Opið bréf til ráðherra jafnréttismála

Höfundur: Þóra Kristín Þórsdóttir

Kæra Eygló,

Nú er í vinnslu í fjármálaráðuneytinu frumvarp um opinber fjármál[1] þar sem lögfesta á að þegar frumvarp til fjárlaga er lagt fram, þurfi að liggja fyrir greining á áhrifum þess á jafna stöðu karla og kvenna. Eins gleðilegt og þetta frumvarp er, liggur fyrir að ekki hefur verið hefð fyrir sams konar greiningum hingað til og svo sannarlega liggur slík ekki fyrir nú, með frumvarpi til fjárlaga 2014. Hins vegar er lögbundinn varnagli búinn að vera til staðar frá 2008 gegn mjög misskiptum áhrifum fjárlaga á kynin og hann er sá að ráðherra velferðarmála er jafnframt ráðherra jafnréttismála. Það er því þitt lögbundna hlutverk ekki aðeins að gæta hag þeirra sem minna mega sín almennt í samfélaginu, og að ekki halli á annað kynið í einstaka málaflokkum, heldur einnig að fjárlögin verði jafnrétti kynjanna til framdráttar. Í því ljósi langar mig að benda þér á nokkra þætti fjárlagafrumvarpsins þar sem hallar á konur og biðja þig að vinna í því að fá þá leiðrétta. Þó ber að taka tillit til þess að listinn hér á eftir er ekki tæmandi.

 1. Lenging fæðingarorlofs: Það vinnur gegn jafnrétti kynjanna að hætt hafi verið við lengingu fæðingarorlofsins, enda búum við við kerfi þar sem hið opinbera veitir ekki börnum daggæslu fyrr en að leikskólanum kemur, yfirleitt um tveggja ára aldur. Þá eiga foreldrar aukna möguleika á að skipta orlofinu jafnt sé það tólf mánuðir frekar en níu, sem er bæði foreldrum og börnum til góðs auk þess að draga úr þeirri refsingu sem konur verða fyrir á vinnumarkaði á þeim grunni að vera kynið sem tekur (lengra) fæðingarorlof.
 2. Legugjald eða komugjald á sjúkrahúsum: Mörg rök eru gegn legu- og komugjöldum á sjúkrahúsum, t.a.m. þau að þar er verið að sækja fé til þeirra sem minnst mega sín, en eðli málsins samkvæmt eru þeir sem mest nota heilbrigðisþjónustuna jafnframt oft tekjuminnsta fólkið (eldri borgarar, öryrkjar). En þetta gjald er líka ósanngjarnt út frá kynjaforsendum því konur nota heilbrigðisþjónustu meira vegna lengri ævi og í tengslum við móðurhlutverkið. Ekki viljum við til að mynda eiga á hættu að sjúkrahúsfæðingum fækki vegna þess að konur hafi ekki efni á að leggjast inn.
 3. Hækkuð komugjöld í heilsugæslu: Á sömu rökum og í lið 2 ættir þú sem ráðherra jafnréttismála að leggjast gegn hækkun komugjalda heilsugæslustöðva. Þá ber að athuga að komugjaldið (í Reykjavík í það minnsta) er nú 1000 krónur, sem er hátt fyrir þá sem minnstar hafa tekjurnar.
 4. Niðurskurður á stofnunum almennt: Hafa ber í huga að niðurskurður á opinberum stofnunum bæði eykur atvinnuleysi (og þá sérstaklega kvenna, enda eru konur sjö af hverjum tíu starfsmönnum hins opinbera) sem og ógreidda vinnu kvenna, enda þarf áfram að sinna umönnun barna, sjúklinga og eldri borgara þó deildir loki á umönnunarstofnunum. Niðurskurður hjá hinu opinbera bitnar því óhjákvæmilega verr á konum en körlum. Á þeim forsendum ættir þú að berjast (meira) gegn slíkum hugmyndum, þó ekki skorti önnur rök.
 5. Lækkun hámarks barna- og vaxtabóta – ef enn á dagskrá: Hámarksbætur fær það barnafólk sem lægstar hefur tekjurnar, en þær eru þó lágar í samanburði við sambærilegar bætur á hinum Norðurlöndunum. Það er því stórt skref frá norræna velferðarkerfinu að lækka þær, auk þess að vera rangt út frá sanngirnisforsendum því þarna eru peningar sóttir til þeirra sem minnst mega sín. Þá má bæta við að út frá efnahagslegum forsendum ættu barnabætur að vera háar til að auka jöfnuð milli barna, en jafnari aðstæður í uppvextinum skilar jafnari tækifærum síðar meir, sem er gott fyrir efnahagslífið. Út frá kynjaforsendum má alls ekki skerða hámarksbæturnar, og raunar ætti að hækka þær, enda er vegið að barnafólki úr öllum áttum, til að mynda hafa sveitarfélögin hækkað gjaldskrár fyrir alla þjónustu fyrir börn margsinnis frá hruni (ofan á verðbólgu og frosin laun, o.fl.). Hef ég sérstaklega áhyggjur af stöðu einstæðra foreldra, sem að meginhluta til eru konur, en fólk í þessari stöðu á hvað erfiðast með að bæta tekjur sínar t.d. með aukinni vinnu, og eru því barnabætur sérstaklega mikilvægur tekjuliður. Þá ætti það að vera sérstakt metnaðarmál allra velferðarkerfa að jafna stöðu barna einstæðra foreldra miðað við stöðu barna paraðra foreldra.
 6. Vinnumarkaðsúrræði: Ákveðin bjartsýni ríkir í fjárlagafrumvarpinu hvað varðar hið minnkandi atvinnuleysi og þar með þörfina á vinnumarkaðsúrræðum, eins og sést á því t.d. að úrræði sem hætta á árinu 2014 eru ekki endurvakin og ekki ný kynnt til sögunnar. Vissulega hefur atvinnuleysi minnkað, en hafa verður þó í huga a) að skráð atvinnuleysi er að nokkru fölsk mæling í dag þar eð fólk sem hefur verið fjögur ár á bótum hefur misst bótaréttinn sinn, b) að atvinnuleysi samkvæmt Hagstofunni er enn 5.4% hjá körlum og 4.6% hjá konum (nóvember 2013) og við það bætist falið atvinnuleysi, þ.e. fólk sem farið hefur af bótum tímabundið vegna náms o.s.frv., c) að atvinnuleysi var enn 9% meðal ungs fólks í síðasta mánuði og þennan hóp verður að virkja og d) að töluverð aukning verður á atvinnuleysi á næsta ári með niðurskurðinum, sérstaklega meðal kvenna. Það er því enn þörf á vinnumarkaðsúrræðunum, og mikilvægt að huga þar að möguleikum sem höfða til beggja kynja.
 7. Jafnréttistofa: Ég vil hvetja þig til að berjast (meir) fyrir auknum framlögum til Jafnréttisstofu, enda gera núverandi framlög henni ekki kleift að sinna sínu lögbundna hlutverki.
 8. Eitt þarft verk í viðbót er að endurskipa Velferðarvaktina, sem enn er óvissa um hvort starfandi verður áfram. Samkvæmt fundargerð Stýrihópsins frá 25. júní sl. lýstir þú yfir vilja þess efnis að vaktin héldi áfram og vil ég því hvetja þig til þess að skrifa þeim skipunarbréfið.

