildur sökuð um að gera „lista“. Hildur er nefnilega alræmd fyrir „lista“ smíðar sínar, en hún hefur lengi haldið úti tumblr-síðunni Karlar sem hata konur.

Ég varð alveg hrikalega reið þegar þetta mál blossaði upp, frústreruð og bálill. Ég varð svo reið að ég ákvað að skrifa þennan pistil. En hann varð svo ljótur og svo leiðinlegur að ég lagði hann í salt. Um tíma hélt ég kannski að mér væri runnin reiðin, en um daginn varð eitthvað til þess að reiðin blossaði upp í mér aftur og ég ákvað að nú yrði ég að láta verða af því að ljúka honum.

forréttindablindaÉg er reið út í þennan forréttindahóp sem hefur menningarkapítalinn allan með sér og sem getur ekki haldið í sér að þusa yfir því að þolendur kynferðisofbeldis fái of mikið rými í almenningsumræðunni. Málið með að vilja ekki að Jón Baldvin kenni skyldunámskeið í HÍ snýst nefnilega um það að virða líf og heilsu þolenda kynferðisofbeldis og að sú virðing hafi forgang fram yfir þarfir hinna. Hann hefur verið afhjúpaður og enginn vafi leikur á því að hann er sekur um að hafa skrifað ósæmileg bréf til unglings. Hann getur því vakið mikinn ótta og kvíða hjá þeim sem hafa upplifað kynferðislega áreitni og það fólk á rétt á því að þurfa ekki að umgangast hann.

Ein af þeim sem lét sér vel líka við stöðufærslu Rúnars Helga skrifaði um svipað leyti pistil í Kjarnann um „Íslandsmiðaða fjölmiðlamenningu“. Þar kvartar hún m.a. yfir því að hún nenni ekki lengur að lesa reynslusögur fórnarlamba kynferðisofbeldis. Hún má eiga það að pistillinn hefur sitthvað til síns máls og það má alveg biðja um meiri menningarumfjöllun og fréttaskýringar. En þótt hún setji fyrirvara um að þetta sé sorglegt, skrifar hún samt að fólk nenni nú eiginlega ekki lengur að lesa um þolendur kynferðisofbeldis og það er eitthvað óþolandi við það. Ég er pirruð út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki áttað mig á því strax og ég las þetta. Að hafa hugsað, „já, ég vil einmitt meiri menningarumfjöllun, hvað varð um Lesbókina, hún gæti haft eitthvað til síns máls“. Ég las og pældi. Af því það var hún sem skrifaði þetta. Hún sem er svo sterk. Ég er pirruð út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki móðgast innilega fyrir hönd þolendanna.

Mig langar að vitna í Sr. Sigríði Guðmarsdóttur, sem talaði á hátíðinni Glæstar vonir. Feitletrunin er mín og táknar að þann hluta ætti hver og einn að lesa alveg sérstaklega fast og vel:

Við erum einfaldlega öll manneskjur og óendanlega dýrmæt sem slík. Við höfum stjórnarskrárvarin réttindi til trúar og trúleysis á okkar eigin hátt, við eigum rétt á að njóta mannréttinda ferða-, félaga og tjáningafrelsis, að eiga kynverundarréttindi, að lifa án ótta við hatur og fordóma sem beint er gegn minnihlutahópum. Slík réttindi eru grundvallarréttindi, en þeim er víða gleymt í veröldinni og reisn allra manneskja er svo oft fótum troðin. Og þess vegna eru tiltekin mannréttindi ekki einhver einkamál þeirra sem mannréttindi eru brotin á og búa við undirskipun og kúgun. Þau eru líka málefni þeirra sem búa við forréttindi. Og kannski eru stærstu forréttindi lífsins þau að hafa enga hugmynd eða meðvitund um það að maður búi við forréttindi. Slíkt andóf gegn forréttindablindu og með mannréttindum þarf að eiga sér stað á öllum sviðum mannlífsins.

Persónulega nenni ég varla lengur að tala um stjórnarskrá og réttindi. Mig langar hins vegar að minna á það sem virðist oft gleymast: Réttindum fylgja ábyrgð og skyldur. Þetta á einnig og kannski einmitt sérstaklega við um forréttindi. Það er á okkar ábyrgð, okkar sem njótum réttinda og sérstaklega okkar sem njótum forréttinda, að fara vel með þau. Við gerum það meðal annars með því að bera virðingu fyrir þeim réttindum og horfast í augu við að þau eru ekki sjálfsögð. Einhver barðist einhvern tímann fyrir þeim eða þá að valdakerfið fól okkur þau, líkt og fyrir galdra. Valdagaldra.

Hér hef ég rifjað upp skrif nokkurra einstaklinga og átalið. Ég vil samt taka það fram, líkt og í upphafi pistilsins, að ég lít ekki á þetta fólk sem skrifar sem „vont fólk“. Forréttindablinda er ekki eitthvað svarthvítt annaðhvort eða fyrirbæri. Síður en svo. Hin hugrakkasta hugsjónamanneskja fellur í gryfjuna. Við erum bara ekki komin nógu langt áfram í þróuninni, misréttið er bara svo víða og svo inngróið í samfélagið allt að það er snúið að koma alltaf auga á það. Hér nægir að nefna okkur hvítu millistéttarfemínistana sem eiga það til að gleyma sér og yfirfæra veruleika okkar á þeldökka, fatlaða eða fólk í öðrum menningarheimum.

Það eina sem ég bið um, er að fólk taki sig á og hugsi sig tvisvar um í hvert skipti sem það byrjar að átelja aðra sem tjá sig um efni sem þeim er hugleikið, án þess að íhuga í hvaða stöðu það sjálft, gagnvart tilteknu efni.

Stundum getur nefnilega reglan hennar mömmu bara verið vel nothæf, þótt hún sé oft gersamlega ómöguleg: Ef þú hefur ekkert gott um þetta að segja, segðu þá ekki neitt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.