 

Bestu kveðjur

Þóra

8 athugasemdir við “Opið bréf til ráðherra jafnréttismála

 1. „b) að atvinnuleysi samkvæmt Hagstofunni er enn 5.4% hjá körlum og 4.6% hjá konum “

  Jafna stöðu kynjana með því að segja upp kvennfólki þangað til þessi prósenta er orðin jöfn….
  Said no man ever….

  Aðeins feministar sem hugsa svona…

 2. Eða bíddu, ég misskildi. Það á sérstaklega að verja kvennfólk fyrir uppsögnum þrátt fyrir að þessi prósenta er kvennfólki í hag um hátt í 20%….

  Jahá…

 3. Sæll. Eins og fram kom í fyrri pistli þá er atvinnustefna stjórnvalda sú að láta einkamarkaðinn sjá um atvinnusköpun, og það mun gagnast körlum. Hins vegar er lítið sem ekkert að finnaí fjárlagafrumvarpinu (upprunalega) um atvinnusköpun eða vinnumarkaðsaðgerðir. Að því gefnu að áætlunin gangi upp, þ.e. atvinna verði sköpuð á einkamarkaði, þá mun atvinnuleysi minnka meðal karla en jafnvel þó það standi í stað þá er fyrirsjáanlegt að atvinnuleysi verður hærra meðal kvenna en karla á næsta ári, m.v. niðurskurðinn.

  • Vissulega starfa fleiri karlar á almenna vinnumarkaðinum en konur. En er það vegna þess að svo margar konur hafa ráðið sig hjá ríkinu frekar og því færri til að dreifa á almenna vinnumarkaðinum eða vegna þess að karlar eru eftirsóknaverðari starfskraftur?

   Þá eru t.d. meðallaun karla hjá ríki og sveitarfélögum hærri en meðallaun karla á almenna vinnumarkaðinum en meðallaun kvenna hjá ríki og sveitarfélögum miklu lægri en kenna á almenna vinnumarkaðinum. Væri því ekki þjóðráð að færa konur úr opinbera geiranum yfir í einkageirann? Og hvað segir að þó að störfum fjölgi í einkageiranum að þá muni þau gera það í sömu hlutföllum og atvinnuþátttaka á þeim markaði er í augnablikinu?

 4. Og á meðan flestir karlmenn mundu tala um að atvinnuleysi sé slæmt, þá tala feministar um að hugsanlegur möguleiki á að atvinnuleysi kvennfólks fari yfir atvinnuleysi karlmanna þrátt fyrir að það hafi verið langt undir þeirra prósentu…. sé slæmt..

 5. Reyndar hefur atvinnuleysi verið hærra meðal kvenna en karla frá miðju ári 2011, yfirleitt. En það er fyrir öllu að ekki halli á annað kynið.

 6. Það er ekki það sem þú ert að ræða Þóra. Þú ert að tala um að það sé fyrir öllu að ekki halli á „kvennkynið“.

  Því að þessu leitinu til er kvennfólk í yfirburðastöðu en það er pressað á yfirvöld að standa samt sérstaklega vörð um kvennfólk þrátt fyrir þessa yfirburðastöðu seinustu ára.

  Það er nákvæmlega ekki verið að passa upp á að það halli ekki á annað kynið…..
  Það á að viðhalda þeirri stöðu og barist sérstaklega fyrir því.

  Ef atvinnuleysi mundi aukast um 2% núna hjá kvennfólki þá yrði allt brjálað, en það mundi setja stöðuna í það far sem karlmenn eru í núna.

  Svona „hipókrasí“ sem maður þolir ekki við feminisman…

 7. 1 Ég held að í mjög fáum tilfellum eigi menn erfitt með að skipta oddatölum í tvennt. Vaktaplön eru t.d. allt eins líkleg til að hlaupa 2 og 3 mánauði eins og 4. Og það er ekkert voðalega flókið að telja í hálfum mánuðum.

  2 Ef að konur nota heilbrigðiskerfið meira, sérstaklega vegna lengri aldurs, er þá ekki sanngjarnara að þeir borgi meira til þess? Eiga karlar að lifa styttra og borga jafnframt fyrir heimsóknir kvenna þegar þeir eru dauðir?

  3 Ef að konur heimsækja heilsugæslu oftar, er þá jafnrétti fólgið í því að karlar niðurgreiði þær? Ef það eiga að vera sömu laun fyrir sömu vinnu á grundvelli kyns, á þá ekki að vera sama gjald fyrir sömu heimsóknartíðni (vegna lengri ævi)?

  4 Er betra að hækka skatta sem þýðir að hinn almenni markaður þarf að blæða og þar starfa flestir karlar? Atvinnuleysi er meira meðal karla en kvenna nú um stundir rétt eins og kemur fram í punkti 6 í greininni og því væri niðurskurður hjá ríki væntanlega skref til einhvers konar meiri „jafnstöðu“ a.m.k. frekar en skattahækkanir.

  5 Hvað hefur staða barnafólks og einstæðra foreldra með kynjajafnrétti að gera? Það kemur a.m.k. ekki fram í röksemdafærslunni.

  6 Hvað kemur punktur 6 jafnrétti við?

  7 Eftir að Jafnréttisstofa dæmdi Jóhönnu Sigurðardóttur og Valgerði Bjarnadóttur fyrir brot á jafnréttislögum með því að dæma þær fyrir að hafa hyglað körlum á kostnað jafnhæfra kvenna, þar sem hæfni umsækjandanna var eingöngu metin út frá menntun (þar hinn atvinnulausi Georg Bjarnfreðarson hlýtur næstum því alltaf að vinna með sínar FIMM háskólagráður, hefur tiltrú fólks á þetta apparat minnkað. Þá er mansal ekki vandamál á Íslandi ef marka má skýrslu ríkislögreglustjóra frá því í sumar.

  8 Hvað hefur velferðarræktin með jafnréttismál að gera?

  Ég bara spyr!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.